Það vakti furðu mína að lesa það í Fréttablaðinu í gær að Geir og Kjartan áttu að hafa fallist í faðma eftir ræðu Kjartans undir dynjandi lófaklappi fundargesta.
Ég sat tiltölulega nærri Kjartani á fundinum og Geir sat ásamt ráðherrum upp á palli enda voru pallborðsumræður í gangi. Hvorki Geir né Kjartan hreyfðu sig úr stað eftir að Kjartan hafði lokið máli sínu og áttu þess því engan kost að faðmast, slík var fjarlægðin á milli þeirra. Satt er að það var dynjandi lófaklapp þegar Kjartan hafði lokið máli sínu en ekkert faðmlag átti sér stað.
Hvað þetta tiltekna atriði varðar þá skaðar það svo sem engan að trúa því að Kjartan og Geir hafi fallist í faðma enda vinir og samherjar til langs tíma.
Þetta vekur hins vegar upp spurningar um trúverðugleika fjölmiðla almennt séð, þ.e. hvort mikið kunni að vera um rangfærslur eða ýkjur, sumar kannski saklausar en aðrar alvarlegri sem komið gætu mönnum og málefnum illa og jafnvel haft neikvæðar/skaðlegar afleiðingar.