Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Ég ætla að bíða

Ég ætla að bíða er yfirskrift auglýsingar Kaupþings og Samfó (samstarf um forvarnir) sem ég rak augun í í sjónvarpsdagskrá vikunnar.
Ég er ekki alveg sátt við þessa auglýsingu en hún beinist að unglingum sem ætla að bíða.

Bíða eftir hverju spyr ég?  Jú, ef betur er að gáð eru skilboðin þau að hópur unglinga vill bíða, bíða þar til þau verða eldri eða hafa náð tilskildum aldri til að nota áfengi. Ég er þó að geta mér þetta til enda segir ekki beint í auglýsingunni hvað átt er við nema þá að ástæðan fyrir því, að ungmenni sem ætla að bíða vilja gera það m.a. vegna þess að:

Þau eru nokkuð forvitin um framtíðina og vilja ekki missa af henni
Þau langar til að vita hvernig þau virka í þessum heimi.
Þau eru ástfangin 
Það er nógu flókið að vera unglingur.

Fleiri ástæður fyrir því að þau ætla að bíða eru tilteknar í auglýsingunni.

Ég vil gera athugasemdir við það viðhorf sem liggur að baki þessarar auglýsingar sem og annarra af sama meiði. Þau skilaboð sem þær fela í sér eru villandi og óréttlátar í garð þeirra sem hvorki nú né síðar á ævinni hafa hug á að neyta áfengis né annarra vímugjafa ef því er að skipta.

Athugasemdir mínar hafa að gera með það að með auglýsingu sem þessari er ekki verið að taka tillit til þeirra fjölmörgu ungmenna sem hvorki sem unglingar, né fullorðnir hafa hug á að nota áfengi. Hópur ungmenna er sem sagt ekki að bíða eftir einu eða neinu hvað þessu viðkemur.
Ég vil fullyrða eftir áralanga vinnu með unglingum og foreldrum þeirra að vímugjafar, þótt löglegir séu, eru ekki endilega á óska,- eða biðlista allra unglinga eins og virðist gefið í skyn í auglýsingu sem þessari.  Í allri umræðu um forvarnir finnst mér það vilja gleymast að til eru þau ungmenni sem hvorki nú né síðar, sjálfráða eða löggildir áfengiskaupendur hafa það á sinn stefnuskrá að bragða eða nota áfengi sem hluta af sínum lífstíl. Forvarnarumræðan ætti einmitt ekki að gleyma tilvist þessara krakka heldur mikið frekar að minnast á þá og hvetja aðra unglinga til að taka þá sér til fyrirmyndar.
 
Þegar svona auglýsingar eru birtar mætti halda að möguleikarnir í stöðunni væru þessir:
1. Að vera barn (ósjálfráða unglingur) sem drekkur.
2. Að vera sjálfráða unglingur sem byrjar að drekka.
3. Að vera ungmenni sem náð hefur 20 ára aldri og ákveður að drekka þar sem hann hefur náð tilskildum aldri til að kaupa áfengi.

Skilaboð þessarar auglýsingar virka þannig á mig að gengið sé út frá því að unglingar almennt séð vilji drekka áfengi og ætli að gera það þegar þau hafa aldur til.  Vissulega er það mikilvægt að bíða. Allir þeir sem vinna með börnum og unglingum geta verið sammála um að því meiri þroska sem unglingurinn hefur öðlast þegar hann neytir fyrst áfengis því betra.  Þessi skilaboð eru góð og gild en það má ekki stilla þeim upp með þeim hætti að sá möguleiki að DREKKA ALDREI  sé ekki meðal valkosta.  

Ég myndi því vilja sjá þessar annars ágætu auglýsingar taka smá breytingum og þá með þeim hætti að bætt verði í þær að sumir unglingar hafa tekið þá ákvörðun að neyta ekki áfengis hvorki nú né síðar á ævinni. Ef þau hyggjast taka ákvörðun um annað muni sú ákvörðun bíða betri tíma þ.e. þar til þau hafa náð fullorðinsaldri.

 


Ganga gegn slysum er frábært framtak.

Ég fagna framtaki hjúkrunarfræðinga með því að boða til göngu, göngu gegn slysum.
Allt hjálpar til að vekja athygli á þeim afleiðingum sem hraðakstur og annars konar glannaakstur getur leitt af sér. Eins og margsinnis hefur verið rætt að undanförnu þá eru sumrin sá tími sem alvarlegum umferðarslysum hefur jafnvel fjölgað. Þetta er reyndin þrátt fyrir að einmitt á þessum árstíma er færðin hvað best og skyggni hvað mest. En þá gefa líka sumir allt í botni. Angry

Yfir hásumarið er ég sjálf mikið út á vegum, fer í bústað eins og gengur og gerist. Í vikulegum ferðum fjölskyldunnar bregst það ekki að við verðum vör við glæfralegan framúrakstur. Einhver sem er svo mikið að flýta sér að hann er tilbúinn að taka talsverða og oft mikla áhættu með því að taka fram úr einum, tveimur og stundum fleiri bílum. Ég hugsa iðulega með sjálfri mér að jafnvel þótt  við sjálf ökum afar varlega og eru stöðugt á varðbergi með alla skynjara í gangi þá samt sem áður gætum við allt eins orðið fórnarlömb áhættuökumanns ef við erum stödd á röngum stað á röngum tíma. Í þessum tilvikum ræður oft tilviljun för og hrein hundaheppni eða hundaóheppni ef því er að skipta.  

Þannig er þessu farið með marga sem lent hafa í umferðarslysum. Þrátt fyrir að þeir sjálfir séu til fyrirmyndar í umferðinni,  þá hafa þeir verið svo óheppnir að mæta eða verða á vegi ökumanns sem tók áhættu. Sum þessara fórnalamba hafa sloppið vel, aðrir eru lemstraðir fyrir lífsstíð og enn aðrir eru ekki lengur í tölu lifenda.

Svona frumskógarlögmál viljum við ekki búa við hér og þess vegna ber að fagna öllu framtaki sem hjálpar að vekja fólk til meðvitundar um hversu hættulegt það er að aka of hratt, aka ekki samkvæmt aðstæður og taka áhættur. 


Pilates æfingakerfið lofar góðu.

Pilates æfingakerfið er spennandi valkostur fyrir þá sem vilja bæta heilsuna og styrkja líkamann.
Ég hef nýlega byrjað á slíku námskeiði og komu þessar æfingar mér skemmtilega á óvart. Fyrir þá sem stunda hefðbundna líkamshreyfingu eins og fara á líkamsræktarstöðvar og/eða skokk og/eða göngu þá eru Pilates góð viðbót og gefur einnig vissa tilbreytingu.  Það er ekki langt síðan ég vissi ekki hvað Pilates var, ég hafði hreinlega aldrei heyrt þetta nefnt. Eins og segir á heimsíðu þeirra sem bjóða upp á einkatíma og námskeið í þessum æfingum þá bætir Pilates æfingakerfið:
Orku og vellíðan
Sveigjanleika, styrk og jafnvægi
Líkamsstöðu
Verki í baki, háls og öxlum
Gigtarverki
Ónæmiskerfið

Líklega þarfnast þetta æfingarkerfi betri kynningar. Ég mæli eindregið með að fólk sem hefur áhuga á almennu heilbrigði kynni sér þetta.


Björgum lífum, hækkum ökuleyfisaldurinn

Nú er sumarið framundan og allt gott um það að segja. Á sumrin eykst gjarnan slysatíðnin. Fleiri eru á ferðinni og varkárnin minni m.a. vegna birtu og betri skilyrða. Á hverju ári koma hundruðir nýrra ökuleyfishafa út í umferðina.

Undanfarin ár hafa ökumenn á aldrinum 17 til 18 ára átt hlut að mörgum umferðarslysum vegna glæfralegs akturslags. Í kjölfar hrinu alvarlegra umferðarslysa, jafnvel banaslysa, hefjast gjarnan miklar umræður í samfélaginu um með hvaða hætti hægt sé að sporna við hraða- og ofsaakstri ungra ökumanna.Í nóvember s.l. mælti ég fyrir frumvarpi til laga um hækkun ökuleyfisaldurs úr 17 ára í 18 ára. Meginrökin fyrir frumvarpinu og sem reifuð voru í meðfylgjandi greinagerð voru þau að lungað af 17 ára unglingum hefur ekki öðlast tilskilinn þroska til að stjórna ökutæki með þeirri ábyrgð sem því fylgir í umferðinni.

Vitað er að einstaklingar taka út stóran hluta líkamlegs og andlegs þroska fyrstu 20 ár ævi sinnar. Hversu hratt viðkomandi fer í gegnum þroskaferilinn er bæði einstaklings- og kynjabundi , sem og aðstæðubundið. Enda þótt líkamlegur þroski ungmenna sé hvað sýnilegastur á þessum árum, tekur vitsmuna- og félagsþroski unglingsins stöðugum breytingum og munar mikið um hvert ár því nær sem dregur fullorðinsárunum. Ef litið er nánar á þennan aldur er það almenn vitneskja að meðal einkenna unglingsáranna sé ákveðin tilhneiging til áhættuhegðunar, áhrifagirni og hvatvísi.

Sökum ungs aldurs hafa unglingar ekki öðlast nema takmarkaða almenna lífsreynslu né hafa þeir þann vitsmuna- og félagsþroska til að geta lagt raunhæft
mat á flókin ytri áreiti og aðstæður. Upplifun þeirra og skynjun á hættum í umhverfi sínu er oftast nær frábrugðin skynjun og upplifun fullþroska einstaklings.
Önnur algeng einkenni þessa aldurskeiðs er óttaleysi, unglingar skynja oft ekki mikilvægi þess að vera varkárir né mikilvægi þess að hugsa gaumgæfilega áður en framkvæmt er. Sökum þroska- og reynsluleysis sjá margir á þessu aldurskeiði ekki tengsl orsakar og afleiðingar nógu skýrt.

Út frá sjónarmiðum þroskasálfræðinnar er því auðvelt að leiða líkum að því að 18 ára unglingar séu mun hæfari til að taka ábyrgð á sér og sínu lífi en þegar þeir voru 17 ára. Hvert ár á þessu tímaskeiði getur þannig skipt sköpum hvað varðar nauðsynlegan þroska til að geta tekið þá lágmarksábyrgð sem stjórnun ökutækis í umferðinni krefst. Þetta hafa margir ökukennarar staðfest.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að aldursmörkin yrðu hækkuð í þrepum, um einn mánuð á tveggja mánaða fresti. Ekki er talið eðlilegt að unglingur sem verður 17 ára daginn eftir gildistöku laganna þyrfti að bíða í heilt ár eftir að fá ökuskírteini. Að sama skapi yrði líka slæmt ef ökukennsla og sú sérþekking sem henni fylgir félli niður í nærri heilt ár. Markmið laganna, næðu þau fram að ganga, myndi með þessu nást á tæpum tveimur árum.
Skemmst er frá því að segja að samþykkt var að vísa frumvarpinu til nefndar.


Leikurinn var æði

Grin Þessi leikur var meiriháttar, ég er úrvinda, raddlaus, rennblaut af svita en alsæl.
Stemningin var frábær í höllinni, en það mátti engu muna þrátt fyrir þokkalega gott forskot á tímabili. Svona er þetta, rétt eins og lífið sjálft, stundum ups og stundum downs en oftar ups ef hugsunin er jákvæð. Góður dagur í alla staði!!


Ísland - Serbía, landsleikurinn í kvöld

Nú er leikurinn í kvöld og ég er að fara að horfa á hann. Spennandi, engin spurning. Ég hef aldrei áður farið á landsleik svo þetta verður ný upplifun. Nú er bara að sjá hvort ég muni haga mér prúðmannlega. Ég óttast nefnilega að ég kunni allt eins að missa stjórn á mér ef spennan nær einhverju hámarki. Ég, þessi svona venjulega dagfarsprúða miðaldra kona á nefnilega til aðra britingarmynd þegar ég verð spennt. Sú birtingarmynd er þannig að ég byrja að að hoppa upp og niður, sveifla höndunum og gefa frá mér einkennileg hljóð, hróp og köll. 

En starfa míns vegna þarf ég auðvitað að sýna yfirvegun og fágun. Ekki má gleyma því að ég kann að vera fyrirmynd einhverra. Þess vegna er ekki gott að það spyrjist út að sálfræðingurinn hún Kolbrún hafi verið snarvitlaus á leiknum.

 


Auglýsingar sem ætlaðar eru börnum þarfnast skoðunar og takmörkunar

Ég er sammála því að setja þurfi reglur er varðar markaðssókn gagnvart börnum.  Slíkar reglur þurfa að fela í sér ákveðnar takmarkanir en ekki síður þarf að skoða vandlega hvað verið er að auglýsa og hvaða áhrif auglýsingin kann að hafa á börnin. 

Markmið markaðsaðila er að gera vöruna það heillandi að barnið biður foreldra sína að kaupa hana handa sér.  Ákefð markaðsaðila að selja vöruna getur verið slík að þeir geta hæglega misst sjónar af hvar hin siðferðislegu mörk liggja í þessu sambandi. Þess vegna þarf samfélagið að setja reglur og ramma, sem fyrst og fremst er ætlað til að vernda börnin.
 
Ef bera á markaðssetningu sem beint er að börnum hér á Íslandi saman við sambærilega markaðssetningu t.d. í Bandaríkjunum þá eru við enn sem stendur í þokkalegum málum.  Í því fylki í Bandríkjunum sem ég bjó í um fimm ára skeið virtist mér sem markaðsaðilar væru tilbúnir að ganga býsna langt til að hafa áhrif á hugsanagang og tilfinningarlíf barnanna. Sjónvarpið var sá miðill sem hvað mest er notaður í því skyni. Mest var auglýst að morgni dags þegar barnaefnið var á dagskrá og þá hvað mest um helgar þegar stór hluti barna í Ameríku situr fyrir framan sjónavarpið jafnvel klukkutímum saman. Mér eru þessar auglýsingar minnisstæðar því ungviðið á mínu heimili varð eins og gefur að skilja upptendrað sem leiddi til þess að það var suðað, beðið og grátbeðið um að fá eitt og annað sem stöðugt var verið að auglýsa. Það sem var hvað mest auglýst amk á þessum árum voru leikföng, barbiedúkkur og leikfangabílar sem og önnur leikföng. Einnig sælgæti og morgunkorn svo fátt eitt sé nefnt.

Hér á Íslandi hafa skotið upp fremur vafasamar auglýsingar gagnvart börnum. Sem dæmi má nefna að verið er að auglýsa matvöru sem sögð er vera holl og góð og því tilvalin að hafa í nestispakkanum í skólann. Þegar betur er að gáð er jafnvel um að ræða vöru sem er beinlínis óholl. Hver man ekki eftir jógúrt sem sérstaklega var auglýst holl fyrir börnin en þegar farið var að skoða innihaldið innihélt hún sykurmagn sem samsvaraði 5 sykurmolum. Eflaust má finna fleiri svona dæmi og mörg svæsnari en þetta.

Það er sannarlega tími fyrir okkur hér á Íslandi og staldra nú við og skoða hvar við erum stödd á þessum vettvangi.  Markaðssetning gagnvart börnum hefur aukist og mun halda áfram að gera það stjórnlaust ef ekki verða sett mörk.   Með hvaða hætti hún fer fram og hvað það er sem verið er að auglýsa til að hafa áhrif á börnin þarf að skoða með gagnrýnu auga.   


Ungmenni gera sér ungadráp að leik

Eðlilega fyllist fólk óhug þegar það heyrir fréttir sem þessar og spyr hvað fari eiginlega fram í huga þeirra sem fá svölun við að pynta og deyða dýr, lífverur sem geta enga björg sér veitt.  Þegar ég heyri svona dettur mér einna helst í hug að gerandi slíks verknaðar sé afar reiður og bitur einstaklingur, haldinn miklum sársauka sjálfur og hafi farið á mis við að vera kennt að bera virðingu fyrir lífinu í það minnst lífi dýra. Maður veltir fyrir sér hvort sá sem þetta gerir hafi verið meiddur sjálfur? Eitt er alveg ljóst að viðkomandi er verulega illa staddur tilfinningar,- og félagslega og hann þarfnast sárlega hjálpar fagfólks. 

Spurningunni hvort sumir séu einfaldlega vondir í eðli sínu, komi hreinlega í heiminn með hvatir til að pynta svara ég hiklaust með neii. Slík nálgun er að mínu mati afar varhugaverð og vita gagnslaus.  Hins vegar er ljóst að í tilvikum þessara ungmenna hefur eitthvað farið úrskeiðis á þeirra stuttu ævi. Hvað nákvæmlega er ekki gott að segja nema eftir að hafa skoðað málþeirra og fjölskyldna þeirra. 

  

Siðblinda

Þegar fregnir berast af andfélagslegri hegðan sem þessari koma mörg önnur hugtök upp í hugann, hugtök eins og siðblinda, að viðkomandi hefi ekki fengið lærdóm í grundvallaratriðum siðfræðinnar. Birtingarmyndin gæti verið sú að einstaklingurinn eigi erfitt með að setja sig í spor annarra, finni ekki til mikillar samkenndar með öðrum og standi jafnvel nokkuð á sama um hvernig öðrum líður. Að meiða og deyða dýr sér til gamans er klárlega æfing í ofbeldi sem ekki nokkur leið er að segja til um hvar endar. Verði þessum aðilum ekki hjálpað eru þeir að mínu mati í áhættuhópi þeirra sem stunda að jafnaði andfélagslega hegðun.  

Múgsefjun

Einnig hvarflar það að manni hvort sá sem þetta gerir sé svo óendanlega áhrifagjarn og þarna hafi átt sér stað múgsefjun, hópþrýstingur. Afleiðingar hópþrýstings geta verið alvarlegar. Mikilvægt er að börnum sé snemma kennt að varast hann. Hvort orsakir verknaðar sem þessa sé einhlít eða megi rekja til margra þátta er eins og fyrr segir ekki hægt að vita fyrr en mál þessara einstaklinga er skoðað.


Hvað er hópurinn stór? Einnig vitum við ekki hvort hér sé um örfáa einstaklinga að ræða sem endurtaka þennan verknað eða hvort hópurinn telji fleiri.

Finna þessa einstaklinga. Sé einstaklingurinn undir 18 ára er það hlutverk viðkomandi barnaverndarnefndar að skoða málið og bjóða upp á viðeigandi úrræð. Sé hann orðinn 18 ára tekur refsikerfið við og þá er brýnt að viðkomandi hafi aðgang að fagfólki til að fá þá meðferð sem hann þarfnast. Ég hvet alla þá sem vita um verknað sem þennan og hverjir gerendur eru að láta vita, tilkynna málið til viðkomandi barnaverndarnefndar/foreldra. Öðruvísi er ekki hægt að hjálpa þessu fólki.

Foreldrar barna sem viðhafa andfélagslega hegðan sem þessa þurfa án efa á áfallahjálp að halda. Svona málum þarf að fylgja eftir til langs tíma þannig að hægt sé að ganga úr skugga um að meðferð hafi skilað sér. Þessir einstaklingar gætu síðar meir liðið mikið fyrir að hafa tekið þátt í svona óhuggnaði. Hver vill líta til bernskunnar og rifja upp að hafa pyntað og murkað lífið úr dýrum.

Tökum sameiginlega ábyrgð.  Fyrir okkur sem heyrum þessi ótíðindi vil ég bara segja að við skulum fara varlega í dæma, foreldrana. Það skilar engu. Það sem skilar er að ná til þessa fólks, greina vandann og veita viðeigandi aðstoð. Eins þarf að hlúa að þeim sem koma að slíkum verknaði. Þeir kunna að þarfnast áfallahjálpar.  Fyrst og fremst er þetta ólýsanlega sorglegt, fyrir þá sem þetta gera, fjölskyldur þeirra og okkur sem samfélagsþegna.  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband