Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Fagna nyrri rikisstjorn hedan fra Bulgariu

Mikid ljomandi list mer vel a nyja rikisstjorn og radherrahopinn. Valinn einstaklingur i hverju saeti.
That eru god fjogur ar framundan fyrir okkur Islendinga.
kvedja til bloggvina hedan fra Golden Sands


Sjálfsstæðisflokkur og Samfylking: besti mögulegi kosturinn fyrir þjóðina

Nú eru hjólin farin að snúast í rétta átt.  Nái þessir tveir flokkar að mynda ríkisstjórnarmeirihluta sem ég tel að séu miklar líkur á mun þjóðin verða í góðum málum.  Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hlaut að ljúka nú. Það var vilji kjósenda. Að hundsa svo skýr skilaboð frá kjósendum hefði verið há ávísun á erfiðleika ekki bara fyrir Framsókn heldur einnig síðar meir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Enda þótt einstaka stefnumál séu ólík milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þá er munurinn ekki slíkur að ekki sé hægt að mætast á miðri leið eða finna aðrar viðeigandi lausnir hverju sinni. Að sjálfsögðu mun koma upp ágreiningur endrum og sinnum enda eru engir tveir flokkar ávalt sammála ekki frekar en þeir sem voru nú að láta af stjórnarsamstarfi. Hér er á ferðinni samstarf sem vel getur gengið ef menn vilja láta það ganga. Hindranir, verði þær í vegi, eru vel yfirstíganlegar þegar þessir tveir flokkar eru annars vegar. Þetta er í það minnsta mín trú.

Framundan eru ágæt fjögur ár. Sjórnarandstaðan mun verða öflug en stjórnin ekki síður enda góður meirihluti að baki henni.  Þjóðin mun öll græða á þessari nýju blöndu.


Fyrirsætustörf Lalla Johns

Hver vaktar heimilið þitt? er yfirskrift forvarnarverkefnis Öryggismiðstöðvarinnar. Andlit Lalla Johns, manns sem margsinnis hefur afplánað dóma m.a. fyrir innbrot er notað í auglýsingu til að vekja athygli á að innbrotsþjófar eru á kreiki.

Ég vil taka undir með þeim sem finnst þetta ósmekklegt því sjálfri finnst mér þetta óviðeigandi og óheppilegt. Ekki er erfitt að ímynda sér hver viðbrögðin væru ef t.d. dæmdur nauðgari birtist á auglýsingaplakati sem hefði þann tilgang að hvetja konur til að fara varlega að næturlagi eða forðast ákveðin skuggasund. Svona mætti leika sér með þessa hugmynd og niðurstaðan er alltaf sú sama, þetta er óviðeigandi og óheppilegt.

Fyrir auglýsingastofuna sem að þessu stóð hefur þessi auglýsing skotið í mark og ekki einvörðungu vegna Lalla Johns sem á henni er heldur allri aukaumfjöllun sem hún hefur fengið.

Siðareglur eru mikilvægar öllum stéttum og þar er auglýsingatéttin engin undantekning. Nú er mér ekki kunnugt hvort þessi stétt eigi vel útfærðar sigðareglur. En séu þær til þá vil ég hveta auglýsingafólk til að skoða þær reglulega og fylgja þeim.

Hvað sem þessu öllu líður þá hef ég ákveðið umburðarlyndi gagnvart ungu fólki í þessari grein. Þetta er oft metnaðarfullt og kappsamt hugsjónafólk. Þeir sem áttu hugmyndina að þessu töldu sig án efa vera með brilliant hugmynd. Þeirra markmið var örugglega göfugt og með það eitt að leiðarljósi að vara fólk við innbrotsþjófum.
En það eru takmörk fyrir öllu.


Stjórnarviðræður: Spennan færist í vöxt

Ég hlakka til að vakna á hverjum morgni svo spennt er ég að heyra fréttir af ríkisstjórnarviðræðunum. "Enn er ekkert öruggt í stjórnarviðræðum" les maður á síðum dagblaðanna. Oftast heyrir maður þó að líkurnar á áframhaldandi stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar séu all verulegar, já og jafnvel bara heilmiklar.

Ég met það þó svo að enn getur allt gerst í þeim efnum. Það sem mér finnst þó hljóti að vera alveg skothelt er að Sjálfstæðisflokkurinn verður í ríkisstjórn og Geir Haarde verður forsætisráðherra. En hvaða annar flokkur eða aðrir flokkar ef því er að skipta komast um borð finnst mér enn óráðið.  Auðvitað eru þetta allt getgátur en það er einfaldlega gaman að velta vöngum yfir þessu.

Ég held jafnframt að það sé mjög gott að láta nokkra daga líða nú áður en tekin er endanleg ákvörðun í þessu efni. Hlutirnir eru svona að mjatlast, þjóðin að átta sig á kosningarniðurstöðunum og alþingismenn sem og aðrir að hvíla sig eftir annasama helgi. Framsóknarmenn eru líka að melta þennan ósigur og skoða hvað þeir vilja gera með hann. Þess vegna tel ég það vera af hinu góða ef ekkert verður neglt niður næstu daga. Fjölmiðlafólkið virðist þó ekki hafa mikla þolinmæði að bíða frétta. Þeir eru eins og mý á mykjuskán í kringum formennina ef þeir svo mikið sem sjást í dyragættinni. Við verðum bara að vera þolinmóð, þetta kemur allt og verður fyrir víst á einn eða annan veg.  


Botnar einhver í þessu kosningarkerfi?

Í ljós hefur komið að íslenska kosningarkerfið er stórgallað.
Í síðustu kosningum komu þessi gallar ekki í ljós en núna birtast á því alls kyns vankantar. Það eru sjálfsagt aðrir færari en ég til að reifa þessa vankanta en eins og ég sé þetta þá er ekki jöfnuður milli flokka og jöfnunarsætin deifast með furðulegum hætti.  Misvægi er milli atkvæða  t.d. gilda atkvæði í norðvesturkjördæmi næstum tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu.  
Undarlegt hlýtur að teljast að Samfylkingin fékk 5 þingmenn í Rvk. norður en aðeins 3 í Rvk. suður en samt eru álíka margir sem greiða flokknum atkvæði í báðum þessum kjördæmum.  

Líklega er bara best að landið allt verði að einu kjördæmi. Það myndi einfalda mikið og er líklegt til að koma út með sanngjarnari hætti.


Sjálfstæðisflokkurinn og VG sigurvegarar. Hvað svo?

Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru sigurvegarar þessarar kosninga. Okkar góði og skemmtilegi Ómar hefði átt að láta kyrrt liggja og ekki að bjóða fram ef hann vildi ná ætlunarverki sínu það er að fella ríkisstjórnina.  Frjálslyndir hefðu komið enn sterkar út hefði þessi klofningur milli Guðjóns og félaga og Margrétar Sverrisdóttur og hennar stuðningsmanna ekki orðið.

Svona eru nú mörg "hefði þetta og hefði hitt" fyrirbærin.  Aðdragandi kosninganna og allt það ferli er allt fullt af einstökum tilviljunum og ólíkum ákvörðunum ólíkra einstaklinga á ólíkum tímum. Þjóðfélagsdýnamíkin er í algleymingin einmitt nú.

Hins vegar sé ég fyrir mér að nú getur í sjálfu sér ýmislegt gerst hvað varðar ríkisstjórnarsamstarf. Sjálfstæðisflokkurinn hefur afburðagóða samningsstöðu en ætti ekki bíða lengi að mínu mati til að ganga frá þessum málum.  Það sem gerist núna er að hinir flokkarnir fara að hugsa um eigin hag og frama og er því mikil hætta á að fólk fari að mynda óformleg bandalög svona "in case" ef má orða það svo. 

Hugsunin um Framsókn, VG og Samfylkinguna í eina sæng er t.d. staða sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki hrifinn af. Áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf Sjálfsstæðisflokks og Framsóknar virðist heldur ekki líklegt til að gera sig sökum slæmra útkomu Framsóknar. Ef ríkisstjórnin heldur áfram í þeirri mynd sem hún hefur verið óttast ég að tíminn framundan gæti verið mjög erfiður fyrir alla aðila. Stjórnarandstaðan og margir í samfélaginu munu ekki linna látum og árásir og átök yrðu daglegt brauð.  Aðalatriðið er að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn og Geir H. Haarde verði  forsætisráðherra. Nú er bara að finna bestu mögulegu samsetninguna og því fyrr því betra.


Allir á kjörstað sem vettlingi geta valdið ...já og koma svo....!

Kosningarrétturinn er einn mikilvægasti einstaklingsréttur sem fyrirfinnst í lýðræðislegum þjóðfélögum.  Ég vona svo sannarlega að fólk noti þennan rétt sinn. Þeir sem eru að stíga upp úr flensu verða bara að búa sig vel, skjóta sér inn í heitan bíl og láta aka sér upp að dyrum á kjörstað.

Það eru afar fáar afsakanir fyrir að kjósa ekki og hafa þær þá einna helst að gera með alvarleg veikindi eða fötlun. Enda þótt réttur til að greiða atkvæði sé mikilvægur hverjum og einum má ferð á kjörstað ekki ógna heilsu eða lífi eins eða neins. En allir þeir sem vettlingi geta valdið i orðsins fyllstu merkingu drífi sig nú af stað ef þeir hafa ekki þegar kosið.


Söngvakeppnin. Austur-Evrópuþjóðirnar styðja hver aðra.

Svona fór það með undanúrslitin. Eurovision hefur ekki lengur pláss fyrir noðurlandaþjóðirnar. Austur-Evrópuþjóðirnar hafa tekið yfir. Hvorki Ísland, Noregur né Danmörk komust áfram þrátt fyrir þrusugóð lög og þá sérstaklega íslenska lagið.

Eiríkur og félagar voru frábærir, óaðfinnanlegir en það greinilega skiptir engu máli. Þetta telst varla áfall því það er svo áberandi hvaða öfl eru þarna að verki. Lagið virðist bara litlu eða jafnvel engu máli skipta.
Ég velti fyrir mér hvort við eigum að vera að taka þátt í þessari keppni yfir höfuð? Hún kostar okkur mikið fé. Auðvitað er þetta gaman en þegar maður upplifir einhvernveginn að hér er ekki um alvöru keppni að ræða þá fer allur ljóminn af þessu.


Jibbííí, við unnum mál okkar í Héraðsdómi í dag. Til hamingju sálfræðingar!

Þetta er stór dagur í sögu Sálfræðingafélags Íslands.

Eins og ég hef margskrifað um áður bæði í greinum og hér á blogginu þá var mál okkar fyrir dómstólum. Í dag var kveðinn upp dómur Sálfræðingafélaginu í hag.

Úrskurður áfrýjunarnefndar var felldur úr gildi.  Úrskurðurinn varðaði ógildingu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gengi til samninga við sálfræðinga um þátttöku Tryggingastofnunar í viðtalsmeðferð. Sá úrskurður stendur sem sagt óbreyttur og kveður á um að heilbrigðisráðherra skuli ganga til samninga við sálfræðinga með sama hætti og hann hefur gert við geðlækna.

Nú verður spennandi að sjá hvað hún Siv okkar vill gera. Vill hún áfrýja?
Hún er nýlega búin að gera þjónustusamning m.a.við tannlækna og eigendur og þjálfara leiðsöguhunda. En hvað vill hún gera fyrir þá sem þarfnast sálfræðiþjónustu? Nú er lag Siv Smile

Hér er dómurinn í
 fylgiskjali  en hann má einnnig skoða á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur
http://domstolar.is/


Blaðið SILKI...fyrir stelpur kom úr prentun í dag

Fimm stúlkur sem eru á þriggja ára viðskiptabraut í Verzlunarskólanum hafa gefið út blað sem ber heitið Silki...fyrir stelpur. Blaðið er að sjálfsögðu bleikt á litin, pappírinn glansandi og myndirnar skýrar og litríkar.

Þetta er verkefni sem stúlkurnar gera í áfanga í rekstrarhagfræði. Verkefnið fól í sér að þær stofnuðu fyrirtæki, söfnuðu auglýsingum fyrir allt að kr. 400.000 þúsund og gáfu út þetta blað.

Efnisyfirlitið ber sannarlega vott um að þarna eru unglingsstúlkur á ferð. Sem dæmi er að finna í blaðinu umfjöllun um tísku, grein um sjálfsmynd, kynjamismun og samskipti kynjanna, viðtal við Ragnhildi Steinunni, og reynslusögu ungra stúlku. Einnig er umfjöllun um kosningarnar sem ber yfirskriftina X-? en þar eru fulltrúar flokkanna spurðir af hverju ungt fólk á að kjósa þennan flokkinn fremur en hinn osfrv.

Margt fleira áhugavert er að finna í þessu blaði. Umfjöllun og vangaveltur um stráka er hvað mest áberandi. Sem dæmi má sjá í efnisyfirlitinu yfirskriftir eins og Hvað vilja strákar og hver er þín strákategund?  Eins er kafli um 20 leiðir til að elska sjálfan sig og af hverju megrun?
Eitt og annað má síðan lesa um kynlíf,  hvort það sé hollt og fleira í þeim dúr.

Til hamingju með þetta Rína Alma, Elín Ösp, Magnea Jónína, Harpa Rún og Eva Sigurbjörg.
Hægt er að nálgast eintak með því að senda skeyti á harrgla@verslo.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband