Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ég fékk þessa skemmtilegu könnun senda frá samstarfsfélaga

Hér er einföld könnun sem gæti hjálpað þeim sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi kosningarnar á laugardaginn. Eins og allar kannanir þarf að taka niðurstöður með vara enda er þetta aðallega hugsað til gamans. 
Tekur aðeins 2. mínútur að svara og niðurstaðan birtist strax.

http://xhvad.bifrost.is/ <http://xhvad.bifrost.is/>

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að skorast undan

Sálfræðingafélag Íslands lagði spurningar fyrir alla stjónmálaflokka sem bjóða sig fram nú.
Þær voru eftirfarandi:

1. Hver er afstaða þíns flokks til þess að Tryggingarstofnun taki þátt í kostnaði sjúklinga í þjónustu sálfræðinga á eigin stofu á sama hátt og gert er um sambærilega þjónustu geðlækna?

2. Fyrir hvaða aðgerðum mun þinn flokkur beita sér innan geðheilbrigðiskerfisins til að greiða aðgang sjúklinga að þeirri þjónustu sem þeir óska eftir,  komist hann til áhrifa eftir kosningar?

Í svari frá Sjálfstæðisflokknum kemur m.a.  fram að flokkurinn muni leggja áherslu á fjölbreytt framboð þjónustu, gott aðgengi að upplýsingum um hana og að fagsstéttum verði ekki mismunað hvað varðar þjónustusamninga við Tryggingarstofnun ríkisins. Í svarinu segir að þess vegna telji  Sjálfstæðisflokkur að  samningur við sálfræðinga komi til greina.  Ennfremur segir í svari frá flokknum að brýnt sé að börnum með geðræn einkenni standi til boða sérhæfð meðferð og stuðningur í heimabyggð.

Ekki hefur borist svör frá öðrum flokkum ennþá


Velferðarmálin enn á toppnum

Það eru velferðarmálin sem trjóna á toppnum þegar fólk er spurt hvaða málaflokkar séu mikilvægastir þegar kemur að því að greiða atkvæði. Ef velferð á að ríkja þurfa atvinnumálin að vera í lagi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt höfuðáherslu á að hlúa að atvinnumálum og nýsköpun. Öll þessi mál eru liður í einni stórri keðju.  Ef einn hlekkinn vantar slitnar keðjan. Grunnforsenda þess að velmegun geti ríkt er að fólk hafi launaða vinnu og helst vinnu við sitt hæfi. Atvinnuleysi er hugtak sem við höfum varla heyrt nefnt í mörg ár og þurfum ekki að óttast að beri á góma verði haldið áfram á sömu braut.

Dramb er versti óvinur stjórnmálamannsins

Dramb er það persónueinkenni sem klæðir stjórnmálamenn hvað verst og auðvitað bara allt fólk og gildir þá einu í hvaða stöðu það er. En auðvitað er þetta oftast nær persónulegt mat hvers og eins og upplifanir fólks á öðrum afar mismunandi t.d. eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni.

Að mínu mati eru þó allir formenn þeirra stjórnmálaflokka sem nú bjóða fram lausir við yfirlæti.  Sumir þeirra eru einmitt þvert á móti, auðmjúkir og lítillátir. Formaður Sjálfstæðisflokksins fer þar fremstur enda sýna skoðanakannanir að hann er vel liðinn og flestir treysta honum hvað best fyrir forsætisráðuneytinu.

Upp á síðkastið hefur mikið verið fjallað um Jónínu Bjartmarz og viðtalið sem Helgi Seljan tók við hana. Mér finnst að Jónína hefði mátt sýna eilítið meiri yfirvegun í þessu máli.  Í raun er ekkert óeðlilegt við það að fólki hafi fundist málið þess eðlis að vel gæti verið að tengsl hennar og stúlkunnar hafi haft áhrif á umsóknarferil hennar um ríkisborgararétt.

Ég hefði ráðlagt henni að taka þessu öllu með stakri ró og einfaldlega vinna með fjölmiðlum til að sýna fram á að hún hafi hvergi komið nærri þessu eins og hún hefur ætíð haldið fram.


Hvað gerir sum blogg vinsælli en önnur? Er það kannski drama og erótík?

Vinsældir bloggsíðna eru í umræðunni í dag og er tilefnið líklega að heimsóknir inn á síðu sjónvarpsþulunnar Ellýjar hafa rokið upp og slegið við síðu Sigmars sem um nokkurn tíma hefur verið á toppnum. Hvað er það sem ræður vinsældum bloggsíðna?

Ýmsu hefur verið fleygt fram til að útskýra þetta og má fyrst nefna að þeir sem trjóna á toppnum eru gjarnan þekktir einstaklingar í þjóðfélaginu, andlit sem landinn kannast við vegna þess að þau sjást iðulega á skjánum. Eins hlýtur efni bloggsins að skipta miklu máli í þessu tilliti. Sum blogg eru afar persónuleg á meðan önnur fjalla einungis um málefni, jafnvel háfræðileg málfni.

Ekki er ósennilegt að þau blogg sem eru með persónulegu ívafi laði frekar lesendur að einungis vegna þess að fólk er almennt séð dálítið forvitið í eðli sínu um hag annarra. Þau blogg sem fjalla um viðkvæm tilfinningarleg málefni s.s. alvarleg veikindi virðast einnig laða lesendur að. Tvennt kemur þar til, annars vegar forvitni og hins vegar vill fólk gjarnan sýna stuðning.

Bloggsíða Ellýjar er sögð vera með erótísku ívafi. Það fellur greinilega mörgum vel enda er þessi þáttur talinn vera sá sem hefur átt hvað mestan þátt í þessum fjölmörgum heimsóknum inn á síðunna hennar.

Hvað sem þessu líður þá er þetta skemmtileg sálfræðileg pæling og enn skemmtilegra væri ef einhver sæi sér fært að gera á þessu könnun.


Er Samfylkingin að daðra við Sjálfstæðisflokkinn?

Ég er ekki frá því að mér finnist að Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin sé að undirbúa jarðveginn fyrir möguleika á ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst hún hafa að verið að gefa ýmis merki um að slíkt samstarf gæti verið þeim þóknanlegt eða alla vega skárra en að sitja hjá enn eitt kjörtímabil.  
Þetta er  ”If you can´t beat them,  join them syndromið”.
Reyndar aðskilur viðhorf og skoðanir til ESB þessa tvo flokka, alla vega eins og sakir standa og jú einnig ýmislegt fleira.  Þrátt fyrir málefnalegan ágreining er ég ekki frá því að Samfylkingin sé að teygja sig í áttina að Sjálfstæðisflokknum með því að sýna mildileg viðbrögð gagnvart einstaka máli/málum sem Sjálfstæðisflokkurinn (og Framsókn)  hefur verið að vinna að nú undanfarið.

Þetta var talsvert  áberandi þegar formenn flokkanna voru spurðir um viðbrögð hvað viðkom mögulegu varnarsamstarf Íslendinga og Norðmanna.  Viðbrögð Ingibjargar voru ljúf, henni fannst eðlilegt og raunhæft að skoða þetta mál með Normönnum á meðan Steingrímur J. var eins og snúið roð í h….
Vinstri grænir eru ekki í neinu tilhugalífi með Sjálfstæðisflokknum. Steingrímur fórnar ekki hugsjóninni jafnvel þótt það þýði að hann verði alla ævina i stjórnarandstöðu.  Hann kann ekki að leika neina diplómatíska leiki sem er jú sannarlega virðingarvert en kannski ekki alltaf skynsamlegt.  Steingrímur bregst oft við á tilfinningarlegum nótum og leiðir hugann ekkert að því hvort það kunni að skemma fyrir VG síðar meir. 


Hvað er sýslumaðurinn á Akureyri að hugsa?

Sýslumaðurinn á Akureyri veitir leyfi fyrir sinubrunaíkveikju en kemur svo í sjónarvarpsviðtal og lýsir sig andvígan sinubruna.
Er ég að misskilja eitthvað í sambandi við þetta?
Var ekki viðtal í hádegisfréttum við sýslumanninn þar sem hann lýsti því hversu skaðlegt það væri að anda þessum reyk að sér en samt gefur hann leyfi fyrir þessu?

Stundum hefur verið vísað til sinubrennslu sem náttúruhamfara en sinubrennsla er mikið oftar hamfarir af mannavöldum vegna þess að einhver kveikir í. Flokka má sinubrennslu því frekar sem glæp gegn náttúrunni. Í þessu tilviki fyrir norðan veitti sýslumaðurinn leyfi fyrir íkveikjunni.  Í mörgum tilvikum er kveikt í sinu í leyfisleysi. Sá sem það gerir hefur ekki þurft að sæta neinni ábyrgð. Er það ekki alveg ljóst nú orðið að sinubrennsla er skaðleg að öllu leyti?

Sumir bændur þráast enn við og fullyrða að sinubrennsla sé til góðs. Það virðist veita þeim svo mikla gleði að sjá grænt strá vaxa upp af sviðinni jörðinni.  En við brunann tapast mikilvæg næringarefni úr sverðinum og  mikið af lífrænu efni tapast einnig. Það er augljóst að fæða fyrir milljónir smárra lífvera fer forgörðum þegar sinueldar brenna, orka tapast úr vistkerfinu og er ekki lengur tiltæk lífríkinu. Með sinubruna má því gera ráð fyrir að gróðurfarið breytist, því að trjágróður þrýfst ekki þar sem brennt er. Mengun af reyknum er auk þess stórhættuleg öndunarfærunum

Sinubruni er skemmdarverk. Það ætti að varða við lög að kveikja í sinu enda atferlið stórhættulegt öllu umhverfinu. Eftir hverju erum við að bíða? Þarf stórslys að eiga sér stað í tengslum við sinubruna áður en næst að banna þetta alfarið?

Vonandi verður það eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar í haust að mæla fyrir frumvarpi til laga um að leyfisveitingar fyrir sinubruna verði með öllu óheimilar.
 

 


Biðlistavandinn á Bugl úr sögunni 2008

Nú glittir í að biðlistarvandinn á Bugl kunni að verða úr sögunni en árið 2008 er stefnt að því að taka í notkun nýja byggingu göngudeildar fyrir Bugl.
Því er ekki að neita að biðlistarvandinn hefur verið þrálátur í heilbrigðiskerfinu og á það ekki einvörðungu við um Bugl.  Mest hefur verið rætt um biðlista stofnana sem þjónusta börn og unglinga og einnig biðlista hjúkrunarheimila. Klassískur biðlistavandi er á stöðum eins og
Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, hjá Umsjónarfélagi einhverfra sem lengi hefur barist fyrir úrbótum fyrir meðlimi sína. 

Fram til þessa hafa aðgerðir til bóta ekki skilað sér sem skyldi enda sést það best á því að biðlistarnir hafa haldið áfram að lengjast. Stofnanir hafa verið settar á laggirnar til að létta á biðlistum annarra stofnana. Gott dæmi um það er Miðstöð heilsuverndar barna sem taka átti kúfinn af Bugl. Nú eru biðlistar á báðum stöðum, eins árs bið til að komast að á Bugl og a.m.k. hálfs árs bið hjá Miðstöð heilsuverndar barna.

Úr þessu er brýnt að bæta og á allra næstu árum er fyrirséð að stórbreytinga er að vænta sem mun vonandi leiða til þess að biðlistarvandinn verði endanlega úr sögunni. Fyrsti áfangi nýrrar göngudeildar verður tekinn í notkun á næsta ári. Þær lausnir sem liggja fyrir á biðlistarvandanum eru því ekki neinar skammtímalausnir heldur varanlegar umbætur á langvarandi og þrálátu vandamáli.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband