Rangt er að leggja niður Borgarskjalasafn

Nú hefur leynd verið létt af KPMG skýrslunni um Borgarskjalasafn sem kemst að þeirri niðurstöðu að:

"Óbreytt ástand er ekki möguleiki"

Þetta er gildishlaðin fullyrðing. KPMG skýrslan er ekki vandað plagg að mati okkar í Flokki fólksins. Niðurstaðan er pöntuð. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri og hans fólk sé fyrir löngu búið að ákveða að leggja niður Borgarskjalasafn. Einungis voru höfð tvö viðtöl við borgarskjalavörð og teymisstjóra eftirlits og rafrænna skila. Vinnan núna er því ólík vinnu með KPMG árið 2018. Ekkert hefur verið fundað með öllum starfsmönnum Borgarskjalasafns, engir stefnumótunar- eða verkefnafundir haldnir með starfsmönnum og greinendur hafa ekki kynnt sér ítarlega verkefni eða störf safnsins. Ekki var haldinn fundur með forstöðumanni Borgarskjalasafns til að kynna drög að tillögum. Hér er ekki um neina stefnumótunarvinnu að ræða heldur er aðeins keyrt áfram og yfir alla sem málið varðar. Þetta eru allt upplýsingar frá starfsfólkinu.

Skýrslan er neikvæð, og fjallað er með niðurrífandi hætti um Borgarskjalasafn. Allt gert til að láta Safnið líta illa út til að réttlæta að skella í lás. Ekki er minnst á styrkleika Safnsins, aðeins einblínt á vandamálin. Fela á verkefnið öðrum í stað þess að skoða leiðir til að efla safnið. Hávær mótmæli eru um áformin og telur Flokkur fólksins að borgarstjóri eigi umsvifalaust að draga þessa tillögu til baka og biðja starfsfólk Borgarskjalasafns afsökunar. Illa hefur verið komið fram í þessu máli á allan hátt.

 


Ekki í skólann

Umræða um skólaforðun hefur aukist síðan Velferðarvaktin hóf að gera könnun á umfangi hennar. Um þúsund íslensk börn glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann. Ætla má að fjöldinn sé mun meiri. Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar tengjast andlegri vanlíðan, kvíða og þunglyndi.

Dæmi um aðrar ástæður er félagskvíði þ.e. þegar barn treystir sér ekki til að yfirgefa heimilið til að vera með jafnöldrum. Einnig erfiðleikar í námi ef vandinn er vitsmunaþroski eða aðrar raskanir. Algengar ástæður eru einelti eða önnur ógn sem tengist skólanum hvort sem það er innan veggja skólans eða á skólalóð.

Ef skólaforðun hefur staðið yfir langan tíma er ekki ósennilegt að barnið sé komið með viðvarandi kvíða gagnvart öllu sem tengist skólagöngunni. Það hefur misst úr náminu og miklar fyrir sér að taka upp þráðinn að nýju. Það hefur einnig misst tengsl við skólafélaga og óttast að vera ekki tekinn aftur í hópinn, eða upplifir sig jafnvel aldrei hafa verið hluti af hópnum. Barnið forðast skólann og vill ekki fara í hann því það treystir því ekki að neitt hafi breyst eða geti breyst í skólaaðstæðunum.

Grafast fyrir um orsakir

Eitt er víst að skólaforðunin á sér einhverja upphafsorsök eða ástæður. Það gæti hafa verið eitt tilvik eða uppsöfnuð vanlíðan sem tengist skólanum sem rekja má til margra þátta sem foreldrar og barnið sjálft á jafnvel erfitt með að skilgreina lengur.

Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni og engin tvö mál eru eins. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni og ekki linna látum fyrr en ástæðan er fundinn og vandinn er kominn í lausnarfarveg. Eina lausn skólaforðunar er að barnið sæki skólann á ný með reglubundnum hætti. Í algerum undantekningum þegar fyrirséð er eftir að reynt hefur verið til þrautar, fær barnið heimakennslu í samræmi við lög.

En fyrst þurfa allir aðilar sem koma að máli barns með skólaforðun (barnið sjálft, foreldrar þess, skólayfirvöld og fagfólk skóla) að reyna til þrautar, eða þar til barnið upplifi skólagönguna ekki ógnandi á neinn hátt.

Sé ástæðan innra með barninu (klínískur kvíði, þunglyndi, fælni) þarf að aðlaga skólaaðstæður að þörfum þess. Dæmi er um að skólatíma barns sé breytt, styttri viðvera, smærri hópar og að tekið sé á móti barninu með sérstökum hætti og að það hafi vissan tengilið innan skólans sem er ávallt til staðar fyrir barnið.

Sé ástæðan í umhverfi barnsins þarf að taka á því. Hér gæti verið um að ræða vanmátt gagnvart námi eða að barni er strítt, það lagt í einelti. Aðlaga þarf námskrána að þörfum barnsins og að sjálfsögðu vinna úr eineltismálum séu þau orsakaþáttur fyrir skólaforðun. Námsráðgjafi og sálfræðingur skóla eru hér lykilaðilar svo og hjúkrunarfræðingur. Ekki síður skiptir máli skilningur skólayfirvalda, starfsfólks og samhugur bekkjarfélaga. Við komu barns í skólann eftir skólaforðun skiptir máli að búið sé að ræða við bekkinn og að bekkurinn taki vel á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann. Góður fyrsti dagur eftir skólaforðunartímabil getur skipt sköpum.

Umfram allt þarf að grafast fyrir um grunninn að skólaforðunni og rekja þróunina til að geta fjarlægt það sem kom skólaforðuninni af stað. Þetta þarf að gerast áður en skólaforðunarvandinn festir sig í sessi sem almenn regla frekar en undantekning.

 

Skólakerfið

Börn upp til hópa eru sátt og líður vel í skóla sínum. Vandinn liggur í skorti á fagfólki til að hjálpa öllum þeim börnum sem þess þurfa. Fagfólki hefur ekki fjölgað í grunnskólum borgarinnar sem er ekki í neinu samræmi við fjölgun nemenda.  Reykjavíkurborg hefur ekki viljað leiðrétta laun sálfræðinga í samræmi við menntunarstig þeirra og þess vegna gengur illa að fá þá til starfa. Öll þekkjum við biðlistann sem fengið hefur að lengjast stjórnlaust.


Í raun breytir engu hversu hátt er hrópað. Skólastjórnendur, foreldrar, ungmennaráð og börnin kalla út í tómið. Foreldrar barna í vanda sem þessum eru í angist sinni og upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu. Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er á Barnasáttmálann má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.Skólaforðunarmál sem komin eru á efri stig verða ekki leyst án fagfólks. Einhver einn þarf að halda utan um málið, sjá til þess að fundir séu haldnir, viðtöl höfð og máli fylgt eftir til að forðast að það dagi uppi í kerfinu og hver bendi á annan. Það er til mikils að vinna að taka á þessum erfiðu málum og gera það faglega.

Afleiðingar langvinnar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum þess að stunda nám eða vinnu.  Það er ekki aðeins skaði þess einstaklings heldur samfélagsins alls. 

Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt skólaforðun í borgarstjórn og kallað eftir samræmdum viðmiðum sem sátt ríkir um. Einnig er kallað eftir viðbrögðum skólayfirvalda og að þau sýni ábyrgð í verki.

Birt í Morgunblaðinu 28 febrúar 2023


Bloggfærslur 28. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband