Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Er múgsefjun í íslenskum stjórnmálum?

Orðið múgsefjun  hefur skotið upp kollinum endrum og sinnum í stjórnmálaumræðu nú í aðdraganda kosninga. Nú síðast heyrði ég það nefnt í tengslum við stefnu Frjálslyndaflokksins í innflytjendamálum. Skoðum aðeins hvað þetta hugtak merkir?

Múgsefjun og múgæsing er stundum notað jöfnum höndum enda þótt hugtökin –sefjun og -æsing merki ekki beint það saman. Sefjun þýðir slökun en æsing þýðir eins og orðið bendir til æsingur eða uppnám. Þegar talað er um múgsefjun/múgæsing er að öllu jöfnu verið að vísa í ástand sem einkennir múg þ.e. hóp við ákveðnar aðstæður. Oft er talað um múgæsing þegar stórir hópar koma saman og einstaklingarnir í hópnum æsa hvern annan upp til að framkvæma ákveðið atferli sem sérhver einstaklingur í hópnum myndi annars ekki viðhafa væri hann ekki hluti af þessum tiltekna hópi. Hér kemur skýringin á af hverju „sefjun“ er einnig notað um þetta fyrirbæri en það er vegna þess að þegar einstaklingurinn lætur hrífast af tilfinningarhita hinna í hópnum slævist hugur hans og hann hegðar sér jafnvel þvert gegn eigin dómgreind og skynsemi.

Múgæsing getur verið gríðarlega sterkt fyrirbæri.   Dæmigerðar aðstæður fyrir múgæsingu eru óeirðir, trúarsamkomur og íþróttakeppnir s.s. fótbolti. Múgæsing þarf ekki alltaf að vera í neikvæðum skilningi þó svo að almenningur tengi það gjarnan við neikvæða atburði. Þeir sem eru hluti af múgæsingi skynja það ekki endilega sem neikvætt t.a.m. þegar verið er að fagna, hvetja eða tilbiðja. Ef hins vegar skynsemi og dómgreind heils hóps víkur fyrir múgsefjun sem einkennist af reiði, hatri og illsku í garð náungans þá hefur múgsefjunin breyst í hættulegt vopn.

Dæmi um múgæsing sem finna má í skólabókum er sagan af hópi fólks sem mændi upp á þak á háu húsi en þar stóð maður sem var að mana sig upp í að stökkva af húsþakinu þ.e. svipta sig lífi. Þegar þeir fyrstu komu að og urðu mannsins varir fylltust þeir eðlilega skelfingu og vonuðust til að maðurinn myndi sjá sig um hönd eða að honum yrði talið hughvarf frá fyrirætlan sinni. Skyndilega hóf einn í hópnum að kalla “stökktu, stökktu„ og áður en langt um leið hrópuðu margir aðrir í hópnum „stökktu, stökktu“

Í þessu tilviki er talað um fjöldamúgæsing eða mass hysteria. Enda þótt gera má ráð fyrir að allir þessir aðilar væru skynsamt fólk þá viðhöfðu þeir afar neikvætt atferli á þessari stundu, atferli sem það, eftir á að hyggja, myndu jafnvel skammast sín mikið fyrir. Hefðu þeir verið einir á staðnum má leiða sterkum líkum að því að hegðun þeirra hefði ekki falið í sér hvatningu til mannsins á þakinu að stökkva.

Það skal viðurkennt að hér er fjallað um fremur ýkt dæmi af múgæsingi.
Samt sem áður með lýsingu á hugtakinu í huga getum við  e.t.v. betur áttað okkur á hvort einhver óráðsæsing hafi gripið íslenskan múg í tengslum við strauma og stefnur stjórnmálaflokkanna.


Fagleg ráðgjöf handa pörum í tæknifrjóvgunarmeðferð

Barnleysi getur verið sársaukafullt vandamál. Talið er að 15-20% para á barneignaraldri glími við ófrjósemi einhvern tímann á lífsleiðinni. Ófrjósemi er fyrst og fremst líffræðilegt vandamál enda þótt sálrænir þættir hafi svo sannarlega áhrif.

Samtökin Tilvera sem stofnuð voru 1989 standa við bakið á þeim sem þarfnast og gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð. Meðferðina annast ART Medica. Tæknifrjóvganir eru dýrar og oft er fleiri en einnar meðferðar þörf. Þeir sem eiga rétt á niðurgreiðslu greiða fyrir glasafrjóvgun á bilinu 137.000 til 256.000 krónur eftir því hversu margar meðferðir parið hefur farið í. Kostnaður miðast einnig við hvort parið á eitt eða fleiri börn saman. Heildarkostnaður án niðurgreiðslu er 307.000 krónur. 
Í lögum um tæknifrjóvgun, 1996 nr. 55, 29. maí, kemur fram í 2. málsgrein 2. greinar að „Heilbrigðisstofnun sem fær leyfi skv. 1. mgr. er skylt að bjóða pörum sem sækja um tæknifrjóvgunarmeðferð faglega ráðgjöf sérfræðinga, svo sem félagsráðgjafa eða sálfræðinga“.
Þessu er ekki verið að sinna í dag. En hver veit hvað gerist í þessum efnum fái Sjálfstæðisflokkurinn heilbrigðisráðuneytið eftir næstu kosningar? Smile  


Ábyrgð lánastofnana

Lánastofnanir hafa verið iðnar við að vilja lána án tillits til hvort lántakinn sé borgunarmaður fyrir láninu eða ekki svo fremi auðvitað sem hann eigi eitthvað sem hægt er að ganga að, borgi hann ekki lánið. Lánastofnanir hafa líka blásið út. Því hærri sem skuldir heimilanna eru því meira moka lánastofnanir undir sig.
Á hverjum tíma er alltaf hægt að finna hóp af fólki, einstaklingum og fjölskyldufólki sem taka lán og aftur lán án þess að hugsa dæmið til enda þ.e. hvernig ætla ég að borga þetta lán? Fólk sem gerir þetta hefur lag á að ýta frá sér ákveðnum raunveruleika, bæla og afneita staðreyndum og hugsa sem svo „æi þetta reddast einhvernveginn“.  Þetta fólk lendir fyrr en síðar í greiðsluerfiðleikum, vítahring sem það losnar ekki úr og eftir stendur fjölskyldan sem getur ekki séð sér farborða.

Hvernig er hægt að stoppa svona vitleysu? Jú það er hægt að sporna við þessari neikvæðu þróun með mikilli og markvissri fræðslu sem helst ætti að hefjast strax á grunnskólastigi. Önnur leið er að lánastofnanir hætti að ota endalausum lánum að fólki með alls kyns auglýsingaherferðum og hætti jafnframt að lána fólki sem fyrirsjáanlegt er að getur ekki staðið í skilum.  Sá hópur sem ég vísa hér í virðist ekki geta staðist freistingar þegar það heyrir að nú sé hægt að fá 100% bílalán, 100% íbúðarlán, lán til að fara með fjölskylduna til útlanda, lán til að halda risastóra ferminarveislu osfrv. 

Enda þótt um fullorðið fólk er að ræða þá virðist sem svo að samfélagið þurfi að hafa vit fyrir því. Af hverju skyldum við vilja hafa vit fyrir þessu fólki? Jú vegna þess að þetta fólk á börn sem líða hvað mest þegar fjölskyldan er hætt að sjá fram úr greiðsluerfiðleikunum og örbirgð blasir við því. Fjárhagserfiðleikum fylgja önnur vandamál; samskiptavandamál, vonleysi og þunglyndi sem oft leiðir til sambúðarslita og skilnaðar. Hvort sem fjölskyldan heldur saman eða sundrast hverfa skuldirnar ekki. Vítahringur greiðsluerfiðleika varir oft ævilangt.
Ef lög um skuldaaðlögun verður til þessa að lánadrottnar taki meiri ábyrgð og að lántakandi verði líka að hugsa sinn gang áður en hann skuldsetur sig í botn þá er ég meðfylgjandi slíkum lögum.


Að afnema verðtrygginguna væri óráð

Afnám verðtryggingar væri óráð eins og efnahagsumhverfið er hér á landi í dag. Hvað yrði þá um lífeyrissjóðina? Lífeyrissjóðirnir eru stærstu sjóðir sem við eigum og þeir eru að lang mestu leyti verðtryggðir. Viljum við ekki að lífeyririnn okkar sé tryggður?
Þeir sem tala fyrir afnámi verðtryggingar gera sér ekki grein fyrir því að ýmislegt þarf að breytast í því efnahagsumhverfi sem hér ríki ef það á að vera möguleiki. 
Hvað þýðir verðtrygging?
Verðtrygging þýðir einfaldlega að þú færð til baka sem þú gefur (lánar) og greiðir aftur það sem þú færð, miða við verðgildi krónunnar. 
Ef verðbólga fer niður í 0 (núll) þá breytast sjóðirnir ekki neitt. Stöðugleiki myndi gera það að verkum að verðtrygging skiptir ekki máli. Þá þarf engar verðbætur.
Eins og staðan er í dag þá er verðbólga og verðtryggðir sjóðir breytast í samræmi við hana. 
Þess vegna er ekki hægt að afnema verðtrygginguna. 


Loksins eitthvað að gerast í sorphirðumálum hér á landi. Umbuna á þeim sem flokka rusl

Nú lítur svo út fyrir að vakning sé að verða í sorphirðumálum hér á landi. Breytingarnar eru komnar frá ESB og munu verða enn frekari hvati til endurvinnslu á Íslandi. Eins og málum hefur verið háttað nú henda sumir öllu beint í tunnuna á meðan hinir umhverfisvænu flokka eins mikið og þeir geta og leggja alúð við að koma flokkuðu rusli á rétta staði.
Mér finnst það sárlega hafa vantað að umbuna þessu fólki t.d. með því að lækka hjá þeim sorphirðugjaldið. Nú vottar fyrir þessari hugsun sýnist mér ef ég skil rétt það sem stendur í Mbl. í dag. Til dæmis ef þeir sem vilja hafa fyrir því að sækja sér sérstaka tunnu fyrir allan pappír þá væri hægt að lækka sorphirðugjald þeirra um ákveðna prósentu. Ef slíkt hvatningakerfi væri til staðar þá myndu þeir sem hingað til hafa lítið nennt að huga að þessum málum örugglega vilja nýta sér það.  Umbunarkerfi svínvirkar til að fá sem flesta til að taka þátt. Fordæmi nágrannalandanna hafa sýnt það.
Sjálf hef ég ekki verið mannanna best í þessum málum og ekkert liðið allt of vel með það. Það sem bjargar því að ég held þó andlitinu er að hænsnin hérna í garðinum fá allar matarleifar og við jú eggin í staðinn.  


Heimilisofbeldi: meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn

Í framhaldi af pistli mínum um heimilisofbeldi um helgina langar mig að benda á meðferðarúrræðið „Karlar til ábyrgðar“ sem sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson standa fyrir. Þetta má sjá í Mbl. í dag á bls. 24.  Það voru all nokkrir sem tóku þátt í umræðunni um þetta efni hér á bloggsíðunni og sumir hverjir voru einmitt að velta fyrir sér hvaða úrræði stæði ofbeldismönnum til boða. Hér kemur sem sagt eitt af slíkum úrræðum. 
Hafi karlar hug á meðferð vegna ofbeldishegðunar þá segir í umfjöllun Mbl. að nóg sé að panta tíma annaðhvort hjá Andrési eða Einari eða hringja í 1717 vinalínu Rauða krossins, sem er símaþjónusta allan sólarhringinn. Ef þið vitið um einhvern sem myndi gagnast svona meðferð þá er ekki úr vegi að koma þessum upplýsingum áleiðis.
Þetta er frábært framtak hjá kollegum mínum Andrési og Einari Gylfa sem báðir eru þaulreyndir sálfræðingar.


Áhrif skoðanakannanna á kjósendur

Það líður varla sá dagur nú að ekki birtast niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar. Niðurstöðurnar eru æði mismunandi ekki hvað síst vegna þess að spurningarnar eru ólíkar og einnig vegna þess að úrtökin eru misstór. Margar aðrar breytur hafa jafnframt þarna áhrif.
Hvaða áhrif hafa niðurstöður almennt séð á kjósendur, hugsun þeirra, viðhorf og loks hverjum þeir greiða atkvæði sitt? Eflaust skiptir þetta engu máli fyrir flokkssbundið fólk sem ætlar sér að kjósa sinn flokk og hefur aldrei látið sér detta neitt annað í hug. Áhrifin eru hvað mest á þá sem eru óákveðnir, hafa jafnvel verið hlynntir einum flokki eða ákveðnum stjórnmálamanni/mönnum en eru einhverra hluta vegna nú ósáttir og eru að hugsa um að kjósa annað.  Ég ímynda mér til dæmis að því fleiri skoðanakannanir sem komast að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé að dala og að Ingibjörg Sólrún sé að verða æ óvinsælli hafi þau áhrif að æ fleirri ákveði að kjósa ekki Samfylkinguna. Þó gætu einhverrjir hugsað málið akkúrat öfugt þ.e. að ætla að gefa Samfylkingunni einhvers konar samúðaratkvæði. Að sama skapi tel ég að því oftar sem heyrist að Sjálfstæðisflokkurinn haldi sínu eða sé að bæta við sig þá vilji æ fleirri bætast í hópinn.
En og aftur er hér á ferðinni skemmtileg sálfræði. Svo er það hitt að ekkert er öruggt í þessum efnum fyrr en talið er upp úr kössunum. Hvernig væri nú þessi aðdragandi kosninganna ef engar skoðanakannanir væru gerðar?

Heimilisofbeldi: nú er fjölmennt í Kvennaathvarfinu

Heimilisofbeldi hefur fengið vaxandi athygli í okkar þjóðfélagi undanfarin ár sem betur fer. Ég rak augun í frétt um að mikið sé að gera hjá þeim í Kvennaathvarfinu og að hátíðisdagar séu oft álagsdagar. Um þetta málefni væri mikið hægt að skrifa. Það sem skiptir öllum máli í þessu sambandi er að láta okkur þetta varða, fá þessi mál upp á yfirborðið til að geta komið bæði gerendum og þolendum til hjálpar. Í þeim tilvikum sem heimilisofbeldi tíðkast eru báðir aðilar orðnir sjúkir. Þeir sem beita ofbeldinu líður vissulega ekki vel með það en hafa ekki fundið leið út úr því. Oft er um að ræða aðila sem ekki hafa stjórn á skapsmunum sínum, eru haldnir sjúklegri afbrýðisemi og stjórnsemi og þjást jafnvel af ranghugmyndum. Stundum er áfengi með í spilinu en það er alls ekkert sjálfgefið. Flestir gerendur eiga það sameiginlegt að vera með brotna sjálfsmynd, lágt sjálfsmat og líða almennt illa með sjálfan sig. Margir hafa alist upp á heimili þar sem ofbeldi tíðkaðist.
Þolendur heimilisofbeldis hafa að mörgu leyti svipuð einkenni. Margir þolendur hafa einnig alist upp á ofbeldisfullu heimili og þekkja jafnvel ekki annars konar heimilislíf. Sjálfsmat og sjáfsmynd er brotin. Þolendur upplifa sig vanmátta, telja sig ekki hafa mikinn rétt til að tjá sig eða líða vel. Ef heimilisofbeldi er ekki fjölskylduleyndarmál eins og áður tíðkaðist er hægt að gera margt til að hjálpa þessu fólki. Reiðistjórnunarnámskeið hafa verið í gangi sem og sjálfsstyrkingarnámskeið. Ofbeldi á ekki að líða undir neinum kringumstæðum. Ef ekki stoppað myndast vítahringur sem stundum gengur frá einni kynslóð til annarra.

Sálfræðin að baki þess að hjálpa ekki náunganum á neyðarstundu.

Ráðist var á 16 ára pilt og kærustu hans í strætóskýli í Breiðholti. Árásin var með öllu tilefnislaus og árásarmennirnir ókunnugir. Pilturinn sem á var ráðist reyndi að vekja athygli vegfarenda, bíla sem óku fram hjá en aðeins einn stöðvaði bifreið sína og hóf að flauta á hópinn. Það styggði árásarmennina og betur fór því en á horfðist. 

Sálfræðin að baki þess að koma ekki til hjálpar á neyðarstundu.
Það er flókið sálfræðilegt ferli sem gerist hjá þeim sem verða vitni af ofbeldi og hvernig þeir bregðast við. Heilmikið er búið að rannsaka og skrifa um þetta fyrirbæri. Rannsóknir hafa falist í því m.a. að láta einhvern liggja við vegabrún sem væri hann stórslasaður eða látinn og telja hvað margir bílar einfaldlega aka framhjá. Niðurstöður eru sláandi.
Eitt gamalt skólabókardæmi er reyndar tekið úr raunveruleikanum. Ráðist var á konu á götu einni í New York. Hún hljóðaði og tókst að sleppa nokkrum sinnum úr höndum árásarmannsins sem náði henni jafnhraðan aftur. Margir í nærliggjandi húsum komu út í glugga og fylgdust í dágóða stund með hvernig „kötturinn lék sér að músinni“. Enginn kom henni til hjálpar. Einhver hringdi á neyðarlínuna en þegar lögreglan kom var það um seinan. Árásarmanninum tóks að drepa konuna fyrir framan fjölda áhorfenda.
Mörg okkar skilja þetta alls ekki og spyrja, hvað gengur eiginlega að fólki? Hversu kalt getur það verið? Er því bara alveg sama um náungann?

Ég tel að þetta sé ekki alveg svona einfalt. Það sem gerist í huga þeirra sem koma að svona löguðu er fyrst og fremst einhvern veginn svona hugsun:
Víst enginn stoppar (hefur stoppað) og hugar að þessu þá er þetta örugglega ekkert sem þarf að huga að eða því ætti ég þá að gera það. 
Sem sagt, litið er til hinna sem koma líka að eftir fordæmi til að fylgja eftir. Séu margir sem hugsa svona þá stoppar enginn þeirra  til að hjálpa. Myndi sá fyrsti sem kemur að ekki hugsa svona og stoppa til að hjálpa þá kæmu mjög líklega fleiri fljótlega í kjölfarið.

 Annað sem gerist er að fólk er hrætt við að blanda sér í deilur annarra. Það vil ekki verða eins og sagt er á enskunni „involved“.  Það ætlar ekki að fara að flækjast inn í einhver leiðindi sem jafnvel gæti dregið dilk á eftir sér.  Það sjálft kann að vera að flýta sér og má ekki vera að því að standa í neinu veseni. Svo kemur hugsunin: „víst enginn annar sér ástæðu til að gera nokkuð, þá kemst ég líka upp með að bara aka áfram og láta sem ég hafi ekki tekið eftir neinu“.

Svo er hitt að stundum kveikir fólk ekki á perunni. Það er sjálft hugsi um sín mál og þangað sem það er að fara og hreinlega „fattar ekki“ hvað er að gerast beint fyrir framan nefið á því. Þetta eftirtektarleysi er mikið til vegna þess að það  á ekki von á að upplifa neitt þessu líkt akkúrat á þessari stundu. Það er jú ekki á hverjum degi sem maður ekur fram hjá einhverri svona uppákomu.

Um þetta mætti ræða mikið meira enda er þetta einstaklega áhugavert fyrirbæri. Ef við myndum ræða þetta oftar og skoða nánar hvað gerist í hugum fólks undir svona kringumstæðum þá tel ég að við öll værum betur undir það búin að bregðast við svona óvæntum atburðum. Við skulum samt varast að draga þær ályktanir að þeir sem ekki stoppa og hjálpa sé bara eitthvað vont fólk. Málið er flóknara en það.  Svo skulum við ekki  gleyma þeim fjölmörgu sem hafa hætt lífi sínu til að hjálpa fólki sem það þekkir hvorki haus né sporð á. Um það eru fjölmörg dæmi. 


Hvernig kemst ég að því að barnið mitt er lagt í einelti?

Nokkur einkenni til viðvörunar:
Þegar barnið
*kemur heim með rifin eða skítug föt, skemmt skóladót eða hefur „týnt“ einhverju án þess að geta gert almennilega grein fyrir því sem gerðist,
*er með mar, sár eða skurði án þess að geta gefið trúverðuga skýringu á þeim,
*sýnist vera hrætt við eða langar ekki í skólann
*missir áhuga á náminu, einkunnir versna
*hættir að koma heim með bekkjarfélaga að loknum skóla
*velur aðra leið en venjulega heim úr skólanum
*virðist óhamingjusamt, dapurt, og kvíðafullt
*kvartar yfir magaverk, tapar matarlystinni
*sefur ekki eins vel, er grátgjarnt og dreymir illa
*tekur pening í leyfisleysi, virðist þurfa meiri pening en venjulega án þess að geta útskýrt almennilega í hvað er eytt

Afar brýnt er að leiða ekki þessa þætti hjá sér heldur kanna hvaða orsakir geti legið að baki. Sé einelti í gangi hverfur það sjaldnast af sjálfu sér. Skaðsemi eineltis sem staðið hefur yfir lengi getur fylgt barninu alla ævi. Áhrifin eru djúpstæð og lýsa sér oftar en ekki í brotinni sjáflsmynd og þunglyndi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband