Ekki þörf á annars konar húsnæðiskerfi er mat fjármálaskrifstofu borgarinnar

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að leggja til lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé um fyrirtæki að ræða sem hefur það ekki að markmiði að græða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.

Greinargerð

Hjá lífeyrissjóðunum liggur mikið fé sem skoða mætti að nota til bygginga íbúða fyrir efnaminni einstaklinga sem eru og hafa verið í húsnæðisvanda eins og fram kemur í tillögunni Segja má að félagslega íbúðarkerfið sé í molum. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum og sífellt berast kvartanir um að íbúðum sé ekki viðhaldið sem skyldi og að leiga hafi hækkað það mikið að hún er að sliga marga leigendur. Húsnæðisvandinn hefur tekið á sig æ alvarlegri myndir og þarf stórátak til að koma honum í eðlilegt horf. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem eru heimilislausir eða búa við óviðundandi aðstæður og þeirra sem eru að greiða leigu langt umfram greiðslugetu. Lífeyrissjóðirnir eru sjóðir sem flestir ef ekki allir hafa nægt fjármagn til að koma inn í samfélagsverkefni sem þetta. Margir eru nú þegar að taka þátt í annars konar verkefnum innan- sem utan lands svo sem hótelbyggingum. Hvað þetta verkefni varðar væru þeir að taka þátt í að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað í Reykjavík fyrir fólkið sem greiðir í sjóðina. Þetta mun koma vel út fyrir allt samfélagið.

Lagt fram í borgarráði og afgreitt 23. ágúst með því að tillagan var felld.
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminni fólk 

Umsögn fjármálaskrifstofu

Bókun Flokks fólksins:
Borgarfulltrú Flokks fólksins harmar að þessi tillaga hafi ekki fengið frekari skoðun hjá meirihlutanum. Svo virðist sem borgin telji nóg gert eða áætlað í húsnæðismálum samkvæmt upptalningu í umsögn fjármálaskrifstofu og meirihlutans og því óþarfi að leggja drög að nýjum hlutum eins og mögulegri samvinnu eða samtarfi við lífeyrissjóði. Einhverjir þeirra hafa síðustu ár verið að taka á hendur fjölbreyttari verkefni, jafnvel samfélagsverkefni.

Í tillögunni fólst að eiga frumkvæði að samtali, borgin með lóðir og lífeyrissjóðirnir með fjármagn. Auðvitað er það ákvörðun sjóðanna hvort þeim hugnast verkefni eins og hér um ræðir, hvort þeir hafi yfir höfuð áhuga á að leita leiða til að bæta aðbúnað sjóðsfélaga sinna hvað húsnæðismál varðar. Leiguíbúðir á viðráðanlegu verði myndu gjörbylta kjörum margra sjóðsfélaga auk þess sem lengi hefur verið vitað að fjárfesting í steypu er góð fjárfesting. Hér hefði því verið kjörið tækifæri fyrir borgina að hugsa út fyrir boxið og sjá hvar ný tækifæri kunna að liggja fyrir fólkið í borginni. Hvað varðar löggjafann telur Flokkur fólksins að á þessu upphafstigi sé óþarfi að ætla að hann komi til með að verða óyfirstíganleg hindrun.


Innflytjendur í Fellahverfi einangrast félags- og menningarlega

Nú er svo komið að stór hópur innflytjenda í Reykjavík hefur einangrast félagslega og menningarlega. Komið hefur fram að 70% af Fellaskóla eru börn innflytjenda og að aðeins 5 börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust.
 
Gera má því skóna að fjölmargir innflytjendur hafi þar af leiðandi ekki náð að tengjast borgarsamfélaginu og blandast því með eðlilegum hætti. Ekki er að sjá að borgin hafi undanfarin ár mótað skýra stefnu um hvernig forða skuli innflytjendum frá því að einangrast eins og nú hefur gerst. Það er ljóst að þessi staða hefur verið að þróast í mörg ár og hefur borgarmeirihlutinn flotið sofandi að feigðarósi og ekki gætt þess að innflytjendur hafi blandast samfélaginu í Reykjavík nægjanlega vel, hvorki menningarlega né félagslega. Eftirfarandi fyrirspurnir voru lagðar fyrir borgarráð 23. ágúst sl.
1. Hvernig ætlar borgin að rjúfa einangrun innflytjenda í Fellahverfi?
2. Hvernig ætlar borgin að bregðast við menningarlegri og félagslegri einangrun þeirra sem þar búa, bæði til skemmri og lengri tíma.
3. Hvernig hyggst borgin ætla að standa að fræðslu og hvatningu til að innflytjendur geti með eðlilegum hætti blandast og samlagast íslensku samfélagi í framtíðinni?
 
 

Bloggfærslur 27. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband