Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Var eina skilnaðarbarnið í bekknum

Já tímarnir hafa breyst. Í grunnskóla eða barnaskóla eins og það hét minnist ég þess að hafa verið eina skilnaðarbarnið í bekknum. Gagnvart skilnaði foreldra var í þá daga takmarkaður skilningur.

Hvernig líður skilnaðarbörnum?

Sumum skilnaðarbörnum líður illa. Þeim finnst jafnvel skilnaður foreldra sinna stundum vera þeim að kenna. Þau upplifa jafnvel skömm.  Líðan getur stundum verið svo slæm að börn fráskildra foreldra reyna að láta lítið fyrir sér fara og vilja helst ekki að aðrir í skólanum viti um skilnaðinn.

Margt hefur breyst á 40 til 45 árum.  Án þess að hafa einhverjar rannsóknarniðurstöður til að styðjast við, þá vil ég engu að síður fullyrða að í sumum tilvikum er hægt að finna bekk þar sem jafnvel helmingur barnanna eiga foreldrar sem ekki búa saman.  

Samhliða þeirri staðreynd að skilnaðir hafa farið vaxandi hefur viðhorf til skilnaðar almennt séð breyst.   Núna eru þeir sem sinna börnum hvort heldur í skóla eða í tómstundum farin að skilja betur áhrif skilnaðar á börn og mögulegar afleiðinga hans á sálarlíf barnanna.

Alvarlegar og langvinnar afleiðingar eru helst í þeim tilvikum þar sem skilnaðurinn hefur haft langan og átakamikinn aðdraganda og þar sem börnin hafa jafnvel orðið á milli hatrammrar deilu foreldranna. Ekki bætir úr skák ef foreldrarnir halda áfram eftir skilnaðinn að deila og skammast út í hvort annað og nota börn sín til að ná sér niður á hvort öðru.
En það er efni í annan pistil.


Bókin Sumarlandið hefur haft áhrif..á mig

Er að lesa bókina Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson.

Neita því ekki að þessi bók hefur áhrif á mig, hugsanir og sýn á, .. þið vitið hvað.

Í miðju amstri þessa samfélags er lestur bóka oftar en ekki hin besta hvíld vegna þess að hægt er að gleyma sér, oft algerlega.

Þessi bók er einstök. Ég ákvað að lesa hana með opnum huga en veit ég sjálf ekki baun í bala um þessi mál. Vil bara hlusta og vega og meta hvað mátast best.


Fréttamenn fengu bikar að gjöf á Bessastöðum í tilefni árs skóganna

Á blaðamannafundi á Bessastöðum í tilefni árs skóganna fengu fréttamenn gefins bikar sem er hannaður og smíðaður af Jóni Guðmundssyni, plöntulífeðlisfræðingi.

Á stilknum hangir hringur sem ekki er hægt að ná af. Hugmyndin er sú að bikarinn hafi þá eiginleika að hann tæmist aldrei af góðum áformum, því þau væru bundin í hring um hann miðjan og haggast ekki.

p1150127.jpg

p1150132.jpg

Ár skóganna, hér má sjá athöfnina á Bessastöðum

Árið 2011 er alþjóðlegt ár skóga að frumkvæði allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að auka vitund um sjálfbæra nýtingu, verndun og þróun í öllum gerðum skóglenda. Skógrækt ríkisins mun, í samvinnu við aðra hagsmunaðila í skógrækt, koma að ýmsum viðburðum á árinu í tengslum við ár skóga.


Hún kallar ekki allt ömmu sína stúlkan að tarna

Birgitta Jónsdóttir er í óvenjulegum aðstæðum

Um hana má með sanni segja að hún lætur ekki troða á sér, hún er fylgin sér, staðföst og hugrökk. Birgitta kom í viðtal Í nærveru sálar í fyrra og ræddi um samskipti á Alþingi þar á meðal fremur neikvæð samskipti sem hún hafði bæði orðið vitni að og reynt sjálf.  Þátturinn bar yfirskriftina Er einelti á Alþingi?
Það er vonandi að samskipti á Alþingi hafi frekar batnað síðan og að þingmenn komi vel fram við hvern annan eins og gera má kröfu um á öllum vinnustöðum.

naerverusalar_rammi_1052439.jpg 


Nú er lag að birta jákvæðar fréttir

Svo virðist sem sumir fjölmiðlamenn séu hálf vonsviknir yfir að ekki sprakk allt í háaloft hjá VG í dag á fundinum sem beðið hefur verið eftir.

Það hefði náttúrulega verið feitt fréttaefni. 

Hvort sem það eru VG, sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn þá skýtur það skökku við ef í ljós kemur að verið sé að vonast eftir að neikvæðir og erfiðir hlutir gerist til þess að geta birt einhverjar hasarfréttir fyrir blóðþyrsta.

Eru einhverjir sem vonast til að allt fari á versta veg hjá til að geta komið með einhverjar krassandi fréttir?

Það kann að vera gúrkutíð hjá fjölmiðlum núna en þá er einmitt lag að birta og fjalla um jákvæða hluti, skemmtilegar sammannlegar vangaveltur og margt það sem gott fólk er að gera vel og það sem er að ganga vel t.d. í stjórnun landsins og í lífi einstaklinga og hópa.

 

 


Við Reykjavíkurtjörn

Hlustaði rétt í þessu á Egil Ólafsson syngja lagið Við Reykjavíkurtjörn, texta samdi Davíð Oddsson.

Frábær texti

Höfundur lags er Gunnar Þórðarson.

Alin upp í Melunum, þá yljar sannarlega að hlusta á þetta lag og texta.

Kallar á fullt af minningum þegar maður lék sér við tjörnina og því umhverfi öllu. Þá var Melavöllurinn til og gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu var einn stór ævintýraheimur.

 


Að standa í biðröð eftir matargjöf er úrelt fyrirkomulag.

Að standa í biðröð eftir matargjöf er úrelt fyrirkomulag. Matarkortarkerfi hlýtur að henta betur.
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið hefur einhvern veginn misst af lestinni þegar kemur að hagkvæmni og þróun í þessum málum. Á þetta hafa margir bent. 

Þetta fyrirkomulag sem verið hefur á matargjöfum er úrelt. Landsbyggðin, sumstaðar alla vega, hefur breytt þessu yfir í matarkort. Er nokkuð vit í öðru? Slíkt fyrirkomulag getur varla verið flókið miða við margt annað.

Hjálparsamtök, Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd hljóta einnig að þurfa að vinna saman, sameinast enda tilgangur og markmið þeirra það sama.


Ágætt ávarp

Ávarp forseta rann ljúflega í gegn. Vel þegið að heyra hann hvetja til samstöðu og samhugar hvert með öðru. Öll höfum við sjálfsagt gott að því að vera minnt á að sýna umburðarlyndi og forðast að dæma og gagnrýna. Það skaðar alla vega ekki að byrja árið á hugsunum sem þessum þótt vissulega megi reikna með bakslagi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband