Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Jón Sigurðsson í Kastljósinu í gær

Ég reyndi árangurslaust að ná í gegn inn í Kastljósþáttinn til að spyrja Jón Sigurðsson um afstöðu hans til þátttöku Tryggingarstofnunar í niðurgreiðslu á sálfræðiviðtölum hjá sálfræðingum á sama hátt og gert er nú um sambærilega þjónustu geðlækna.
Ég var tvisvar komin á bið en svo slitnaði að mér skilst vegna álags.
Þetta hefði verið tilvalið tækifæri að heyra beint frá Jóni hvað honum finnst um þetta mál. Stefna Framsóknarflokksins hefur nefnilega verið sú að ráða sálfræðingi á heilsugæslustöðvarnar en ekki að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga.

 


Yfirboð Samfylkingarinnar

Það er ekkert smáræði sem Samfylkingin lofar. Á hverjum degi má sjá ókeypis þetta og frítt hitt.
Það er tannverndin og skólabækurnar svo fátt eitt sé nefnt. Mun Samfylkingin raunverulega geta staðið við þetta allt ef til kæmi? Þessum yfirboðum fylgir hvorki hvað þetta kostar og hvar Samfylkingin hyggst taka fé fyrir þessu. Þess vegna finnst mér þetta afar ótrúverðugt og ef eitthvað er þá fráhrindandi væri ég óákveðinn kjósandi.

Meirihluti presta vill ekki opna kirkjuna fyrir samkynhneigðum

Það liggur nú nokkuð ljóst fyrir að meirihluti prestastéttarinnar getur ekki hugsað sér að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband. Mér þykir skrýtið að það voru aðeins 22 sem greiddu atkvæði með tillögunni en áður höfðu 42 lagt þetta til og staðfest það með undirskrift sinni.
Hvað varð um þessa 20 þegar kom að því greiða atkvæði?

Sumir voru víst ekki viðstaddir sem er jú alltaf ákveðin leið út ef aðstæður eru erfiðar.
Þá er hægt að segja „já, en  ég var ekki á staðnum, þurfti að fara annað osfrv.“
Einhverjir hljóta að hafa hreinlega skipt um skoðun eða þurft að láta undan þrýstingi félaga sinna. ´
Eftir stendur hópur samkynhneigðra og fjölskyldur þeirra sem áfram er meinað að sitja við sama borð og þeir sem skilgreina sig gagnkynhneigða. 

Ég heyri hvað biskup segir þ.e. að hefðbundinni skilgreiningu hjónabands, sem sáttmála karls og konu megi ekki raska. Þetta eru „kenningar og hefðir“ sem vissulega má ekki gera lítið úr enda byggjum við mikið á þeim en sumar hverjar eru orðnar afar úreltar og ekki lengur í neinum takt við samfélagið.


Börn samkynhneigðra

Á prestastefnu stendur nú til að ræða ýtarlega hvort samkynhneigðir eigi að fá blessun, vígslu eða hjónavígslu. Hver er nú eiginlega munurinn á vígslu eða hjónavígslu og þegar upp er staðið er þetta ekki bara spurning um orðið „hjóna“ sem fyrir sumum prestum er afar viðkvæmt þegar málefni samkynhneigðra ber á góma.

Um það bil 40 prestar vilja að heimilað verði að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband. Málið er sannarlega umdeilt. Leiða má að því líkum að skoðanir þeirra presta sem tilheyra yngir kynslóðinni séu frjálslegri í þessu sambandi en þeirra eldri aftur á móti íhaldssamari. 

En yfir í annað þessu tengt og það er, hafa prestar leitt hugann að því hvernig það er að vera barn samkynhneigðra í þessu samfélagi?

Hvernig skyldi barn sem á samkynhneigt foreldri/foreldra skynja þessa umræðu eða réttara sagt deilu sem varðar foreldra þeirra og þeirra tilfinningalíf? 

Börn eru vegna ungs aldurs síns afar næm fyrir umhverfinu og börn samkynhneigðra, eins og önnur börn, eru viðkvæm fyrir neikvæðri umfjöllun beinist hún að þeirra nánustu.
Þetta ættu prestarnir að hafa í huga þegar þeir tjá sig um skoðanir sínar um þetta mál og ábyrgð fjölmiðlanna er að matreiða fréttirnar með þeim hætti að þær verði þess ekki valdandi að særa og jafnvel skaða börn þessa minnihlutahóps sem hér um ræðir.  


Lög um staðgöngumæður, rýmka þarf heimildir tæknifrjóvgunarlaganna

Mikið vona ég að það verði farið í þá vinnu með haustinu að semja lög um staðgöngumæður. Enda þótt um fá tilvik af þessum toga sé e.t.v. að ræða þá er mikilvægt að lögunum um tæknifrjóvgun verði breytt þannig að heimildir til staðgöngumæðrunar í sérstökum tilfellum verði rýmkaðar.

Vitaskuld þarf að undirbúa þessi mál vel því ótal margt getur komið upp á þegar svo tilfinningarleg málefni sem meðganga og fæðing er annars vegar.  Ég treysti þeim læknum og öðru fagfólki sem starfa á þessu sviði hér á land vel til að vanda vel til slíks undirbúnings, eins vel og kostur er.

Fyrirspurn til Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins

 Mér þætti afar áhugavert að heyra hver persónuleg afstaða Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins sé til þess að Tryggingarstofnun taki þátt í kostnaði sálfræðiviðtala hjá sálfræðingum sem reka eigin stofur á sama hátt og gert er nú um sambærilega þjónustu geðlækna.
Ég er ekki að falast eftir að heyra hver stefna Framsóknarflokksins er í þessu máli enda er hún mér vel kunn heldur hvert sé persónulegt álit formannsins.

Mér finnst það skipta öllu máli fyrir þá stétt sem ég tilheyri að heyra hvað Jóni finnst um þetta mál sem væntanlega heldur áfram að vera í umræðunni þar til viðunandi lausn fæst. Málið er nú fyrir dómstólum og er dóms að vænta 9. maí næstkomandi. Hvernig svo sem hann mun hljóða mun Framsóknarflokkurinn, verði hann aftur í ríkisstjórn, þurfa að horfast í augu við og takast á við að hvorki Sálfræðingafélagið né þeir skjólstæðingar sem hafa hug á að leita sér sálfræðiþjónustu hjá sjálfsstætt starfandi sálfræðingum munu  líða þann órétt og mismunun sem tíðkast hefur fram til þessa hvað þetta mál varðar.  Hvað varðar frekari upplýsingar um málið má sjá í bloggfærslu minni hér fyrir nokkrum dögum.

 

 


Mótsagnakennd og óljós stefna Vinstri grænna.

Það er eitthvað mótsagnarkennt við stefnumál Vinstri-grænna. Þegar maður leiðir hugann að boðskap þeirra undanfarin ár þá dettur manni fyrst og fremst í hug umhverfisvernd og þá þannig að ekki megi með neinu móti spilla hinni yndisfögur íslensku náttúru sem er einstök perla. 

 Gott og vel, þetta er alveg skýrt. En síðan eru það utanríkismálin. Fyrst skal nefna hersetuna og allt í kringum það. Vinstri grænir voru miklir herstöðvarandstæðingar og eru jafnframt afar uppsigaðir við nýlegan varnarsamning.  En þeim er líka uppsigað við Evrópusamstarf því ekki mega þeir heyra minnst á mögulega ESB aðild.
Hvert stefna eiginlega Vinstri grænir í utanríkismálum?  

Annað sem stingur verulega í stúf í þeirra málflutningi og passar einhvern veginn ekki inn í hugmyndafræði þeirra um sjálfstæða efnahagsstefnu er hversu hlynntir þeir eru núverandi landbúnaðarstefnu sem allir vita að vegna tolla og ýmis konar innflutningshafta hafa viðhaldið háu matarverði á Íslandi. 

Með þessa þoku- og mótsagnarkenndu stefnuskrá að leiðarljósi er formaðurinn sjálfur manneskjulegur og ljúfur maður. Hans góða talanda þekkjum við reyndar aðeins í stjórnarandstöðumálflutningi. Einhvern veginn finnst mér eins og hann hljóti að hafa fest rætur þeim megin borðsins en það kemur auðvita allt í ljós nú með vorinu. 


Getur skortur á sorgarviðbrögðum verið merki um hræsni?

Ég get nú ekki alveg verið sammála hvernig hann Illugi Jökulsson tengir hræsni við viðbrögð fólks við voðaverkum eða mannskæðum náttúruhamförum sbr. skrif hans í Blaðinu í dag. Í stuttu máli ber hann saman viðbrögð fólks gagnvart harmleiknum í Virginíu við viðbragðsleysi fólks gagnvart morðum á hundruðum manna í Írak.

Ég tel að mannsálin hljóti að mettast þegar við heyrum ítrekað og yfir langan tíma fréttir af atburðum eins og þessum í Írak. Ef fólk myndi verða harmi slegið með tilheyrandi sorgarviðbrögðum  í hvert sinn sem það heyrir slíkar fréttir myndi það gera fátt annað en að gráta og liggja í þunglyndi. 

Ég tek undir það sem Illugi bendir á að því nær sem atburðirnir gerast því meira snerta þeir okkur. Við hugsum sem svo að víst þetta gat gerst þarna þá gæti þetta gerst hérna. Hvort sem viðbrögð fólks við morðöldinni í Írak eru mikil eða lítil þá tel ég það ekkert eigi skylt við hræsni.  Fólk upplifir sig eðlilega hafa litla stjórn á atburðarrás sem þessari og veit ekki alltaf hvernig það getur sýnt að því er ekki sama. Þetta eru samt ekki hræsnara.  Það sem Íslendingar og aðrar vestrænar þjóðir hafa viljað og geta gert er að sýna samkennd t.d. með því að láta fé af hendi rakna  til þeirra sem eiga um sárt að binda víðsvegar um heiminn.  
 
Ég get einnig tekið undir með Illuga þegar hann talar um áhættuna sem fjölmiðlar taka með því að gera mikið úr atburði eins og þessum í Virgínu.  Í kjölfar slíks voðaverks sem átti sér stað þar fá aðrir ámóta veikir einstaklingar byr undir báða vængi og vilja framkvæma sambærilegan verknað eins og hefur sýnt sig undanfarna daga. Í huga þeirra er byssumaðurinn Cho færður í dýrlingatölu.

Loks segir Illugi að enginn gaumur sé gefinn að því hvað fær unga karla og konur t.d. í Írak til að spengja sig í loft upp með það að markmiði að drepa sem flesta nærstadda. Ég spyr Illuga, hvernig vill hann að við sinnum því?
 


Málið nú fyrir dómstólum. Dómur kveðinn upp 9. maí

Málflutningur hófst í máli Sálfræðingafélags Íslands gegn Samkeppniseftirlitinu í síðustu viku. Málaferli þessi er nokkuð sérstök að því leyti að árið 2000 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisráðherra skyldi ganga til samninga við sálfræðinga vegna niðurgreiðslu á þjónustu sem þeir inna af hendi.

Heilbrigðisráðherra var hins vegar ekki á sama máli og áfrýjaði niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar Samkeppnisstofnunar en sú nefnd klofnaði í afstöðu sinni. Þar sem ekki er hægt að kæra áfrýjunarnefndir átti Sálfræðingafélagið ekki annan kost í stöðunni en að kæra Samkeppniseftirlitið sem þó hafði úrskurðað félaginu í hag.

Þetta er býsna sérkennilega staða. Það eru ekki bara þeir einstaklingar sem óska eftir að leita til sálfræðings sem beittir eru órétti heldur er hér einnig verið að mismuna stéttum. Í 14 ár hafa sálfræðingar reynt að ná eyrum ráðherra Framsóknarflokksins í þessu máli en árangurslaust. Stefna flokksins er nefnilega að ráða sálfræðinga á heilsugæslustöðvar.

En getur einhver séð fyrir sér alla þá sem leita og vilja leita til þeirra fjölmörgu sjálfstætt starfandi sálfræðinga þyrpast inn á heilsugæslustöðvarnar?  Þessi sýn er með öllu óraunhæf ekki einungis vegna þess að heilsugæslustöðvarnar myndu vart anna því að þjónusta þennan hóp sem þýðir enn eitt biðlistavandamálið. Í ofanálag má geta þess að val fólks á sálfræðingi er afar persónubundið.

Við val á sálfræðingi kemur til álita sérhæfing og reynsla sérhvers sálfræðings af því málefni sem skjólstæðingurinn hyggst leita lausna á. Sumir hafa einnig ákveðna skoðun á því hvort þeir vilji leita til kvensálfræðings eða karlsálfræðings og svona mætti lengi telja.

Hið opinbera gefur fólki kost á að velja sér heimilislækni og geðlækni ef því er að skipta og niðurgreiðir þjónustu þeirra.
Af hverju má fólk ekki velja sér sálfræðing á sömu forsendum?

 


Mannasiðir á blogginu

Ég fagna þeirri umræðu sem hafin er um „bloggsiði“. Bloggið er nýr, skemmtilegur og gefandi umræðuvettvangur í íslensku samfélagi sem við viljum ekki að verði dreginn ofan í svaðið af einstaklingum sem jafnvel undir nafnleynd, leyfa sér að veitast að bloggskrifurum með dónaskap og svívirðingum. Sem betur fer sér maður sjaldan slík skrif en þó kemur það fyrir að einstaka aðili fer yfir strikið. Skoðanaskipti þurfa yfir höfuð ekki að verða persónuleg. Ef maður er ekki sammála er engin ástæða til að fara í skítkast. Þeir sem finna sig knúna til að gera slíkt eru vafalaust í einhverri innri kreppu og hafa því þörf fyrir að upphefja sig með því að senda niðrandi og dónaleg skilaboð.
 
Við höfum margrætt um einelti á Netinu en þá oftar en ekki í sambandi við börn og unglinga. Ekki dugir að atast í þeim hvað þetta varðar ef við erum svo engu betri sjálf.
Sýnum gott fordæmi og komum vel fram við hvert annað á þessum vettvangi sem öðrum.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband