Þú ert kannski með krabbamein en það verður haft samband við þig eftir helgi

Líklegast er þetta ekki alveg sagt með þessum orðum en þessi setning  lýsir samt líðan þeirra sem hafa verið í krabbameinsskoðun og þeim tjáð að grunur sé um að ekki sé allt með felldu en að nánari upplýsingar fáist eftir helgi.

Þetta EFTIR HELGI, er martröð og ekki erfitt að ímynda sér hvernig sú helgi á eftir að verða fyrir viðkomandi. Þetta er helgi sem sannarlega verður lengi í minnum höfð.

Þetta er HELGIN sem fjölskyldan sat heima og hugsaði hvort maðurinn með ljáinn væri væntanlegur á heimilið. Helgin sem var gegnsýrð af áhyggjum, örvæntingu, kvíða og skelfilegum ótta um að handan helgarinnar biði dauðadómurinn.

Í gær var grein í Mogganum þar sem greinarhöfundur setti þessa skelfilegu reynslu í orð og lýsti nákvæmlega þessu boðskiptaferli sem virðist enn vera við lýði.

Þarf þetta að vera svona?
Það góða við þetta annars skelfilega boðskiptaferli er að því er hægt að breyta og meira að segja  án mikils tilkostnaðar. Hægt er að gera þetta ferli mun mannlegra og þar með, forða manneskjunni frá sálarkvöl helgarbiðarinnar.

Málið er í raun einfalt.
Fréttirnar um hinn ógnvænlega grun eru færðar manneskjunni á mánudegi.  Þá gefst  færi á að bjóða viðkomandi að koma strax og þiggja frekari upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.  Í  sömu vikunni sem fréttirnar um gruninn eru færðar gefst hugsanlega einnig færi á að fá forstigsniðurstöður úr sýnatökunni þannig  þegar kemur að helgi er manneskjan einhverju nær um hvort hinn illi grunur eigi við rök að styðjast.

Komi það í ljós að viðkomandi er með frumubreytingar eða krabbamein á einhverju stigi þá skiptir öllu máli að andlega þættinum sé tafarlaust sinnt og að hann fái strax allar þær upplýsingar sem hægt er að veita á þessu stigi málsins, að hann fái faglega ráðgjöf og stuðning og sé auk þess komið í samband við viðeigandi tengslanet.

Með þessum hætti þarf enginn að sitja heima heila helgi og bíða upp á von og óvon og finnast hann hafa lítið annað að gera en að undirbúa kveðjustundina.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þú ert þarna bæði að lýsa upplifun tengdapabba míns og annarra áfalla sl. ára. Tekið á þeim af klínískum kulda þeirra sem eru orðnir bifvélavirkjar í heilbrigðiskerfinu. Þessi bíll á ekki langt eftir.....

Ævar Rafn Kjartansson, 29.10.2008 kl. 22:32

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ein samstarfskona mín fékk einmitt fréttir á föstudegi um að hún væri með brjóstakrabbamein. Maðurinn sem hringdi í hana var kuldalegur og veitti engin svör, átti enga samúð. Vikan var þá nýbúin að gefa út fyrsta blaðið sem helgað er brjóstakrabbameini (árlegt blað), fullt af viðtölum við konur sem höfðu fengið brjóstakrabba, lækna og fleira. Samstarfskonan (úr annarri deild) fékk eintak af þessu blaði hjá okkur, sagðist síðan hafa lesið það minnst þrisvar, sumar greinarnar oftar. Hélt í henni lífinu þessa óbærilegu helgi, sagði hún. Hún talar enn um hversu erfitt þetta var fyrir hana.

Ég get tekið undir þetta, lenti í svipuðu árið 2004, bar mig ógurlega vel og var æðrulaus ... eitt sinn skal hver deyja og allt það ... en þegar ég mætti fjandsamlegu viðmóti í viðtali á Kvennadeildinni, þar sem mér var tjáð að ég þurfti sjálf að sjá um allan undirbúning fyrir stóraðgerðina sem var fram undan, m.a. sprauta mig sjálf með blóðþynningarlyfi í magann daginn fyrir aðgerð var það dropinn sem fyllti mælinn. Þetta var sparnaður og þá var ekkert verið að hugsa um að aðeins læknar og hjúkkur hafa leyfi til að sprauta, nei, þarna mátti almenningur allt í einu fara inn á lögverndað svið þessarra stétta og það var "ekkert mál" að sprauta sig. Tek það fram að ég hef verið sprautuhrædd frá barnsaldri en ef ég fengi sykursýki væri sjálfsagt að læra þetta, ekki þegar maður hefur við þessa hræðslu að glíma. Systir mín, sem er með sömu menntun og þú, hringdi brjáluð á spítalann (ísköld kurteisi) og mér var í kjölfarið boðið að leggjast inn kvöldið áður. Þá hætti ég að gráta. Það á að leyfa sjúklingum að velja, sumir hata sjúkrahús og vilja frekar sofa heima daginn fyrir aðgerð, en ekki næstum allir. Hef heyrt nokkrar viðbjóðslegar sögur af illri meðferð á konum sem greinast með brjóstakrabbamein eftir að þær voru fluttar (fyrir nokkrum árum) af Krabbameinsdeildinni yfir á Kvennadeildina, þeim er hent út fárveikum morguninn eftir aðgerð, konu frá Akranesi var einmitt fleygt út fyrir hádegi þótt maðurinn hennar gæti ekki sótt hana fyrr en seinnipartinn. Hún tróð sér inn á fólk í Reykjavík og var mjög veik. Djöfuls meðferð þetta er á fólki. Starfsfólkið virðist flest vera ágætt, það er bara einhver kaldranalegur og undarlegur mórall þarna í gangi. Harka. Vona að ég þurfi aldrei framar í lífinu að koma nálægt henni. En ég myndi eftir þessa reynslu neita að fara heim ef ég væri enn fárveik. Ég myndi líka neita að sprauta mig sjálf eða undirbúa mig sjálf fyrir aðgerð.

Ég sætti mig við að borga háa skatta, jafnvel hærri en nú ... en ég vil að þeim verði varið í gott heilbrigðiskerfi, ekki t.d. fokdýr sendiráð í fjarlægum heimshlutum þegar okkur myndi nægja ein lítil skrifstofa, eins og mun stærri en hógværari lönd sætta sig við.

Sorrí, ætlaði ekki að blogga í kommentakerfinu þínu en ... það var engin leið að hætta.

Guðríður Haraldsdóttir, 30.10.2008 kl. 11:38

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Elsku bestu Guðríður, bara takk fyrir að deila þessu með okkur.

Kolbrún Baldursdóttir, 30.10.2008 kl. 15:39

4 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Ég hef oft velt því fyrir mér þegar ég hef beðið válegra tíðinda varðandi lífið og heilsuna hvort sé betra að búast við því versta þannig að þegar niðurstaðan fæst verði hún oftast betri en það vesta.

Eða snúa þessu við og búast við hinu besta og öll tíðindi um niðurstöðu verði verri.

Ég er heldur ekki viss um að náttúran hafi gert ráð fyrir því að ef þú getur bægt frá þér óttanum gefi betri bata á meininu sjálfu.

Gæti hugsast að bata líkurnar minnki ef við grípum inn í ferlið til að minnka sálarkvölina.

Ég er viss um að þegar við verðum svo vitur að geta greint þetta allt saman verður niðurstaðan allt önnur en við höfum hugsað okkur

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 30.10.2008 kl. 17:43

5 identicon

Þessi lýsing þín er ansi kunnugleg úr minni fjölskyldu.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 20:25

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband