Heimilisofbeldi: nú er fjölmennt í Kvennaathvarfinu

Heimilisofbeldi hefur fengið vaxandi athygli í okkar þjóðfélagi undanfarin ár sem betur fer. Ég rak augun í frétt um að mikið sé að gera hjá þeim í Kvennaathvarfinu og að hátíðisdagar séu oft álagsdagar. Um þetta málefni væri mikið hægt að skrifa. Það sem skiptir öllum máli í þessu sambandi er að láta okkur þetta varða, fá þessi mál upp á yfirborðið til að geta komið bæði gerendum og þolendum til hjálpar. Í þeim tilvikum sem heimilisofbeldi tíðkast eru báðir aðilar orðnir sjúkir. Þeir sem beita ofbeldinu líður vissulega ekki vel með það en hafa ekki fundið leið út úr því. Oft er um að ræða aðila sem ekki hafa stjórn á skapsmunum sínum, eru haldnir sjúklegri afbrýðisemi og stjórnsemi og þjást jafnvel af ranghugmyndum. Stundum er áfengi með í spilinu en það er alls ekkert sjálfgefið. Flestir gerendur eiga það sameiginlegt að vera með brotna sjálfsmynd, lágt sjálfsmat og líða almennt illa með sjálfan sig. Margir hafa alist upp á heimili þar sem ofbeldi tíðkaðist.
Þolendur heimilisofbeldis hafa að mörgu leyti svipuð einkenni. Margir þolendur hafa einnig alist upp á ofbeldisfullu heimili og þekkja jafnvel ekki annars konar heimilislíf. Sjálfsmat og sjáfsmynd er brotin. Þolendur upplifa sig vanmátta, telja sig ekki hafa mikinn rétt til að tjá sig eða líða vel. Ef heimilisofbeldi er ekki fjölskylduleyndarmál eins og áður tíðkaðist er hægt að gera margt til að hjálpa þessu fólki. Reiðistjórnunarnámskeið hafa verið í gangi sem og sjálfsstyrkingarnámskeið. Ofbeldi á ekki að líða undir neinum kringumstæðum. Ef ekki stoppað myndast vítahringur sem stundum gengur frá einni kynslóð til annarra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þökk fyrir þarfan og góðan pistil.  Gleðilega páska.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.4.2007 kl. 13:54

2 identicon

 

Sálfræðingur og félagsfræðingur gengu fram á hálfmeðvindarlausan mann sem ekki gat hrært sig vegna meiðsla eftir líkamsárás eftir annan mann. Félagsfræðingurinn: "Rosalega hlýtur manninum að líða illa". Sálfræðingurinn: "Já!Vá! við skulum reyna að finna hann". Og svo fóru þeir að leita árásarmannsins.

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 17:05

3 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Fínn pistill hjá þér Kolbrún. Ómar Ragnarsson var einhverju sinni spurður um hvernig ætti að "komast upp hjólfarinu í hálku og krapa". Hann viðhafði langan pistul um þetta en sagði svo til að summera upp : "Byrjaður að spóla, búinn að vera!" Svol. svipað gegnir um okkur karlmenn varðandi ofbeldi ( ekki bara heimilisofbeldi ) og þetta þarf að kenna ungum mönnum: "Byrjaður að kýla, búinn að vera!"

Svo er mjög mikilvægt að mínu áliti að karlmenn kenni öðrum karlmönnum. Sumt kemst bara ekki inn fyrir höfuðleðrið á ungum drengjum nema karlmaður segi hlutina og sé fyrirmynd. Kannski finnst ykkur þetta gamaldags en þetta er nú mín skoðun.  Gleðilega páskahátíð.

Guðmundur Pálsson, 7.4.2007 kl. 17:11

4 identicon

Að kunna að standa upp!!! og segja nei!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 18:55

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Guðmundur, þetta er sko ekki gamaldags. Ef það er eitthvað sem ungir drengir geta nýtt sér þá er það heilbrigð og sterk karlfyrirmynd sem kennir þeim hvernig þeir eiga að koma fram við aðra. Og já Jónína, akkúrat, við segjum nei við ofbeldi.
Sumar konur halda samt að þær geti ekki sagt nei við ofbeldi.
Þegar ég var í framhaldsnámi í USA þá var ég í eitt ár að vinna í kvennaathvarfi í það sem kallað er internship á enskunni. Þangað komu konur sem voru beittar ofbeldi. Við tókum ávalt af þeim mynd við komuna. Þær fullyrtu oftar en ekki að þær myndu aldrei fara heim aftur og fá aðra eins útreið því margar voru bláar og marðar og sumar komu beint af ER (Emergeny Room). Eftir nokkra daga eða vikur gerðist það stundum að blóm og konfekt fór að berast til sumra kvennanna frá gerendunum. Þá fór eitthvað mjög skrýtið að gerast. Þær fóru að rökræða við sjálfa sig og okkur starfmennina að þetta hafi nú ekki veri svo slæmt og að þetta hafi nú verið þeim líka að kenna eða nú væri hann hættur að lemja, osfrv. Þá tókum við upp myndirnar af þeim og sýndum þeim þær. Oft horfðu þessar konur á myndirnar og sögðu „þetta er ekki ég, þetta getur ekki verið ég“. Áður en maður gat litið við voru þær farnar aftur heim. Svona gekk þetta stundum í eina fimm hringi áður en konan virtist átta sig að á meðan maðurinn var ekki viðurkenna vandann voru engar breytingar.
Ef marka mátti lýsingarnar á gerendunum voru þeir oftar en ekki eins og ég lýsti hér í blogginu, þessi sjúklegi afbrýðisami, stjórnsami maður með afar lágt sjálfsmat, stundum fíkill en þó ekki alltaf.  Konan var einnig þessi brotna, óörugga, háða kona sem gat engan veginn séð sjálfa sig búa eina með börn sín.
Það tók á að fylgjast með þessu.  En hvort sem þetta er í USA eða hér heima, eru þessi mál afar lík og ferill þeirra líkur.

Kolbrún Baldursdóttir, 7.4.2007 kl. 20:25

6 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Hvenær hefur virkilega verið tekið á ofbeldismálum hér á landi? Ekki ennþá að mínu mati. Ég aðstoðaði fyrir nokkrum árum unga konu sem leitaði til mín vegna heimilisofbeldis. Karlinn sem hún bjó og átti íbuð með hafði gifst ,,súludansmey", en þrátt fyrir það vildi hann halda áframhaldandi sambandi við sambýliskonu sína og ofsótti hana og hótaði henni allskonar líkamsmeyðingum. Þessi saga er efni í heila bók og endaði ekki fyrr en dómari í héraðsdómi Reykjavíkur fékk lögreglumann til að taka á málunum þar sem dómarinn óttaðist um tengdamóðir sína sem leigði ungu konunni húsnæði.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 7.4.2007 kl. 22:21

7 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Langar að koma með nokkra punkta,

en almennt er talað um að þeir sem beita ofbeldi, bæði konur og karlar, byrji lúmskt og gangi svo alltaf lengra og lengra. Það þarf að veita góða aðtoð og mér finnst mikil fáfræði og jafnvel afneitun að segja að maður eigi bara að segja "nei" eins og ein hér að ofan segir. Þegar búið er á "markvissan" hátt að brjóta fórnarlambið niður og koma sambandinu þannig fyrir að auðveldara er að beita ofbeldi, þá er hægara sagt en gert að berja í borðið og segja NEI.

Annað er það að mér finnst ekki rétt að skylda þá sem beita ofbeldi til að fara í meðferð, þá vil ég meina að fólk verður að fara sjálfviljugt til að að geta náð árangri. Þessi hugsun minnir mig á það þegar verið var að senda menn nauðuga í meðferð og svo kom öllum á óvart þegar þeir héldu áfram að drekka

Inga Lára Helgadóttir, 7.4.2007 kl. 23:51

8 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég var sjálf fyrir ofbeldi þegar ég var lítil telpa. Ég er alltaf hrædd ennþá daginn í dag.

Kristín Katla Árnadóttir, 8.4.2007 kl. 01:00

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Hvort sem það er þolandinn eða gerandinn sem um ræðir eða bara hver sem er sem á í einhverjum vanda, ef hann hefur ekki innsæi í vandann sinn/viðurkennir hann, þá er hann varla mótiveraður fyrir meðferð akkúrat þá stundina.
Sumir vita af vandanum en eru ekki tilbúnir að viðurkenna hann. Hvað varðar gerendur ofbeldis þá er hluti þeirra vel meðvitaðir um vandann og vilja virkilega ná tökum á honum. Ég hef fengið all mörg slík tilvik á stofu til mín undanfarin 15 ár. Annar hópur varpar frá sér ábyrgð, segir jafnvel þetta allt þolandanum að kenna því að „hún var svona eða hinsegin, hafi byrjað...“ osfrv.
Ég sé líka greinarmun á þeim sem beita maka sinn ofbeldi sé ofbeldisuppákoma tengd áfengis- og vímuefnaneyslu. Sumir sem lemja þegar þeir eru fullir, vilja varpa ábyrgðinni á áfengið, fela sig bak við það.
Eins er það með þolandann,  ef hann vill ekki aðstoðina þá er lítið hægt að gera nema að bíða og vona að viðkomandi muni einn góðan veðurdag sjá ljósið, sjálfs síns og barna sinna vegna.  Nú myndu margir eflaust vilja nefna að gerendur eru ekki alltaf karlmenn og þolendur konur. Það er hárrétt, dæmi eru um að þessu sé öfugt farið en þó í miklu, miklu minna mæli. Þarna spilar líkamsyfirburður karlanna inn í og margt fleira. Því meira sem við tölum um þetta því betra.  Því markvissara sem löggjafinn tekur á heimilisofbeldi því betra. Með þjóðfélagið að baki sér finna þolendurnir að þeir geti í rauninni sagt nei við ofbeldi. Það er leið út 

Kolbrún Baldursdóttir, 8.4.2007 kl. 10:31

10 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Takk fyrir að koma með þetta hér Kolbrún það er nauðsynlegt að koma með svona af og til, það eru svo margir sem þekkja ofbeldi í einhverri mynd, að það er rosalegt. Fólk í kringum mig sem hefur skilið og kemur svo með það að hjónabandið hafi verið svo ofbeldisfullt. 

ein vinkona mín fór úr nokkurrra ára sambúð og svo þegar ég spurði af hverju þau slitu þessu, þá fór hún að sýna mér alla marblettina og sagði mér nokkurra ára sögu ...hún hafði ENGUM sagt frá.....

Inga Lára Helgadóttir, 8.4.2007 kl. 11:42

11 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Takk fyrir þennann pistill, allt sem ég hefði vilja segja er þegar sagt hér að ofan.Ég held að þetta sé miklu flóknara dæmi en bara standa upp og segja NEi,því ef það væri svona létt fyrir það fólk sem hefur lent í ofbeldi, þá væri einfaldlega ekki ofbeldi í þessu þjóðfélagi.

María Anna P Kristjánsdóttir, 8.4.2007 kl. 19:59

12 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þegar áfengi er inn í myndinni eða fíkniefni virðist hvað sem er geta gerst og líklega á áfengið sinn stóra þátt í þessari truflun sem ofbeldi er.

En þegar því er sleppt í umræðunni er það attitjúdið hjá karlmanninum (almennt) sem þarf að breytast held ég. Hann þarf að hugsa málið upp á nýtt.

Staða karlmannsins í samfélaginu hefur snarbreytst og hann áttar sig oft ekki á því.  Þess vegna komast þeir menn sem eru svolítið androgyne best af, þe. þeir sem geta sett sig í mýkri stellingar.

Karlmaðurinn er oft skapmikill og árásargjarn, sérstaklega yngri menn.  Það er ekki endilega alslæmt ( þe. ef það bitnar ekki á neinum) og liggur það í eðli karlmannsins.  En skapið þarf að temja, setja í farveg og setja grensur. Þá verður þessi skaporka oft til góðs. Raunar fyrir samfélagið allt.  

En ef menn ætla að beita skapi sínu við konur eins og þeir gera hver við annan þá eru þeir í miklum vanda staddir. Kynin hafa ólíka "kóða" og skilja þess vegna ekki hvert annað í þessum málum. Segja má að það sé bara eðlilegt, vegna þess hve kynin eru ólík.

Það er alls ekki nóg að segja ofbeldi, ofbeldi alls staðar. Það verður að reyna að skilja fyrirbærið. Skilja einnig hvernig konan bregst við þegar hún reiðist og beitir sér. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig og reyndar mun flóknara en hnefahögg einhvers vesalings sem veit ekki sitt rjúkandi ráð. Ekki dettur mér þó í hug eina mínútu að bera í bætafláka fyrir ofbeldisfullum körlum.

Svo má kannski deila um það að eitthvað sé orðið að í samskiptum kynjanna svona almennt séð. Þetta er jú í hnotskurn vandamál milli kynjanna, ekki satt.  Líklega allt of mikið stress og kröfur úr öllum áttum. Eftirsókn eftir vindi? Eða hörð lífsbarátta? Sumt fólk er ógurlega upptekið við að klóra úr hvert öðru augun. Ég slæ þessu svona fram, ég bara veit það ekki. Páskakveðja.

Guðmundur Pálsson, 9.4.2007 kl. 02:09

13 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Nei Þrymur minn, undir þetta get ég ekki tekið.  Í tilvikum heimilisofbeldis þá er þetta sjaldnast spurning um deilur eða hjónavanda heldur er þetta einstaklingsvandamál þess sem beitir ofbeldinu. Hann hefur, vegna óöryggis og brotinnar sjálfsmyndar valið sér ófullkomnar og ósamþykkjanlegar samskiptaleiðir. Þessum aðilum þarf því einfaldlega að kenna nýjar aðferðir sem líklegri eru til að skila sér inn í samskipti sem báðir aðilar geta tileinkað sér á jafnréttisgrundvelli. Sá sem beitir ofbeldi er því einn ábyrgur fyrir hegðun sinni.

Kolbrún Baldursdóttir, 10.4.2007 kl. 12:21

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband