Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Kaupgleði er eitt en kaupæði allt annað

Hvar liggja mörkin á milli kaupgleði og kaupæðis?

Mörgum þykir afar gaman að ganga um verslunarmiðstöðvar, skoða gluggaútstillingar en enn fleirum finnst gaman að fara inn í verslanir, skoða hluti, máta föt og kaupa síðan eitthvað sem þeim þykir fallegt.

Kaupgleði er mjög einstaklingsbundin. Á meðan sumir vilja helst eyða mörgum tímum á viku í verslunum eru aðrir sem líkar það illa og fara helst ekki í verslanir nema að þeir neyðist til þess þegar þeim bráðvantar eitthvað. Ástæðan gæti t.d. verið að viðkomandi líður illa innan um margt fólk, í stóru rými og þar sem vöruúrvalið virðist óendanlegt.

Það lætur ekki öllum vel að eiga auðvelt með að taka ákvarðanir um hvað skuli kaupa og hvað ekki. Að velja, vita hvað maður vill getur vafist fyrir sumu fólki á meðan aðrir eru eldsnöggir að finna út hvað hentar þeim. Hversu auðvelt einstaklingurinn á með að taka ákvarðanir hvað hann ætli að kaupa fer eftir mörgu, þó ekki endilega hvort viðkomandi hafi ekki þroskað með sér ákveðinn smekk eða stíl heldur kannski frekar hvort viðkomandi upplifi það sem einhverja sérstaka áhættu að kaupa eitthvað sem honum mun kannski síðan ekki líka. Hugmyndir fólks um hvernig það vill verja peningunum sínum spilar einnig hlutverk í þessu sambandi sem og hvort einstaklingur skilgreinir sig sem vandlátan og jafnvel sérsinna. Sjálfsmat, ánægja með útlit eru þættir sem skipta sköpum þegar kemur að því að ákveða fatakaup.

En eitt er að vera haldin kaupgleði og annað að vera með kaupæði þótt oft megi telja að þarna sé mjótt á mununum. Kaupæði er þegar einstaklingur ver svo miklum tíma í verslunum í að kaupa eitt og annað að það er farið að koma niður á öðrum þáttum í lífi hans. Um er að ræða fíkn þar sem stjórnleysi hefur fest sig í sessi. Oftar en ekki er kaupfíkillinn snöggur að ákveða sig hvað hann ætlar að kaupa enda er þetta frekar spurning um að kaupa mikið og oft frekar en að kaupa fáar, vel ígrundaðar vörur. Sá sem haldin er stjórnleysi vill allt eins kaupa til að gefa öðrum eins og að kaupa eitthvað handa sjálfum sér. Mestu máli skiptir að hann sé að kaupa.

Kaupæði vísar til stjórnlausrar, áráttukenndra kaupa þar sem kaupandi hefur ekki tök á að stöðva atferlið jafnvel þótt öll heimsins skynsemi mæli gegn eyðslunni sem kaupunum fylgir. Sá sem er haldinn kaupfíkn er oft líka með söfnunaráráttu. Honum finnst hann þá þurfi að eiga allt af ákveðinni tegund sem hann er að safna.

Meira um þetta hér


Í DV að morgni, í fréttum RÚV og Stöðvar 2 að kvöldi?

DV fréttamenn virðast vinna fréttir bæði fyrir Stöð 2 og RÚV: útvarp/sjónvarp.

Ég hef ítrekað tekið eftir því að RÚV og Stöð 2 eru með sömu fréttir og lesa má í DV að morgni.

Oftar en ekki eru þetta fréttir um fjármál, meint fjármálasvik og fleira í þeim dúr en einnig um margt annað líka.

Stundum er forsíða DV einfaldlega aðalfréttaefni Stöðvar 2 og ríkisútvarps/sjónvarps.

Hvaða merkingu á að leggja í þetta?

Ein er sú að Stöð 2 og RÚV þykja DV vera áreiðanlegur fjölmiðill fyrst þeir taka svona beint upp eftir blaðamönnum DV.


Börn eru börn til 18 ára aldurs

Börn eru börn til 18 ára. Það er hlutverk foreldra /umönnunaraðila þeirra að gæta að velferð þeirra þar til þau ná þessum aldri. Að gæta að velferð barna sinna getur þýtt margt.  Fyrstu árin reynir mest á að gæta þeirra þannig að þau fari sér ekki að voða.  Að veita þeim ást, umhyggju og örvun eru viðvarandi nauðsynlegir uppeldisþættir ef barn á að eiga þess kost að þroskast eðlilega og geta nýtt styrkleika sína til fulls.

Þegar börnin stálpast og nálgast unglingsárin koma æ sterkar inn uppeldisþættir í formi fræðslu og leiðbeiningar til að unglingarnir læri að vega og meta aðstæður eigi þeir að geta varist ytri vá af hvers kyns tagi. 

Áhrifagirni og  hvatvísi er meðal algengustu einkenna unglingsáranna. Leit að lífstíl og samneyti við vini er það sem skiptir börn á þessum aldri hvað mestu máli. Það er einmitt þess vegna sem foreldrar þurfa að vera sérstaklega meðvituð um leiðbeiningarþátt uppeldisins og að geta sett börnum sínum viðeigandi mörk.

Stundum þurfa foreldrar einfaldlega að segja NEI. Þetta á við sé barnið þeirra að fara fram á að fá að gera hluti sem foreldrar telja annað hvort  óviðeigandi ef tekið er mið af ungum aldri þeirra eða ef þau telja að það sem barnið biður um að gera geti hugsanlega valdið þeim andlegum,- líkamlegum eða félagslegum skaða til lengri eða skemmri tíma. Undir þetta falla þættir eins og að gæta þess að unglingarnir þeirra taki ekki þátt í álagsmiklum félagslegum uppákomum, aðstæðum sem auðveldlega geta orðið óhörðnuðum og óreyndum unglingum ofviða og jafnvel skaðlegar.   

Mörgum foreldrum finnst erfitt að banna barni sínu að gera eitthvað sem þau sækja fast og sérstaklega ef þau fullyrða  að jafnaldrar þeirra hafi fengið leyfi sinna foreldra.  Eins og gengur og gerist hjá kraftmiklum og klárum unglingum neyta þau gjarnan ýmissa bragða til að fá foreldra sína til að gefa eftir.  „Þið eruð leiðinlegustu foreldrar í heimi“ glymur endrum og sinnum á heimili unglings. Það er ekkert notalegt að fá slíka athugasemd frá barni sínu. Sektarkenndin á það til að flæða um og áður en þau átta sig jafnvel,  hafa þau gefið eftir.

Ef foreldrar eru í einhverjum vafa um hvar mörkin liggja milli þess að leyfa, semja við eða hreinlega banna börnum sínum eitthvað,  ættu þeir að leita sér ráðgjafar.  Umfram allt mega foreldrar ekki missa sjónar af þeirri staðreynd að það eru þeir sem ráða þegar upp er staðið og að þeir bera að fullu ábyrgðina á barni sínu þar til það hefur náð sjálfræðisaldri.

 


Þá er að undirbúa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eru Íslendingar í hers höndum?

Uppeldistækni sem virkar

naerverusalarpmtkr119.jpg

PMT stendur fyrir „Parent Management Training“, sem er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. 

Um er að ræða hugmyndakerfi  sem ættað er frá Oregon og sem miðast að því að stuðla að góðri aðlögun barna. Þessi aðferðarfræði hefur nýst sérlega vel ef börn sýna einhver hegðunarfrávik. Meginhöfundurinn er Dr. Gerald Patterson.

PMT felur í sér að foreldrum er kennt að nýta sér styðjandi verkþætti eða verkfæri sem stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga að sama skapi úr neikvæðri hegðun. Í löngu rannsóknarferli hefur það sýnt sig að viðeigandi beiting hefur verulega bætandi áhrif á atferli og aðlögun barnsins.

Í Í nærveru sálar, mánudagskvöldið 4. janúar kl. 21.30 ætlum við Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði að skoða ofan í verkfærakassa PMT.

Þar er m.a. að finna hvernig hægt er að gefa fyrirmæli á árangursríkan hátt og hvað það er sem skiptir máli, vilji foreldrar stuðla að jákvæðum samskiptum við barnið. Einnig mikilvægi þess að nota hvatningu og hrós þegar kenna á nýja hegðun. Við skoðum hvaða nálgun virkar þegar setja skal mörk og einnig þegar draga þarf úr óæskilegri hegðun.

Síðast en ekki síst munum við Margrét ræða um mikilvægi þess að grípa inn í snemma og vinna með vandann á fyrstu stigum. Alvarlegir hegðunarerfiðleika sem ná að fylgja barni til unglingsára geta leitt til enn alvarlegri vandamála síðar meir og haft m.a. í för með sér áfengis- og vímuefnanotkun með tilheyrandi fylgikvillum.

Unnið er eftir PMT hugmyndafræðinni víða um land þar á meðal í Hafnarfirði.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband