Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019

Martröð foreldra

Martröð foreldra á visi.is

Martröð foreldra er að börn þeirra leiðist út í fíkniefnaneyslu. Langoftast er einhver aðdragandi sem birtist á heimilinu og í skólanum. Barn sem byrjar að neyta harðra efna fer oft hratt niður. Hefja þarf því greiningarferlið strax og meðferð í kjölfarið. Hér getur verið spurning um líf eða dauða. Þegar kemur að raunveruleikanum í þessum efnum eru ýmsar hindranir og úrræðaleysi.

Greining og meðferð

Fyrsta hindrunin er að komast í greiningu. Án greiningar, sem oftast samanstendur af vitsmunaþroskamati, mati á líðan og ADHD skimun, fæst ekki aðgangur að Bugl. Landspítalinn þjónustar ekki ungmenni í neyslu- og fíknivanda, veitir þeim hvorki afeitrunarmeðferð né bráðameðferð þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi falið Landspítalanum að sinna börnum í neyslu. Af hverju hefur Landspítalanum ekki tekist að fylgja fyrirmælum ráðherra? Ráðherra hefur samið við SÁÁ að annast meðferð fyrir börn en í kjölfarið tekur ekkert við. Álagið á fjölskyldur barna í neyslu er gríðarlegt og að baki einu barni er fjölskylda í angist.

Hægagangur og andvaraleysi stjórnvalda

Íslenskt samfélag, borg og ríki hafa staðið sig illa í þessum málum. Barn á grunnskólaaldri á rétt á að fá vandann sinn greindan eins og Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla kveður á um. En biðlistar eru langir og dæmi eru um að börn séu enn á biðlista þegar þau ljúka grunnskóla. Þeir foreldrar sem hafa efni á, grípa til þess ráðs að kaupa greiningu hjá einkaaðila fyrir að lágmarki 150.000 kr. Hjá Reykjavíkurborg hefur málaflokkurinn ekki verið í forgangi. Í staðinn fyrir að fjölga sálfræðingum hefur meirihlutinn í borgarstjórn ákveðið að draga úr greiningum. Ráðamenn í borginni hafa í mörg ár staðið sig illa þegar kemur að greiningum og sálfræðiþjónustu við börn. Fjármagni hefur frekar verið varið í aðra hluti en að auka og tryggja þjónustu við börn á hinum ýmsu sviðum.

Grein birt í Fréttablaðinum 30.7. 2019

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins


Stórflótti verslana og fyrirtækja úr miðbænum

Frá því í febrúar hafa lokað á Skólavörðustíg GK, Gjóska og Gallería er að fara að loka þar.
Á Laugavegi eru farnir: Spakmannsspjarir, Brá, Kroll, Manía, Lindex, Stefán Chocolader, Reykjavík Fótó, Herrahúsi, Kúnígúnd, Flash, og Reykjavík Live.

Þesar eru að fara að loka: Michelsen, Lífstykkjabúðin og Sigurboginn. 

Hvað er að verða um miðbæinn okkar?

 


Gleymdist að mæla?

Í þessu botna ég bara alls ekki. Var bara pantað skip svona út í loftið án þess að gera viðeigandi mælingar? Nú, þegar skipið er komið þá uppgötvast að gera þarf breytingar á báðum bryggjum og kostnaðurinn er 100 milljónir króna! 

Frétt:
Það hefur dregist nokkuð að koma nýjum Herjólfi á áætlun. Ferjan er of há fyrir bryggjuna í Eyjum og hætta var á að skipið yrði fyrir skemmdum. Nú hefur það verið leyst tímabundið með því að endurnýja ásiglingarvörn úr dekkjum á bryggjunni með nýjum og stærri dekkjum.
 

„Aðstæðurnar eiga að vera klárar fyrir báðar ferðirnar þannig það á ekki að trufla okkur eitt eða neitt svo við erum alsæl með það að geta loksins farið að láta þetta rúlla," segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs.  „Við þurfum bara ákveðinn tíma til að koma okkur í gírinn og svo mun þetta skip bara sigla áætlun eins og hún hefur verið teiknuð upp, sjö ferðir á dag," segir hann. 

Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunar hjá Vegagerðinni, segir að í haust verði ráðist í að hækka viðlegukanta á bryggjunum. „Það gæti kostað jafnvel um 50 milljónir í hvorri höfn, það þarf bæði í Vestmannaeyjum og í Þorlákshöfn," segir Jónas, 100 milljónir í heildina. Vonast er til að það þær breytingar verði kláraðar í lok október.


Einstaklingi í hjólastól neitað um aðstoð af vagnstjóra um borð í strætó

Hvað er eiginlega í gangi hjá Strætó bs? Stjórnendavandi? Í fréttum í kvöld segir einstaklingur sem er í hjólastól frá að honum var neitað um aðstoð um borð í strætó og var skilinn eftir.
Í þessu sambandi langar mig að minna á svar Strætó við fyrirspurn minni um fjölda kvartana en á síðasta ári voru kvartanir/ábendingar 2779 aðallega vegna framkomu vangstjóra, aksturslags og tímasetningar eins og segir í svari frá Strætó.
Ég sagði þá og segi enn að þetta er ekki eðlilegt.
Ég spyr hvað er eiginlega að í þessu fyrirtæki? Allt þetta hlýtur að vera erfitt fyrir það fólk. Hér myndi ég segja að væri um stjórnendavanda að ræða frekar en nokkuð annað.
 
Bókun Flokks fólksins við svari frá Strætó bs. um fjölda kvartana sem kunna að hafa borist Strætó bs frá notendum þjónustunnar:
 
Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar kemur fram að fjöldi ábendinga eru eftirfarandi: 2016 - 3654 ábendingar, 2017 - 2536 ábendingar 2018 - 2778 ábendingar. Flestar ábendingar sem berast Strætó snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins sýnist á svari að gæðakerfið sé gott og gengið er strax í málin en fjöldi ábendinga er óheyrilegur. Borgarfulltrúi átti kannski von á 100 til 200 ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Fjölgun er milli ára 2017 til 2018 og munar þar um ca. 200 ábendingum. Fækkun sem er frá 2016 til 2017 heldur ekki áfram árið 2018 heldur fjölgar þá aftur ábendingum. Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega. Áhugavert væri að fá nánari flokkun á þessu t.d. eru flestar kannski kvartanir vegna tímasetningar? Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega. Slíkur fjöldi ábendinga er ekki eðlilegur.
 
Framhaldsfyrirspurnir í tengslum við svar vegna kvartana til Strætó
 
Í framhaldi af svari Strætó bs. um fjölda kvartana óskar borgarfulltrúi eftir að fá nánari sundurliðun á þessum ábendingum til þriggja ára og upplýsingar um hvort farið hefur verið ofan í saumana á þeim með það að markmiði að fækka þeim. Um þetta er spurt vegna þess að ábendingum fjölgar aftur árið 2018 frá árinu 2017. Það er sérkennilegt í ljósi þess að í svari frá Strætó kemur fram að unnið sé markvisst með ábendingar og er ábyrgðaraðili settur á hverja ábendingu sem tryggir að úrvinnsla hennar eigi sér stað? Loks er óskað upplýsinga um hve margar af þessum ábendingum leiði til verulegra úrbóta.

Laun fyrrum forstjóra Félagsbústaða 1.6 mkr. á mánuði auk yfirvinnutíma

Það angrar mig mjög að forstjórar B hluta fyrirtækja eru sennilega allir á borgarstjóralaunum og gott betur. Ég fékk sundurliðun á launum fyrrum forstjóra Félagsbústaðar á fundi borgarráðs í gær. Hann var með rúma 1.6 milljón á mánuði auk yfirvinnutíma. Þessi laun eru á pari við laun borgarstjóra. Við starfslok var gert upp við hann, hann fékk orlof greitt sem er hefðbundið en einnig 128 yfirvinnutíma greidda.

Svar borgarinnar er hér


Bókun mín í þessu máli segir allt sem segja þarf:

Laun fráfarandi forstjóra Félagsbústaða eru regin hneyksli. Forstjórinn var með rúmar 1,6 m.kr á mánuði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er orðlaus yfir þessari upphæð sem sennilega er á pari við sjálfan borgarstjórann. Fram kemur í svari að viðkomandi átti um 2 mánuði ógreitt orlof og ógreidda yfirvinnutíma. Upplýst hefur verið með yfirvinnu. Við starfslok voru greiddir út  128 tímar í yfirvinnu á tímabilinu 2017 til 2018 samtals 1.961.023. Þetta var ofan á föst laun. Flokkur fólksins gerir skilyrðislausa kröfu til stjórnar að laun núverandi forstjóra verði lækkuð séu þau í einhverju samræmi við þessa upphæð. Laun viðkomandi sem sinnir þessu starfi þarf að vera í einhverju samræmi við þann veruleika sem við lifum í. Hér er um firringu að ræða sem æ oftar virðist vera raunin hjá meirihluta borgarstjórnar og fyrirtækjum í eigu borgarbúa þegar sýslað er með skattfé borgarbúa. Einhver meðvirkni virðist vera í þessu máli.


Að Reykjavík setji á laggirnar sinn eigin "Arnarskóla"

Skóla- og frístundarráð/svið mun gera samning við sérskólann Arnarskóla fyrir næsta haust. Skólinn er staðsettur í Kópavogi. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími á að borgin setji á fót sinn eigin „Arnarskóla“? 

Arnarskóli er frábært úrræði hugmyndafræðilega séð fyrir börn með sérþarfir og hefur Flokkur fólksins ítrekað kallað eftir fjölgun sambærilegra úrræða í Reykjavík til viðbótar við Klettaskóla sem er löngu sprunginn. Biðlisti er í öll sérúrræði, skóla og sérdeildir í Reykjavík og aðeins alvarlegustu tilfellin eru skoðuð. Inntökuskilyrði í Klettaskóla eru ströng sem leiðir til þess að börn sem myndi blómstra í þeim skóla eru látin vera í almennum skóla þar sem þau upplifa sig ekki meðal jafninga.

Það er afneitun í gangi hjá meirihlutanum. Þau neita að horfast í augu við að Skóli án aðgreiningar eins og honum er stillt upp er ekki að virka fyrir öll börn. Dæmi eru um að börnum hefur verið úthýst úr skólakerfinu vegna djúpstæðs vanda, send heim og ekki boðið neitt úrræði fyrr en eftir dúk og disk og þá fyrst eftir að foreldrar hafa gengið þrautargöngu innan kerfisins. Hvað þarf margar kannanir og upphróp til að meirihlutinn hætti að stinga hausnum í sandinn og horfist í augu við að hópur barna sem forðast skólann sinn fer stækkandi, barna sem sýna einkenni kvíða og depurðar sem rekja má beint til líðan í skóla. Borgin á ekki að þurfa að senda börn í sérskóla í öðru sveitarfélagi. Borgin á að hafa skóla eins og þennan á sínum vegum. 

Tillaga lögð fram 19. september 2018

Flokkur fólksins leggur til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn.

Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar afgreiðslu þessarar tillögu og hinna tveggja sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og sem fjalla einnig um skóla- og félagslegar þarfir fatlaðra barna í skólum í Reykjavík. Í svari við tillögunni er bent á að ekki séu biðlistar en staðreyndin er sú að Klettaskóli er mjög eftirsóttur og foreldrum barna sem óska inngöngu er vísað frá áður en til umsóknar kemur. Foreldrum sem óska eftir skólavist í Klettaskóla fyrir börn sín er tjáð strax í upphafi að barnið muni ekki fá inngöngu sé það ekki „nógu“ fatlað til að mæta skilyrðunum. Auk þess er Klettaskóli löngu sprunginn og tekur ekki við fleiri börnum sem segir kannski allt sem segja þarf í þessum efnum. Nauðsynlegt er að hafa skólaúrræði sem mætir ólíkum þörfum barna. Ein tegund úrræðis ætti ekki að útiloka annað. Málið snýst um að hafa val. Börn með þroskahömlun eru nefnilega ekki öll eins og þeim hentar ekki öllum það sama. Það þrífast ekki öll börn í þeim úrræðum sem eru í boði. Það vantar annan skóla eins og Klettaskóla og það vantar einnig úrræði fyrir börn með væga og miðlungs þroskahömlun, börnum sem líður illa í almennum bekk, námslega eða félagslega. Barn sem líður illa lærir lítið. Það væri óskandi að borgin/borgarmeirihlutinn myndi vilja horfast í augu við þessa staðreynd ekki síst í ljósi vaxandi vanlíðan barna eins og skýrsla Embættis landlæknis hefur fjallað um.


Margar litlar rafbílahleðslustöðvar í stað fárra stórra

Fyrir þá sem hyggjast kaupa rafbíl eru stærstu áhyggjur að komast ekki að stöð. Ef aðeins eru fáar stórar stöðvar munu myndast biðraðir. Vænta má að margir haldi að sér höndum við að kaupa rafbíl því þeir  óttast að þeir þurfi að bíða efir að komast í rafmagn. Meðan þetta er raunveruleikinn þá eykst rafbílaflotinn hægt. Reykjavíkurborg á stóran meirihluta í OR/Veitum og því er eðlilegt að borgarstjórn hafi skoðun á þessu máli þrátt fyrir að þetta sé B hluta fyrirtæki í eigum þriggja sveitarfélaga. Reykjavík er langstærsti eigandinn. Benda má reynsluna t.d. Osló en þar hefur einmitt fjöldi stöðva skipt öllu máli. 

Flokkur fólksins lagði til á fundi borgarráðs að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að OR/Veitur og Reykjavíkurborg stefni að  því að hafa margar litlar  rafbílahleðslustöðvar í stað fárra stórra. 

 

Í upphafi rafbílavæðingarinnar voru hleðslustöðvar margar og rafbílavæðingin tók hratt af stað, enda sá fólk  að það gæti hlaðið.  Fyrir hverja stöð voru ca. 4 bílar og þær voru allar litlar (lítið afl, enda höfuðmálið að setja upp margar stöðvar og nýta tímann). 
Þar er í fyrsta sinn að verða vandamál að finna stöðvar, en hlutfallið er í dag ca. 10 bílar per stöð.  Viðbrögðin eru að byggja upp millihraðar stöðvar (7,4 - 22kW)  á helstu akstursleiðum til/frá borginni ásamt því að byrja í fyrsta sinn að rukka fyrir notkun hleðslustæðanna svo rafbílaeigendur noti ekki hleðslustæði til að sleppa við að borga í stæði. Osló að gera hlutina rétt - fókusinn er á að hafa nógu margar stöðvar við bílastæði í borgarlandinu fyrir langtímahleðslu og nýta tímann til að hlaða í stað þess að einblína á aflið. Það er hins vegar gert á hraðhleðslustöðvum sem eru við áningarstaði.
Svo virðis t sem að ON stefni að fáum en öflugum hleðslustöðum í stað margra litla. Það er óþarfi að gera mistök sem þessi sér í lagi þegar nóg er af góðum fyrirmyndum erlendis sem virkað hafa frábærlega.

 


Viðbrögð einkenndust af útúrsnúningum og niðurrifi

Hafnað í borginni, samþykkt á Alþingi

Það hlýtur að teljast sérstakt að tillögu sem hafnað er af hörku í borgarstjórn er stuttu síðar komin í lög. Á borgarstjórnarfundi 16. október, 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að heimila akstur bifreiða með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða um göngugötur í miðborg Reykjavíkur og að bifreiðum með slíkt stæðiskort verði heimilt að leggja á bílastæðum á göngugötum borgarinnar. Tillögunni var illa tekið af meirihlutanum í borgarstjórn og einkenndust viðbrögð af niðurrifi og útúrsnúningum. Einkum fulltrúar frá Samfylkingunni og Viðreisn kepptust við að draga umræðuna niður á lágt plan.

Mannréttindamál

Sjálfsagt er að takast á um þetta mál sem önnur með heiðarlegum hætti. En nú þarf ekki að takast á um þetta mál lengur. Löggjafinn hefur haft vit fyrir meirihluta borgarstjórnar enda hér um mannréttindamál að ræða. Á það skal minnt að á vefsíðu Reykjavíkurborgar stendur skýrt og skorinort: „Óheimilt er að mismuna fólki vegna fötlunar. Allir eiga rétt á virkri þátttöku í reykvísku borgarsamfélagi og fatlaðir skulu eiga jafnan aðgang að þjónustu og ófatlaðir.“ Þetta ætlaði meirihlutinn í borgarstjórn einfaldlega að hunsa en hefur engu að síður til skrauts á vefsíðu borgarinnar. Horfa skal til þess að meirihlutinn hefur samþykkt án samráðs við hagsmunasamtök hreyfihamlaðra sem og rekstraraðila að fjölga göngugötum og hafa ákveðið að gera vinsælustu götur miðbæjarins að göngugötum varanlega.

Eins skemmtilegar og göngugötur geta verið þá eiga margir sem eru hreyfihamlaðir ekki auðvelt aðgengi að þeim. Það er ekki nema lítill hluti hreyfihamlaðs fólks sem notast við hjólastól eða göngugrind og getur því nýtt sér göngugötur (svo framarlega sem bílastæði eru nálægt). Fyrir stóran hluta hreyfihamlaðs fólks er lokuð göngugata hindrun á aðgengi og þýðir að þeir sem eiga erfitt með gang forðast þær einfaldlega. Það yrði varla á bætandi því að nú þegar er mikill fólks- og fyrirtækjaflótti af þessu svæði.

Grein birt í Fréttablaðinu 16.7. 2019


Spurt um borgarlínu í borgarráði

Í allri þessari umræðu um borgarlínu er afar margt loðið og óljóst. Þess vegna lagði ég fram nokkrar spurningar um hana á síðasta fundi borgarráðs: 
1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin? 
2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 
3.Hversu margir km. verður línan? 
4. Hvað þarf marga vagna í hana? 
5. Á hvaða orku verður hún keyrð? 
6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir? 
7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu? 
8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna? 
9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?

Borgrlína jpg

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.


Margir eldri borgarar óttast bílastæðahúsin

Reykjavík rekur 7 bílastæðahús. Það er margir hræddir við að fara inn í bílastæðahúsin og má nefna eldri borgara  en einnig fleiri úr hinum ýmsu aldurshópum. 
Aðkoma og aðgengi að bílastæðahúsum er víða slæmt. Inn í þeim er einnig oft þröngt og fólk hrædd við að reka bílinn sinn í.  Margir eldri borgarar, fatlaðir og einnig ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, auk þess sem aðkoma sumra þeirra er ekki mjög sýnileg. Stærsti vandinn er hins vegar sá að mjög mörgum finnst greiðslumátinn flókinn. Fólk óttast oft einnig að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu eins og oft er á kvöldin.

Borgarmeirihlutinn hefur aldrei rætt þessa hlið í tengslum við bílastæðahúsin. Þegar sagt sé að nóg sé af bílastæðum í bænum þá er þessi vinkill aldrei skoðaður nú þegar allt kapp er lagt á að loka fyrir umferð bíla á stóru svæði eða fækka bílastæðum á götum.

 

Taka bara strætó!

Nú liggur fyrir að stækka á gjaldsvæðið í bænum og hækka bílatæðagjald sem og hefja gjaldtöku á sunnudögum. Þetta er alls ekki tímabært því langt er í land að almenningssamgöngur geti verið fýsilegur kostur. Sumar leiðir strætó ganga ekki einu sinni á sunnudögum.  Þær leiðir sem ekki keyra um helgar eru 31, 17, 33 og 34. Akstur hefst kl. 9:30 og á nokkrum leiðum er farinn einum hring minna á kvöldin en á öðrum dögum. 

bílastæðahús


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband