Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Týndur í kerfinu

naerverusalartrstkr107_937515.jpg

Margir þekkja þá tilfinningu að vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér í kerfinu. Hver eru mín réttindi í einstaka málum og hvert sæki ég þau?  Sá hópur sem hvað helst stendur í þessum sporum eru þeir sem þiggja bætur frá ríkinu af einhverju tagi.

Tryggingarstofnun ríkisins er í hugum margra  mikið bákn og virkar við fyrstu sýn eins og stórt völundarhús. Réttindi flest hver eru háð skilyrðum, undantekningum og takmörkunum. Þetta virkar ekki bara flókið heldur er það.

En eins og með annað, því meira og betur sem maður setur sig inn í hlutina, því einfaldari verða þeir.

Miklar breytingar hafa orðið á Tryggingarstofnun ríkisins undanfarin misseri. Það kann að vera að ekki séu allir á einu máli um hvernig stofnun eins og þessi eigi að vera eða starfa en hafa skal í huga að starfsfólk hennar er einungis að framfylgja ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Það setur ekki reglurnar.


Í Nærveru sálar þann 30. nóvember ætla þær Sólveig Hjaltadóttir og Margrét S. Jónsdóttir á Réttindasviði Tryggingarstofnunar að freista þess að einfalda og leiðbeina um þjónustuna.

Sérstaklega verður rætt um stuðning við fjölskyldur og barnafólk og mikilvægi þess að fólk gefi réttar upplýsingar svo útreikningar verði réttir.

Annað sem fram kemur í viðtalinu við þær stöllur er:

1.    Samningur sem gerður hefur verið við sálfræðinga í þeim málum barna þar sem fyrir liggur greining frá BUGL eða Miðstöð heilsuverndar barna.

2.    Hvernig málum er háttað hjá þeim sem dvalið hafa erlendis og flytja til landsins

3.    Hverjar eru kæruleiðirnar sé fólk ósátt við úrskurði.

4.    Þjónustan, hversu mikil áhersla er lögð á að þjálfa fólk í lipurð og mannlegum samskiptum.

 


Ofbeldi á meðgöngu


naerverusalarhallfrkr105_935464.jpgTímabil meðgöngu er í hugum flestra tímabil gleði og eftirvæntingar. En það er ekki ávallt þannig og geta ástæður verið margar. Ein þeirra er ofbeldi á meðgöngu. Meðganga er þannig ekki alltaf tími öryggis og friðsældar í öllum samböndum heldur getur þvert á móti verið kveikjan að ofbeldi eða gert það ofbeldi sem fyrir er verra. Það er þekkt að ofbeldi hefst ósjaldan á meðgöngu eða eykst hafi það verið til staðar í sambandinu. Skýringarnar er væntanlega margþættar:

1.     Meðgangan er álagstími fyrir báða aðila,
2.    Parsambandið víkur til hliðar fyrir meðgöngunni og afbrýðisemi og óöryggi karlsins getur aukist. 

Tíðni ofbeldis á meðgöngu er talið algengara en margra annarra meðgöngukvilla eins og meðgöngusykursýki og meðgöngueitrun.

Í nærveru sálar 30. nóvember verður fjallað um þetta viðkvæma mál.
Hallfríður Kristín Jónsdóttir, ljósmóðir gerir grein fyrir útskriftaverkefni sínu en hún gerði rannsókn á með hvaða hætti ljósmæður skima eftir ofbeldi hjá þunguðum konum.

Aðrar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum þætti sem hluti af stærri rannsókn. Félags- og Tyggingarmálaráðuneytið stóð nýlega fyrir víðtækri rannsókn/könnun (2009) þar sem 3000 konur voru spurðar um eitt og annað er tengist hvort þær teldu sig hafa orðið fyrir ofbeldi. Í ljós kom að meðganga er áhættuþáttur þar sem 5% kvenna sem urðu fyrir ofbeldi voru ófrískar þegar síðasta ofbeldisatvikið átti sér stað. 

Meðal þess sem rætt verður í Í nærveru sálar er hvernig ljósmæður nálgast þetta viðfangsefni t.d. hvort þær spyrji allar konur um ofbeldissögu, hvernig er spurt, hvernig er skráð og hverjar eru helstu hindranirnar í þessu sambandi? Eins og gefur að skilja reynir hér á hæfni ljósmæðranna í viðtalstækni enda málið og aðstæður viðkvæmar.  

Um er að ræða vandamál sem þekkt er um allan heim. Þetta er ekki einkamál fjölskyldna og þá er spurt hvernig stórfjölskyldan og samfélagið getur hjálpað?

Eins má spyrja hvort fjallað sé nægjanlega um þetta í námi ljósmæðra? Fá þær viðhlítandi þjálfun í að greina, meta og nálgast upplýsingar á varfærin og faglegan hátt? 

Að lifa með Psoriasis (þátturinn endursýndur 20. nóv.)

naerverusalarpsoriasiskr102.jpg

Hve margir vita að það eru 125 milljónir manna með Psoriasis í heiminum og á Íslandi er allt að níu þúsund manns greindir með sjúkdóminn og enn fleiri ef þeir eru taldir með sem glíma við aðra exemsjúkdóma.

Oftast kemur psoriasis fram á aldrinum 17-25 ára. Ekki er óalgengt að börn glími við ýmis konar exemsjúkdóma.

Alheimsdagur Psoriasis var þann 29. okt. sl. en hann var haldinn fyrst  2004. Nú í ár var Bláa Lóninu með Grím Sæmundsen, lækni og forstjóra Bláa Lónsins í fararbroddi veitt viðurkenning fyrir framlag til málefna psoriasissjúklinga.

Í Í nærveru sálar hinn 16. nóvember ræðir Valgerður Auðunsdóttir formaður Samtaka Psoriasis og exemsjúklinga um þessi mál. Hún segir okkur m.a. frá hvenær félagið var stofnað hér á landi og hvert hlutverk og markmið þess er.

Ennþá ríkja einhverjir fordómar í garð þeirra sem glíma við húðsjúkdóma. Mörgum hryllir við að sjá hvernig húð psoriasissjúklinga getur verið undirlögð af blettum og sárum sem einkenna sjúkdóminn.  Kynning og fræðsla skiptir því höfuðmáli ef takast á að upplýsa fólk um staðreyndir og þar með draga úr fordómum. Til dæmis halda ennþá einhverjir að Psoriasis sé smitandi.

Valgerður segir frá kynningarátaki á vegum Samtakanna, heimsóknir í skóla og fleira.

Annað sem rætt verður er:

Hvernig lýsir sjúkdómurinn sér?

Getur exem orðið Psoriasis síðar á ævinni?

Hver eru tengslin við erfðarþætti

Hvaða svæði líkamans eru í mestri hættu?

Hver er algengasta þróunin ef einkennin birtast strax á barnsaldri

Hverjir eru helstu fylgikvillar?

Við ræðum um sálfræðiþáttinn í þessu sambandi svo sem að börn sem eru með Psoriasis upplifa mikið álag og óþægindi t.d. þegar þau eru að fara í leikfimi og sund. Einnig þá staðreynd að streita hefur neikvæð áhrif á sjúkdóminn.

Hvernig er hægt að milda líðan barna með húðsjúkdóm?

Til er fræðsluefni eins og barnabókin Lalli og Fagra Klara og

Börn og psoriasis.


Börn hrædd eftir að hafa horft á Sveppa og Villa

Bíómynd sem hentar ekki viðkvæmum og kvíðnum börnum.

Ókurteisi og ósveigjanleiki í samskiptum þjónustuaðila og þjónustunotenda

naerverusalar97dale_ckr_930848.jpg

Flest vitum við hvernig tilfinning það er að mæta dónalegri framkomu frá aðila í þjónustugeiranum eða í samskiptum við aðra ókunnuga einstaklinga. 

Það er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að þeir sem starfa við þjónustu af einhverjum toga beri undantekningarlaust að koma prúðmannlega fram við notendur þjónustunnar.  Allir eiga sína slæmu daga, en það er ekki ásættanlegt að láta vanlíðan eða geðvonsku sína bitna á næsta manni.

Ef einstaklingur verður fyrir ókurteisi, hroka eða dónaskap af hálfu starfsmanns fyrirtækis eða stofnunar sem hann leitar til getur slík framkoma kallað á reiði, tilfinningu um niðurlægingu, sársauka og vonbrigði.

Sá sem fyrir þessu verður bregst oft á tíðum illa við, fer niður á sama plan og úr verða neikvæð samskipti sem skilja eftir sig pirring og jafnvel illsku. Fólk sem er í góðu jafnvægi þann daginn eða er að jafnaði yfirvegað og þolinmótt mætir slíkri framkomu af meiri rósemd, tekur henni ekki persónulega og bregst við samkvæmt því.

Algeng dæmi eru t.d. ef starfsmaðurinn hlustar ekki á hvað er verið að biðja um eða grípur fram í. Fari samskiptin fram í gegnum síma er viðkomandi stundum gefið samband nánast út í loftið, látinn bíða lengi á línunni, fær síðan talhólfið, þarf að skella á að lokum og hringja aftur o.s.frv. Sá sem gegnir starfinu kemur jafnvel fram eins og verið sé að ónáða hann persónulega og sýnir viðskiptavininum það óhikað.

Hin hliðin
Frá sjónarhorni starfsmanna hvort heldur hjá hinu opinbera eða einkageiranum kannast allir við að hafa fengið erfiða viðskiptavini. Þeir geta verið frekir og pirraðir og sumir bíða eftir tækifæri til að byrja að rífast og þrasa.

Spyrja má hvort viðskiptavinurinn hafi samt ekki alltaf rétt fyrir sér? Ber starfsmanninum ekki ávallt að gæta sín og vera kurteis þótt viðskiptavinurinn fari yfir mörkin?

Vissulega hljóta að vera takmörk fyrir því hversu mikið og lengi starfsmaður getur leyft frekum og ókurteisum viðskiptavini að valta yfir sig með dónaskap og yfirgangi.

Viðbrögð starfsmanna þegar viðskiptavinur fer yfir strikið hljóta samt sem áður ávallt að skipta sköpum hvað varðar framhald samskiptanna. Líklegt er að ef starfsmaður æsir sig gagnvart reiðum einstaklingi þá er það eins og að hella olíu á eld.

Í Nærveru Sálar þann 9. nóvember verður fjallað um þetta málefni. Gestur þáttarins er sérfræðingur í mannasiðum, Unnur Magnúsdóttir eigandi og framkvæmdarstjóri Dale Carnegie.

Við ræðum jafnframt:

Hvernig er þjálfun starfsfólks háttað í stofnunum og fyrirtækjum?

Allir, hvort heldur starfsmenn eða skjólstæðingar, eiga rétt á að komið sé kurteislega fram við þá.

Kurteis og hlýleg framkoma auðveldar ávallt samskipti.  Sveigjanleiki og lipurð skila BARA ávinningi hvernig sem á það er litið. Það er nefnilega erfitt að vera frekur og leiðinlegur við fólk sem sýnir manni hlýju, skilning og alúð.


Betri líðan hjá börnum nú en árið 2006?

naerverusalarranns_og_greink100.jpgÍ könnun sem Rannsókn og Greining gerðu í febrúar á þessu ári kemur fram að ekki séu skýr merki um að líðan barna á Íslandi sé að breytast til verri vegar þrátt fyrir það erfiða þjóðfélagsástand sem ríkt hefur í kjölfar hrunsins 2008.

Þetta kemur mörgum alls ekki á óvart. Ýmsir hafa ekki getað merkt breytingar til hins verra hvað varðar almenna líðan barna sem beinlínis má rekja til hruns fjármálakerfisins fyrir rúmu ári síðan.

Margir hafa þó komið fram á sjónarsviðið og viljað fullyrða að börnum líði mun verr nú en áður og megi rekja aukna vansæld þeirra til erfiðleika sem fjölmargir foreldrar eru nú að glíma við í kjölfar hrunsins. Það gefur augaleið að ef foreldrum líður illa fara börnin oft ekki varhluta af því sama hversu vel foreldrarnir vilja leyna því.

Gestur Í nærveru sálar 2. nóvember er Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík. Rannsókn og Greining hefur gert kannanir á líðan barna og unglinga í hartnær tíu ár. Bryndís mun upplýsa áhorfendur um einstakar niðurstöður þessarar nýju könnunnar og bera þær saman við sambærilegar niðurstöður t.d. frá árinu 2006.

Við ræðum þessi mál vítt og breytt og reynum að átta okkur á hvaða þættir það eru sem liggja til grundvallar betri líðan hjá sumum börnum ef samanborið við á þeim árum sem þjóðin bjó við mikinn hagvöxt og velsæld.

Hafa skal í huga í umræðu sem þessari að ekki er hægt að alhæfa út frá rannsóknarniðurstöðum heldur er hér um að ræða mikilvægar vísbendingar sem hægt er að byggja á þegar verið er að skoða með hvaða hætti hægt sé að betrumbæta samfélagið og þar með líðan borgaranna.

Með því að gera sambærilegar rannsóknir yfir langan tíma kemur í ljós hvar skóinn kreppir á hverjum tíma í samanburði við fyrri ár. Með þessum hætti er hægt að sjá með áþreifanlegum hætti hvernig hlutirnir kunna að vera að þróast samhliða öðrum breytingum í þjóðfélaginu.

Mörgum finnst það sérkennilegt ef börnum almennt séð líði betur og séu kátari nú en á árum áður, fyrir hrunð.

En hvaða skýringar liggja þarna að baki?

Ástandið sem hafði myndast hér í samfélaginu og sá lífstíll sem þúsundir manna og kvenna höfðu tileinkað sér hafði einfaldlega ekki góð áhrif á börnin. Mörg voru farin að verja minni tíma með foreldrum sínum og skynjuðu án efa spennu og æsing þeirra sem tóku þátt í lífgæðakapphlaupinu.

Nú er þjóðin smám saman að komast niður á jörðina.  Þeir sem höfðu tapað áttum eru að finna sig.  Þeir líta sér frekar nær núna og hafa meiri tíma og svigrúm til að taka eftir ástvinum sínum og börnunum.  Tengsl eru án efa að styrkjast, samvera er meiri og ró hefur færst yfir fjölmörg heimili. Oft er það þannig að eitthvað gott kemur út úr hverjum raunum.  Ef það er betri líðan einhverra barna í þjóðfélaginu getum við verið bjartsýn.

Meira um þetta Í nærveru sálar á ÍNN 2. nóvember.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband