Tímamótadómur í eineltismáli.

Fær miskabætur vegna eineltis á vinnustað

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Ásdísi Auðunsdóttur, sem starfaði á Veðurstofunni, hálfa milljón króna í miskabætur vegna eineltis, sem hún sætti á vinnustaðnum.

Er þetta ekki tímamótadómur sem ber að fagna?

Ég minnist þess ekki að áður hafi fallið dómur í eineltismáli þar sem íslenska ríkið er gert að greiða skaðabætur.

Ásdís leitaði til stéttarfélags síns vegna þess að hún taldi sig hafa sætt einelti af hálfu yfirmanns síns. Að mati Veðurstofunnar stöfuðu þessir árekstrar af því að konan vildi skilgreina starf sitt með öðrum hætti en yfirmenn hennar.

Annað markvert í þessu er að það er mat dómsins, að síðbúin viðbrögð veðurstofustjóra hafi falið í sér vanrækslu af hans hálfu og verið til þess fallin að valda Ásdísi vanlíðan. Var ríkið talið skaðabótaskylt vegna þess. 

Einelti á vinnustað er vísbending um stjórnunarvanda að mínu mati og margra annarra sem hafa skoðað þessi mál. Ef svona ástand sprettur upp og fær að þrífast um einhvern tíma er oft eitthvað verulega bogið við stjórnunarhætti yfirmanns vinnustaðarins. Ef yfirmaður/menn eru ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að skynja ástandið eða neita meðvitað eða ómeðvitað að viðurkenna vandann þá er ekki von til þess að mál sem þetta leysist fljótt og farsællega.

Dæmi eru um að yfirmenn falli í þá gryfju að kalla þann sem fyrir þessu verður á teppið og fullyrða að þar sem svo margir eru óánægðir með hann/hana, hlýtur vandinn að liggja hjá viðkomandi.
Því sé e.t.v. best að í stað þess að fara að takast á við reiða einstaklinginn/hópinn,  þá sé ráð að þolandinn hætti störfum. Gildir þá einu hversu góður fagmaður viðkomandi er, eða nokkuð annað, ef því er að skipta.

Mörg mál af þessu tagi lykta einmitt með þessum hætti. Afar fá fara fyrir dómstóla enda sú leið bæði kostnaðarsöm og tyrfin. Hugsanlega mun nú verða breyting á þegar komið er fordæmi eins og með þessum nýfallna dómi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dúa

Jú þetta er dómur sem ber að fagna og verður vonandi til þess að yfirmenn á vinnustöðum taki virkilega á eineltismálum sem upp koma.

Dúa, 23.6.2009 kl. 20:39

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fagna þessum málalokum innilega og óska Ásdísi til hamingju.

Helga Kristjánsdóttir, 23.6.2009 kl. 22:09

3 Smámynd: Dexter Morgan

Það "kostar" sem sagt 500 þús. kall að verða uppvís af því að leggja starfsmann í einelti. Of lítið fyrir mig, vildi frekar sleppa við það fyrir þennan smáaur.

En ég skil ekki eitt; gerandinn er ennþá við vinnu, en fórnarlambið er að hætta að vinna. Afhverju er gerandanum ekki gert að snáfa þaðan út, svo aðrir fái vinnufrið.

Dexter Morgan, 24.6.2009 kl. 00:20

4 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Þetta er sannarlega lág upphæð. Konan fór fram á 9 milljónir. Að það skyldi falla dómur í þágu þolandans eru tíðindi. Best væri ef fólk þyrfti aldrei að sækja svona mál fyrir dómsstólum heldur væri unnið úr þeim strax.

Bendi á Sérsveitarhugmyndina til lausnar í eineltismálum sem gagnast getur hvort heldur það er barn sem er þolandi eineltis eða fullorðinn einstaklingur. Hugmyndin hefur verið kynnt menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Sérsveitarhugmyndin er reifuð á heimasíðu minni www.kolbrun.ws

Kolbrún Baldursdóttir, 24.6.2009 kl. 08:19

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband