Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Það fóru ekki allir á fyllerí

Það er ekki rétt þegar sagt er að öll þjóðin hafi farið á neyslufyllerí og þá er átt við að hafa eytt um efni fram, tekið mörg og stór lán og fengið yfirdrætti eða með öðrum hætti hagað sér með óábyrgum hætti í fjármálum.

Þetta gerðu margir en ekki allir. Hópur Íslendinga tók að engu leyti þátt í þessu heldur lifði lifi sínu af hógværð og skynsemi. Sem dæmi má nefna marga sem komnir eru á miðjan aldur og þar yfir sem lærði í sínum uppvexti að fara vel með peninga.

Þetta fólk hefur í engu breytt sínum lífsstíl undanfarin ár. Það hélt áfram að vinna sína vinnu, borga sína reikninga, veita sér hluti og munað eftir því sem fjárráð leyfðu hverju sinni.
Þetta er fólkið sem vildi eiga fyrir því sem það keypti.

Margir af þessum einstaklingum settu það í forgang að leggja fé til hliðar til efri áranna. Það er einmitt þetta sparifé sem nú er tapað en eins og kunnugt er voru margir hvattir til að geyma fé sitt í peningamarkaðssjóðum gömlu bankanna og þeim talin trú um að áhættan væri engin. Nú er allt að þriðjungur sparifjárins fólkinu líklegast með öllu tapaður.

Í þessum hópi fólks sem ekki voru þátttakendur í ruglinu er einnig ungt fólk sem ætlaði ekki að drekkja sér strax í skuldaklafa og hagaði lífi sínu samkvæmt því.

Þess vegna er það hvorki rétt né sanngjarnt að segja að ÞJÓÐIN, allir sem einn, hafi misst sig í neyslugleðinni þegar verið er að tala um það fólk sem skuldsetti sig langt umfram greiðslugetu eða þá sem tóku stórar áhættur á hlutabréfamarkaði í því skyni að ætla að græða.


Fæðingarþunglyndi, áhrifa- og áhættuþættir, á ÍNN í kvöld

fae_ingartmbl0154284_764868.jpgFæðingarþunglyndi, áhrifa- og áhættuþættir verður umræðuefnið
Í nærveru sálar í kvöld.
Marga Thome, professor í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands er gestur þáttarins.
Við ræðum um algengi fæðingarþunglyndis, helstu áhættuþætti og nýjustu rannsóknir.
Einnig hvernig þunglyndi á meðgöngu og eftir fæðingu getur haft áhrif á tengslamyndun móður og barns sé það ekki meðhöndlað.

Fróðlegur þáttur sem vert er að fylgjast með.
Myndin er úr myndasafn Morgunblaðsins.


Á alla skal hlusta, unga sem aldna. Átta ára stúlka tjáði sig opinberlega á Austurvelli í gær.

Átta ára stúlka fór í ræðustól á mótmælafundi á Austurvelli í gær og flutti ræðu af miklu öryggi sérstaklega ef tekið er mið af ungum aldri hennar.

Auðvitað eiga allir rétt á að tjá sig án tillits til aldurs og gildir þá einu hvert málefni er.  Á börnin eigum við einnig sérstaklega að hlusta.  Dagný Dimmblá sem fór í ræðustól á Austurvelli í gær sagðist hafa fylgst með þessu málum, hún hafi mætt á mótmælafundi, væri reið og vildi halda ræðu um eitthvað annað en rugl eins og hún orðaði það sjálf.

Að sjálfsögðu hljóta börnin okkar að verða fyrir einhverjum áhrifum og dragast inn í allt þetta tal um kreppu. Sum láta sér þetta í léttu rúmi liggja en önnur hlusta, hugsa um þetta og hafa jafnvel af þessu áhyggjur. Þau kunna að velta því fyrir sér hvort fólkið í landinu sé að verða fátækt.

Það er eðlilegt að foreldrar hafi það sjónarmið að vilja halda börnum sínum frá þessu en spurning er hversu raunhæft það er.  Börn eru vissulega misjöfn í eðli sínu og eftir því á hvaða þroskastigi þau eru en flest eru forvitin, athugul og sum þeirra vilja vita um það sem fullorðnir eru að stússast í.

Ekki voru allir á eitt sáttir um að blanda ætti svo ungu barni í kreppumótmælin með þessum hætti.

Mitt mat í þessu ákveðna tilfelli er að hafi stúlkan stigið í ræðustólinn af fúsum og frjálsum vilja án nokkurs ytri þrýstings eða þvingunar er ekkert við það að athuga. Hafi hún hins vegar verið beitt þrýstingi af einhverjum toga eða hvött umfram það sem eðlilegt gæti talist horfir málið öðruvísi við.

Eins er það með öllu óásættanlegt ef einhverjir hafi viljað beita henni sérstaklega vegna ungs aldurs fyrir málstaðinn í því skyni að vekja á honum enn frekari athygli.

Í tilfelli Dagnýjar hefur það komið fram að hún segist sjálf hafa beðið um að fá að halda ræðu á Austurvelli.

Dagný var spurð hvort hún hefði orðið vör við að krakkar á hennar aldri væru uppteknir af ástandinu eins og hún en hún svaraði þeirri spurningu neitandi.  Það er að mestu í samræmi við mína upplifun af líðan þeirra barna sem ég hef umgengist í mínu starfi eftir að efnahagshrunið dundi yfir með öllum sínum fylgifiskum. 


Enginn fór í sjóinn árið 2008

Það gladdi að lesa að enginn lét lífið í sjóslysi á árinu 2008. Skýringarnar eru margar og má rekja þær flestar til ýmis konar framfara í björgunarmálum, til hærri öryggisstaðla en einnig til þess að fækkað hefur í stétt sjómanna.  

En stundum er það þannig að slysin gera ekki nein boð á undan sér og gildir þá einu aðgát, varkárni, björgunarútbúnaður eða háir öryggisstaðlar.  Tilviljanir og heppni eða óheppni spila nefnilega sína rullu líka í þessu sem öðru.

Þessi frétt vekur fögnuð því það var einmitt sjórinn sem tók jafnan stærsta tollinn hér á árum áður.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband