Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022

Hættuleg spenna á húsnæðismarkaði í Reykjavík

Það sem helst einkennir núverandi meirihluta í borgarstjórn er fjarlægð frá borgarbúum og skeytingarleysi um þarfir þeirra, sérstaklega efnaminna fólks. Þetta er mat Flokks fólksins eftir að hafa setið 4 ár í borgarstjórn.

Húsnæðismál eru í brennidepli vegna þess hve hinn alvarlegi skortur á íbúðarhúsnæði og byggingarlóðum í Reykjavík kemur sífellt verr niður á hinum tekjulægri. Nákvæmlega þannig var staðan einnig fyrir síðustu kosningar.

Íbúðum á hverja 100 Reykvíkinga hefur fækkað jafnt og þétt á liðnum áratug og enn færri íbúðir eru í byggingu nú en fyrir tveimur árum. Ört hækkandi húsnæðisverð speglar ónógt framboð og veldur leigjendum þungbærum erfiðleikum ásamt þeim sem eru að kaupa í fyrsta sinn.

Alvarlegar afleiðingar sýna sig víða. Hröð hækkun húsnæðisverðs hækkar nefnilega vísitölu fasteignaverðs, fer beint inn í verðbólguna og skilar sér þannig í minni kaupmætti heimilanna. Námsmenn og ungt fólk er fast heima hjá foreldrum sínum. Efnameira fólk hefur tök á að styðja við bakið á börnum sínum við fyrstu kaup sem er enn eitt dæmið um misskiptingu milli ríkra og fátækra.

Það bíða 578  eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg, 130 bíða eftir húsnæði sem hentar þörfum fatlaðra, 72 bíða eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 144 eru á bið eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða. Á bak við þessar umsóknir eru fjölskyldur og börn og 132 barnafjölskyldur bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, þar af 100 einhleypir foreldrar. Samtals 834 umsóknir eftir húsnæði hjá borginni.

Efnaminna og fátækt fólk er á vergangi, þarf sífellt að vera að færa sig um set. Öryrkjar eru á annað hundrað að bíða eftir sértæku húsnæði og mikil vöntun er á húsnæði fyrir eldra fólk, þ.m.t. þjónustuíbúðir.

Tökum dæmi:        

Foreldrar sem eru á leigumarkaði þvælast frá einu húsnæði í annað með börn sín. Sumir foreldrar eru hreinlega á vergangi og eru jafnvel að fá inni um tíma hjá vinum og ættingjum. Dæmi eru um að börn í efnaminni fjölskyldum hafa gengið í allt að 5 grunnskóla áður en þau brautskrást úr grunnskóla. Vart þarf að fjölyrða um hin neikvæðu áhrif sem tíðir flutningar hafa á andlega og félaglega líðan barnanna sem um ræðir.

Fatlaðir fullorðnir einstaklingar, sem sumir eru komnir á fertugsaldur, hafa beðið í fjöldamörg ár eftir húsnæði. Sumir búa hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum.

 

Blind trú á þéttingu byggðar                                                                                                                               
Svo virðist sem núverandi meirihluti sé pikkfastur í þéttingu byggðar. Aðrir kostir eru vart ræddir. Varla er markmiðið að þrengja svo að mannlífinu að gónt sé inn í næstu íbúð og þvottasnúran sé á milli tveggja húsa yfir þrönga götu eins og í gömlu þorpi frá miðöldum, eða hvað?  Sumir þéttingarreitir eru því miður orðnir að skuggabyggð þar sem ekki  hefur verið tekið tillit til birtuskilyrða og hugað að vörnum gegn hljóðmengun.

Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún fer að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar. Einhliða framkvæmd þéttingarstefnu í Reykjavík, án ódýrari valkosta fjær miðborginni, hefur leitt til hættulegrara spennu á fasteignamarkaðinum sem skerðir lífskjör og lífsgæði fólks.

Vegna einstefnu í þéttingu byggðar er t.d. allt orðið yfirfullt í Háteigs- og Hlíðarhverfi, í Laugardal og víðar. Skólar og íþróttaaðstaða í þessum hverfum eru löngu sprungin. Framtíðarsýn í skóla- og íþróttamálum í yfirfullum hverfum er óljós sem veldur foreldrum miklum kvíða og angist. Til stendur að flytja „umframbörnin“ í Vörðuskóla. Það mun rústa hugmyndum meirihlutans um „15 mínútna borgarhverfi“. Þegar börn þurfa að ganga meira en 30 mínútur í skólann hvernig sem viðrar, munu foreldrar aka þeim með tilheyrandi aukinni umferð og neikvæðum umhverfisáhrifum.

 

Borgarstjórn í bergmálshelli                                                                                 Það virðist sem „hipp og kúl“ hugmyndir um tilveruna blindi núverandi meirihluta og geri honum ókleift að tengjast raunverulegum efnahagslegum staðreyndum um framboð og eftirspurn. Karpað er um hvort byggt sé mikið eða lítið. Vandinn liggur í að það er ekki byggt nóg. Það er skortur á hagkvæmum íbúðum fyrir fyrstu kaupendur, fyrir efnaminna fólk og fyrir venjulegt fólk. Litlar skókassaíbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar og ekki á færi nema hinna efnameiri að fjárfesta í.

 

Stefna Flokks fólksins

Flokkur fólksins vill þétta byggð þar sem innviðir þola þéttingu, ekki annars staðar. Við viljum stækka úthverfin og innviði þeirra, setja blandaða byggð í fyrirrúm og fjölga atvinnutækifærum í hverfum. Brýnt er að brjóta strax land undir ódýrar lóðir í suðurhlíðum Úlfarsfells og svæðinu austur af Úlfarsárdal. Ártúnshöfðinn er langt kominn í skipulagsferli, í Keldnalandi er hægt að byggja meira og Kjalarnes kemst í alfaraleið með Sundabraut.

Við í Flokki fólksins erum jarðtengd  og skynjum að þetta brýna vandamál þarf að leysa hratt og vel. Það munum við gera ef við fáum til þess stuðning 14. maí.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

 

Helga Þórðardóttir, varaþingmaður og kennari við Barnaspítala Hringsins, skipar 2. sætið á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og sálfræðingur, skipar 1. sætið á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

Birt á vef Stundarinnar 28.4. 2022

 

 


Konur í sárri neyð í Reykjavík

Hér er grein eftir okkur Natalie G. Gunnarsdóttur sem skipar 4. sæti á lista Flokks fólksins.

Konur í sárri neyð í Reykjavík.

Mikil vöntun er í Reykjavík á húsnæði og neyðarskýlum fyrir konur með fjölþættan vanda. Neyð heimilislausra kvenna er meiri en karla því þær hafa ekki sömu úræði í neyslu og karlar. Á göt­unni snýst allt um að lifa af og það getur leitt af sér enn meiri áföll. Þar er kon­um nauðgað, þær eru fórn­ar­lömb mansals og misþyrminga og verða sífellt að vera á varðbergi. Kerfið í borginni má ekki bregðast konum í svo bágri stöðu.

Konukot er komið að þolmörkum hvað rými varðar. Á ári hverju sækja um 100 konur þjónustu Konukots en heimilisleysi kvenna er oft falið og því má gera ráð fyrir að talan sé mun hærri. Í Covid faraldrinum var sett á laggirnar sérstækt úrræði fyrir konur. Það bættist við Konukot og var starfrækt allan sólarhringinni. Úrræðið reyndist vel en því var samt lokað þegar faraldurinn rénaði. Skila­boðin sem Reykjavíkurborg sendir með því að loka þessu litla úrræði meðan millj­örðum er mokað í umdeilanleg verkefni eru að líf þessara kvenna sé ekki mikils virði.

Bregðumst strax við vandanum!

Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg horfist strax í augu við sáran vanda heimilislausra kvenna og axli þar ábyrgð. Neyðarskýli verða að standa þeim opin allan sólarhringinn og einnig þarf að finna þeim varanleg úrræði. Það kallar á auknar fjárheimildir. Auk þess að tryggja þessum hópi þak yfir höfuðið á þeirra forsendum, viljum við í Flokki fólksins að unnin sé meiri fyrirbyggjandi vinna fremur en að einblína aðeins á að slökkva elda. „Húsnæði fyrst“ aðferðafræðin kveður á um að öruggt þak yfir höfuðið sé bæði grunnþörf og grundvallarmannréttindi. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir. Heimili er því forsenda fyrir árangri vímuefnameðferðar eða meðferðar við geðrænum vanda meðal kvenna á vergangi.

Heimilisleysi velur sér engin. Það er félagsleg afleiðing áfalla þar sem kerfið hefur brugðist. Þessar konur þurfa faglegan stuðning til að geta komið lífi sínu á réttan kjöl. Við í Flokki fólksins ætlum að svara því kalli.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

Natalie Guðríður Gunnarsdóttir, stuðningsfulltrúi og háskólanemi, skipar 4. sæti á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og sálfræðingur, skipar 1. sæti á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Birt í Fréttablaðinu 26. apríl 2022

konur í sárri neyð mynd


Nýjar lausnir á næturvanda í Reykjavík

Í grein minni sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl sl. sagði ég frá því að árið 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni og að henni yrði fylgt til hins ýtrasta. Aðdragandinn að framlagningu tillögunnar var sá að íbúar höfðu kvartað til borgaryfirvalda og sagt að ekki væri svefnfriður vegna hávaða frá næturklúbbunum á svæðinu. Hér er vísað í næturklúbba sem eru opnir til klukkan hálf fimm á nóttunni með tilheyrandi hávaða og götupartíum.

Mér var að sjálfsögðu ljúft og skylt að vekja athygli á málinu á vettvangi borgarstjórnar enda vill Flokkur fólksins hlusta á fólkið í borginni. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti lét sér hins vegar fátt um finnast og tillaga Flokks fólksins um að reglugerð um hávaðamengun verði fylgt er enn föst í kerfinu.

 

Reglugerðin sem hér um ræðir snýr að borgaralegum réttindum en henni hefur einfaldlega ekki verið framfylgt sem skyldi. Þess utan stangast leyfi fyrir þjónustutíma skemmtistaða á við þau lög að allir íbúar eigi rétt á svefnfriði frá kl. 23 til 7 að morgni, óháð búsetu (sbr. jafnræðisregluna).

Hvað er til ráða?

Hér er ekki verið að tala um að banna næturklúbba. Flokkur fólksins hefur skoðað þessi mál með fjölmörgum aðilum, bæði íbúum og þeim sem annast næturklúbbanna. Flestir eru sammála um að fyrsta skrefið sé að fylgja gildandi reglugerð, lækka hávaðann og draga úr bassanum. Setja þyrfti upp hljóðmæla sem notaðir yrðu á sama hátt og eftirlitsmyndavélar. Sú tækni er til staðar að ef skemmtistaðir færu yfir ákveðin hávaðamörk slær rafmagnið einfaldlega út hjá viðkomandi samkomustað. Ef lög og reglur eru brotnar þurfa þeir sem ábyrgðina bera að sæta einhverjum viðurlögum eins og gengur. Að öðrum kosti eru lög og reglur bara dauður bókstafur.

Til þess að eigendur skemmtistaðanna missi ekki of stóran spón úr aski sínum er mikilvægt að fá fólk til að mæta fyrr út á lífið. Ef staðið er saman að slíkum breytingum myndi markaðurinn án efa aðlaga sig að breyttum opnunartíma. Mottóið ætti að vera: Eftir eitt ei heyrist neitt! Nauðsynlegt er að setja næturstrætó í gang til að koma fólki aftur heim til sín.

Ráða næturlífsstjóra

Þjóðráð væri einnig að ráða næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk, þ.m.t. kvartanir, og sá hefði auk þess eftirlit með að reglugerðum og lögum sé framfylgt. Skemmtanalífið í Reykjavík og "hagkerfi næturlífsins" er það umfangsmikið að ekki veitir af. Það virðist vera lítið ef nokkuð samtal milli stofnana sem þessi mál heyra undir – borg, lögregla, heilbrigðiseftirlit, vinnueftirlit, byggingareftirlit og sýslumaður. Ef allt þetta væri komið á eitt borð væri mun auðveldara að hafa yfirsýn og sjá hvar grípa þyrfti inn í með aðgerðum og úrræðum eftir því sem þykja þurfir.

 

Skoða aðra staðsetningu

Samhliða þessum breytingum yrði unnið að uppbyggingu á svæði fyrir utan almenna íbúabyggð, t.d. utarlega á Grandanum eða í einhverju öðru iðnaðarhverfi, þar sem fólk getur skemmt sér eins og það vill án þess að ónáða aðra. Þá gæti lögreglan einnig haft betra eftirlit með því að allt fari vel fram.

Skilgreind svæði

Næturlífsstjórinn gæti t.d. gert drög að skipulagsbreytingum sem miðar að því að hólfa skemmtanalífið niður. Það má hugsa sér mismunandi hljóðsvæði frá 1-5, en á "partísvæði“ mætti hávaðinn (innandyra) vera mikill og opið langt fram á nótt.

Hljóðsvæði 4-5 þar sem hávaði er mestur þyrfti  að vera í fjarlægð frá íbúabyggðinni. Svæði 1-2 mættu vera í hjarta miðbæjarins en staðirnir dreifðari en nú er og yrði þeim sett ströng skilyrði um hljóðvist: engir útihátalarar, lítil sem engin hljóðmengun frá stöðunum út á götur og aðeins opið til kl. 1. Þetta eru allt hugmyndir sem Flokkur fólksins setur fram og  sem vel mætti ræða.

Hljóðsvæði 3 gæti t.d. verið kyrrðarsvæði þar sem fólk getur verið eitt með sjálfu sér eða fjölskyldu og vinum. Hugað væri vandlega að hljóðvist á þessum stöðum og allt kapp lagt á að hafa þá sem vistkænasta.

Flokkur fólksins hefur ávallt lagt áherslu á samráð og að unnið sé með borgarbúum og öllum þeim sem hagsmuna eiga að gæta í því máli sem um ræðir hverju sinni. Nauðsynlegt verður að fá umsagnir frá íbúum og öðrum rekstraraðilum á svæðinu áður en stórar ákvarðanir eru teknar og taka á tillit til þeirra eins og kostur er.

Hagsmunamál margra

Þessi mál þurfa að komast í lag sem fyrst. Margir hafa hagsmuna að gæta, ekki eingöngu íbúarnir, heldur einnig hátt á sjötta tug hótela og gistiheimila á svipuðu svæði og þessir skemmtistaðir eru. Miðbærinn tilheyrir þjóðinni allri, enda eru þar mörg af helstu kennileitum íslenskrar þjóðmenningar.

Ég vil standa með öllum borgarbúum sem eiga um sárt að binda vegna þess að borgaryfirvöld hafa neitað að hlusta, neitað að skilja og virðast eingöngu vilja þagga óþægileg mál niður. Það verður að finna raunhæfar lausnir á þessu máli.


Næturlífið í Reykjavík: ælur, smokkar og ofbeldi

Á fjögurra ára ferli mínum sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur hópur fólks sem býr nálægt næturklúbbum í miðbænum haft samband við mig og lýst ömurlegri tilveru um nætur þegar stemning gesta næturklúbba er í hámarki.

Í nóvember 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni og að henni yrði fylgt til hins ýtrasta. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs þar sem hún er enn. 

 

Vissulega veitti Covid þessum íbúum grið um tíma en nú er allt komið í sama farið. Reglugerðin sem hér um ræðir er í sjálfu sér ágæt. Eina vandamálið er að henni er einfaldlega ekki framfylgt. Auk þess stangast leyfi fyrir opnunartíma skemmtistaða á við þau lög að íbúar eigi rétt á svefnfrið frá kl. 23 til 7 að morgni, óháð búsetu, samkvæmt 4. grein lögreglusamþykktar. Einnig er sláandi að hávaðamörkum er ekki framfylgt með nokkrum viðunandi hætti en þau mega ekki fara yfir 50 desíbel úti á götum (Evrópusambandið miðar við 40 desíbel). Ítrekað hefur verið hringt í lögreglu sem íbúar segja að hafi engu skilað.

 

Friðhelgi fólks virt að vettugi

Hjá mörgum þessara íbúa er mælirinn löngu fullur. Í nærumhverfi þessara næturklúbba er blönduð byggð þar sem margar barnafjölskyldur eiga heima, öryrkjar og eldra fólk. Þegar íbúarnir hafa kvartað við yfirvöld hefur mætt þeim tómlæti. Þeir eru jafnvel spurðir hvers vegna „þeir flytji ekki bara eitthvert annað?“ 

Hér er verið að tala um næturklúbba sem eru opnir til kl. 4.30 með tilheyrandi hávaða, götupartíum, skrílslátum, sóðaskap og ofbeldi. Að leyfa diskótek í gömlum, fullkomlega óhljóðeinangruðum timburhúsum verður að teljast harla undarlegt. Hávaðinn, aðallega bassinn, berst langar leiðir um götur og torg. Margir íbúar, sérstaklega konur, veigra sér einnig við að vera úti eftir miðnætti um helgar af ótta við að verða fyrir aðkasti og áreitni.

Þessir næturklúbbar selja áfengi fram á lokamínútu. Frést hefur af fólki sem vill halda áfram að djamma ganga út með birgðir af áfengi þegar skellt er í lás. Ekki er óalgengt að íbúar finni fólk í görðum sínum, eða á útidyratröppunum, sem lagst hefur þar til svefns eða dáið drykkjudauða. Ferðamenn líða einnig fyrir næturdjammið í miðbænum. Eigendur hótela og gistihúsa fá stöðugar kvartanir frá hótelgestum um að þeir geti ekki sofið fyrir hávaða. Sú sjón sem blasir við ferðamönnum þegar þeir fara í skoðunarferðir snemma morguns eða út á flugvöll er heldur ófögur og ekki borginni til sóma. Það er engu líkara en að borgaryfirvöld séu algerlega meðvitundarlaus um þennan ófögnuð.

 

Ælur, smokkar, saur og ofbeldi

Þegar fólk hefur drukkið ótæpilega leiðir það m.a. til þess að dómgreind og skynsemi víkur. Ofurölvun getur aukið líkur á ólöglegu atferli, áreitni og ofbeldi. Ölvaðir gestir næturklúbba kasta stundum af sér vatni þar sem þeir standa og ganga örna sinna á hinum ólíklegustu stöðum t.d. á tröppum fólks, í görðum eða geymslum þeirra. Sprautunálum, bjórdósum, glösum, smokkum, sígrettustubbum og matarleifum er hent hvar sem er og endar það oftar en ekki á tröppum íbúanna eða í görðum þeirra.

Dauðir hlutir njóta heldur engra griða. Veggjakrot og eignarspjöll fær að þrífast án nokkurrar refsingar. Bílar íbúanna hafa sömuleiðis verið skemmdir, inn í þá brotist eða skorið á dekkin. Þeir sem hafa leitað til lögreglu eða tryggingafélaga með þessi mál hafa ekki haft erindi sem erfiði. Ef kostnaður af skemmdarverkum á eigum fólks í miðborginni sem tengist næturklúbbum væri tekinn saman myndi hann ábyggilega hlaupa á hundruð milljóna króna. Þá er ótalinn sá andlegi skaði sem íbúar hafa orðið fyrir.

 

Hvað er til ráða?

Þetta ófremdarástand má auðveldlega strax bæta. Það er enginn að tala um að banna næturklúbba. Fyrsta skrefið er að virða gildandi reglugerðir. Skala þarf niður hávaðann. Skoða mætti einnig hvort ekki er hægt að finna næturklúbbum af þessari tegund hentugri staðsetningu, utan almennrar íbúabyggðar. Byggja mætti upp ákveðið „party zone“, t.d. út á Granda, og huga samhliða að samgöngum svo að fólk komist heilu og höldnu aftur heim til sín. Á mínum yngri árum sótti ég staði sem voru ekki í miðri íbúabyggð eins og Sigtún, Þórskaffi og Hollywood. Þarna var dansað fram eftir nóttu og úti biðu leigubílar til að koma gestum heim. Til bóta væri einnig að ráða næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk hjá borginni.

Það er skylda mín og ábyrgð að hlusta á raddir þessa hóps og þess vegna lagði ég fram í upphafi kjörtímabilsins tillöguna um að reglugerð um hávaðamengun yrði fylgt eftir. Ég spurðist fyrir um þessa tillögu fyrir skemmstu og var sagt að hún verði sett á dagskrá eftir kosningar.

 

Ég vil standa með öllum borgarbúum sem eiga um sárt að binda vegna þess að borgaryfirvöld hafa neitað að hlusta, neitað að skilja og virðast eingöngu vilja þagga óþægileg mál niður. Fyrir kosningar má náttúrulega ekkert skyggja á glansmynd borgarstjóra. Slíkt óréttlæti og undanbrögð verða ekki liðin af okkur í Flokki fólksins.

Grein birt í Morgunblaðinu 20. apríl


Almenningssamgöngur í lamasessi í Reykjavík

Stóð ekki til að efla almenningssamgöngur á kjörtímabilinu í Reykjavík? Strætó bs. er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga og á Reykjavík stærsta hluta þess. Reksturinn er óvenjulegur því  fátítt er að bæði stjórn og skipu­lagn­ing þjón­ust­unnar ásamt akstri vagna sé á sömu opin­beru hend­inni. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu sem VSB verk­fræði­stofa vann fyrir Strætó. Strætó sinnir báðum þessum  hlut­verkum í dag án nokk­urra skila á milli mis­mun­andi þátta rekst­rarins, en fyr­ir­tækið útvistar þó um helm­ingi af öllum akstri sínum til ann­arra.

Nú er svo komið að Strætó bs. þarf að minnka  þjón­ustu­tíma og þjón­ustu­stig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri fé­lags­ins. Meðal ann­ars þarf að draga úr tíðni dag­ferða á ein­hverj­um leiðum og gera breyt­ing­ar á kvöld­ferðum á fjölda leiða. Gert er ráð fyr­ir að með breytingunum sparist rúm­lega 200 millj­ónir króna í rekstri en Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Í til­kynn­ing­u frá Strætó bs. seg­ir að Covid-far­ald­ur­inn hafi leikið rekst­ur Strætó grátt og tekj­ur hafi minnkað um allt að 1,5 millj­arða króna á síðustu tveimur árum. Ekki er ein báran stök. Í miðju Covid eru teknar fjárfrekar ákvarðanir, fjárfest í nýju greiðslukerfi og fjölgað í flotanum með þeim afleiðingum að draga þarf úr þjónustunni.

Klappkerfið ekki ókeypis

Klappkerfið kostar sitt. Er ekki rétt að spyrja hvort Klappið hafi verið ótímabær fjárfesting miðað við aðstæður? Hvers vegna fjárfestir byggðasamlag með einn milljarð í halla í nýju greiðslukerfi og það á miðjum  Covid-tímum og endar síðan með 1,5 milljarð í halla?
Margir eiga auk þess í vandræðum með að nota Klappið. Þeir sem hvorki skilja né tala íslensku eiga t.d. erfitt með að fóta sig í kerfinu. Hefði ekki þurft að sýna skynsemi og fresta nýju greiðslukerfi? Forgangsröðun hjá  Strætó hefur leitt til hagræðingaraðgerðar sem kemur verulega illa niður á þjónustuþegum Strætó.

Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar?

Á kjörtímabilinu hefur meirihlutinn í borgarstjórn lagt allt kapp á að hindra bílaumferð inn á viss svæði í borginni, aðallega miðbæinn og nágrenni. Gjaldskyldusvæði hafa verið stækkuð í allar áttir og bílastæðagjald hækkað svo að um munar.  Leynt og ljóst eru skilaboðin þessi „ekki koma á bílnum þínum í bæinn. Taktu strætó eða hjólaðu“. Að hjóla er ferðamáti sem  hentar alls ekki öllum. Ef hvetja á fólk til að nota almenningssamgöngur eins og Strætó þarf sú þjónusta að vera þannig uppbyggð og skipulögð að hún virki fyrir sem flesta. Tíðni strætóferða skiptir miklu máli og einnig að hægt sé að taka strætó fram eftir kvöldi um helgar til þess að fólk komist heim til sín. Þá er erfitt að ná í leigubíl auk þess sem allir hafa ekki ráð á að borga fyrir leigubíl. Nú eru færri leigubílstjórar en áður því í stéttinni ríkir mannekla. Reykjavíkurborg ber að hluta til ábyrgðina því að úthlutuðum rekstrarleyfum til leigubílaaksturs í höfuðborginni hefur fækkað frá árinu 2002.

Hvað varð um markmiðið að efla almenningssamgöngur?

Almenningssamgöngur eru í lamasessi, verið er að draga úr þjónustunni enn meira. Meirihlutinn leggur áherslu  borgarlínu en í það framtíðarverkefni hefur Reykjavíkurborg sett nú þegar í 1.7 milljarð.  Nánast allt er varðar borgarlínu er óljóst og þá ekki hvað síst hvort og þá hvernig borgarlínukerfi passar inn í reykvískan veruleika. Það verður að virðir valfrelsi og þarfir fólks varðandi samgöngumáta – ekki á að neyða borgarlínu eða öðrum lausnum upp á fólk.

Til að ná markmiðum um að efla almenningssamgöngur þarf að bæta allt sem snýr að rekstri Strætó bs. og verða Reykjavík og önnur sveitarfélög byggðarsamlagsins að styðja við reksturinn. Þar er tregða enda eru þau ekki aflögufær. Fjármagnið hefur farið í annað.
En þá þýðir ekki á sama tíma að segja að efla skuli almenningssamgöngur þegar í raun er verið að veikja þær. Það stóð ekki í loforðapakka meirihlutans í borgarstjórn.

Höf.:

Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins
Birt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband