Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og enginn Moggi á mánudögum

Öllu starfsfólki Skjásins hefur verið sagt upp.  Ástæðuna segir framkvæmdarstjórinn vera m.a. samdráttur á auglýsingamarkaði sem gerir sjálfstæðum sjónvarpsstöðvum illfært að keppa við ríkisrekna sjónvarpsstöð.

Erum við nokkuð að snúa aftur til fortíðar þegar aðeins ein sjónvarpsstöð var til sem gat ekki sent út öll kvöld vikunnar og þegar aðeins eitt dagblað var gefið út en þó ekki á mánudögum?

Þrátt fyrir hina erfiðu stöðu í samfélaginu verðum við umfram allt að halda í einhverja samkeppni. Ekki má hygla einu fyrirtækinu með ríkisstyrkjum á meðan hitt hefur fátt annað að treysta á en Guð og góðan vilja.

Nú gengur ekki að eiga eitthvert eitt dekurbarn hvað þetta varðar. Við verðum að halda opnum einhverjum valmöguleikum fyrir almenning. Það að geta valið skiptir sköpum ef halda á úti heilbrigðu og sanngjörnu þjóðfélagsumhverfi með vott af frelsisívafi.


Þú ert kannski með krabbamein en það verður haft samband við þig eftir helgi

Líklegast er þetta ekki alveg sagt með þessum orðum en þessi setning  lýsir samt líðan þeirra sem hafa verið í krabbameinsskoðun og þeim tjáð að grunur sé um að ekki sé allt með felldu en að nánari upplýsingar fáist eftir helgi.

Þetta EFTIR HELGI, er martröð og ekki erfitt að ímynda sér hvernig sú helgi á eftir að verða fyrir viðkomandi. Þetta er helgi sem sannarlega verður lengi í minnum höfð.

Þetta er HELGIN sem fjölskyldan sat heima og hugsaði hvort maðurinn með ljáinn væri væntanlegur á heimilið. Helgin sem var gegnsýrð af áhyggjum, örvæntingu, kvíða og skelfilegum ótta um að handan helgarinnar biði dauðadómurinn.

Í gær var grein í Mogganum þar sem greinarhöfundur setti þessa skelfilegu reynslu í orð og lýsti nákvæmlega þessu boðskiptaferli sem virðist enn vera við lýði.

Þarf þetta að vera svona?
Það góða við þetta annars skelfilega boðskiptaferli er að því er hægt að breyta og meira að segja  án mikils tilkostnaðar. Hægt er að gera þetta ferli mun mannlegra og þar með, forða manneskjunni frá sálarkvöl helgarbiðarinnar.

Málið er í raun einfalt.
Fréttirnar um hinn ógnvænlega grun eru færðar manneskjunni á mánudegi.  Þá gefst  færi á að bjóða viðkomandi að koma strax og þiggja frekari upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.  Í  sömu vikunni sem fréttirnar um gruninn eru færðar gefst hugsanlega einnig færi á að fá forstigsniðurstöður úr sýnatökunni þannig  þegar kemur að helgi er manneskjan einhverju nær um hvort hinn illi grunur eigi við rök að styðjast.

Komi það í ljós að viðkomandi er með frumubreytingar eða krabbamein á einhverju stigi þá skiptir öllu máli að andlega þættinum sé tafarlaust sinnt og að hann fái strax allar þær upplýsingar sem hægt er að veita á þessu stigi málsins, að hann fái faglega ráðgjöf og stuðning og sé auk þess komið í samband við viðeigandi tengslanet.

Með þessum hætti þarf enginn að sitja heima heila helgi og bíða upp á von og óvon og finnast hann hafa lítið annað að gera en að undirbúa kveðjustundina.  


Obama í stöðugri lífshættu

Nú þegar sú staðreynd blasir við að Obama gæti orðið næsti forseti BNA er enn meiri ástæða til að óttast um líf hans.

Satt að segja átti ég ekki von á að lifa þá tíma að sjá litaðan einstakling komast svo langt sem Obama hefur tekist að komast hvað þá að hann næði að berja svo fast á dyr forsetaembættis Bandaríkjanna sem hann nú gerir.

Á sérhverjum degi er Obama í lífshættu og það mikilli. Bandaríska þjóðin er einfaldlega ekki komin lengra en það að meðal manna leynast enn hatrammir andstæðingar litaðra. Þetta er fólk á öllum aldri sem getur ekki hugsað sér að litaður maður leiði þjóðina. Þessir aðilar myndu gjarnan vilja sjá Obama drepinn og það sem fyrst.

Að ryðja óæskilegu fólki úr vegi með því að drepa það er svo sem engin nýlunda þarna vestanhafs eins og sagan ber vitni um.

Nú er bara spurning hversu vel tekst að vernda Obama og hversu heppinn hann er. Sjálfur þarf hann að taka hótanir og aðfarir af öllu tagi alvarlega og einfaldlega ekki taka neina sjénsa ef hann ætlar yfir höfuð að lifa.


Vinstri grænir með Samfylkingunni inn í ESB?

Ég á nú eftir að sjá hann Steingrím Sigfússon fara með flokk sinn inn í ESB hvort heldur með Samfylkingunni eða öðrum flokki.

Það virðist hún nafna mín Bergþórsdóttir hins vegar geta séð fyrir sér ef ég skil orð hennar rétt í pistli Moggans í gær sem ber heitið Flokkur í falli.

Kolbrún spáir því í að Sjálfstæðisflokkurinn muni falla í næstu kosningum og að Samfylkingin muni rísa og að það verði hlutskipti hennar að fara í samkrull með Vinstri grænum. Ennfremur segir hún að lopapeysupólitík (Vinstri grænna geri ég ráð fyrir) geti virkað mátulega krúttleg innan ESB en þangað hljóti næsta ríkisstjórn að stefna beina leið.

Hann Steingrímur okkar þarf heldur betur að venda sínu kvæði í kross varðandi skoðun sína á Evrópusambandsaðild ef spádómur og/eða óskhyggja Kolbrúnar á að rætast.

Klukk, klukk: tíu jákvæðir þættir í lífi mínu

 Ég hef verið klukkuð af Ásu Grétu bloggvinkonu minni og auðvitað bregst ég glöð við og skrái tíu atriði í lífi mínu sem ber að fagna og þakka fyrir.:

1.    Mest um vert er að ég hef tvær fætur til að ganga á og hendur til að gera óteljandi hluti með, með öðrum orðum, ég get hreyft mig.

2.    Ég hef lifað tæp 50 ár án STÓR áfalla og þá meina ég áföll sem umbylta öllu lífi manns þannig að stórskaði verður.

3.    Ég er þakklát fyrir að geta lifað við öryggi, að ég á heimili og að hafa hitt manninn minn en hans innlegg í mína tilveru er ómetalegt.

4.    Ég er við ágæta heilsu og finn að með því að hlúa að líkama og sál get ég haft áhrif á að þannig megi það verða sem lengst.

5.    Mér tókst að eignast 2 börn, yndislegar dætur og uppgötvaði einnig að börnin koma ekki endilega eftir pöntun. Þess vegna er ég þakklátari fyrir þessi tvö en orð geta lýst.

6.    Orka, elja, þrautseigja og samkennd með öðrum eru þættir í fari mínu sem ég hef reynt að þroska og nýta sem flestum til góðs.

7.    Ég er ánægð með að hafa náð að beisla hvatvísina sem fylgir gjarnan fólki sem fætt er í merki Hrútsins.

8.    Ég er þakklát fyrir að eiga auðvelt með að vera í góðu skapi.

9.    Ég gleðst yfir sérhverjum degi sem ég vakna til og reyni að muna að þakka fyrir hann þegar ég loka augunum á kvöldin.

10. Ég þakka fyrir öll þau góðu samskipti sem ég við fólk á ýmsum stöðum, í vinnunni Áslandsskóla, við skjólstæðinga mína vítt og breytt, við starfsmenn ýmis konar stofnanna og marga, marga fleiri.

Varpa svo boltanum yfir til Önnu Kristjánsd., Arnars Geirs, og Carlosar.
Góða skemmtun og góða nótt.


 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir í einlægu viðtali á ÍNN í kvöld

Ragnheiður er gestur Í Nærveru Sálar á ÍNN í kvöld kl. 9

Hún ræðir um feril sinn frá kennara til alþingismanns, fótboltann og síðast en ekki síst um sjálfa sig sem manneskju.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir í Í nærveru sálar


Bankastjórar á ráðherralaunum og gæti fagmennsku í ráðningum millistjórnenda

Hvað er eðlilegt og sanngjarnt þegar kemur að launamálum?

Hvaða störf eru það sem við metum svo mikils að greiða eiga fyrir þau hæstu launin í landinu?

Eru það störf ráðherra, alþingismanna eða bankastjóra?

Fyrir mitt leyti finnst mér óeðlilegt að laun bankastjóra ríkisbankanna séu hærri en ráðherralaun.
Er eðlilegt og sanngjarnt ef tekið er mið af umfangi og ábyrgð sem kröfur starfsins gera að bankastjórar ríkisbankanna séu með 1. 7 milljón í laun á mánuði þegar ráðherrar eru með eitthvað í kringum eina milljón krónur á mánuði?

Ég get ekki meðtekið þau rök að ef laun bankastjóranna verði lægri en þetta fáist ekki hæfir aðilar til starfans.

Á Íslandi er aragrúi af fólki með gríðarmikla menntun á sviði peningamála: hagfræðingar og viðskiptafræðingar sem auk þess hafa bæði langa og góða reynslu. Þetta fólk vill margt hvert gjarnan sjá bankastjórastarf á sinni ferilskrá.

Annað sem ég nú velti fyrir mér þegar verið er að skoða allt og alla og það er að nýir bankastjórar og skilanefndir bankanna gæti þess vandlega að velja fólk í stöður millistjórnenda sem hvað hæfast í störfin og forðist eins og þeir mögulega geta að velja vini sína og vandamenn enda þótt þeir séu e.t.v. einnig ágætlega hæfir.

Í ljósi atburða gerir ég ráð fyrir að margir krefjist þess að gætt verði hundrað prósent fagmennsku þegar kemur að ábyrgðarstöðum.


Guðni talar eins og Framsókn hafi hvergi komið nærri

Forysta Framsóknarflokksins og fleiri þingmenn þess flokks tjá sig um þessar mundir fjálglega um fjármálakreppuna og mögulegar orsakir þess að hún skall svo harkalega á íslensku þjóðinni.

Þegar hlustað er á málflutning Guðna Ágústssonar er stundum eins og hann hafi gleymt því að Framsóknarflokkurinn var annar af tveimur ríkisstjórnarflokkum í rúman áratug eða allt þar til samstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar hófst.

Orsakir þess fjármálaástands sem nú ríkir má rekja mörg ár aftur í tímann. Ástæður fyrir hvernig komið er nú eru bæði margar og margslungnar. Mjög margir af fyrrum ráðamönnum og einnig þeir sem eru við stjórnvölinn núna hafa viðurkennt að ýmis konar mistök hafa verið gerð undanfarin ár.  Framsóknarmenn eru ekki undanskyldir þar nema síður sé. Ef rétt er munað var það eitt af aðal kosningaloforðum Árna Magnússonar að opna fyrir 90 prósent íbúðalán. Eins og menn muna fóru bankarnir á flug í kjölfarið enda veitt fullt frelsi án hafta eða takmarkana.

Ef þessi tími er rifjaður upp þá minnist maður þess að Framsóknarmenn voru eins og flestir á þessum tíma hlynntir útrásarhugmyndinni og hvöttu þá sem til þess höfðu burði að sækja fram á erlendri grund.  Þess er ekki að minnast að liðsmenn Framsóknarflokksins hafi varað eitthvað sérstaklega við hættum hvorki tengdri útrás bankanna eða lánafyrirkomulagi hvort heldur innanlands eða erlendis.

Ef Framsókn kallar eftir að menn og stjórnmálaöfl axli ábyrgð þá ættu þeir að byrja á sjálfum sér í stað þess að sitja í  fílabeinsturni og tala eins og þeir hafi hvergi komið nærri þessum aðdraganda. 


Eru bankastjórar ríkisbankanna á ofurlaunum?

Bankastjórar nýju ríkisbankanna a. m.k. Kaupþings er með tæpar tvær milljónir á mánuði. Sumum finnst þetta of mikið í ljósi nýrrar og gjörbreyttrar stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Bankastjórar hinna bankanna, Landsbankans og Glitnis hafa ekki viljað upplýsa hvað þær eru með í laun á mánuði.  Það má gera því skóna að þær séu með svipuð laun og bankastjóri Kaupþings (alla vega þar til annað kemur í ljós, ef það þá kemur í ljós).

Það kann að vera að þetta séu algeng laun hjá forstöðumönnum ríkisfyrirtækja. Fyrir hinn almenna launþega er þetta há upphæð.

Það virkar illa á fjölmarga að forstöðumenn og framkvæmdarstjórar ríkisfyrirtækja neita að upplýsa um laun sín sérstaklega í því árferði sem nú ríkir. Leyndarmál og launung af alls kyns tagi á ekki við nú. Bankarnir þrír sem áður voru í einkaeigu eru nú í eigu almennings. Fólkið í landinu á því rétt á að vera upplýst um launagreiðslu starfsmanna þeirra.

Þess vegna eru það ákveðin vonbrigði að bankastjórar Landsbankans og Glitnis kjósi að halda því leyndu hvað þær fá í mánaðarlaun.  Finnur Sveinbjörnsson hefur upplýst hvað hann hefur á mánuði. Hann má þó eiga það að hann er ekki í neinum feluleik.


Auglýsendur, kíkið á þetta!

Þeir sem vilja auglýsa ódýrt eða ódýrara ættu að skoða auglýsingaverð ÍNN nú þegar hægt er að sjá stöðina um allt land.

 

Tilboð á vikuauglýsingu:

Ódýrasta sjónvarpsauglýsing landsins!

  • 1 sekúnda kostar 600 krónur + vsk
  • 1/2 mínúta kostar 21.000 krónur + vsk
  • 1 mínúta kostar 42.000 krónur + vsk
  • Hver auglýsing er birt 12 sinnum sama sólarhring 
  • Að auki birtist hún 3-4 sinnum helgina á eftir
  • Miðað er við staðgreiðslu
  • Birtist að auki í amk. tveimur þáttum á vef-TV

 

Alveg einstakt tilboð á auglýsingu í lok þáttar eða fyrir hlé:

  • Við setjum inn lógóið þitt ásamt slagorði inn í þáttinn
  • Birtist neðst á skjánum í 15 sekúndur, áður en þáttur endar eða fyrir auglýsingahlé
  • Auglýsingin birtist í viðkomandi þætti bæði í sjónvarpsútsendingu og á netinu
  • Birtist í öllum endursýningum líka
  • Þetta er auglýsing sem enginn missir af

       Samanlagt: kr 10.000 pr. birtingu í þætti (án vsk.)

ÍNN gerir auglýsinguna fyrir þig!

  • Grafík vinnsla: Við búum til auglýsingu fyrir þig alveg frá grunni og notumst við þau lógó eða myndir sem beðið er um.
  • Myndbandavinnsla: Við breytum gömlu auglýsingunni þinni, hvort sem hún er gömul sjónvarps aulýsing eða blaðaauglýsing þá getum við breytt henni í stafrænt form sem hentar nútímasútsendingu í sjónvarpi
  • Hljóðsetning: Við hljóðsetjum! Við setjum tónlist undir auglýsinguna þína og lesum inn á auglýsinguna þann texta sem beðið er um
  • Við erum með græntjalds tæknibúnað

Verðið er eftir samkomulagi!

Nánari upplýsingar í auglýsingasíma ÍNN, sími: 568-1560

Hægt að senda fyrirspurn á: inntv@inntv.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband