Speak English?

Ég er alin upp í vesturbæ Reykjavíkur og miðbærinn var leiksvæðið mitt. Í hálfa öld hef ég fylgst með miðbænum sem hefur verið í alls kyns birtingarmyndum. Nú er hann að taka á sig mynd sem ekki hefur sést fyrr. Íslendingum hefur fækkað í bænum og nánast hvert sem litið er, á veitingahús eða í verslun er spurt hvort maður tali ensku? "Já ég tala ensku" svo langar mig mjög oft að bæta við, "en þegar ég heimsæki miðbæinn minn langar mig bara helst að tala Íslensku".

Þegar ég kem inn í rammgerða Íslenska verslun eins og Rammagerðina langar mig helst alls ekki að tala ensku við afgreiðslufólkið. En ég verð að gera það því annars skilja þau mig ekki. 

Ég vil að miðbærinn sé fyrir alla borgarbúa og að utanbæjarfólki sé boðið velkomið að heimsækja hann með því að auðvelda aðgengi. Til þess að aðkoma að miðbænum sé eftirsóknarverð þarf að létta á umferðinni með því að breyta ljósastýringum og hafa bílastæði tiltæk. Bílastæðahús eru ekki að gera sig fyrir alla.
Það væri líka voða gaman að geta talað móðurmálið í bænum svona alla vega sem oftast.

 

Umræða um lokanir gatna: Laugavegar, Bankastrætis og Skólavörðustígs og þá bláköldu staðreynd að fjöldi fyrirtækja hafa yfirgefið bæinn hefur verið hávær. Verslanir þrífast ekki nema inn í þær komi viðskiptavinir. Eftir að þessum götum lokaði fyrir umferð allt árið um kring hurfu kúnnar og þar með tugir verslana sem nú gera það gott annars staðar þar sem aðgengi er betra fyrir alla.

Í bænum er vissulega fólk á ferð. Þar býr fólk sem er eðli málsins samkvæmt á ferð um bæinn og svo eru það ferðamennirnir sem hefur reyndar fækkað og munu sennilega fækka enn meira t.d. vegna uppkominnar skaðlegrar veiru, sem vonandi verður ekki að faraldri.  

Um fækkun Íslendinga í bæinn er varla lengur deilt. Meirihlutinn í borgarstjórn mótmælir því ekki einu sinni lengur þegar á þetta er minnt. Hann situr bara og þegir. Í borgarstjórn er ég fulltrúi flokks sem var stofnaður til að gæta m.a. hagsmuna öryrkja og eldri borgara. Áhersla mín sem borgarfulltrúi er á aðgengi þeirra sem eiga erfitt um gang að einhverjum orsökum. 

Ég og við í Flokki fólksins leggjum  mikla áherslu á að haft sé gott samráð við fólkið en því er ekki að skipta í þessum máli. Þeir flokkar sem eru við stjórn lögðu áherslu á lýðræði og samráð í kosningabaráttunni en það voru og eru bara orð og hafa í raun aldrei verið annað en orð.

Borgaryfirvöld eru ekki enn farin að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim kveður á um að heimilt er fyrir P-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Vegna hindrana komast engir P-merktir bílar niður neðri hluta Laugavegar eða Bankastrætis sem dæmi. 
Flokkur fólksins vill einnig hugsa um eldra fólk í þessu sambandi því stundum er það einfaldlega þannig að þegar fólk er komið yfir sjötugt þá treystir það sér ekki að ganga langt.

Miðbærinn hefur á hálfri öld verið alla vega og alls konar, allt frá því að vera galtómur og kuldalegur yfir í að vera um tíma hlýlegur og fullur af lífi og fjöri. Undanfarið ár hefur sigið á ógæfuhliðina og það fyrst og fremst vegna þess að borgaryfirvöld telja að lokanir gatna og breytingar á þeim yfir í að vera alfarið göngugötur allt árið um kring sé málið. Þetta halda þau af því að svona er þetta t.d. í Osló.

Ef rekstraraðilar finna að þetta hefur haft skaðleg áhrif á viðskipti þeirra og viðskiptavinir segjast ekki treysta sér lengur í bæinn vegna aðgengisvanda hljóta borgaryfirvöld að verða að staldra við og hlusta. Hvers lags yfirvöld eru það sem hlusta ekki á hvar og hvernig hjarta borgarbúa slær?

Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar, sumar sem rétt svo skrimta. Lengi getur vont versnað. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum að breyta Laugavegi í göngugötu. Ég velti því fyrir mér hvort það bíði Laugavegar það sama og Hverfisgötunnar en þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir rekstraraðila eins og við hljótum öll að muna. 


Bloggfærslur 6. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband