Stjórn Sorpu á að víkja

Það er áberandi í skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu bs að stjórn réði ekki við hlutverk sitt. Innri endurskoðandi vill að stjórn sé skipuð fagfólki en ekki kjörnum fulltrúum. Ég er reyndar ekki sammála því enda hér um að ræða eina af mikilvægustu stofnunum borgarinnar. Aftenging við kjörna fulltrúa gengur því ekki upp. En við lestur skýrslu innri endurskoðunar er alveg ljóst að stjórn er vanhæf og hefur flotið sofandi að feigðarósi.
 
Framkvæmdastjóri hefur gert það líka en hann er látinn taka allan skellinn. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Stjórn hefur skýra frumkvæðisskyldu þegar kemur að öflun upplýsinga samkvæmt eigendastefnu en sinnti henni ekki.
 
Í kjölfar áfellisdóms sem stjórnin fær í skýrslu innri endurskoðunar hlýtur stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu að víkja úr stjórn? Auðvitað hefur borgin ekkert að segja um aðra stjórnarmenn hinna sveitarfélaganna jafnvel þótt borgin sé langstærsti eigandinn. En þetta er einmitt gallinn við byggðasamlög. Stærsti eigandinn greiðir hlutfallslega mest en ræður hlutfallslega minnst. Reykjavík fær ekkert mál í gegn nema tvö önnur sveitarfélög samþykki þau. Þannig eru reglur um byggðasamlög. Hversu lýðræðislegt er það þegar um er að ræða langstærsta eigandann og stærsta greiðandann þegar kemur að því að greiða fyrir framúrkeyrslu tilkomna vegna grófrar vanáætlunar?

Bloggfærslur 2. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband