Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Kjördæmapot yrði úr sögunni ef landið væri eitt kjördæmi

Kjördæmapot yrði úr sögunni ef landið væri eitt kjördæmi. Það hefur stundum borið á því að þingmenn kjördæma hafi hyglað mönnum og máefnum sem einskorðast við það kjördæmi sem þeir voru kosnir í.

Þetta er sögulega einn aðal ókosturinn við það kjördæmafyrirkomulag sem nú ríkir.

Reyndar var þetta enn verra hér áður fyrr. Halda mætti að um væri að ræða einhvers konar hefð sem erfitt er að komast út úr.

Tengsl hafa myndast, menn eru nánir hver öðrum, jafnvel frændur. Þetta á við um stærri sem smærri kjördæmi en er þó e.t.v. meira áberandi í þeim smærri vegna smæðarinnar.

Kjördæmaskipan þarf m.a. að taka fyrir á stjórnlagaþingi. Mjög margir eru sammála um það.


Viðtöl við frambjóðendur. RÚV stendur sig vel.

Ég vil þakka RÚV fyrir að gera sitt allra besta með að kynna frambjóðendur til stjórnlagaþings.

Í dag var ég ásamt fjölmörgum öðrum í fimm mínútna viðtali um af hverju ég gæfi kost á mér til stjórnlagaþings og  hverju, ef einhverju, ég vildi breyta í stjórnarskrá Íslands?

Skipulag var til fyrirmyndar. Viðhorf og móttaka starfsmanna var til fyrirmyndar.

Hvað svo sem mér finnst ég geta sagt um eigin frammistöðu í viðtalinu er klárt í mínum huga að RÚV er að sinna hér skyldu sinni með sóma. Smile

Takk fyrir það RÚV.


Hvorki betri né færari

Í hópi frambjóðenda er gríðarlegu fjöldi af hæfu og færu fólki.

Ég skil vel ef kjósendur eru í vanda með val sitt. Mikill kostur er þó að hafa úr slíkum fjölda að velja og að geta valið svo marga sem raun ber vitni. 

Ég geri mér góða grein fyrir að enda þótt ég telji mig góðan kost í þetta verkefni þá er ég hvorki betri né hæfari til að takast á við það en fjölmargir aðrir frambjóðendur.

Vonandi velst á þingið hópur af heiðarlegu fólki sem á gott með að eiga samskipti. Hópurinn ætti helst að vera sem næst því að vera þverskurður af samfélaginu. Stjórnlagaþingmenn þurfa einnig að hugsa stöðugt um á meðan á verkefninu stendur, hvernig samfélag gagnast best komandi kynslóðum.


Starfshættir Alþingis fyrr, nú og í framtíðinni

Í tilefni umræðunnar í tengslum við stjórnlagaþing set ég hér inn fróðlegt viðtal við Ragnhildi Helgadóttur fyrrv. alþingismann og ráðherra.

Við græðum yfirleitt á því að hlusta á reynslumikið fólk eins og Ragnhildi. Af henni getum við lært með hvaða hætti við viljum hafa eitt og annað í sambandi við t.d. starfshætti á Alþingi.


Bréf afhent útvarpsstjóra í dag

Við undirritaðir frambjóðendur til stjórnlagaþings skorum á Ríkisútvarpið til að sinna skyldum sínum fyrir komandi stjórnlagaþingskosningar.

Greinargerð
Samkvæmt lögum hefur Ríkisútvarpið ákveðnum skyldum að gegna í íslensku samfélagi. Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið er kveðið á um hlutverk þess og skyldur. Þar segir meðal annars.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.

Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.

 

Þann 27. nóvember næstkomandi fara fram sögulegar kosningar hér á landi til stjórnlagaþings og teljum við, undirritaðir frambjóðendur til stjórnlagaþings, það vera skyldu Ríkisútvarpsins að „veita hlutlæga upplýsingagjöf“ fyrir kosningarnar. Slík umfjöllun felst meðal annars í því að fjalla um frambjóðendur, hlutverk stjórnlagaþings og framkvæmd kosningarinnar.

Ríkisútvarpið virðist hafa tekið þá ákvörðun að fjalla sem minnst um stjórnlagaþingið, að því virðist vegna þess hversu margir frambjóðendurnir eru. Skiljanlega er erfitt að fjalla með viðunandi hætti um stefnu 523 frambjóðanda með hefðbundinni útvarps- og sjónvarpsdagskrá. Við sem erum í framboði teljum þó að Ríkisútvarpið geti sinnt skyldu sinni með margvíslegum hætti.

Við skorum því hér með á Ríkisútvarpið til að sinna skyldum sínum um „víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu.“

Frambjóðendur til stjórnlagaþings 2010

Undirskriftir um 160 frambjóðenda.



Hráki fyrir horn

Nú keppumst við frambjóðendur til stjórnlagaþings um að skrifa pistla um afstöðu okkar til ýmissa mála tengdum stjórnarskránni og endurskoðun hennar.  Auðkennisnúmer frambjóðenda svífa yfir hvert sem litið er.

Mér datt í hug að slaka aðeins á hvað þetta varðar enda óvíst hverju skrifin skila og segja frekar frá skondnu atviki í dag sem ég var óbeinn þátttakandi í.

Ég kom á hraðferð fyrir horn í Mjóddinni. Handan hornsins, í orðsins fyllstu merkingu, stóðu þrjú ungmenni úti að reykja. Á sama tíma og ég strunsa fyrir hornið hrækir eitt þeirra.
Ég sá þessa stóru hvítu slummu svífa í átt að buxnaskálminni, stífa vegna kuldans.  Sá sem hrákann átti sýndi svipbrigði undrunar og smá streitu.

Þetta var svo innilega óvart hjá greyið stráknum. Þess vegna gat ég ekki annað en haft gaman að þessu. Að fá á sig hráka fyrir horn með þessum hætti er sannarlega óvænt og dálítið skemmtilegt líka þótt það sé að sjálfsögðu mesti ósiður að hrækja á götuna.  Ég mun á efa muna eftir þessu atviki hverju svo sem kosningu til stjórnlagaþings líður.


Skerpa á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu

Eitt af því sem ég myndi vilja sjá í endurskoðaðri stjórnarskrá er að skerpt verði á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Rýmka mætti þann rétt og skilgreina hann nánar.

Ef í ljós kemur að  t.d. 20 prósent þjóðar er ósáttur við ferli eða framgang máls eða 45 prósent stjórnarandstöðu (sterkur minnihluti) má ætla að málefnið sé af þeim toga að kanna þurfi með marktækum hætti álit og mat fólksins í landinu.

 


Varasamt að færa of mikil völd í hendur eins aðila

Niðurstöður þjóðfundar eru í meginatriðum mjög góðar og eiga eftir að nýtast vel á stjórnlagaþingi. Frekari upplýsingar koma um þær síðar í dag.

Meðal þess sem fram kom á fundinum var að

"á Íslandi skuli valdhöfum settur skýr rammi með siðareglum þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins er haft að leiðarfrelsi"

og

"við viljum þrískiptingu valdsins, valdameiri forseta og varaforseta, aðskilja ríki og kirkju, sjálfstæða dómstóla, jafnan atkvæðisrétt og eitt kjördæmi"

Aukin ráðherraábyrgð og almennt gegnsæi eykur líkur á að það sem gerðist fyrir hrun gerist ekki aftur. Hvað varðar að færa meiri völd á hendur forseta er spurning.

Það getur verið varasamt að færa of mikil völd i hendur eins aðila hvort heldur forseta eða einhvers annars.  Í embætti forseta, eins og í önnur embætti, getur slæðst vanhæfur einstaklingur sem hvorki kann né getur farið með völd og eða beitir þeim að geðþótta og hentugleika sem ekki endilega þarf að vera í takt við þjóðarhagsmuni ef því er að skipta.


Fisksali eða forseti

fisksalimbl0066913.jpg

Það er engin stétt yfir það hafin að lúta siðareglum hvort heldur það er fisksalinn eða forsetinn. Að fylgja siðareglum er ekki merki vantrausts heldur er um að ræða gróf viðmið sem gagnast bæði þeim sem þjónustuna veitir og þiggjanda hennar.

Sjá meira á pressan.is

forsetimbl0088766.jpg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband