Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Vinsældir bloggsíðna eru í umræðunni í dag og er tilefnið líklega að heimsóknir inn á síðu sjónvarpsþulunnar Ellýjar hafa rokið upp og slegið við síðu Sigmars sem um nokkurn tíma hefur verið á toppnum. Hvað er það sem ræður vinsældum bloggsíðna?
Ýmsu hefur verið fleygt fram til að útskýra þetta og má fyrst nefna að þeir sem trjóna á toppnum eru gjarnan þekktir einstaklingar í þjóðfélaginu, andlit sem landinn kannast við vegna þess að þau sjást iðulega á skjánum. Eins hlýtur efni bloggsins að skipta miklu máli í þessu tilliti. Sum blogg eru afar persónuleg á meðan önnur fjalla einungis um málefni, jafnvel háfræðileg málfni.
Ekki er ósennilegt að þau blogg sem eru með persónulegu ívafi laði frekar lesendur að einungis vegna þess að fólk er almennt séð dálítið forvitið í eðli sínu um hag annarra. Þau blogg sem fjalla um viðkvæm tilfinningarleg málefni s.s. alvarleg veikindi virðast einnig laða lesendur að. Tvennt kemur þar til, annars vegar forvitni og hins vegar vill fólk gjarnan sýna stuðning.
Bloggsíða Ellýjar er sögð vera með erótísku ívafi. Það fellur greinilega mörgum vel enda er þessi þáttur talinn vera sá sem hefur átt hvað mestan þátt í þessum fjölmörgum heimsóknum inn á síðunna hennar.
Hvað sem þessu líður þá er þetta skemmtileg sálfræðileg pæling og enn skemmtilegra væri ef einhver sæi sér fært að gera á þessu könnun.
Hvað er sýslumaðurinn á Akureyri að hugsa?
1.5.2007 | 14:51
Sýslumaðurinn á Akureyri veitir leyfi fyrir sinubrunaíkveikju en kemur svo í sjónarvarpsviðtal og lýsir sig andvígan sinubruna.
Er ég að misskilja eitthvað í sambandi við þetta?
Var ekki viðtal í hádegisfréttum við sýslumanninn þar sem hann lýsti því hversu skaðlegt það væri að anda þessum reyk að sér en samt gefur hann leyfi fyrir þessu?
Stundum hefur verið vísað til sinubrennslu sem náttúruhamfara en sinubrennsla er mikið oftar hamfarir af mannavöldum vegna þess að einhver kveikir í. Flokka má sinubrennslu því frekar sem glæp gegn náttúrunni. Í þessu tilviki fyrir norðan veitti sýslumaðurinn leyfi fyrir íkveikjunni. Í mörgum tilvikum er kveikt í sinu í leyfisleysi. Sá sem það gerir hefur ekki þurft að sæta neinni ábyrgð. Er það ekki alveg ljóst nú orðið að sinubrennsla er skaðleg að öllu leyti?
Sumir bændur þráast enn við og fullyrða að sinubrennsla sé til góðs. Það virðist veita þeim svo mikla gleði að sjá grænt strá vaxa upp af sviðinni jörðinni. En við brunann tapast mikilvæg næringarefni úr sverðinum og mikið af lífrænu efni tapast einnig. Það er augljóst að fæða fyrir milljónir smárra lífvera fer forgörðum þegar sinueldar brenna, orka tapast úr vistkerfinu og er ekki lengur tiltæk lífríkinu. Með sinubruna má því gera ráð fyrir að gróðurfarið breytist, því að trjágróður þrýfst ekki þar sem brennt er. Mengun af reyknum er auk þess stórhættuleg öndunarfærunum
Vonandi verður það eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar í haust að mæla fyrir frumvarpi til laga um að leyfisveitingar fyrir sinubruna verði með öllu óheimilar.
Biðlistavandinn á Bugl úr sögunni 2008
1.5.2007 | 10:15
Nú glittir í að biðlistarvandinn á Bugl kunni að verða úr sögunni en árið 2008 er stefnt að því að taka í notkun nýja byggingu göngudeildar fyrir Bugl.
Því er ekki að neita að biðlistarvandinn hefur verið þrálátur í heilbrigðiskerfinu og á það ekki einvörðungu við um Bugl. Mest hefur verið rætt um biðlista stofnana sem þjónusta börn og unglinga og einnig biðlista hjúkrunarheimila. Klassískur biðlistavandi er á stöðum eins og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, hjá Umsjónarfélagi einhverfra sem lengi hefur barist fyrir úrbótum fyrir meðlimi sína.
Fram til þessa hafa aðgerðir til bóta ekki skilað sér sem skyldi enda sést það best á því að biðlistarnir hafa haldið áfram að lengjast. Stofnanir hafa verið settar á laggirnar til að létta á biðlistum annarra stofnana. Gott dæmi um það er Miðstöð heilsuverndar barna sem taka átti kúfinn af Bugl. Nú eru biðlistar á báðum stöðum, eins árs bið til að komast að á Bugl og a.m.k. hálfs árs bið hjá Miðstöð heilsuverndar barna.
Úr þessu er brýnt að bæta og á allra næstu árum er fyrirséð að stórbreytinga er að vænta sem mun vonandi leiða til þess að biðlistarvandinn verði endanlega úr sögunni. Fyrsti áfangi nýrrar göngudeildar verður tekinn í notkun á næsta ári. Þær lausnir sem liggja fyrir á biðlistarvandanum eru því ekki neinar skammtímalausnir heldur varanlegar umbætur á langvarandi og þrálátu vandamáli.