Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Tímamót: afmæli skörungs

Þennan dag, árið 1898 fæddist afi minn Sr. Sigurður Einarsson síðast prestur í Holti.
Hann lést árið 1967 en þá var ég 8 ára.
Sr. Sigurður var skáld, ræðuskörungur og litríkur pólitíkus ásamt því að vera útvarspmaður um árabil.

Ég átti því láni að fagna að kynnast þessum afa mínum lítillega. Eitt sumar dvöldum við móðir mín um tíma í Holti.
Eldsnemma á morgnana þegar allir sváfu, héldum við afi í Holtsós en þar hafði hann sett út net. Eitt sinn fengum við eina 13 silunga í netið.  Að sjálfsögðu var silungur í matinn á hverjum einasta degi. Mér þótt þessi matur alls ekki góður, þurfti að leggja mikla vinnu í að hreinsa fiskinn, týna beinin úr og skrapa roðið af.  Fullorðna fólkinu fannst silungurinn mikill hátíðarmatur og þá ekki hvað síst fannst þeim roðið lostæti. Ég og önnur stelpa jafnaldra sem þarna var stödd harðneituðum að setja roðið inn fyrir okkar varir. 

Eitt sinn þegar við sátum við matborðið sagði afi minn að hann skyldi gefa okkur sitthvorar 100 krónurnar ef við borðuðum roðið bara þetta eina skipti.  Þetta voru heilmiklir peningar í þá daga og stórfé í augum barns.  Hin stelpan lét ekki segja sér þetta tvisvar heldur slafraði í sig roðinu. Ég hins vegar, bara kúgaðist.  Hún fékk eins og um var samið 100 krónur afhentar formlegar við matarborðið í viðurvist heimilisfólksins en ég, eins og vitað var,  fékk ekki neitt.

Nokkrum mínútum síðar fann ég að bankað var í mig undir borðinu. Þegar ég kíkti undir borðið blasti við mér fallegur hundrað króna seðill.

Váaaaa hvað ég varð glöð, svo glöð að ég gat því miður ekki þagað heldur stökk á fætur,  veifaði seðlinum, hló og skríkti.  Í þá daga var það víst ekki til siðs að börn væru með peninga í fórum sínum svo ég var krafin af móður minni um að afhenda henni seðilinn umsvifalaust.  Ég hélt nú ekki,  hljóp út, niður túnið eins hratt og ég komst og hún á eftir ... og náði mér...
Eins gott,  fyrst svo þurfti að fara, að ég skyldi ekki hafa pínt roðið ofan í mig Smile


Ræða ekki einstaklingsmál í fjölmiðlum

Ég heyrði í kvöldfréttum í gærkvöldi viðtal við konu sem sagði frá því að henni hafi verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu Alcoa þegar hún var á sinni 9. vakt.
Konan rakti söguna eins og hún leit út frá hennar bæjardyrum. 
Þegar leitað var eftir viðbrögðum hjá Alcoa var sagt eitthvað á þá leið:

„Við ræðum ekki einstaklingsmál í fjölmiðlum“

Það eru ákveðnar stéttir, t.a.m. heilbrigðisstéttir sem mega ekki ræða einstaklingsmál á opinberum vettvangi vegna þess að þær eru bundnar þagnarskyldu.
Er því þannig farið hjá Alcoa?

Í þessu tilfelli hefur fyrrverandi starfsmaður komið fram í fjölmiðlum og lýst slæmri meðferð á sér af hálfu þessa fyrirtækis. Er því ekki eðlilegt að Alcoa geri slíkt hið sama og skýri mál sitt þannig að þeir sem hlusta geti lagt mat á hvað raunverulega átti sér stað þarna?

Að afgreiða málið með því að segja  „við ræðum ekki einstaklingsmál í fjölmiðlum“ eru viðbrögð sem eru til þess fallin að gefa í skyn að það hafi nú eitthvað ekki verið í lagi með þennan starfsmann og því hafi orðið að segja honum upp. Látið er að því liggja að með því að ræða ekki málið í fjölmiðlum sé fyrirtækið að gera þessum fyrrum starfsmanni sínum einhvern greiða, eða þannig.

Með því að skilja málið eftir í þessum farvegi nýtur fyrirtækið frekar vafans en fyrrverandi starfsmaðurinn síður.  Eitthvað með hana er skilið eftir liggjandi í loftinu.  Hættan er á að sumt fólk sem heyrir þetta hugsi eitthvað á þá leið að konan hafi verið einhver vandræðagripur sem fyrirtækið varð að losa sig við en hugsi e.t.v. síður að fyrirtækð vilji ekki tjá sig þar sem það braut gegn konunni.

Með því að neita að tjá sig þegar fjölmiðlar leita eftir skýringum getur það líka vakið upp grunsemdir að fyrirtækið kunni að hafa eitthvað að fela. Með því að nota þögnina vill fyrirtækið áfram fá að njóta vafans. 

Svo fremi sem Alcoa er ekki bundið þagnarskyldu gagnvart starfsmönnum sínum núverandi eða fyrrverandi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það komi fram á sjónarsviðið með útskýringar. Annars verður svona fjölmiðlaumfjöllun eins og einhvers konar ágiskunarleikur.

Kynjamismunur á Alþingi. Karlar í ræðustóli 84 prósent en konur 16 prósent

Konur hafa seint legið undir ámælum fyrir að vera þöglar eða eiga almennt erfitt með að tjá sig. Mikið frekar hafa þær haft vinninginn hvað mælsku varðar ef marka má niðurstöður a.m.k. sumra samanburðarannsókna á kynjunum. Konur hafa oftar en ekki verið álitnar samviskusamari en karlar og hafa jafnvel fengið hærra gildi á kvörðum sem mæla málfarslega hæfni, færni í að tjá sig t.a.m. að tjá tilfinningar sínar. Vísbendingar eru jafnframt um að konur eigi auðveldara með að ræða vandamál ef bornar saman við karla. Sumar kannanir hafa reyndar sýnt að úr þessum mismun dragi þegar fullorðinsárum er náð. Enn aðrar rannsóknir kunna að sýna allt aðrar niðurstöður og því skal varast að fullyrða eða alhæfa nokkuð í þessum efnum.

Hverju sætir það að á Alþingi halda konur meira en helmingi færri ræður en karlar? 
Nú þegar tæpar þrjár vikur eru liðnar af þingvetri segir í þingbréfi birt í Mbl. nú um helgina að á meðan karlar hafa farið 657 sinnum í ræðustól hafa konur einungis farið 153 sinnum. Karlar hafa verið 84% af þingtíma í ræðustóli en konur aðeins 16%.

Markmið þessa pistils er í sjálfu sér ekki að reyna að kryfja orsakir þessa mismunar til mergjar. Greinarhöfundur þingbréfsins nefnir ástæður eins og að þingflokkar tefli frekar körlum fram og að málin séu karllægari.

Ég tek einnig undir með greinarhöfundi þingbréfsins að ekki sé hægt að kalla konur einar til ábyrgðar heldur ekki hvað síst samspili kynjanna. Ef litið er til samspils kynjanna á leik,-og grunnskólum hafa kennarar æði oft lýst því að drengir geri meiri kröfu um athygli og að þeim sé hlutfallslega bæði oftar og meira sinnt en stúlkunum. Þetta gæti allt eins einkennt samskipti kynjanna á vinnustöðum þegar komið er á fullorðinsár og þar er Alþingi engin undantekning.


EF þetta skyldi vera raunin þá má spyrja hvers vegna konur taki ekki sinn tíma og krefjist meira rýmis fyrir sig og sinn málflutning hvort sem það er innan viðkomandi þingflokks eða í þingsal?
Til að leitast við að svara þessari spurningu er freistandi að skoða hvað sumar rannsóknir um kynjamismun segja. Vísbendingar eru um að konur nálgist markmið sín oft á annan hátt en karlar. Þær eru uppteknari af því að stíga nú ekki á neinar tær á leiðinni. Konur forðast frekar en karlar að nýta sér veikleika annarra. Þeim líður einnig verr en karlmönnum í aðstæðum þar sem samkeppni er ríkjandi. Orka kvenna fer gjarnan í að gera hlutina þægilega fyrir alla, fara samningsleiðina og hlúa að góðum og friðsamlegum samskiptum.
Svo er þetta jú einnig spurning um uppeldislega þætti, hvatningu og fyrirmyndir.


Getur kynjamismunur, sé hann þ.e.a.s. raunverulegur, haft eitthvað að gera með það að konur hafi einungis vermt ræðustól Alþingis 16% af tímanum en karlar 84%?
Það er sannarlega áhugavert að skoða þetta út frá sem flestum sjónarhornum þar sem munurinn á fjölda ræðna og ræðutíma kynjanna á þingi er mjög mikill.

Ég vil hins vegar hvetja þingkonur til að láta í sér heyra í þingsal, nota hvert tækifæri og krefjast alls þess svigrúms og tíma sem þær telja sig þurfa. Þótt þingkonur séu dugnaðarforkar, samviskusamar og hugmyndafræðilega öflugar þá er ekki ósennilegt að pólitísk velgengni þeirra sé mæld einmitt út frá þeim mælikvarða hversu oft og mikið þær láti í sér heyra, gefið að málefnið sé verðugt, flutt með málefnalegum hætti og vel rökstutt.
Það er í ræðustóli Alþingis sem vinna þingmanna er kjósendum hvað mest sýnileg.

 
   


Árni Johnsen gerir góðverk

Sú reynsla Árna Johnsen að hafa setið í fangelsi hefur nú orðið til þess að aðrir fangar njóta góðs af og er það ekki í fyrsta skipti.
Nú hefur hann fært Hegningarhúsinu tíu flatskjái að gjöf og ekki er öðruvísi hægt að skilja tíðindin en að hann hafi greitt fyrir þá úr eigin vasa.

Þetta er sannarlega mikið góðverk enda var sjónvarpskostur Hegningarhússins ekki upp á marga fiska. Vel er hægt að ímynda sér að hafi Árni ekki sjálfur upplifað fangelsisvist eru varla líkur á því að hann hafi  tekið þetta frumkvæði.  Þó veit maður aldrei hvað fólki dettur í hug að gera.
Ég við óska Hegningarhúsinu til hamingju með þetta.

Trúverðugleiki dagblaðanna.

Hversu trúverðugur er fréttaflutningur dagblaðanna?

Borið hefur á því að undanförnu að ákveðið dagblað hafi verið ásakað um að fara rangt með upplýsingar, ýkja, mistúlka og fleira í þeim dúr.
Eftir sitja sárir, reiðir og móðgaðir aðilar, þolendur ófaglegrar fréttamennsku. 
Þeir sem hafa upplifað þetta af eigin raun hafa eflaust myndað sér skoðun á því dagblaði sem viðhefur svona vinnubrögð og taka fréttir og frásagnir þess því með fyrirvara.

Flestir lesa blöðin fullir trausts um að, það sem í þeim stendur sé í meginatriðum það sem átt hefur sér stað þ.e. staðreyndir málsins s.s. hvernig hlutirnir gerðust, hver sagði hvað og hvenær. 

Til að geta haft skoðun eða túlkað orð annarra, gjörðir, ferli eða atburðarrás að einhverju viti þurfa ótvíræðar staðreyndir málsins að liggja fyrir. Túlkun er persónuleg upplifun/útskýring á einhverri staðreynd. Ef staðreyndir eru rangar eða bjagaðar mun túlkunin eðlilega líka vera út úr kú.

Eru íslensk dagblöð almennt séð trúverðug?
Svarið við þessari spurningu er einstaklingsbundið og kemur þar margt til. Sem dæmi skiptir persónuleg reynsla á fjölmiðlinum máli. Sumum finnst miðill sem á sér langan lífaldur vera traustur, aðrir finna traust í stærð miðilsins og enn aðrir treysta miðlinum af því að þeir þekkja ritstjóra eða fréttamenn hans fyrir að vera áreiðanlegt fólk.

Það er alveg víst að frétta,- og blaðamannastéttin á misjafna sauði eins og allar aðrar stéttir. Flestir eru faglegir, vandvirkir, nákvæmir og gera sér far um að fara vel með upplýsinar um menn og málefni.  Aðrir og þá örugglega alger minnihluti eru ófaglegir, kærulausir, fljótfærir, leika sér að því að ýkja, misskilja, sleppa úr meginatriðum, snúa út úr og setja efni upp í æsifréttarstíl. Hægt er að gera því skóna að tengsl séu á milli vinnubragða/fagmennsku blaðamanna og trúverðugleika þess dagblaðs sem þeir starfa hjá.

Ég hef eins og aðrir myndað mér ákveðna skoðun á trúverðugleika dagblaðanna og les þau í samræmi við það.
Það væri áhugavert ef einhverjir rannsakendur sæju sér fært að gera rannsókn á:
  1. Áreiðanleika íslenskra dagblaða
  2. Skoða hvað lesendum þeirra finnst um fréttaflutning þeirra
 

Minningin um John Lennon kærkomin nú mitt í allri umræðu um peningamál

John Lennon og Freddie Mercury eru listamenn sem létust langt fyrir aldur fram, annar ráðinn af dögum en hinn lést vegna sjúkdóma tengdum Alnæmi.

Gleðiatburður eins og  tendrun súlunnar í Viðey í minningu John Lennons hjálpar okkur kannski að hverfa a.m.k í smá tíma frá amstri dagsins og gleyma áreiti hvort sem það eru átök á sviði stjórnmálanna, annarra krefjandi hluta í samfélaginu eða í okkar eigin persónulega lífi.

Þessir atburðir kalla fram gamlar minningar frá árum áður þegar þessir frábæru einstaklingar voru og hétu.  Maður er minntur á hversu lífið er hverfult og óútreiknanlegt og að kannski sé tími nú til að þakka.

Í allri þessari peningaumræðu sem verið hefur undanfarna daga er minningin um John Lennon sérstaklega kærkomin en hans er minnst eins og flestir vita fyrir ást og kærleik í garð náungans og baráttu hans fyrir friði á jörð.

Margir tengja frístundakortin einna helst við íþróttafélögin

Kynna þarf frístundakortin mikið betur en gert hefur verið. Margir tengja frístundakortin einna helst við íþróttafélögin en aðildarfélög kortanna eru mýmörg og fjölbreyttni þeirra mikil
Um er að ræða tónlistarskóla, kóra, dansfélög, hestamannafélög, hjólreiðarfélög, skátafélög svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta framtak Reykjavíkurborgar er hreint stórkostlegt. 
Kópavogur og önnur sveitarfélög ættu að taka Reykjavík sér til fyrirmyndar í þessum efnum hafa þau ekki þegar gert það.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband