Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2022

Kveikjum neistann í Reykjavík

Lestrarkennsla og lestrarfærni hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og það ekki af ástæðulausu. Ef lestrarfærni er skoðuð má sjá að 34% drengja og 19% stúlkna 15 ára eiga í erfiðleikum með að skilja þann texta sem þau lesa. Þetta veldur áhyggjum. Það sem veldur ekki síður áhyggjum er að kannanir sýna fjölgun barna sem glíma við vanlíðan af ýmsu tagi s.s. kvíða og streitu. Við vitum að frammistaða og eigið mat á færni er nátengd líðan og upplifun um eigið ágæti. Sé vandamál með lestur og lesskilning má leiða sterkar líkur að það hafi áhrif á andlega líðan barna.

Kjarninn í Kveikjum neistann

Kveikjum neistann er verkefni sem ætlað er að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun á skólastarfið. Kveikjum neistann tekur mið af vísindum og samstarfi við erlenda fræðimenn.  Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Áherslur tengjast jafnframt þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Verkefnið hefur verið innleitt í Vestmannaeyjum með góðum árangri.

Kjarninn í verkefninu er að lagt er upp með í 1. bekk að leggja áherslu á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni. Inn á milli er staldrað við til að fullvissa um að helst allir nemendur séu búnir að ná öllum bókstöfum og hljóðum. Í upphafi vetrar er lögð fyrir bókstafa- og hljóðakönnun til að sjá hvaða bókstafi og hljóð nemendur kunna við upphaf skólagöngu. Aftur er gerð könnun í janúar og loks í maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er teiknaður upp með myndrænum hætti þar sem litir eru notaðir til að merkja þá bókstafi og hljóð sem börnin þekkja. Mörg börn eru farin að lesa orð á þessum tíma og stuttar setningar.

Nota það sem virkar

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur fylgst með þessu verkefni. Í ljósi þess að það hefur sýnt einstaklega góðan árangur á stuttum tíma ætti að skoða að innleiða það í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við skólasamfélagið.  Tillaga Flokks fólksins þess efnis hefur verið lögð fram í borgarráði. Miðja máls og læsis er að gera góða hluti en vel er hægt að gera betur. Einnig þarf að huga sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa strax í byrjun að fá sérstaka aðstoð. Þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil  2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d.  tengjast sjónskyni. Sum þurfa sem dæmi að fá stærra letur og læra bókstafi með hljóði og myndum.

Fyrstu rauðu flöggin við málþroska sjást í 18 mánaða skoðun. Þá er mikilvægt að bregðast strax við með t. d fræðslu til foreldra þessara barna. Leikskólinn er mikilvægur og málþroskinn áríðandi fyrir lesskilninginn. Vísbendingar um vanda má einnig oft sjá í niðurstöðum fjögurra ára skoðunar hjá heilsugæslunni. Þess vegna er mikilvægt að heilsugæslan og skólinn séu í góðu samstarfi. „Hljóm“ sem lagt er fyrir 5 ára nemendur hefur einnig forspárgildi fyrir lestrarnám.

Lestur og lesskilningur er fjárfesting til framtíðar. Barn sem á í vanda á þessu sviði tapar oft sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi. Þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Börnum sem útskrifast úr grunnskóla með slakan lesskilning hefur farið fjölgandi með hverju ári. Ef verkefni eins og Kveikjum neistann er að virka svo vel sem raun ber vitni er ábyrgðarhluti að líta fram hjá því. Við hljótum að vilja gera allt sem við getum,  láta einskis ófreistað til að börn nái sem bestum tökum á lestri og lesskilningi.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Birt í Fréttablaðinu 25. ágúst 2022


Leikskólamál í lamasessi í Reykjavík

Ástandið í leikskólamálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrst þegar hugmyndin um hinar svokölluðu ævintýraborgir, hreyfanlegir einingarleikskólar, var lögð á borð borgarstjórnar fylltust allir von og trú um að nú væri að nást utan um þennan gamla gróna vanda sem er hvað áþreifanlegastur á haustin. Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu.

Vandinn hefur aldrei verið eins átakanlegur og nú. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt, alla vega ekki nógu eftirsótt. Launin eru léleg og álag mikið. Hvað fór úrskeiðis með  þessar færanlegu einingar og  húsnæðismálin er óljóst. Flokkur fólksins hefur spurst fyrir um þessi mál og einnig óskað eftir umræðu um þau í umhverfis- og skipulagsráði.

Reykjavíkurborg þarf að taka sig verulega á þegar kemur að leikskólamálum. Reykjavíkurborg getur litið til þeirra lausna sem önnur sveitarfélög hafa beitt. Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin  fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Ekki bara lofa heldur einnig að standa við loforðin

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið iðinn við að lofa en öðru máli gegnir um efndir. Hér þarf að gera betur. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til.  Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Skylda Reykjavíkurborgar sem sveitarfélag með lögbundna þjónustu er að koma til aðstoðar með öllum mögulegum ráðum. Komið er að þolmörkum.

Lausnir

Flokkur fólksins, sem situr í minnihluta, hefur lagt fram tillögur til sérstakra lausna á meðan ástandið er slæmt. Ein af tillögum Flokks fólksins er að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið að að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Hin útfærsla Flokks fólksins er, að á  meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin.  Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun létta á biðlistum.

Nóg er komið

Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína?

Flokkur fólksins vill að fólkið í borginni verði í fyrsta sæti. Þjónustu er víða ábótavant og er skemmst að minnast langra biðlista í nánast alla þjónustu. Nú bíða 2012 börn eftir þjónustu t.d. sálfræðinga og talmeinafræðinga á vegum skólaþjónustu borgarinnar. Vonir stóðu til að Framsóknarflokkurinn myndi hrista rækilega upp í „gamla“ meirihlutanum . Vissulega er kjörtímabilið nýhafið með Framsóknarflokk sem nýrri viðbót. Fólk, börn og viðkvæmir hópar geta ekki beðið lengur. Það komið nóg af bið, afsökunum og sviknum loforðum. Mikilvægt er að meirihlutinn í borgarstjórn, skóla- og frístundasvið og velferðarsvið bregðist við þessu vandræðaástandi og sendi frá sér skýr skilaboð um að grípa eigi til alvöru aðgerða.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt á visi.is 15. ágúst 2022


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband