Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Blogg er ekki eintal

Í tilefni fyrsta meiðyrðadómsins sem nú er nýfallinn vegna skrifa á bloggsíðu.

Það er óhætt að segja að almennt séð hefur það tíðkast talsvert að finna megi meiðyrði af öllu tagi  á Netinu: níð, rógburð, rætnar athugasemdir þar sem sá aðili sem meiðyrðin beinast að er nafngreindur. 

Skrif sem þessi eiga sér alls kyns upphaf. Stundum koma þau  í kjölfar beinna samskipta aðila á blogginu eða annars staðar, deilna eða skoðanaskipta. Einnig eru dæmi um að slík skrif beinist að einstaklingum sem þekkja ekkert til þess sem lætur hin neikvæðu ummæli falla og hafa aldrei átti í neinum samskiptum við viðkomandi níðskrifara.

Hvernig svo sem tengslum er háttað milli aðila eða hver hvatinn er að meiðyrðaskrifunum þá er þessi dómur héraðsdóms vandarhögg á bloggheiminn og áminning til okkar allra að ganga varlega um þessar dyr.  
 


Pókervinningurinn skattskyldur eða hvað?

Birkir Jón þingmaður Framsóknarflokksins tók þátt í skipulögðu fjárhættuspili í Reykjavík eins og orðað er í Fréttablaðinu í dag.
Birkir athugar vonandi hvort hann hljóti ekki að verða gefa vinninginn (sem sagður er stór) upp til skatts nema að hann láti hann renna til góðgerðarmála. Smile

Birkir Jón, eins og annað fullorðið fólk getur í sjálfu sér gert hvað sem er svo framarlega sem það skaðar ekki aðra og varðar ekki við lög. Eins og hann sjálfur segir að þar sem hann stundar þetta ekki sér til framfærslu eða hefur starfa af þessu (hann er jú þingmaður) þá er ekki um lögbrot að ræða.  Samt segir í frétt um þetta að lögreglan hafi nokkrum sinnum haft afskipti af skipulögðu pókerspili eins og því sem Birkir Jón tók þátt í.

Einhver mótsögn virðist því nú vera í þessu þ.e. ekki lögbrot en samt er lögreglan að hafa afskipti af þessu.  Líklega er þetta á gráu svæði, alla vega er einhver vandræðagangur með þetta sem sannarlega er vert fyrir löggjafann að skoða.

Í kjölfarið skiptir það nú Framsóknarþingmennina miklu máli að löggjafinn fari yfir þetta mál með lagabreytingar í huga. Þetta þarf að skoða að mati Birkis Jóns og þá einna helst í tengslum við félagsleg vandamál sem af spilamennskunni kunna að leiða.

Við eigum þátttöku Birkis Jóns í skipulögðu fjárhættuspili því að þakka að Framsóknarmenn eru vaknaðir til meðvitundar um málefnið.


Össur ræðst á Gísla Martein

Manni setur hljóðan að hlusta á þá útreið sem Gísli Marteinn, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fær hjá Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar.

Hvað vakir fyrir Össuri með þessum skrifum sem hreinlega virðast sett fram í þeim tilgangi einum að jarða pólitískan feril Gísla Marteins?

Samkvæmt fréttum hefur engin viljað tjá sig um þessi ummæli og Gísli Marteinn sjálfur virðist heldur ekki hafa þörf fyrir varnir.

Af hverju er Össuri svona uppsigað við Gísla Martein fyrir utan það að honum kann að hafa mislíkað aðkoma hans að ákvörðun um að fækka mávum við Tjörnina?

Sundagöng í Gufunesi óhagstæð þeim sem búa í Grafarvogi og Mosfellsbæ

Ef skoðaðar eru myndrænt,  annars vegar þá tillögu að byggja hábrú yfir Elliðavoginn með stefnu á Hallsveg og hins vegar þá tillögu að Sundabraut verði lögð í göng frá Laugarnesi í Gufunes, kemur í ljós að sú síðari hlýtur að vera öllu óhagstæðari þeim sem búa í Grafarvogi og Mosfellsbæ.
Báðar tillögurnar eru vissulega hannaðar með það markmið í huga að létta á gríðarlegum umferðarþunga og þá ekki hvað síst á Vesturlandsvegi og Miklubraut.

Fyrir þessa íbúa skiptir máli hvar leiðin yfir Kleppsvík liggur. Tillagan sem borgarráð hefur nú samþykkt leiðir til þess að margir vegfarendur þurfa að taka á sig krók aftur til norðurs ætli þeir inn í Sundagöng. Verði þessi tillaga að veruleika eins og nú lítur út fyrir myndi það ekki koma á óvart að þessir ökumenn veldu frekar að halda áfram að aka Vesturlandsveginn og Miklubraut sem þýðir einfaldlega að umferðarþungi á þeim vegum minnkar lítið.

Hugmyndin um brú yfir Elliðavoginn með stefnu á Hallsveg hlýtur því að hafa hugnast Grafarvogsbúum og íbúum Mosfellsbæjar mun betur en þessi sem nú liggur á borðinu. Þess utan finnst mörgum svona, ef séð út frá fagurfræðilegu sjónarmiði að brú hefði vinninginn yfir göng, alla vega í þessu umhverfi.

Ef af hverju var hætt við hábrú yfir Elliðavoginn?
Eins og fram hefur komið eru margir kostir þess að setja Sundabraut í göng og hefur í því sambandi verið nefndir þættir eins og umferðaröryggi, hávaðamengun og betri stjórnun svifryksmengunar.

En vegna lykkju eða króks sem vegfarendur þurfa að taka, ætli þeir sér inn í Sundagöngin í Gufunesi má allt eins búast við því að umferðarþungi haldi áfram að vera mikill um Vesturlandsveg og Miklubraut.  Ef sú verður raunin er markmiðinu líklegast aðeins náð að hluta. 


Áhrif auglýsinga, ólíkar upplifanir.

Áhrifin sem auglýsingar hafa okkur eru eflaust mjög fjölbreytileg. 
Þær auglýsingar sem nú er verið að sýna um „mjólk“ sem dæmi, finnst mér persónulega alveg ómögulegar.  Ég drekk ekki mikla mjólk öllu jafnan en eftir að hafa horft á auglýsingu frá mjólkurframleiðendum (Muuu) sem nú ganga kvöld eftir kvöld um mjólk,  langar mig síst af öllu í mjólk. Þær hafa einfaldlega neikvæð áhrif á mig .

Talandi um aðrar auglýsingar þá langar mig að nefna auglýsingar frá Umferðarstofu. Þær ganga reyndar út á allt annað en mat og drykk heldur eru að minna á aðgát og varkárni í umferðinni. Auglýsingar frá Umferðastofu hafa mér oftast nær þótt vera mjög góðar. Þær hitta einhvern veginn í mark, fá mig og vonandi sem flesta til að hugsa um mikilvægi aðgátar í umferðinni og mögulegar afleiðingar glæfra,- og ölvunaraksturs sem dæmi.

Auglýsingar almennt séð eru sannarlega stór hluti af lífi okkar. Við sjáum þær daglega í öllum blöðum og horfum á fjölmargar í sjónvarpinu á hverju kvöldi.  Ég er þess fullviss að mikið er lagt í hugmyndavinnu og gerð þeirra og markmiðið er ávalt að ná til neytandans/hlustandans.
En stundum, alla vega hjá sumum, virka þær þveröfugt.


Að standa við gerða samninga

Ég hef verið að reyna að setja mig inn í þetta mál með Laufás í Eyjafirði.  En þar standa leikar þannig að sonur fyrrverandi prests, séra Péturs Þórarinssonar heitins vill ekki standa við gerðan samning sem kveður á um að hann geti stundað búskap á Laufási þar til faðir hans léti af prestskap.

Í fréttinni segir að eftir að séra Pétur lést óskar sonur hans eftir því að búa áfram á jörðinni. Kirkjuráð samþykkti hins vegar, til að koma á móts við hann, að beina þeim tilmælum til stjórnar prestssetra að honum yrði boðinn fjögurra ára leigusamningur án hlunninda en jafnframt var þess krafist að hann myndi flytja húsið af jörðinni eins og áður hafði verið um samið.

Húsið hafði hann fengið leyfi til að byggja fyrir sig og fjölskyldu sína sem er óvenjulegt sbr. reglur sem kveða á um að þegar prestskipti verða á prestssetrum taki nýr prestur við allri jörðinni og hlunnindum sem henni fylgja. Þess vegna hafði húsið verið byggt þannig að auðvelt er að flytja það.

Án þess að vilja gera lítið úr tilfinningarlegu gildi  og umfangi búskapar sonar Péturs og fjölskyldu hans þá samþykkti hann á sínum tíma með undirskrift sinni að flytja sig og hús sitt af jörðinni þegar faðir hans hætti prestskap.

Nú hins vegar vill hann ekki framfylgja samningnum og segir (sjá frétt í Mbl. í dag) að hann líti svo á að fyrst kirkjan sé tilbúin til að leigja honum jörðina áfram til búskapar geti það ekki skipt öllu máli þó húsið fái að vera áfram á jörðinni auk þess sem hann telur að fjögurra ára leigusamningur sé of stuttur?

Samningur er samningur en svo virðist sem að þrátt fyrir skýrt orðalag og sameiginlegan skilning samningsaðila við undirritun sé samt hægt síðar meir þegar á samninginn reynir, að umsnúa innihaldinu þannig að allt annar skilningur rati upp á dekk.  


 


Óbætanlegt tjón

Sjö listamenn urðu fyrir gríðarlegu tjóni þegar vinnusvæði þeirra í kjallara Korpúlfsstaða  fylltist af vatni í óveðrinu sem reið yfir í fyrradag.  Nú er þetta fólk búið að missa atvinnu sína, atvinnutæki, efni til listmunagerðar auk fjölmargra listaverka sem ekki verða metin til fjár.

Í svona tilviki þyrfti að vera til  ábyrgðarsjóður sem hægt væri að úthluta úr. Sumt verður vissulega ekki bætt með peningum en með fjárstyrk gætu þessir listamenn hafist handa við að endurbyggja og endurnýja aðstöðu og tækjabúnað.
Þessir listamenn eiga alla mína samúð svo mikið er víst.


Læra af fortíð, huga að framtíð og lifa í nútíð.

Vafra um hugans fylgsni og sýt,
velti mér upp úr mistakahít.
Læri af fortíð og huga að framtíð,
fagnandi nútíðar nýt.
(KB)


Já frú ráðherra

Nokkuð hefur verið skrafað og skeggrætt um hvort halda eigi í
titilinn ráðherra eða hvort eigi að skipta honum út fyrir eitthvað
annað hugtak sem bæði kynin geta borið gegni þau þessu
virðingarmikla embætti.

Sitt sýnist hverjum eins og gengur.
Persónulega finnst mér þetta gott eins og það er enda er erfitt að
finna hugtak sem falið getur í sér nákvæmlega sömu merkingu
og orðið ráðherra.  Það er ekki einungis merkingin heldur einnig
skynjunin og skilningurinn á bak við orðið sem hér um ræðir.
Allt fram til þessa dags höfum við kallað þá sem þessu embætti
gegna ráðherra og gildir þá einu hvers kyns viðkomandi er.


Sú var tíðin að engin kona sat á ráðherrastól hér á landi en
nú er það að verða æ algengara að konur gegni þessu embætti
sem öðru í  samfélaginu. 
Þess vegna er það svo sem ekki skrýtið að einhverjir sjái það
tímabært að finna nýjan titil sem vísað getur til beggja kynja.
Fyrir minn smekk myndi ég helst vilja nota orðið ráðherra áfram.
Hugtakið forseti er einnig karlkynsorð og höfum við leyst málið með
því að segja frú forseti sbr. þegar frú Vigdís Finnbogadóttir var forseti.


Í 24 stundum í fyrradag var verið að fjalla um þetta og bar pistillinn
yfirskriftina Ráðherfa og laun láglaunakvenna.
Þar segir að „Samfylkingin hafi mælt með þingsályktunartillögu
á Alþingi þess efnis að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa
breytingar í þessa átt.

Þingmaður VG sagði að sér hugnuðust vel breytingar að tekið
yrði upp orð sem hefði á sér annan blæ, lausna við
drottnunar- og yfirburðatilburði.“


Ráðherra, það vil ég verða,
vænti mikils af því.
Víst þykja Vinstri grænum ég herfa
og vilja helst láta mig hverfa.
(KB)


Reykjavíkurlestin

Hugmynd að lestarsamgöngum í Reykjavík.
Í tengslum við umræðu um Sundabraut og ekki síst flutnings
flugvallarins á Hólmsheiði má vel leiða hugann að þeim möguleika að leggja lestarteina milli helstu hverfa í Reykjavík. 

Á höfuðborgarsvæðinu eru í aðalatriðum tveir umferðarásar, annar norður-suður þ.e. frá Elliðaárósum og suður í Hafnarfjörð meðfram Reykjanesbrautinni og hinn vestur-austur frá Háskólasvæðinu meðfram Miklubraut í átt að Hólmsheiði.
Það þarf í raun aðeins tvær
lestarleiðir til að mæta þörfum fjölda íbúa.

Kostir þess að nota lest sem samgöngutæki?
Ástæða þess hversu hagkvæmt það er að nota lestir til samgangna er m.a. vegna þess að rafmagnið sem notað yrði til að knýja þær áfram er framleitt hér á landi.
Séð út frá umhverfissjónarmiði, með losun
gróðurhúsalofttegunda og mengun í huga, hefur notkun rafmagns algjöra sérstöðu. 

Ef litið er til þess að flugvellinum kunni að verða fundinn staður á Hólmsheiði þá verður sú hugmynd mun áhugarverðari en ella ef hægt væri að taka lest t.d. frá miðbænum og upp á Hólmsheiði. 

Vonandi verður þessi samgöngumöguleiki skoðaður til hlítar áður en búið verður að ráðstafa öllu landi undir vegi og byggingar.
Eftir það er það
nefnilega um seinan.


 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband