Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019
Dofin og vanmátta þegar mál eru keyrð í gegn í borgarráði
7.7.2019 | 08:40
Á einu vettvangi er búið að taka ákvörðun um að umbylta heilum dal, Elliðaárdalnum. Því miður er ég aðeins áheyrnarfulltrúi í borgarráði, hef ekki atkvæðarétt en hef málfrelsi og bókunarrétt.
Tillaga meirihlutans um þetta umdeilda deiliskipulag felst m.a. í byggingu á afar sérstökum byggingum, gróðurhvelfingum við Stekkjarbakka sunnan við Elliðaárdalinn.
Allt tal á fundinum og hvatning um að hafa viðhlítandi samráð,fresta málinu og taka það inn í borgarstjórn var ekki inn í myndinni þegar málið var lagt fyrir á fundi borgarráðs í vikunni.
Ég er Reykvíkingur í húð og hár svo ég á auðvelt með að setja mig í spor borgaranna. Sem borgarfulltrúi í minnihluta er maður algerlega vanmáttugur gegn því afli sem stýrir borginni á svona stundum. Hvað þá borgararnir sjálfir! Þeir eiga ekki möguleika á að spyrna fótum gegn þessari eða annarri ákvörðuninni um framkvæmdir sem borgarmeirihlutinn vill láta gera sama þótt þeir sendi inn tugi rökstuddra umsagna og mótmæli. Ákvörðun meirihlutans verður einfaldlega ekki hakkað.
Mál eru misjöfn vissulega, rista misdjúpt og hafa mismikil áhrif og afleiðingar. Í þessu máli, deiliskipulagi við Stekkjarbakka erum við að tala um stórt mál með miklum áhrifum og afleiðingum.
Flokkur fólksins vill bara almennilegt samráð við borgaranna og ef mál eru mjög umdeild þá ráði meirihluti í kosningu eða vali á skipulagi. Til þess að skýr afstaða liggi fyrir í þessu máli hefði þess vegna átt að vera íbúakosning.
Borgarstjóri og hans fólk segja sífellt að það sé mikið og gott samráð við fólkið í borginni en þegar betur er að gáð kemur í ljós að það er ekki satt.
Tökum dæmi um lokanir á Laugavegi og nágrenni. Þá var sagt að haft var samráð en í ljós hefur komið að það var ekki rætt við neinn af tæplega 300 rekstraraðilum. Margir hafa núna flúið svæðið og fleiri eru að pakka saman.
Hvað varðar Elliðaárdalinn og þetta nýsamþykkta deiliskipulag er sagt að það hafi verið haft mikið og gott samráð. Það er staðfest að haldinn var einn samráðsfundur eða voru þeir kannski tveir?
Athugasemdir komu víða að m.a. frá Umhverfisstofnun sem sendi Skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur bréf þar sem kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að byggingar muni þrengja að vatnasviðinu og yfirtaka hluta af útivistarsvæði sem nú er ætlað almenningi. Dagur segir að þessum athugasemdum hafi verið svarað svo ekki orð um það meir.
Vel kann að vera að málið hafi verið lengi í undirbúningi og sagt er að ábendingum hafi verið svarað. En að senda svar til fólks og hagsmunahópa sem eru að benda á vankanta er ekki staðfesting á að sameiginleg lending hafi náðst!
Það er alveg ljóst að ekki hefur verið haft viðhlítandi samráð við hagsmunaaðila og áhugafólk/nágranna við Stekkjarbakka um Elliðaárdalinn. Ef það hefði verð gert væri ekki allt þetta uppnám vegna þessarar ákvörðunar.
Staðreyndin er að að þetta er ákvörðun lítils hóps, borgarstjóra og hans fólks sem finnst þessi hugmynd/deiliskipulag geggjað flott og þótt það yrðu gargandi mótmæli lætur þessi hópur það um vind og eyru þjóta. Þau ætla bara að bíða þessi læti af sér og halda kannski svo að þegar rykið sest finnist öllum þetta svo mikið æði að stytta verði steypt af borgarstjóra og hún sett fyrir framan gróðurhvelfinguna? Þau eru e.t.v. þess fullviss að komandi kynslóðir munu líta til núverandi borgarstjóra sem einn af þeim allra frábærustu sem vermt hefur borgarstjórastólinn?
Á það hefur verið bent að þessi breyting varðar stórt svæði, útivistarsvæði, dýralífssvæði og hér er m að ræða einstaka náttúruperlu. Enginn er að segja að ekkert eigi að gera þarna nokkurn tíman. En vegna þess hversu viðkvæmt þetta svæði er verður að vinna skipulagið með fólkinu eins og framast er kostur.
Þegar taka á svo mikilvæga og vandasama ákvörðun eru 1-2 mánuður til eða frá ekki stórmál. Þess vegna hefði átt að fresta þessu máli í borgarráði til hausts og leggja það fyrir borgarstjórn til að eiga um það opinskáa og gegnsækja umræðu. Aðalatriðið er áður en nokkuð er ákveðið að gefa íbúum kost á að kjósa um þetta deiluskipulag. Um þetta verður seint friður nema að haft verði fullt samráð.
Ef eitthvað lýðræði er til í þessari borg hefði mér persónulega fundist að það hefði átt að leggja fram nokkrar tillögur og leyfa borgurum að kjósa á milli þeirra.
Líðan mín og upplifun á fundi borgarráðs
Satt að segja snöggbrá mér þegar skyndilega átti að greiða um þetta atkvæði á fundi
borgarráðs sl fimmtudag. Málið var samþykkt andartaki síðar. Mér fannst ég finna til doða og máttleysis og ef einhver hefði litið á mig leit ég sennilega út eins og fiskur á þurru landi.
En hér er bókun Flokks fólksins lögð fram í borgarráði á fimmtudaginn var:
Vissulega er aldrei hægt að gera öllum til geðs. En í þessu tilfelli er um stórmál að ræða, afar viðkvæmt svæði, fullt af dýralífi sem margir láta sig varða. Þess vegna verður að vera íbúakosning um þetta nýja deiliskipulagi fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjabakka. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð samþykkti, á fundi miðvikudaginn 6. desember, að veita félaginu Spor í sandinn ehf. vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti en ætlunin er að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir ALDIN BioDome. Þetta er afar umdeilt mannvirki. Hér er um að ræða 20 metra hátt mannvirki, hjúpað gleri. Borgarmeirihlutinn virðist vera sérlega hrifinn af háum glerhjúpamannvirkjum. Skemmst er að minnast verksins Pálma í Vogahverfi. Í þessu máli er talað um að það hafi verið haft samráð við íbúana og fólk hafi verið afar ánægt með þetta en um var að ræða einn samráðsfund eftir því sem næst er komist? Hér hefði átt að fresta málinu og taka það aftur upp í haust og þá í borgarstjórn.
Þetta er sko líka minn miðbær
6.7.2019 | 14:30
Ekki skemma miðbæinn
Framkvæmdir í miðborginni hafa leitt til þess að hún er að missa sjarmann. Áður sást víða yfir sundin en núna skyggja byggingar á útsýni. Úr borginni flýja rekstraraðilar og margir forðast að koma í bæinn nema til að sækja skemmtanalífið. Niðurstöður Zenter rannsókna staðfesta þetta ásamt almennri óánægju með framkvæmdir og breytingar.
Mistekist hefur að gera almenningssamgöngur að fýsilegum kosti. Þess í stað eru götur miðbæjarins þrengdar, þeim lokað og illa skipulagðar ljósastýringar og hraðahindranir settar upp. Nú er búið að hrekja stóran hluta reksturs úr miðbænum og sækja Miðbæingar meira verslun í Vesturbæinn. Mýrargata og Hringbraut eru sprungnar. Beygjuljósið við Geirsgötu logar í allt of stuttan tíma og veldur töfum við Hringbrautina.
Hvernig getur bærinn orðið fyrir alla?
Til að gera miðbæinn líflegan verður hann að vera fyrir alla, hafa aðgengi fyrir alla, sama með hvaða leiðum þeir koma. Lengi var ekki byggt nægjanlega í Reykjavík og fjöldi fólks ýmist heimilislaust eða fór annað. Nú er ofgnótt af dýrum íbúðum sem ekki seljast á meðan mörg hundruð bíða eftir hagkvæmu eða félagslegu húsnæði.
Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur um hvernig létta má á umferð og bæta aðgengi en þær felldar eða vísað frá. Ein stærstu mistök meirihlutans er að hugsa ekki fyrir þörfum allra. Hér þarf að koma inn ný hugsun sem er sú að minnka tafir fyrir alla, líka þá sem eru á bílum. Ferð hvers einstaklings skiptir máli.
Borgarlína á að leysa vandann en mörgum spurningum er enn ósvarað. Hvar liggur hún, hvernig farartæki er hún og hvernig knúin? Hvað kostar að reka borgarlínu og hver á að reka hana?
Vandinn er núna og á honum þarf að taka. Nýta þarf tæknina til að auka umferðarflæði. Setja stýrikerfi á umferðarljós sem snýst um að lágmarka tafatíma hvers og eins. Nota tölvukerfi til að mæla flæðið, hindranir og tafir. Að hindra aðgengi eða refsa bílaeigendum með aukinni gjald- og skattlagningu er ekki leiðin.
Grein birt í Fréttablaðinu 5.7. 2019
Það er ekki satt að engu barni var vísað úr skóla vegna alvarlegs hegðunarvanda á þessu tímabili sem spurt var um. Annað foreldri hafði samband við mig í morgun og sagði mér sambærilega sögu og þá sem við þekkjum úr fréttum. Það er ekki við veslings starfsfólkið á skóla- og frístundarsviðinu að sakast þarna heldur valdhafa sem setja fé okkar borgara í allt önnur mál en málefni barnanna.
En hér er mín bókun, Flokks fólksins við svarinu:
Bókun Flokks fólksins
Flokkur fólksins þakkar svarið við fyrirspurninni, sem finna má í lokamálsgrein: það er að ekki eru til nein dæmi þess síðastliðin 5 ár að barn hafi ekki fengið skólavist vegna þess að það glímir við djúpstæðan hegðunarvanda tengda röskun af einhverju tagi.
ÞETTA ER NÁTTÚRULEGA EKKI RÉTT enda skemmst að minnast máls stúlku sem ítrekað var rætt um í fréttum nýlega en henni hafði verið úthýst úr skólakerfi borgarinnar vegna félags- og tilfinningalegra vandkvæða.
En nokkur orð um svarið sjálft sem er langt og loðið. Borgarfulltrúi veit að oft er mikil vinna við að svara fjölda fyrirspurna frá borgarráði og vill benda á að alveg óþarfi er að eyða of mikilli orku í að rekja ákvæði laga og reglugerða.
Betra er að koma sér beint að því að svara fyrirspurninni með skýrum hætti. Fyrirspurnin var lögð fram af tilefni þar sem alvarlegt dæmi um að barn var utan skóla vegna hegðunarvanda hafði verið reifað í fjölmiðlum og var ósk Flokks fólksins að vita hvort um fleiri slík tilfelli væri að ræða.
Svo virðist ekki vera samkvæmt þessu svari sem er ekki rétt eins og ofangreinir.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/07/05/engu_barni_verid_neitad_um_skolavist/