Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ísland á lista með Bin Laden

Þetta er hið versta mál.  Íslenska þjóðin og Íslendingar eru komnir á lista í Bretlandi með Bin Laden.
Já, á lista yfir hryðjuverkafólk og öfgahópa sem flestir eiga það sammerkt að hafa framið mannréttindabrot: pyntað og drepið fólk.

Þetta er vont Angry

Jón Ásgeir í viðtali við Ingva Hrafn á ÍNN í kvöld kl. 8

Ingvi Hrafn ætlar í kvöld að sýna Agli Helgasyni hvernig taka á viðtal á faglegum nótum en eins og menn muna féll aðferðafræði Egils þegar hann tók viðtal við Jón Ásgeir í Silfri Egils fyrir skömmu misvel í kramið hjá landsmönnum.

Þeir sem spekúlera í viðtalstækni og vilja með tækninni reyna að ná sem mestu út úr viðmælanda sínum beita ekki aðferðafræði Egils, alla vega ekki þeirri sem hann sýndi í þessu umrædda viðtali við Jón Ásgeir. 

Ingvi Hrafn er þaulreyndur sjónvarps- og blaðamaður og ætlar í kvöld að spyrja og ræða málin tæpitungulaust án þess að missa sig í tilfinningarlegt uppnám. Ingvi Hrafn ætlar sem sagt ekki að koma fram sem sjálfsskipaður saksóknari íslensku þjóðarinnar  heldur frekar að koma fram sem fagmaður sem spyr með þeim hætti að sem mestar og bestar upplýsingar fáist frá þeim sem rætt er við.


Tíminn líður og sennilega er hann ekki að vinna með okkur

Það fer vonandi að styttist í niðurstöðu um hvaða og hvaðan við fáum aðstoð hvort það verður lán frá Rússum, frá IMF nema hvortveggja verði.

Tíminn líður og mjög líklega er hann ekki að vinna með okkur.

Lán frá IMF útilokar ekki að íslendingar þiggi einnig lán frá Rússum og lán frá Rússlandi lokar ekki fyrir þann möguleika að þiggja aðstoð IMF ef því er að skipta.

Aðstoð frá báðum þessum kerfum getur farið saman. Þjóðin þarf að fá mikla aðstoð í formi gjaldeyrislána einmitt núna.  Ef annað ætti að útiloka hitt myndi ég halda að það hentaði frekar að þiggja IMF aðstoðina aðallega vegna þess að lán þaðan er betur til þess fallið að hjálpa íslensku þjóðinni að ávinna tapað traust hjá öðrum þjóðum.

Að þiggja aðstoð frá IMF er ekki yfirlýsing að þjóðin vilji eða ætli að sækja um aðildarviðræður við ESB. Það er eins og sumir tvinni þetta saman þannig að þiggjum við lán frá IMF séum við þar með að gefa grænt ljós á viðræður við ESB

Vonandi berast fregnir af þessum málum innan tíðar sem draga mun úr frekari óvissu alla vega hvað þetta varðar.

Mótmæli er félagsleg hegðun sem hugnast ekki öllum

Fyrirhuguð eru mótmæli í dag á Austurvelli þar sem hópur fólks ætlar að mótmæla setu Davíðs Oddsonar í stóli Seðlabankastjóra.

Þetta er aðferð sem ekki hugnast öllum. Mörgum finnst þetta félagslega atferli hóps hreinlega ógeðfellt ekki hvað síst ef mótmælin beinast að ákveðinni persónu og gildir þá einu hvort persónan er Davíð Oddsson, Jón Jónsson eða Sigríður Sigurðardóttir.

Öðru máli kann að gegna ef andmælin beinast að einhverjum málstað, málefni, stefnu eða áætlun þar sem ekki er verið að draga inn í mótmælin nafn/nöfn einstaklinga.

Andmæli eiga að sjálfsögðu rétt á sér og hver og einn getur hvenær sem er sagt sína skoðun á hvort heldur mönnum eða málefnum. 

Fólk sem hópast saman tugir, hundruð eða þúsundir til að bera fram mótmæli gagnvart einstaklingi getur auðveldlega skapað aðstæður sem laða fram múgsefjun þ.e. þegar óráðsæsing grípur hóp fólks. Þessi aðferð er þess vegna nokkuð áhættusöm. 

Svo má einnig spyrja, hver myndi vilja vera í sporum þess sem mótmælin beinast að?


Fá peninga auðmanna heim

Ég vil taka undir með viðskiptaráðherra sem biðlar til siðferðiskenndar auðmanna sem eiga eignir erlendis. Nú ríður á að þessir aðilar flytji fé heim og koma með þeim hætti að uppbyggingu íslensks samfélags.


Hið meinta faðmlag Kjartans og Geirs og trúverðugleiki fjölmiðla

Það vakti furðu mína að lesa það í Fréttablaðinu í gær að Geir og Kjartan áttu að hafa fallist í faðma eftir ræðu Kjartans undir dynjandi lófaklappi fundargesta.

Ég sat tiltölulega nærri Kjartani á fundinum og Geir sat ásamt ráðherrum upp á palli enda voru pallborðsumræður í gangi.  Hvorki Geir né Kjartan hreyfðu sig úr stað eftir að Kjartan hafði lokið máli sínu og áttu þess því engan kost að faðmast, slík var fjarlægðin á milli þeirra. Satt er að það var dynjandi lófaklapp þegar Kjartan hafði lokið máli sínu en ekkert faðmlag átti sér stað.

Hvað þetta tiltekna atriði varðar þá skaðar það svo sem engan að trúa því að Kjartan og Geir hafi fallist í faðma enda vinir og samherjar til langs tíma.

Þetta vekur hins vegar upp spurningar um trúverðugleika fjölmiðla almennt séð, þ.e. hvort mikið kunni að vera um rangfærslur eða ýkjur, sumar kannski saklausar en aðrar alvarlegri sem komið gætu mönnum og málefnum illa og jafnvel haft neikvæðar/skaðlegar afleiðingar.


Einn góður: Kynlíf þrisvar í viku..

Fékk þennan sendan, langar að deila honum með ykkur enda veitir ekki af smá húmor, gríni og glensi í lok strembinnar viku. Hér kemur hann:

Albert 80 ára keyrði Báru konu sína sem er 75 ára til heimilislæknis í hefðbundið eftirlit.
Læknirinn: Þú ert eins og nýleginn túskildingur Bára! Ég mæli samt eindregið með því að þú hreyfir þig meira til að halda þér við. Jafnvel reglubundið kynlíf, segjum þrisvar í viku, myndi uppfylla þá þörf.
Bára: Þarf það að vera þrisvar í viku?
Læknirinn: Já, það er algjört lágmark ef þú færð enga aðra hreyfingu.
Bára: Viltu vera svo góður að segja manninum mínum frá þessu?

Læknirinn kallaði á Albert, sem beið í biðstofunni, og sagði honum að Bára þyrfti að stunda kynlíf þrisvar í viku.
Albert: ÞRISVAR Í VIKU! ....... Á hvaða dögum?
Læknirinn: Hvað segið þið um mánudaga, miðvikudaga og föstudaga?
Albert: Ég get komið með hana á mánudögum og miðvikudögum, en á föstudögum verður hún að taka STRÆTÓ!'





Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn?

Metingur af þessu tagi í hópi ungra barna fer sennilega hratt minnkandi og hver veit nema við heyrum aftur það sem margir muna e.t.v. eftir:
Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn eða pabbi minn er lögga en ekki pabbi  þinn. Smile

Þetta er eins og með tískuna og svo ótal margt annað. Við förum í hringi, það gamla kemur aftur, eitthvað sem talið var jafnvel gjörsamlega útilokað að myndi nokkurn tíman sjást framar.

Það er eitthvað notalegt við það að eiga von á að fá aftur þessi gömlu gildi inn í samfélagið, alla vega sum þeirra. Sjálfssagt koma þau mörg hver með nýju ívafi og breyttum áherslum.
Nú á maður von á að heyra:
Mamma mín er sterkari en mamma þín eða pabbi minn er betri kokkur en pabbi þinn. Wink

Hvað veit maður hvað dúkkar upp í hugarheimi barna í því nýja og breytta þjóðfélagi sem blasir við. Börnin verða fljót að finna út hvað þeim finnst skipta máli og hvað þeim finnst markverðast.

Ný gildi, ný forgangsröðun, ný verkefni bíður nú allra aldurshópa.

 


Gera, gera ekki - líða, líða ekki í því umhverfi sem nú ríkir

Ég hef fáu að bæta við allar þær góðu ráðleggingar og huggunarorð sem nú streyma fram frá ýmsum stéttum og félagasamtökum.

Í síðdegisútvarpinu á Útvarps Sögu í gær með þeim Markúsi Þórhallssyni og Sigurði Sveinssyni fórum við í gegnum eitt og annað sem viðkemur áföllum, áfallahjálp, hvaða hópar fólks væru verst staddir andlega eins og nú árar, hvernig mætti sinna þeim betur og margt fleira í þessu sambandi.

Hvað varðar börnin langar mig hvað helst að skerpa á þeirri staðreynd að börn hafa áhyggjur í hlutfalli við áhyggjur sem þeir sjá að foreldrar þeirra hafa.

Hamfaratal í áheyrn barna getur verið mjög skaðlegt þeim og gildir þá einu um hverslags hamfarir um er að ræða svo fremi sem þau óttast að þær muni hafa áhrif á þeirra líf.

Þegar litlar sálir er nærri sem hafa ríka athyglisgáfu og stór eyru er ágætt að hafa þessi atriði í huga:

-Vera sjálf róleg og forðast að óskapast yfir að nú sé allt að fara til fjandans
-Sannfæra þau um að öryggi þeirra sé tryggt, nálægð foreldrana er tryggð, heimili, skólinn og vinirnir
-Útskýra í samræmi við aldur og þroska hvað verið er að segja í fjölmiðlum og hvað almenningur er að tala um
-Gæta þess að hafa eigin ytri ásýnd sem eðlilegasta og sýna léttleika, kátínu eins og kostur er.

 


Úff ... neikvæðar fréttir á forsíðu visir.is

Sem dæmi:

Lífeyrissjóðurinn tapar tugum milljarða

Bauhaus hættir við opnun hér á landi

Eignir íslenskra fyrirtækja að hrynja

Hundruð manna missa vinnu í Landsbankanum

Fyrsta jákvæða fréttin er :

Uma Thurman í inniskóm - mynd

Þetta er það sem kemur upp á forsíðunni og er ekki beint upplífgandi eða þannig.Crying


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband