Konur í sárri neyð í Reykjavík

Hér er grein eftir okkur Natalie G. Gunnarsdóttur sem skipar 4. sæti á lista Flokks fólksins.

Konur í sárri neyð í Reykjavík.

Mikil vöntun er í Reykjavík á húsnæði og neyðarskýlum fyrir konur með fjölþættan vanda. Neyð heimilislausra kvenna er meiri en karla því þær hafa ekki sömu úræði í neyslu og karlar. Á göt­unni snýst allt um að lifa af og það getur leitt af sér enn meiri áföll. Þar er kon­um nauðgað, þær eru fórn­ar­lömb mansals og misþyrminga og verða sífellt að vera á varðbergi. Kerfið í borginni má ekki bregðast konum í svo bágri stöðu.

Konukot er komið að þolmörkum hvað rými varðar. Á ári hverju sækja um 100 konur þjónustu Konukots en heimilisleysi kvenna er oft falið og því má gera ráð fyrir að talan sé mun hærri. Í Covid faraldrinum var sett á laggirnar sérstækt úrræði fyrir konur. Það bættist við Konukot og var starfrækt allan sólarhringinni. Úrræðið reyndist vel en því var samt lokað þegar faraldurinn rénaði. Skila­boðin sem Reykjavíkurborg sendir með því að loka þessu litla úrræði meðan millj­örðum er mokað í umdeilanleg verkefni eru að líf þessara kvenna sé ekki mikils virði.

Bregðumst strax við vandanum!

Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg horfist strax í augu við sáran vanda heimilislausra kvenna og axli þar ábyrgð. Neyðarskýli verða að standa þeim opin allan sólarhringinn og einnig þarf að finna þeim varanleg úrræði. Það kallar á auknar fjárheimildir. Auk þess að tryggja þessum hópi þak yfir höfuðið á þeirra forsendum, viljum við í Flokki fólksins að unnin sé meiri fyrirbyggjandi vinna fremur en að einblína aðeins á að slökkva elda. „Húsnæði fyrst“ aðferðafræðin kveður á um að öruggt þak yfir höfuðið sé bæði grunnþörf og grundvallarmannréttindi. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir. Heimili er því forsenda fyrir árangri vímuefnameðferðar eða meðferðar við geðrænum vanda meðal kvenna á vergangi.

Heimilisleysi velur sér engin. Það er félagsleg afleiðing áfalla þar sem kerfið hefur brugðist. Þessar konur þurfa faglegan stuðning til að geta komið lífi sínu á réttan kjöl. Við í Flokki fólksins ætlum að svara því kalli.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

Natalie Guðríður Gunnarsdóttir, stuðningsfulltrúi og háskólanemi, skipar 4. sæti á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og sálfræðingur, skipar 1. sæti á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Birt í Fréttablaðinu 26. apríl 2022

konur í sárri neyð mynd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband