Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Það sem kostar lítið eða ekki neitt

Nú þegar harðnar á dalnum og hart er í ári þarf þjóðin öll að draga saman segl sín og sníða sér stakk eftir vexti.
Í sumarfríinu og allt árið um kring ef því er að skipta, er hægt að gera ótal marga skemmtilega hluti sem kosta lítið eða ekki neitt.
Ekkert kostar að draga andann sem betur fer en án hans gerir maður hvort eð er ekki mikið.

Ókeypis er að:
-fara út að ganga, hlaupa, hjóla (flestir eiga hjól nú til dags, einnig hægt að fá lánað)
-tala, tala saman, hlægja, segja brandara
-fara í lautarferð (taka með sér nesti sem kostar jú eitthvað).

Lítið kostar að:
-fara í sund, taka sér ferð með strætó, fá bók að láni á bókasafni
-að rækta grænmeti (gefið að fólk hafi til umráða smá skika)

Eflaust er mikið meira sem týna mætti til þannig að það er full ástæða til að vera bjartsýnn þrátt fyrir slæma tíð.

Víðfeðm velmegun að baki,
vesaldar vænta má.
Óttinn slíkur að tárum taki.
Skuldugir biðja um að fá,
sambærilegu að sá
og fólk sem græddi á fingri og tá
(KB)


Að ráða til sín iðnaðarmenn. Reynslusögur

Þegar maður sjálfur er nýbúin að reyna svipaða hluti og lýst er á forsíðu og bls. 2 í DV 26. júní sl. undir fyrirsögninni Verktakar stefna Dögg finnst manni orðið knýjandi að skoðað verði gaumgæfilega eitt og annað sem lítur að iðnaðarmönnum/iðnaðarfyrirtækjum sem taka að sér verk í verktöku.

Allt of margar sögur hafa heyrst í gegnum tíðina þar sem fólk lýsir neikvæðum viðskiptum og samskiptum sínum við iðnaðarmenn. Ef til vill eru fáir sem eru að eyðileggja mikið fyrir stéttinni allri.

Mín reynsla:
Eftir að hafa greitt hálfa milljón fyrir skoðun/rannsókn á vandamáli húss, var afhent svokölluð ástandsskýrsla upp á ca. 5 línur, loðin og ruglingsleg, og þó ekki fyrr en Meistarafélag Iðnaðarmanna í Hafnarfirði hafði hlutast til um málið, að minni beiðni, en hjá því félagi var umrætt Húsaklæðningarfyrirtæki aðili að.

Útilokað reyndist að fá sundurliðað verktilboð frá umræddu fyrirtæki þar sem fram komu dagssetningar um hvenær verk skyldi hefjast, sundurliðun verks, hvenær áætlað væri að verkinu myndi ljúka og hvers væri að vænta tækist iðnaðarfyrirtækinu ekki að halda þeirri áætlun sem skráð væri í verktilboðinu. Engu breytti þótt það hafði verið bókað á fundinum hjá Meistarafélaginu að gríðarlega mikilvægt væri að verkkaupi fengi slíkt plagg í hendurnar og  að brýnt væri að það yrði sem ítarlegast.

Forstjóri verktakafyrirtækisins og verkfræðingur á hans vegum sögðust skyldu skila slíkum pappír inn og bókað var á fundinum að fullburða verktilboð myndi berast verkkaupa innan viku. Það kom hins vegar aldrei.
Nú er setið uppi með ónýta ástandsskýrslu og hefja þarf leikinn að nýju. Hálf milljón og rúmlega það var sem sagt greidd fyrir ekki neitt.

Hverju sætir það að svo erfitt virðist vera að fá sundurliðað, skriflegt verktilboð hjá a.m.k. sumum iðnaðarverktökum?
Vilja þeir hafa aðgang að opinni peningahít hjá verkkaupa?

Ég vil forðast að yfirfæra aðferðafræði e.t.v. fárra iðnaðarfyrirtækja yfir á heildina. 
En vá, hvað maður er brunnin eftir svona reynslu.

Ég hvet Neytendasamtökin, Neytendastofu og alla þá sem ætlað er að gæta hagsmuna neytenda að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Útköll iðnaðarmanna og verðlagning þeirra er eitt af því sem vel mætti t.d. fara ofan í saumana á og margt, margt fleira í þessu sambandi.


Útihátíðir. Margrét Blöndal, framkvæmdarstjóri Verslunarmannahelgarinnar á Akureyri og Ómar Bragi UMFÍ á ÍNN

Margrét Blöndal, nýráðin framkvæmdarstjóri hátíðarhalda Verslunarmannahelgarinnar á Akureyri og Ómar Bragi Stefánsson starfsmaður Ungmennafélags Íslands eru viðmælendur í þættinum
Í Nærveru Sálar

Þátturinn er á dagskrá 26. júní á ÍNN
Umræðuefni:
ÚTIHÁTÍÐIR /VERSLUNARMANNAHELGIN 
Súr-sætar hliðar útihátíða.

Við skoðum málið út frá sjónarhorni:

- unglinganna (allir vinir mínir mega fara, ég vil líka fara?).

- foreldranna (ég treysti barninu mínu, en treysti ég aðstæðum?).

- gestgjafanna (verður mikil ölvun, ofbeldi og svæðið skilið  eftir í rúst?).


Aldurstakmök, hvernig verður þeim málum háttað í sumar t.d. á tjaldstæðinu á Akureyri?

 


Stjarnfræðilega dýrt að planta trjám í Reykjavík

Ef rétt reynist það sem fram kemur í DV í dag er borgin að greiða Skógræktarfélagi Reykjavíkur 60 milljónir fyrir gróðursetningu 460 þúsund trjáa á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er allt of dýrt, hugsanlega fimm sinnum dýrara en það þyrfti að vera.

Ef um er að ræða bakkaplöntur má áætla að þetta sé eitthvað um 2 ársverk. Fyrir það er borgin að greiða 60 milljónir/30 milljónir ársverkið!


Jónsmessuærsl

Jónsmessuærsl

Dagur að kveldi, döggin vot,
dimma hvergi nærri.
Skugga-Baldur er kominn í þrot
og sólin á lofti aldrei hærri.

Jónsmessuvaka

Velkomin vertu Jónsmessa,
í júní fyrr sem nú.
Tindrandi töfrar í dögginni tifa.
Nóttin, hún laðar,
og lýðinn lokkar.
Skvaldrandi skepnur og blautir sokkar.
(KB)


Já elskan mín, fáðu þér að smakka, en bara lítið..

Er svar sumra foreldra þegar barnið vill fá að smakka áfengi heima hjá sér.
Tökum tilbúið dæmi:
 Foreldrarnir eru með vín um hönd, barn/unglingur vill prófa að drekka og þeir segja, já þú mátt smakka.  Oftar en ekki er barnið komið á unglingsárin og hefur áður séð foreldra sína nota vín.  Allt gott um það að segja, gefið að foreldrarnir kunna að fara með áfengi.

Eitt kvöld e.t.v. þegar gleðskapur er á heimilinu og mamma og pabbi e.t.v. komin (smá) í glas, spyr unglingurinn: Má ég ekki líka fá smá rauðvín/hvítvín/bjór, bara svona prófa??
 

Foreldrar sem hafa sagt já við þessari beiðni kunna að segja:
Og hvað er svona mikið athugavert við þetta? Er ekki betra að unglingurinn byrji að smakka áfengi heima, í faðmi fjölskyldunnar, þar sem við fullorðna fólkið erum nærri og getum fylgst með hvernig það fer í hann. Er eitthvað betra að það byrji að drekka með vinunum eða fikta við eitthvað hálfu verra?
 

Viðbrögð þeirra sem finnst ofangreint samþykki skaðlegt unglingnum myndu hins vegar væntanlega vera einhvern veginn svona:
Nei það er ekki í lagi að gefa barninu ykkar leyfi til að drekka áfengi hvort heldur á heimilinu eða annars staðar. Þið eruð ekki bara aðalfyrirmynd barnanna ykkar heldur skipta viðhorf ykkar og afstaða til unglingadrykkju miklu máli fyrir þær ákvarðanir sem barnið tekur á unglingsárunum og einnig þær sem einstaklingurinn tekur á fullorðinsárum.
Ef foreldrar gefa grænt ljós á EINHVERJA DRYKKJU, þó það heiti bara að SMAKKA þá er ekki ósennilegt að hugsun barnsins sé eitthvað á þessa leið: Hva..aaa mamma og pabbi leyfðu mér meira að segja að drekka heima.

Til umhugsunar:

Hvar á að draga mörkin, t.d. einn, tvo sopa og svo ekki meir?

Hver á að draga mörkin, unglingurinn eða foreldrarnir?
Hvað má unglingurinn smakka, bjór, léttvín?
Er raunhæft að ætla að unglingurinn drekki ekki líka með jafnöldrum sínum? 

Nú þegar útihátíðir eru brátt í algleymingi, sumarið að nálgast hápunktinn og æ styttist í hina stóru útihátíðarhelgi, Verslunarmannahelgina fara áhyggjur margra foreldra vaxandi. Yfirvöld eru uggandi og einnig fagstéttir sem að málefnum barna koma. Skemmst er að minnast frétta frá svokölluðum Bíladögum á Akureyri, lýsingar á ölvun og ölvunartengdri hegðun. Á þeirri samkomu voru það ekki einu sinni unglingar sem léku aðalhlutverkið. Svo eru það allir hinir dagarnir:  Fiskidagar á Dalvík, Ástarvikan á Bolungarvík… já og svo þjóðhátíð í Eyjum. 

En af hverju þetta stress þótt krakki á unglingsaldri drekki?
Rifjum upp ástæðurnar:

Á þessu aldursskeiði á unglingurinn langt í land með að hafa náð fullum vitsmunaþroska, tilfinningar- og félagsþroska.
Hann er áhrifagjarn, óttalaus, hefur ranghugmyndir um eigin getu og hæfni.
Áfengisáhrifin auka áhættuhegðun.
 
Áfengi er slævandi efni, dómgreind þverr, heilinn sofnar eftir visst mikið magn.
Áhrifin eru einstaklingsbundin og oft óútreiknanleg enda margir áhrifaþættir sem spila inn í.
Persónubreytingar verða nánast undantekningarlaust.
Skynfærin dofna, sjón, heyrn, lykt og almenn skynjun á umhverfið og mögulegar hættur þess. 
Hreyfingar verða ómarkvissar, sjálfsstjórn minnkar.
Hugsun brenglast, tilfinningar dofna.

Vegna þessa eru auknar líkur á slagsmálum, slysum, nauðgunum og annarri ofbeldishegðun.
Aukið virðingarleysi gagnvart sjálfum sér og öðrum.
Aukin hætta á afbrotum af öllu tagi.

Þess vegna er allt þetta stress.

 


Gleðilega þjóðhátíð

17. júní 2008 er runninn upp bjartur og fagur.

Minningarnar um hversu mikil tilhlökkun var til þessa dags hér áður fyrr skjóta upp kollinum.  Farið var í sparifötin, lakkskóna, fáninn tekinn í hönd og arkað í skrúðgöngu. Miklar líkur voru á að fá góðan mat, ís og jafnvel eitthvað nammi. Tilhlökkun er vissulega ennþá til staðar enda þótt það sé ekki þessi kraftmikla barnslega tilhlökkun. Um þá tegund tilhlökkunnar eigum við flest minningar.

Forsætisráðherra hefur nýlokið ávarpi sínu á Austurvelli. Orð hans eru til þess fallin að stuðla að aukinni þjóðerniskennd í hjörtum sérhvers Íslendings. Hann minntist á erfiða tíma sem þjóðin gengur í gegnum núna en einnig á styrkleikana sem eru mýmargir. Saman í blíðu og stríðu, ungir sem aldnir, ein þjóð.

Íslenska þjóðin

Komin er krepputíð,
kólgubakkar upp hrannast.
Til sældar brjótumst uns birtir um síð,
baráttuþrekið aftur sannast.

Hungruð forðum mátti hún dúsa,
Í hjöllum, torfkofum, heimili músa.
Í lágreistum hýbýlum pesta og lúsa,
lá leiðin bein upp til háreistra húsa.

 


Er skráningarferli Lífsskrárinnar nógu einfalt?

Mér gengur hægt að fá undirskriftir á Lífsskránna en það er sú skrá sem Landlæknisembættið hefur tekið í notkun og er eyðublað sem fólk getur fyllt út hvenær sem er á lífsleiðinni. Lífsskráin hefur að geyma yfirlýsingu um hvað það vill eða vill ekki að gert sé við það að gefnum tilteknum kringumstæðum við lífslok.

Sjálf hef ég verið að væflast um með plaggið hálfútfyllt.  Landlæknir segir það einfalt að skrá sig og það er eflaust rétt að mörgu leyti.  Mér gengur það samt hægt að fá undirskriftir tveggja umboðsmanna en þeir hafa það hlutverk að taka þátt í umræðu um og upplýsa um óskir mínar hvað varðar meðferð við lífslok. Síðan þarf undirskriftir tveggja vitundarvotta. Einhvern veginn veigrar maður sér við að biðja hvern sem er um að skrá nafn sitt á eyðublaðið. Umboðsmennirnir og vottarnir þurfa, eðli málsins samkvæmt, að þekkja mann vel og einnig að líða vel með að setja nafnið sitt í plaggið.

Nú kemur fram hjá landkæni að aðeins fá hundruð hafa skráð sig þrátt fyrir hversu einfalt þetta er. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé nógu einfalt þegar öllu er á botninn hvolft og það sé einmitt ástæðan fyrir að ekki fleiri hafa skráð sig?

Eyðublöðin er að finna á vef landlæknisembættisins. Ég myndi halda að þau ættu að liggja mjög víða. Við megum ekki gleyma að stór hópur t.d. eldri borgara hefur ekki aðgang að tölvu. Enn eru einnig nokkrir sem einfaldlega vita ekki um þennan möguleika.

Það er mikilvægur réttur hvers og eins að taka ákvörðun um hvort hann eða hún vilji lifa eða deyja þegar meðferð lengir aðeins líf hins dauðvona án þess að fela í sér lækningu eða líkn.

Svo nú er bara að drífa eyðublaðið inn til landlæknisembættisins.


Tekist á við tölvueinsemd

Við Svavar Knútur áttu góða umræðu um málið í dag í upptöku á ÍNN í
Í Nærveru Sálar.

Tekist á við tölvueinsemd

Svavar Knútur er forvarnar- og frístundarráðgjafi en einnig tónlistarmaður og söngvari. Hann var svo góður að deila ekki einungis þekkingu sinni og reynslu sem ráðgjafi barna og unglinga heldur einnig persónulegri reynslu sinni af tölvueinsemd. Tölvueinsemd, fullyrðir Svavar Knútur, að geti auðveldlega komist á það stig að vera í engu frábrugðin fíkn með öllum þeim fylgikvillum og afleiðingum sem henni fylgir. Við lögðumst á eitt með að skoða lausnir og senda frá okkur skilaboð sem e.t.v. einhver getur nýtt sér hvort sem hann er í foreldrahlutverki eða fullorðinn einstaklingur sem á við tölvueinsemd að stríða.

 


Flæktur í neti sýndarveruleika

Hægt og bítandi erum við að vakna til vitundar um neikvæð áhrif mikillar og stundum stjórnlausrar tölvunotkunar á þroska barna og unglinga. Langvarandi ástundun tölvuleikja getur auðveldlega leitt til einangrunar sem síðan leiðir til þess að barn tapar félagsfærni sinni eða að samskiptafærni þess náist einfaldlega ekki að þróast með eðlilegum hætti.

Dæmi eru um tilvik þar sem börn og unglingar hafa flækt sig í neti sýndarveruleika með þeim hætti að þar vilja þau helst dvelja flestum stundum.  Þeir sem hafa á-netjast tölvuheiminum finnst oft mjög erfitt að lifa í hinum raunverulega heimi þar sem maður getur ekki flúið sjálfan sig og verður auk þess að takast á við ólík og krefjandi verkefni daglegs líf.

Úr sýndarveruleika og aftur inn í raunheima verður umræðuefnið í næsta þætti
Í Nærveru Sálar á ÍNN.
Svavar Knútur, forvarna- og frístundaráðgjafi verður gestur þáttarins en hann hefur mikla reynslu á þessu sviði m.a. í að skoða hvernig forvarnastarf getur tekið mið af því að hvetja börn og unglinga til að taka virkan þátt í samfélaginu. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband