Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Stórtíðindi. Meirihlutinn samþykkti sínar eigin tillögur í borgarráði í dag!!

Það var ólíku saman að jafna hvernig fréttamiðlar fjölluðu um neyðarfund borgarráðs í dag. Hjá einum miðli fannst mér vera heilmikil slagssíða. Fyrsta frétt, að meirihlutinn hafi samþykkt sínar eigin tillögur. Stórtíðindi!

Meirihlutinn í borginni er meirihluti og samþykkir vissulega sínar eigin tillögur og getur að sama skapi hafnað og svæft öll mál stjórnarandstöðunnar, þóknist honum svo.

Mér finnst það eigi ekki að vera fyrsta frétt hvað meirihlutinn samþykkti. Minni á að sumir borgarfulltrúar meirihlutans hafa verið við völd í mörg ár og hefðu getað samþykkt svona tillögur fyrir löngu. Þá væri þessi vandi heimilislausra ekki af þessari stærðargráðu.  Minnihlutinn er vonandi að hafa einhver áhrif þarna, þó allsendis óvíst hverju hann fær áorkað.  Minni á að hlutverk fjölmiðla er m.a. að veita stjórnvöldum aðhald! 


Vonbrigði

Ein af bókunum dagsins:

Nú hafa allar tillögur Flokks fólksins verið lagðar fyrir og ýmist verið frestað, vísað í ráð og ein felld.

Væntingar Flokks fólksins fyrir þennan neyðarfund sem stjórnarandstaðan óskaði eftir voru þær að meirihlutinn myndi taka tillögum stjórnarandstöðunnar með mun opnari huga en raun bar vitni.

Vonir stóðu til að teknar yrðu ákvarðanir um að framkvæma. Ganga til aðgerða!

Hvað varða tillögur meirihlutans voru flestar þeirra með einhvers konar fyrirvara eða skuldbindingum um sameiginlega ábyrgð sveitarfélaga eða háðar viðræðum við ríkið.

Flokkur fólksins vill benda á að þeir sem eru húsnæðislausir hafa ekki endalausan tíma til að bíða eftir úrræðum. Vandinn er núna og við honum þarf að bregðast hratt og örugglega.

Upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins er að borgarmeirihlutinn hafi verið ansi mikið á bremsunni á þessum fundi og frekar fátt bendir til þess að bretta eigi upp ermarnar af krafti fyrir veturinn til að laga stöðu þessa viðkvæma hóps.

 


Nóg komið af aðgerðarleysi í húsnæðismálum

Aukafundurinn vegna vaxandi vanda heimilislausra er í borgarráði í dag kl. 11. Tillögur Flokks fólksins eru fjórar og eru býsna fjölbreyttar enda þarfir og væntingar heimilislausra ólíkar. Tillögurnar hafa verið unnar í samvinnu við fjölmarga sem eru heimilislausir eða búa við óstöðugleika í húsnæðismálum sem og fleiri.

Flokkur fólksins er einnig með í öðrum sameiginlegum tillögum stjórnarandstöðuflokkanna. 

Greinargerðir með þeim má sjá á kolbrunbaldurs.is

Tillögurnar eru eftirfarandi:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að útvega lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé ekki um gróðafyrirtæki að ræða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð

Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotuðu húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk sem er húsnæðislaust eða býr við óstöðugleika í húsnæðismálum

Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði frekari kaup á ónotuðu húsnæði í Reykjavík. Um gæti verið að ræða skrifstofuhúsnæði og í einhverjum tilfellum iðnaðarhúsnæði með það að markmiði að innrétta íbúðir sem ætlaðar eru þeim sem búið hafa við langvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum og eru jafnvel enn á vergangi. Áhersla er lögð á að borgin sé ábyrgðaraðili þessa húsnæðis til að ávallt sé tryggt að það sé að öllu leyti fullnægjandi íbúðarhúsnæði. Tryggja þarf einnig að leiga verði ávallt sanngjörn og í samræmi við greiðslugetu leigjenda en hér er verið að tala um húsnæði fyrir fátækt fólk og aðra sem hafa engin tök á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks sem er í húsnæðisvanda

Lagt er til að borgin noti þá reiti sem hún hefur nýlega fest kaup á í Arnarbakki 2-6 í neðraBreiðholti og Völvufell 11 og 13-21 til að byggja íbúðir fyrir fjölskyldur sem hafa verið í húsnæðisvanda lengi og eiga í dag ekki fastan samastað. Fyrir þessa kjarna hefur borgin greitt rúmlega 752 milljónir króna og vel við hæfi þegar farið er að skipuleggja þessa reiti að forgangshópurinn verði þeir sem hafa verið á hrakhólum húsnæðislega, fjölskyldur jafnt sem einstaklingar. Fólk í húsnæðisvanda og heimilislausir og hópur þeirra sem ekki eiga fastan samastað sem þeir geta kallað heimili sitt hefur aukist síðustu árin. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst sem sýnir að vandinn fer vaxandi með hverju ári. Nú þegar borgin hefur fest kaup á þessum tveimur kjörnum leggur Flokkur fólksins til að þeir verði nýttir að hluta til eða öllu leyti til uppbyggingar fyrir þá sem eru í og hafa lengi verið í húsnæðisvanda. Ýmist má hugsa sér að leiga íbúðirnar hjá leigufélögum sem eru óhagnaðardrifin eða selja þær á hagkvæmu verði sem efnaminna fólk ræður við að greiða án þess að skuldsetja sig langt umfram greiðslugetu. Mestu skiptir að gróðasjónarmið fái hér ekki ráðið.


Átt þú einhvers staðar heima?

Hér er ein hugmynd sem vel mætti skoða í ljósi vaxandi vanda í húsnæðismálum í Reykjavík.

Lagt fram í borgarráði 19. júlí af Flokki fólksins:

Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili. Jafnframt þurfa að vera til úrræði fyrir utangarðsfólk s.s. fjölgun smáhýsa og þeir sem óska eftir að búa í húsbílum sínum þurfa framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu. Óhætt er að fullyrða að það ríki ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi. Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra Kalkþörungaversmiðjunnar á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að borgin skoði fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi sambærileg þeim sem flutt voru inn á Bíldudal með að það markmiði að gefa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búið hafa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum tækifæri til að


Kynhlutlaus salerni í Reykjavík

Nú er fundargerð borgarráðs frá 19. júní komin á vefinn. Eitt af mörgum málum á dagskrá var tillaga meirihlutans um kynhlutlaus salerni í Reykjavík en hún var lögð fram á síðasta fundi mannréttindaráðs. Stjórnarandstaðan gerði eftirfarandi bókun:

Var ráðsmönnum í mannréttinda- og lýðræðisráði gerð grein fyrir því að tillaga um kynhlutlaus salerni og úttekt á klefa- og salernisaðstæðum í húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar samræmist ekki reglum um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995?

Það er lágmarkskrafa þegar mál eru komin til afgreiðslu í ráðum borgarinnar að búið sé að kanna lagalegan grundvöll þeirra.

Stjórnarandstaðan óskar eftir að fá fylgigögn og kynningu sem lögð voru fram undir 5. og 6. lið fundargerðarinnar.


Toppurinn er svo bókin á náttborðinu

Ég er bara sátt við dagsverkið á þessum degi, 100 ára fullveldisafmælis okkar Íslendinga. Deginum var varið í að undirbúa fund borgarráðs á morgun. Þar er Flokkur Fólksins málshefjandi á umræðu um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra. Afgreiða á tillögu Flokks fólksins um rekstrarúttekt óháðs aðila á Félagsbústöðum. Einnig á að ræða úrskurð kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningu í embætti borgarlögmanns; dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í fjármálastjóra gegn Reykjavíkurborg vegna gildi áminningar og síðast en ekki síst er Álit umboðsmanns Alþingis um húsnæðisvanda utangarðfólks á dagskrá. Flokkur fólksins er með bókun í öllum þessum málum og fleirum til en dagskrárliðir eru 30. Á náttborðinu bíður mín svo Tengdadóttirin eftir Guðrúnu frá Lundi sem minnir vel á lífsbaráttu forfeðranna. Til hamingju með daginn!


Klárlega ósmekklegt og jafnvel siðlaust

Mér finnst allt þetta tilstand ríkisstjórnarinnar og mikli kostnaður vegna hátíðarþingfundar á Þingvöllum afar ósmekklegt og nánast siðlaust í ljósi ástandsins í kjaradeilu ríkisins og ljósmæðra. Hvernig er hægt að vera í einhverju hátíðarskapi á Þingvöllum þegar neyðarástand ríkir á fæðingardeild Landspítala?

 

Heimilislausir afgangsstærð árum saman

Það er kominn tími til að hugsa út fyrir boxið og byrja að framkvæma. Málefni heimilislausra hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og var einnig eitt aðalkosningamál Flokks fólksins í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Að vera heimilislaus er án efa eitt það erfiðasta í lífi sérhvers einstaklings og fjölskyldu. Heimilislausir er fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á öllum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað heimili. Sumir heimilislausir glíma við veikindi eða hömlun af einhverju tagi. Þetta er fólk sem hefur orðið fyrir slysi eða áföllum, eru öryrkjar eða með skerta starfsorku sem hefur valdið þeim ýmis konar erfiðleikum og dregið úr möguleikum þeirra að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Ætla má að langflestir þeirra sem eru heimilislausir séu það vegna þess að þeir hafa ekki efni á að leigja húsnæði í Reykjavík þar sem leiguverð fyrir meðalstóra íbúð er jafnvel 250.000 krónur á mánuði. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og margir þeir sem leigja hjá Félagsbústöðum kvarta auk þess yfir að húsnæðinu sé ekki haldið nægjanlega við. Sumt af húsnæði Félagsbústaða er heilsuspillandi. Hjá Félagsbústöðum hefur leiga jafnframt hækkað mikið undanfarið og er að sliga marga leigjendur.

Flokkur fólksins hefur lagt fram tvær tillögur sem varða Félagsbústaði en eins og kunnugt er um að ræða fyrirtæki sem heyrir undir B-hluta borgarinnar. Fyrri tillagan er að borgarstjórn samþykki að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu leigutaka. Þessari tillögu var vísað í borgarráð þar sem henni var síðan vísað til umsagnar hjá fjármálastjóra og innri endurskoðanda. Seinni tillagan er að borgarstjórn samþykki að gerð verði ítarleg úttekt á biðlista Félagsbústaða m.a. hverjir eru á þessum biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar og hverjar eru aðstæður umsækjenda? Hve langur er biðtíminn og hve margir hafa beðið lengst? Hér er um að ræða brot af þeim upplýsingum sem óskað hefur verið eftir er varðar biðlista Félagsbústaða.

Heimilislausir búa margir hverjir upp á náð og miskunn hjá  öðrum, ýmist vinum eða ættingjum eða hírast í ósamþykktu iðnaðarhúsi sem ekki er hægt að kalla mannabústað. Einn hluti hóps heimilislausra er utangarðsfólk, fólk sem glímir sumt hvert við djúpstæðan fíknivanda og geðræn veikindi.  Þessi hópur þarf líka að eiga einhvers staðar heima, hafa stað fyrir sig. Enn aðrir eru þeir sem kjósa að búa í húsbílum sínum en hafa ekki fengið varanlega staðsetningu fyrir húsbílinn nærri grunnþjónustu.

Óhætt er að fullyrða að það ríkir ófremdarástand í þessum málum í borginni. Það er víða verið að byggja alls kyns húsnæði sem selt verður fyrir upphæðir sem þessum hópi er fyrirmunað að ráða við að greiða. Byggja þarf ódýrara og hagkvæmara, hraðar og markvissara og alls staðar sem hægt er að byggja í Reykjavík. Óhagnaðardrifin leigufélög þurfa að verða fleiri. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að lífeyrissjóðir fái lagaheimild til að setja á laggirnar óhagnaðardrifin leigufélög. Hjá lífeyrissjóðunum er gríðarmikið fjármagn sem nýta má í þágu fólksins sem greiðir í sjóðina.

Í viðtali við verkefnastjóra Kísilverksmiðjunnar á Bíldudal í morgunútvarpinu í vikunni sagði hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi sem fullbúin kosta 16 milljónir. Hér er komin hugmynd sem vel mætti skoða fyrir Reykjavík og víðar. Fram til þessa hefur lóðarverð verið hátt og einnig byggingarkostnaður. Þeir sem hafa helst byggt hafa gert það í hagnaðarskyni enda eigendur gjarnan fjárfestingabankar og önnur fjárfestingarfyrirtæki.

Af hverju getur borgin ekki skoðað lausnir af fjölbreyttari toga? Vandi heimilislausra og annarra sem búa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum mun aðeins halda áfram að vaxa verði ekki farið að grípa til róttækra neyðaraðgerða enda ríkir hér neyðarástand í þessum málum.  Það þarf að setja húsnæðismálin í forgang fyrir alvöru og byrja að framkvæma. Flokkur fólksins í borginni hefur óskað eftir að málefni þessa hóps verði sett á dagskrá á næsta fundi borgarráðs 19. júlí. Það er kominn tími  til að fara að hugsa út fyrir boxið í þessum málum og framkvæma.

Greinin var birt á kjarninn.is síðastliðinn mánudag

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

 

 


Gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra

Tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra verður lögð fram í borgarráði á morgun 5. júlí. Hún hljóðar svona:
Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði
velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls.
Greinargerð:
Í þeim tilgangi að styðja enn betur við efnaminni fjölskyldur er lagt til að foreldrar sem eru
undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Efnahagsþrengingar
foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Sumar fjölskyldur eru
enn að glíma við fjárhagserfiðleika vegna afleiðinga hrunsins og sjá ekki fyrir sér að geta rétt
úr kútnum næstu árin ef nokkurn tíman. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250.000 kr.
á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef húsnæðiskostnaður er einnig innifalinn í
þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum. Það er skylda
okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu
foreldra þeirra. Börnum sem er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr.
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af
nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama
borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Með þessari
tillögu er verið að freista þess að tryggja að börn efnaminni foreldra missi hvorki pláss á
frístundaheimilum né verði svikin um tækifæri til að sækja frístundaheimili vegna bágra
félags- og fjárhagslegra stöðu foreldra

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins


Tímamótafundur með fulltrúum heimilislausra

Fulltrúar Kærleikssamtakanna, sem í vetur hafa beitt sér fyrir réttindum heimilislausra, hittu fulltrúa stjórnarandstöðunnar á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðin föstudag.

Staða heimilislausra í Reykjavík er mjög slæm en einstaklingum í þeim hópi hefur fjölgað töluvert á síðustu 8 árum, í kjölfar húsnæðiskreppunnar og undir stjórn Dags B. Eggertsonar
sem borgarstjóra.

Formaður Kærleikssamtakanna Sigurlaug G. Ingólfsdóttir og Garðar S. Ottesen meðstjórnandi hittu Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Sönnu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokks Íslands og
Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúa Sósíalista, Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins í Reykjavík, Baldur Borgþórsson og Svein Hjört Guðfinnsson, varaborgarfulltrúa frá Miðflokki.

Á fundinum var m.a. rætt um hvernig kortleggja þurfi núverandi húsnæði borgarinnar og skipuleggja starfsemina betur til að mæta þörfum og ná að
sinnna hinum mismunandi hópum heimilislausra. Síðan að bæta við húsnæði eftir þörfum. Mikil samstaða var hjá öllum á fundinum til að koma meðlausnir við þessum ört vaxandi vanda og verða á næstunni lagðar fram tillögur fyrir velferðarráð og borgarstjórn.

„Nú munu verkin tala sínu máli í stað endalausra loforða," segir
Sigurlaug G. Ingólfsdóttir, formaður samtakanna eftir fundinn.

Oddvitar flokkanna sögðu:
„Málefni heimilislausra þola enga bið, við verðum að hefjast handa strax við að leysa þessi brýnu vandamál sem heimilislausir glíma við,"
segir Sanna Mörtudóttir.
„Vandinn hefur vaxið gríðarlega en fjöldi heimilislausra hefur margfaldast á fáum árum. Þetta er ólíðandi," segir Eyþór Arnalds.
„Það er ljóst af fyrstu verkum nýs meirihluta borgarstjórnar, að ekki er áhugi á að leysa úr vanda heimilislausra. Það kemur því í hlut okkar
í stjóranandstöðu að berjast fyrir lausnum í þeim málaflokki. Undan því hlutverki verður ekki vikið, heldur blásið til sóknar, núverandi ástand
er með öllu óviðunandi," segir Baldur Borgþórsson.
„Við áttum tímamótafund með fulltrúum Kærleikssamtakanna með þeim Sigurlaugu og Garðari og munum koma málefnum heimilislausra á dagskrá,"
segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband