Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Framsókn bæði misskilur og misnotar stöðu sína.

Það kemur kannski ekki á óvart að það sem Framsókn bauð í upphafi hefur nú tekið á sig nýjar og flóknari myndir.

Framsókn bauð fram stuðning sinn við þessa minnihlutastjórn til þess að verja hana falli. Í tilboðinu vildi Framsókn að lögð yrði áherslu á: stjórnlagaþing, aukna aðstoð við heimilin og kosningar sem fyrst. 

Þetta er nú þegar komið inn í málefnasamninginn en þá hefur Framsókn bætt við kröfum og heimtar nú að stinga puttunum í fleiri mál. 

Stóð það til að þeir myndu eiga að leggja blessun sína yfir allt sem þessi stjórn hygðist ætla að gera?

Ef svo er hef ég alla vega misskilið tilboð Framsóknar frá upphafi.

Við þetta má bæta þeirri hugsun að þeir gætu allt eins verið aðilar að þessu ríkisstjórnarsamstarfi þar sem þeir ætla hvort eð er að vera með nefið ofan í öllum málum.

Ef Framsókn ætlar að halda áfram að vera þessi hindrun og breyta leikreglunum svona eftir hendinni trúi ég að þeir ríði ekki feitum hesti frá kosningunum í vor.

 


Helsti styrkleiki sérhvers stjórnmálaflokks

Velferðarmál í brennidepli er frétt sem ber að fagna.

Fólk sem stafar að velferðarmálum landans fagnar án efa þeirri frétt að leggja eigi áherslu á velferðarmálin. Velferðarmál hafa verið í brennidepli með einum eða öðrum hætti en vegna erfiðra aðstæðna í samfélaginu núna er gríðarlega mikilvægt að á þau verði lögð sérstök áhersla.

Stefnuskrá flestra flokka tekur á þessum málaflokki enda þótt þau fái mismikið í rými á hverjum tíma.

Til að öllum málasviðum sé sinnt er það óumdeilanlegur styrkleiki sérhvers stjórnmálaflokks að hafa að skipa breiðum hópi, manna og kvenna sem lagt geta lóð á vogarskálar ólíkra málaflokka.


Ákveðin útfærsla persónukjörs gæti verið fýsilegur kostur.

Það eru miklar líkur á að fyrir dyrum séu einhverjar breytingar er viðkoma vali á fulltrúum til að gegna þingmennsku. Sem dæmi þá hugnast mörgum sú breyting að geta kosið menn en ekki flokka. Þannig geti einstaka þingmenn fylgt frekar sinni samvisku og sannfæringu í stefnumálum.

Persónukjör í formi óraðaðs lista sem flokkarnir leggðu fram gæti verið fýsilegur kostur.
Hitt er hvort kjósa eigi persónur óháð flokkum. Til greina kemur auðvitað að flokkar geti boðið fram lista sem er óraðaður og sé það þá í valdi kjósandans að velja þá aðila á listanum sem hann vill setja efsta. Einnig gæti maður hugsað sér hvort sem listinn er raðaður eða óraðaður að kjósandanum sé það í sjálfsvald sett hvort hann merki við einn eða þrjá ef því er að skipta. Þess vegna gæti hann valið einn frambjóðanda og látið þar við sitja.

Kosningarkerfi er eflaust hægt að breyta með ýmsum hætti, bæði á flókinn máta og einfaldan. Ein útfærslan er að hafa einhvers konar einstaklingsframboð þannig að atkvæði kjósandans þurfi ekki að tilheyra neinum flokki heldur einungis persónu. Þessi aðferð held ég að sé sjaldgæf ef nokkurs staðar viðhöfð enda illa farið með atkvæðið. Þeir sem mæla fyrir því að hægt yrði að merkja við nöfn óháð listum segja að aðeins þannig sé hægt að kjósa menn eftir málefnum og með þessum hætti séu skýrari tengsl milli loforða og ábyrgðar.

Á þessu sem öðru eru margar hliðar, mörg sjónarhorn og vinklar. Því er um að gera að ræða þetta í bak og fyrir.


Hvalveiðar í atvinnuskyni, góð ákvörðun en hefði mátt koma löngu fyrr

Sjávarútvegsráðherra hefur tekið ákvörðun um að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni.

Rökrétt og eðlileg ákvörðun ef tekið er mið af rökum sem fyrir liggja.

Hins vegar hefði þessi ákvörðun mátt koma LÖNGU FYRR.

Af hverju heimilar hann þetta einmitt nú, korter fyrir brottför?

Ég hef ekki svarið en geri ráð fyrir að ráðherra vilji fá tækifæri til að svara þessari spurningu sjálfur.


Mikil aðsókn á fund í Breiðholtsskóla vegna umræðunnar um kynferðisofbeldi gegn börnum

brp1270252.jpgÞað var mikil aðsókn á fundinn í Breiðholtsskóla í gærkvöldi en hann fjallaði um  hvernig við getum kennt börnum okkar að varast kynferðisafbrotamenn. Fyrir þessum viðburði stóð foreldrafélag skólans.

Lögreglan reið á vaðið og fór yfir sínar vinnureglur. Hún hvatti fólk til að hafa samband yrði það vart við einhvern einstakling í hverfinu sem viðhefði grunsamlegt athæfi.

Það var mér mikil ánægja að vera beðin um að halda fyrirlestur þarna og fór í stórum dráttum yfir með hvaða hætti skólinn og foreldrar gætu sameinast um að ræða við börnin um þessi mál. Einnig að þau börn sem ekki hefðu fengið næga og viðeigandi fræðslu væru í hvað mestri áhættu. Farið var yfir hver væru helstu grunnhugtök fræðslunnar og hvaða lesefni væri fáanlegt os.sfrv.

Í mínu innleggi lagði ég áherslu á að skólinn og foreldrar vinni þetta saman. Ætli skólinn að bjóða upp á fræðslu er mikilvægt að foreldrar séu búnir að kynna sér hana og viti hvenær hún fer fram. Með þeim hætti geta foreldrar fylgt umræðunni eftir á heimilunum og svarað spurningum sem upp kunna að koma í kjölfarið.

Fram kom jafnframt að forvarnir í formi fjölbreytilegrar fræðslu sem byrja snemma gera börnin hæfari í að lesa umhverfið, meta aðstæður og greina muninn á atferli sem telst rétt og eðlilegt og hvenær það er ósiðlegt og ólöglegt. Sterkt innra varnarkerfi er ein besta vörnin sem völ er á gegn ytri vá sem þessari.

Kynferðisofbeldi á sér stað á ólíklegustu stöðum s.s. á heimilum, á heimili ættingja og vina fjölskyldunnar, dæmi er um tilfelli á heimilum vina barna, í hverfinu og í sundlaugum.

Fundinum lauk með því að Sigríður Björnsdóttir frá samtökunum Blátt Áfram sagði gestum frá sinni reynslu en hún var um árabil þolandi kynferðislegs ofbeldis á heimili.

 


Þættinum Í nærveru sálar á ÍNN frestað

Vegna stjórnarslita mun Hrafnaþing verða í 2 klukkustundir í kvöld og frestast þar með aðrir dagskrárliðir um eina viku.

Pollýannan í Landsbankanum

helgambl0105160.jpgVonbrigði og væntingar bankastarfsmanna á ÍNN í kvöld kl. 9
Í nærveru sálar.
Helga Jónsdóttir er formaður Félags starfsmanna Landsbankans.
Hún segir okkur frá örlagamorgninum 7. október sl. þegar starfsmönnum var tjáð að Landsbankinn hafði verið tekinn yfir.

Með jákvæðni og bjartsýni hefur Helga stutt félaga sína í bankanum. Við ræðum um vonbrigðin og sorgina yfir uppsögnunum.  Svo er það vonin og væntingar um að byggja megi upp nýjan og sterkan banka.

Biðlaun úr takt við allan raunveruleika. 1.7 milljón í 12 mánuði

Þetta eru biðlaun forstjóra Fjármálaeftirlitsins og eflaust fleiri sem nú láta að störfum og munu gera næstu daga og vikur.  Fyrir þjóð í kreppu er þetta mikill peningur.

Skyldi einhver af þessum aðilum láta sér detta í hug að afþakka biðlaunin í ljósi þjóðfélagsaðstæðna?

Eða skyldi einhver láta sér til hugar koma að afþakka biðlaunin t.d. vegna þess að þau kunna að stríða gegn þeirra eigin siðferðisvitund?

Sá sem það myndi gera væri maður að meiri.

Fylgi Frjálslyndra frosið

gu_jonmbl0142763.jpgÍ ljósi ástandsins undanfarnar vikur er eðlilegt að fylgið hrynji af ríkisstjórnarflokkunum. Vinstri græn og Framsókn bæta hins vegar miklu við sig en af hverju hreyfast Frjálslyndir ekki neitt?
Maður skyldi halda að sá flokkur ætti möguleika nú á að bæta við sig eins og Vinstri græn og Framsókn.

En einhverra hluta vegna gerist það ekki.
Kunna menn skýringu á þessu?

Mótmælum ofbeldi hvort heldur á Austurvelli eða inn á heimilum

Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt.

Öll tjáning og samskipti geta komist til skila án þess að beita þurfi ofbeldi að nokkru tagi.

Sá sem beitir ofbeldi fær hvorki hlustun né skilning á málstað sinn.
Hann hefur með ofbeldishegðun sinni dregið athyglina frá málstaðnum yfir á ofbeldið.

Hlúum að og virðum rétt okkar til að mótmæla. Ofbeldisseggir á mótmælafundum skemma fyrir öllum hinum sem vilja koma viðhorfum sínum og skoðunum á framfæri.

Ofbeldi á heimilum.
Heimilisofbeldi er vandamál sem fer gjarnan leynt. Því fylgir skömm fyrir alla sem málið varðar.

Heimilisofbeldi getur birst í ýmsum myndum:
-líkamlegt ofbeldi
-andlegt ofbeldi
-kynferðislegt ofbeldi

Enda þótt karlar séu ekki þeir einu sem beita ofbeldi stendur þeim til boða sérmeðferð sem ber yfirskriftina KARLAR TIL ÁBYRGÐAR

Um er að ræða einstaklingsmeðferð og hópmeðferð hjá sálfræðingum.

Upplýsingar og viðtalsbeiðnir eru í síma 555-3020


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband