Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Engan barnaníðing í mitt hverfi, takk fyrir.

Engan barnaníðing í mitt hverfi dugar skammt því þeir leynast og okkur tekst aldrei að góma alla.
Þess vegna verðum við að kenna börnunum að þekkja aðstæður sem kunna að vera hættulegar og hvar mörkin liggja. Engar aðferðir eða nálganir eru skotheldar en allt verður að reyna. Ef einhver aðferð eða nálgun verður til þess að bjarga þótt ekki væri nema einu barni frá því að þola kynferðisofbeldi er það sigur.

Ein öruggasta vörnin felst í því að kenna börnunum fáeinar mikilvægar samskiptaleikreglur og brýna fyrir þeim hvar mörkin liggja hvað varðar þeirra eigin líkama og þeirra sem kunna að verða á vegi þeirra.

Staðreyndin er sú að það er óraunhæft að halda að hægt sé að fría samfélagið af veikum einstaklingum svo sem þeim sem misnota og áreita börn og unglinga kynferðislega.  Stundum tekst að upplýsa þessi mál, sakfella og dæma en einn góðan veðurdag hefur viðkomandi lokið afplánun og stígur út úr fangelsinu. Í fangelsinu gæti hafa tekist að hjálpa aðilanum upp að einhverju marki en fyrir liggur að rannsóknir sem lúta að árangri meðferðar á kynferðisafbrotamönnum gefa ekki tilefni til nægjanlegrar bjartsýni.

Hafi viðkomandi lokið afplánun að fullu er hann frjáls maður og þarf einhvers staðar að vera.
Það besta og raunhæfasta sem við getum gert er að kenna börnunum snemma ákveðnar leikreglur í samskiptum, fræða þau um hvar mörkin liggja og þjálfa þau í að lesa og meta aðstæður. Jafnframt að kenna þeim viðbrögð þ.e. hvað eigi að gera hafi þau lent í aðstæðum eða samskiptum sem þeim líður illa með.

Börn þurfa kennslu og leiðbeiningu um kynferðislega hegðun eins og aðra hegðun.
Til dæmis, hvernig snerting er í lagi?
Hvaða staðir eru mínir einkastaðir?

Ítreka jafnframt við þau:
Þú átt þinn líkama og enginn má snerta þína einkastaði. Ef einhver vill gera það, hvort heldur hann er kunnugur eða ókunnugur átt þú að flýta þér í burtu og segja frá. Leyndarmál sem láta manni líða illa eru vond leyndarmál.

Skólinn, fagaðilar og grasrótarsamtök geta stutt foreldra í því að ræða um kynferðislegt ofbeldi við börn sín og hvernig þau geta kennt þeim að verjast slíkum árásum.

Vilji skólinn taka inn fræðslu um þessi mál er mikilvægt að hún sé í samstarfi og samvinnu við foreldra.   Í kjölfar fræðslu um þessi viðkvæmu mál vakna oftar en ekki spurningar hjá börnunum sem foreldrar, eftir að skóla lýkur,  þurfa að geta svarað.  Fylgja þarf fræðslu sem þessari eftir og þar eru þeir í aðalhlutverki.


Sheikinn greiddi ekki af láninu. Hver botnar annars í þessum viðskiptaháttum?

Satt að segja botna ég ekkert í þessum viðskiptaháttum Ólafs Ólafssonar, eins stærsta hluthafa Kaupþings og Sheiks bin Khalifa Al-Thanis af því sem ég hef heyrt og lesið.

Hvers konar viðskiptahættir voru þetta eiginlega?
Er hér um ólöglega viðskiptahætti að ræða eða siðlausa nema hvortveggja sé?
Eða er þetta bara allt í lagi?

Ólafur segist hafa viljað styrkja Kaupþing.  Sheikinn fékk lán fyrir helmingi kaupanna frá Kaupþingi og rest frá félagi í eigu Ólafs á Jómfrúreyjum. 
Kaupþing seldi Sheiknum eigin bréf og því hafi engir fjármunir farið úr bankanum.
Greiðsla vegna lánsins til Sheiksin skilaði sér hins vegar aldrei til Kaupþings sem sat uppi með 12.8 milljarða tap.
Skýrsla úr höndum Skilanefndar telur mörg hundruð blaðsíður en verður að því er segir í fréttum ekki gerð opinber í bráð.

Skilur nokkur eitthvað í þessu?Woundering


Kynning á RÉTTLÆTI

Opinn fundur vegna Peningabréfa Landsbankans.

Réttlæti.is, samtök sem berjast fyrir réttlátu uppgjöri á Peningabréfum Landsbankans, boðar til opins fundar fimmtudaginn 22. janúar n.k. kl. 20:00.
 
Fundarstaður er í Laugardalshöll, inngangur A, salur 1. 
Efni fundarins er eftirfarandi:
1.   Kynna að RÉTTLÆTI.is hefur fengið til liðs við sig Hilmar Gunnlaugsson hrl. hjá Regula lögmönnum, en hann hefur tekið að sér málssókn fyrir okkar hönd á hendur Landsvaka dótturfélags Landsbankans sem nú er í eigu NBI. Hilmar mun á fundinum fara yfir stöðuna.
2.   Öflun umboða til að lögmaðurinn geti unnið fyrir sem flesta umbjóðendur.
3.   Farið yfir framgöngu RÉTTLÆTIS.is í baráttu samtakanna og hvað er framundan. 

Nánar um RÉTTLÆTI.is á www.rettlaeti.is


Bæjartjóri í nærmynd

kolbr_ur_mogganummbl0174214.jpggunnar_bmbl0155957.jpgÞessi tvö ætla að spjalla saman í kvöld á ÍNN kl. 9.
 
Í nærveru sálar í kvöld segir Gunnar okkur frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni og starfsferli.
 
Kynnumst eilítið innri manni bæjarstjórans í Kópavogi í kvöld á ÍNN.

Fæðingarþunglyndi og fjárplógsstarfsemi

Hvað skyldi fæðingarþunglyndi og fjárplógsstarfsemi mögulega geta átt sameiginlegt?
Jú þetta er efni þátta sem nú er hægt að sjá á Netinu (inntv.is Í nærveru sálar).

Fæðingarþunglyndi hér:

fae_ingarthungmbl0154284.jpg









Fjárplógsstarfsemi gömlu bankanna hér:

landsb_2mbl0177109_773992.jpg


Gleymum ekki að snerta hvort annað.

Nú þegar hart er í ári, dimmt og hráslagalegt úti er lag að huga að innihaldi sambanda.  Þau sambönd/hjónabönd sem innihalda snertingu og hlýlega framkomu standa betur að vígi í  erfiðleikum og undir álagi. Þessi vegna eru þessi sambönd einnig líklegri til að vara ef samanborið við sambönd þar sem parið hefur einhverra hluta vegna ekki tekist að gera snertingu og hlýlega framkomu í garð hvors annars að venju í sambandinu. 

Gildi snertingar í samböndum er margþætt.

  1. Snerting í samböndum minnir á hvers eðlis sambandið er.
  2. Snerting er smyrsl á streitu, uppnám, vonbrigði og reiði.  
  3. Snerting er spennulosandi bæði fyrir þann sem snertir og þann sem er snertur.
  4. Snerting er huggandi og græðandi.
  5. Snerting er merki um væntumþykju. 
  6. Sá sem snertir maka sinn er að tjá honum að hann óski eftir nálægð við hann.
  7. Snerting er könnun á viðbrögðum, upplýsingar um hvernig hinum aðilanum líður. Til dæmis í þeim tilvikum þar sem fólk hefur verið að deila þá má með því að snerta maka sinn athuga hvort það séu móttökuskilyrði fyrir umræðu eða sættir
  8. Snerting gefur yl og hlýju í bókstaflegri merkingu. Ylur slakar á spennu í vöðvum og hefur því mildandi áhrif ef viðkomandi er í uppnámi.
  9. Fyrir þann sem er lokaður að eðlisfari kemur snerting og ástúðleg tjáning oft í staðinn fyrir orð. Snerting er mjög öflugt tjáningarform og segir oft allt sem segja þarf
  10. Snerting getur einnig virkað hvetjandi á talfærin. Snerting og ástúðleg orð haldast gjarnan hönd í hönd.  

Sambönd sem eru rík af snertingu eru oft farsæl. Parið er fljótar að vinna úr ágreiningsmálum því það langar til að komast sem fyrst aftur í snertingu við hvort annað. Ferli togstreitu, reiði og pirrings er oft styttra en í samböndum þar sem parið snertist sjaldan eða aldrei. Þeir sem eru vanir daglegri snertingu við maka sinn vilja ekki lengi vera án hennar. Fráhvarfseinkenni gætu auðveldlega gert vart við sig.

knusrimg0167.jpg



Reykjavíkurborg ætti að taka Akureyrarbæ til fyrirmyndar og bjóða upp á ókeypis heilsurækt

Hreyfing og útivist í kreppunni er yfirskrift verkefnis sem ýtt hefur verið úr vör á Akureyri. Akureyringum er boðið upp á ókeypis heilsurækt. Helstu íþróttamannvirki standa þeim opin part úr degi og boðið er upp á ýmis námskeið fólki að kostnaðarlausu.

Allir vita að árskort í líkamsrækt kostar talsverða peningar.  Ódýrasti kosturinn er hjá Nautilus, af því er ég kemst næst, en þar kostar árskortið með aðgang að sundlauginni innan við 30.000 á ári. Sambærilegt kort í Sporthúsinu er á rúmlega 50.000 og enn dýrara er kortið í Laugum.

Ég skora á ráðamenn Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga að skoða þennan möguleika fyrir sitt fólk.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað hreyfing af öllu tagi gerir fólki gott andlega sem líkamlega. Á þessum síðustu og verstu tímum er sannarlega ástæða til að skoða þennan kost.

Sveitarfélög víðsvegar um landið geta boðið upp á frían aðgang þótt ekki væri nema part úr degi án mikils tilkostnaðar.  Með því skapast möguleiki fyrir marga að nota fjölbreytta aðstöðu íþróttahúsanna þeim að kostnaðarlausu.


Fjárplógsstarfssemi gömlu bankanna á ÍNN í kvöld

landsb_2mbl0177109.jpgUndirgefnir eða óupplýstir starfsmenn Landsbankans?
Vissu einhverjir starfsmenn þegar þeir hringdu í viðskiptavini bankans rétt fyrir hrunið að bankinn væri á leiðinni á hausinn innan fárra daga?
Eða var þetta bara undirgefið og hlýðið starfsfólk sem haldið var fyrir utan allan raunveruleika og sannleika?
Vísbendingar eru um að starfsfólk bankans hafi rétt áður en bankinn hrundi, fengið fyrirmæli frá yfirboðurum sínum um að hringja í fólk sem átti fé á innlánsreikningum og hvetja það til að leggja peningana inn á Peningamarkaðssjóði. 

Hörður og Ómar eru gestir þáttarins í kvöld og segjast ekki hafa lagt öll spilin á borðið enn. Þeir félagar eru í forsvari fyrir hreyfingu einstaklinga (réttlaeti.is) sem hefur það að markmiði að endurheimta tap sem hlaust af einhliða uppgjöri á Peningamarkaðssjóðum Landsbankans.

 

 


Traustvekjandi rannsóknarnefnd

Rannsóknarnefnd Alþingis er tekin til starfa. Nefndina skipa Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, Páll Hreinsson, hæstaréttardómari og Sigríður Benediktsdóttir, kennari við hagfræðideild Yale-háskóla.

Hlutverk nefndarinnar er að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 og tengdra atburða. Nefndinni er einnig ætlað að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og hverjir kunni hugsanlega að bera ábyrgð á því.

Allir þessir aðilar virka traustvekjandi og held ég að ferill þeirra sé að öllu leyti glæstur.
Nefndin er sjálfstæð, óháð og tekur ekki við fyrirskipunum.
Frábært Smile


Forðast að eiga viðskipti við fasteignasala sem ekki munu starfa samkvæmt siðareglum. Samtengja má löggildingu og siðareglur

Viðskiptaráðherra mælir fyrir frumvarpi sem felur í sér afnám skylduaðildar að Félagi fasteignasala. Fasteignasalar sem gerast ekki aðilar að Félaginu þurfa þar með ekki að fylgja siðareglum.

Ef litið er til annarra stétta og er þá nærtækast fyrir mig að tala um stétt löggildra sálfræðinga þá felur löggilding Landlæknisembættisins í sér þá kröfu að viðkomandi sálfræðingur skuli fylgja þar til gerðum siðareglum. Þetta er án tillits til hvort viðkomandi sálfræðingur hyggst gerast aðili að Sálfræðingafélagi Íslands.

Með sama hætti mætti tengja siðareglurnar við löggildinguna hjá sýslumanni í tilviki fasteignasala. Svo er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann gangi til liðs við Félag fasteignasala.

Allir þeir sem fara með viðskipti fyrir almenning ættu skilyrðislaust að fara eftir siðareglum.  Allt of oft hafa menn brennt sig á því að skapast hafa aðstæður í viðskiptageiranum þar sem skortir eftirlit, leiðbeiningu og aðhald.

Verði þetta frumvarp að lögum með þessum agnúa hvet ég alla þá sem ætla að eiga fasteignaviðskipti að sniðgagna þá fasteignasala sem ekki eru skuldbundnir til að starfa samkvæmt ákveðnum siðareglum fasteignasala.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband