Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Er ekkert að draga úr spillingu hér á landi?

Eitt af því sem maður var að vona að kæmi út úr frjármálahruninu var að draga myndi úr spillingu eða hyglunum í íslensku samfélagi.

Margir eru sammála um að finna megi spillingu víða hér á landi. Í þessu sambandi má nefna allt frá óeðlilegum viðskiptaháttum stjórnenda, ráðandi hluthafa sem greiða sér of há laun og alls kyns viðskipti tengdra aðila. 

Á pólitíska sviðinu má nefna fyrirgreiðslupólitík eða þegar ráðamenn ráða vini og/eða ættingja í valdamikil embætti. Kannski getur einhver enn þann dag í dag beitt áhrifum sínum og komið vini eða vandamanni ofarlega á lista stjórnmálaflokks?

Þegar tengsl fá að ráða er mun meiri hætta á að gengið sé framhjá hæfu fólki, umsækjendum sem hafa jafnvel árum saman verið að sanka að sér menntun og reynslu sem krafist er til ákveðinna starfa. En fátt virðist stundum duga til ef ekki er réttu tengslunum fyrir að fara.

Draumurinn lifir enn hjá fjölmörgum um að draga megi úr spillingu. Til að eitthvað breytist þarf vitundarvakningu, heiðarlegt og réttsýnt fólk, sjálfsgagnrýni og almennilegt eftirlit.

Vandinn er, að þegar heyrt er af djúpstæðum spillingarmálum upplifa margir oft bara vanmátt og tilfinningu um áhrifaleysi. Ef meirihluti landsmanna telur að hann sé áhrifalaus, geti hvort eð er ekkert gert í þessu mun spilling af ýmsum toga halda áfram að þrífast og dafna í innviðum þjóðfélagsins.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband