Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

Hvað er í gangi hjá Félagsbústöðum?

Félagsbústaðir hafa talsvert verið til umræðu að undanförnu og kemur ekki til af góðu. Margir hafa leitað til mín og sagt farir sínar ekki sléttar í samskiptum við þetta fyrirtæki sem er undir B hluta borgarinnar. En fæstir þora að koma fram undir nafni af ótta við afleiðingar.

Þetta er óhuggulegt og tel ég að við þurfum að leggjast á eitt til að finna út hvað sé þarna í gangi. Á fyrsta borgarstjórnarfundi lagði ég fram tillögu um að óháðir aðilar yrðu fengnir til að taka út ýmsa þætti þarna, ekki einungis reksturinn. Þessari tillögu var í gær, á fundi borgarráðs, vísað til umsagnar hjá fjármálastjóra og innri endurskoðun. Ég var ósátt við þessa afgreiðslu og lét bóka það. Hefði viljað sjá óháðan aðila kalla sjálfur eftir gögnum m.a. hjá fjármálastjóra og frá innri endurskoðun eftir atvikum.

Í gær var ég með aðra tillögu sem tengist Félagsbústöðum. Hún hljóðar svona:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á biðlista Félagsbústaða
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að gerð verði úttekt á biðlista Félagsbústaða. Í greiningunni komi fram:

1. Hverjir eru á biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar?

2. Hverjar eru aðstæður þessara aðila, fjölskylduaðstæður, aldur og ástæður umsóknar?

3. Hversu langur er biðtíminn?

4. Hvað margir hafa beðið lengst og hversu lengi er það, hverjir hafa beðið styst, hversu stutt er það?

5. Hve margir hafa fengið einhver svör við sinni umsókn og hvernig svör eru það (flokka svörin) og hversu lengi voru þeir búnir að bíða þegar þeir fengu svör?

6. Hafa einhverjir sótt um oftar en einu sinni, ef svo er, hvað margir og hverjir höfðu fengið svör við fyrri umsókn sinni og þá hvers lags svör?

7. Hvað margir hafa fengið synjun síðustu 10 árin og á hvaða forsendum?

8. Hvað margir bíða á listanum sem hafa fengið einhver svör við umsókn sinni en þó ekki synjun?

9. Hvar eru þeir sem bíða nú búsettir?

10. Hvað margir hafa sent ítrekun á umsókn sinni síðustu 3 árin?

Tillögunni var frestað.


Fliss, háð og spott á borgarstjórnarfundi

Fliss, háð og spott og ávirðingar og árásir á einstaka nýkjörinn borgarfulltrúa einkenndu samskipti borgarstjórnarinnar í garð stjórnarandstöðunnar á fyrsta fundi borgarstjórnar 19. júní sl.
Þetta kom mér mjög á óvart. Í tvígang taldi ég mig knúna til að fara í pontu og krefjast þess að fólk hagaði sér vel, sýndi kurteisi, virðingu og væri málefnalegt enda get ég ekki liðið að sitja þögul við þessar aðstæður. 
Ég spyr mig nú í upphafi starfs á nýjum vinnustað hvort svona framkoma og hegðun hafi kannski tíðkast í gegnum árin? Mér sýnist að þörf sé á skýrum samskiptareglum og að til sé viðbragðsáætlun gegn einelti í borgarstjórn.
Ég hef áralanga reynslu af því að vinna með samskipta- og eineltismál og hef skrifað fjölmargar greinar um einelti á vinnustað. Ég myndi gjarnan vilja heyra í öðrum borgarfulltrúum, fráfarandi og núverandi um hvort þeir telji að einelti hafi tíðkast á þessum vinnustað.Mér blöskraði


Er borgarráð "dauðadeild"?

Fyrsti fundur minn í borgarstjórn hefur nú staðið á áttundu klukkustund og enn er nokkuð eftir af málum. Ég hef tekið nokkrum sinnum til máls undir ýmsum liðum og hef einnig mótmælt dónalegri framkomu eins borgarfulltrúa og ómálaefnalegri umfjöllun þessa sama borgarfulltrúa. Ég hef flutt tillögu sem fjallar um það að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum (sjá tillögu í heild sinni hér neðar).

Tillagan fékk góðan stuðning frá hinum stjórnarandstöðuflokkunum en meirihlutinn ákvað að vísa tillögunni til borgarráðs. Hvað um hana verður er spurning en eftir því sem ég skil er afar algengtað þar sofni tillögur stjórnarandstöðu svefninum langa. Mér er nú að verða það ljóst að sennilega bíður þessi málsmeðferð flestra tillagna stjórnarandstöðunnar sem lagðar eru fram í borgarstjórn. Í borgarráði hef ég ekki atkvæðarétt en hef tillögurétt og rétt til að tjá mig.

mynd frá eyjan.is

Borgarstjórn
19. júní 2018

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum
Borgarstjórn samþykkir að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á
Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu
leigutaka. Úttektin skal liggja fyrir eigi síðar en á fyrsta borgarstjórnarfundi í september.

Greinargerð:
Leiguverð á íbúðum Félagsbústaða hefur í einhverjum tilfellum verið að hækka og er að sliga
marga leigjendur. Einnig hafa fjölmargar ábendingar og kvartanir borist um að húsnæði á
vegum Félagsbústaða sé ekki haldið við sem skyldi.
Óskað er eftir úttekt á rekstri félagsins, þar sem farið er yfir launamál stjórnenda þess,
stjórnarhætti og hlutverk fyrirtækisins m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar
hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Það er ýmislegt sem orkar tvímælis þegar rýnt er í rekstur
félagsins en það skal ekki rekið í ágóðaskyni. Í ljósi þess er athyglivert að Félagsbústaðir hafi
sýnt svo mikinn hagnað á liðnu ári. Óskað er eftir að svarað verði spurningum um það hvernig
hinn mikli hagnaður félagsins er myndaður og hvernig þessir liðir eru færðir í bókhaldi
félagsins.
Í úttektinni þarf m.a. að svara hvernig vinnubrögð eru viðhöfð við endurmat eigna og færslu
bókhalds í því sambandi. Er núverandi rekstrarform sem best til að þjóna hagsmunum
notenda?
mynd frá eyjan.is


Borgarmeirihlutinn lemur niður þá sem þurfa og vilja nota einkabílinn sinn

Ég bý í Efra Breiðholti og sæki nú vinnu niður í miðbæ. Umferðin báðar leiðir er mikil, a.m.k kosti tveir flöskuhálsar á leiðinni á annatíma. Bílastæðagjaldið í miðbænum er á annað þúsund krónur á dag, allur dagurinn.
Í Sáttmála meirihlutans segir að gjaldskyld svæði verði stækkuð og gjaldskyldutími lengdur. Svo lengi getur vont versnað fyrir manneskju sem vill og þarf að nota einkabílinn sinn til að komast til og frá vinnu sinni í miðbænum.

Skert heimaþjónusta í sumar. Nýji meirihlutinn segist hafa lausnir

Frá kynningu nýs meirihluta í gær á málefnasamningi sínum.
Ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins vildi vita hvað þau ætluðu að gera varðandi heimaþjónustuna sem verður að skerða í sumar vegna manneklu en ekki hefur fundist starfsfólk til þess að sinna afleysingum. Ég vildi einnig vita hvort þau hefðu rætt þetta langvinna, alvarlega vandamál í viðræðunum.

Sjá má svar borgarstjóra hér þegar rúmlega 8. mín. eru liðnar af upptökunnimynd 2 nýr

Mynd 1 nýr


Fæ ég tækifæri?

Eineltismál hafa verið mér hjartans mál árum saman. Sem nýkjörinn borgarfulltrúi langar mig mjög að fá tækifæri til að nýta áratuga þekkingu mína og reynslu í eineltismálum í þágu starfsmanna og barnanna í borginni. Spurning er um hvort maður fái tækifæri til þess ef niðurstaðan verður sú að ég fari í minnihluta?

Sjá nánar um vinnu mína í eineltismálum á kolbrunbaldurs.is

Kolla í dv eftir kosn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband