Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Uppgreiðsluþóknun hjá SPRON, viljir þú greiða inn á lán

Þeir fyrirfinnast sem vilja gjarnan greiða inn á lán eða jafnvel greiða upp verðtryggt lán ekki hvað síst núna þegar fyrirsjáanlegt er að verðbólgan mælist há á komandi misserum.

Vilji einstaklingur sem dæmi greiða inn á höfuðstól húsnæðisláns hjá SPRON þarf hann að greiða 2% til bankans í svokallaða uppgreiðsluþóknun.

Dæmi:

Viljir þú greiða 1.5 milljón inn á lán sem er um 9 milljónir verður þú að greiða 30.000.- krónur í uppgreiðsluþóknun til bankans.

Ég hringdi í talsmann neytenda og spurði hann um þetta því mig minnir að uppgreiðslugjald hafi verið mikið til umræðu ekki alls fyrir löngu og að þá hafi verið rætt um að afnema bæri slíkt gjald.

Reyndar var þá verið að tala um gjald sem fólk þyrfti að greiða ætlaði það sér að greiða lánið upp að fullu. Það kann að vera að búið sé að afnema slíkt gjald í sumum  og kannski öllum viðskiptabönkunum en eftir stendur að viljir þú greiða inn á lán er þessi uppgreiðsluþóknun greinilega raunverulegt fyrirbæri.

 


Að búa í röngum líkama og ferli þess að leiðrétta kyn

Í næsta þætti Í Nærveru Sálar sem sýndur verður 8. október mun Anna K. Kristjánsdóttir, vélstýra fræða okkur um og ræða málefni tengd því ferli þegar einstaklingur fær kyn sitt leiðrétt
Í Nærveru Sálar

Hún skilgreinir hugtök eins og  trangender, transsexual og transvestite og ræðir um Félagið Trans Ísland.

Aðrir umræðufletir í þættinum:

-Aðdragandi kynskiptaaðgerðar, aðgerðin sjálf og lífið í kjölfarið.
-Munurinn á aðgerðum hér á landi og þeim sem framkvæmdar eru í Danmörku og síðan í Svíþjóð
-Kynhneigðin og kynhvötin
-Samfélagið, viðhorf og viðhorfabreytingar
-Andleg líðan þessa hóps
-Rannsóknir

Upplýsandi umræða um þennan minnihlutahóp samfélagsins.


Léttlyndi að eilífu þekkir ei neinn

Í nærveru sálar ég sit,
skynja manneskjuna sterkt.

Hvað er það í lífinu sem gefur lit?
Leitar og finnur sá sem það vill.

En lífið er meira en leikur einn,
léttlyndi að eilífu þekkir ei neinn.

Í lífsins skóla lærist margt,
lausnir í draumum felast.

 

Og svo er það virðingin:

Að vanda virðingu sína,
er val sérhvers manns.

Velsæmis gæta og lögum lúta,
láta engan sér múta.

Rætnar tungur og rógburður,
rífa, níða og meiða.

Eiturgróurnar fáum eira,
ef andann og sálina ná að seiða.


Góðan sunnudag Happy


Hetjur vikunar eru þjónustufulltrúar og gjaldkerar bankanna

Afgreiðslufólk bankanna eru hetjur vikunar. Þetta fólk hefur verið undir miklu álagi síðustu daga. Stöðugar hringingar, löng röð af fólki sem bíður afgreiðslu, fyrirspurnir og án efa fjölmargar spurningar sem afgreiðslufólkið hefur ekki haft svör við.

Þjónustufulltrúar og gjaldkerar bankanna eru ekki í þeim hópi starfsmanna sem taka stórar eða afgerandi ákvarðanir um rekstur eða reglur bankanna. Afgreiðslufólkið ber því enga ábyrgð á þeim vanda sem bankarnir glíma nú við. Afgreiðslufólkið er hins vegar andlit bankanna út á við.
Þetta er fólkið sem maður sér og ræðir við fari maður í bankann til að eiga við hann viðskipti.

Í vikuni sem er að líða hefur verið mikið álag á þetta starfsfólk. Það hefur verið í því hlutverki að reyna að róa áhyggjufulla viðskiptavini og stundum orðið að taka við skömmum frá fólki sem vegna kvíða og óöryggis, fann hjá sér þörf til að hnýta í afgreiðslufólkið.

Því má ekki gleyma að afgreiðslufólkið sjálft er einnig í hópa viðskiptavina. Eins og aðrir er afgreiðslufólkið líka uggandi um sinn hag og óttast jafnvel að vera sagt upp störfum sínum.  

Ég vil hrósa afgreiðslufólki allra banka landsins fyrir að hafa staðist þetta álag og fyrir að hafa sýnt skjólstæðingum bankanna umburðarlyndi og þolinmæði við svo mjög erfiðar aðstæður.

Þetta eru hetjur vikunar.  Smile


Þjóðstjórn bjargar engu, orku og tíma betur varið í að leita lausna

Ekki er séð að myndun þjóðstjórnar sé einhver lausn. Það eina sem þjóðstjórn breytir er að það verður jú engin stjórnarandstaða til. Gagnrýni á stjórnina hverfur og flokkarnir verða samábyrgir fyrir öllum ákvörðunum.

Ef marka má orð alþingismanna og ráðherra í gær eru allir sammála um að vandinn er stór og á hann þarf að ráðast og leysa. Það er því bara tíma og orkueyðsla að hefja myndun þjóðstjórnar.  


Áföll og jákvæðni

Jákvæðni, jákvæðistal og almenn bjartsýni er sannarlega gulls ígildi þessa dagana og okkur öllum sterkt haldreipi.

Það eru þó til þær aðstæður þar sem jákvæðistal virkar ekki sem skyldi. Sem dæmi nær slíkt tal frekar skammt ef því er skellt fram strax við áfall eða fyrstu stundirnar eftir að fólk verður fyrir áfalli.  Á slíkum stundum, meðan fólk er að gera sér grein fyrir þeim atburði/aðstæðum sem veldur áfallinu gildir fátt annað en nærvera, umhyggja, hlustun og þolinmæði.

Tal um styrkleika og jákvæðni á viðkvæmasta tímapunktinum getur virkað þannig að þeim sem hefur orðið fyrir áfallinu finnst að verið sé að gera lítið úr líðan sinni. Tími jákvæðistalsins kemur aðeins seinna þegar sálin hefur fengið að melta það sem gerst hefur og þá atburði/aðstæður sem kallaði á áfallsástandið.

Aðstæður í þjóðfélaginu núna, sérstaklega efnahagsaðstæður, valda mörgum kvíða og ótta. Þeir eru eflaust ófáir sem eru uggandi um hag sinn.  Ástæðurnar geta verið af ýmsum sökum. Sumir hafa tapað fé, e.t.v. megnið af sparnaði sínum eða hafa á einhvern hátt tengst fyrirtækjum sem nú hafa orðið eða eru á leið í gjaldþrot. Þetta er ekkert endilega fólkið sem hægt er að segja við,  þér var nær eða þú hefði geta sagt þér þetta sjálfur osfrv. 

Sumir eru sannarlega fórnarlömb þessara erfiðu aðstæðna og hefðu fátt getað gert til að sporna við þeirri þróun sem orðið hefur í málum þeirra. Þessir einstaklingar eru kannski núna í miklu áfalli í bókstaflegri merkingu þess orðs. Einkennin geta verið allt frá skjálfta, svitakófi, maga- og höfuðverk, svefnörðugleikum og þunglyndi. Fólk er dofið og finnst það ekki getað hugsað heila hugsun. Margir eru jafnvel óvinnufærir eða ófærir um að taka helstu ákvarðanir í lífi sínu. Þessi einkenni mildast hægt og rólega og má ætla að sérhver dagur gefi ögn skárri líðan. 

Það er á þessum tímapunkti sem illa kann að passa að fara að koma með mikið jákvæðistal eins og t.d. þetta er nú ekki svo slæmt, líttu nú á allt það góða, enginn hefur dáið osfrv.

Slíkt tal er kærkomið síðar,  jafnvel eftir fáeinar klukkustundir eða daga allt eftir því hversu alvarlegt áfallið var manneskjunni. En fyrst þarf að hlúa að viðkomandi og gefa einstaklingnum tíma til að skynja og skilja hvað hefur gerst, hver áhrifin eru og hverjar eru afleiðingarnar.

Sem sagt, jákvæðni eins mikilvæg og góð eins og hún er, þá skilar hún sér ekki alltaf.
Þeir sem vilja hjálpa með því að benda þeim sem eiga erfitt á allt það jákvæða, þurfa svolítið að þreifa fyrir sér hvernig móttökuskilyrðin eru þá og þá stundina.


Tímabært að þingmannamál komi úr nefndum

Óteljandi þingmannamál hafa verið lögð til hvílu í nefndum Alþingis. Kannski ekki til hinstu hvílu ef skoðun forseta þingsins sem hann gerði heyrinkunnuga við setningu þingsins í gær, fær einhvern hljómgrunn.

Það er tímabært að endurskoða með breytingu í huga það furðulega fyrirkomulag að þingmannamál sofni í nefndum og liggi þar árum saman ef ekki áratugum.  Bak við sérhvert þingmannamál er oftast nær mikill undirbúningur þingmanna sem hafa gert sér far um að leggja mál sín fram af kostgæfni. En sjaldgæft er að þingmannamál komist úr nefndum og hljóti áframhaldandi afgreiðslu þingsins.

Nú vill Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis að gengið verði í að breyta þessu þannig að þingmannamál fái afgreiðslu frá Alþingi á því kjörtímabili sem þau eru lögð fram.

Orð í tíma töluð, nú er bara spurning hvort orðin verði að verki?
Ekki er nóg að tala, það þarf líka að framkvæma.  

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband