Auglýsingar sem ætlaðar eru börnum þarfnast skoðunar og takmörkunar

Ég er sammála því að setja þurfi reglur er varðar markaðssókn gagnvart börnum.  Slíkar reglur þurfa að fela í sér ákveðnar takmarkanir en ekki síður þarf að skoða vandlega hvað verið er að auglýsa og hvaða áhrif auglýsingin kann að hafa á börnin. 

Markmið markaðsaðila er að gera vöruna það heillandi að barnið biður foreldra sína að kaupa hana handa sér.  Ákefð markaðsaðila að selja vöruna getur verið slík að þeir geta hæglega misst sjónar af hvar hin siðferðislegu mörk liggja í þessu sambandi. Þess vegna þarf samfélagið að setja reglur og ramma, sem fyrst og fremst er ætlað til að vernda börnin.
 
Ef bera á markaðssetningu sem beint er að börnum hér á Íslandi saman við sambærilega markaðssetningu t.d. í Bandaríkjunum þá eru við enn sem stendur í þokkalegum málum.  Í því fylki í Bandríkjunum sem ég bjó í um fimm ára skeið virtist mér sem markaðsaðilar væru tilbúnir að ganga býsna langt til að hafa áhrif á hugsanagang og tilfinningarlíf barnanna. Sjónvarpið var sá miðill sem hvað mest er notaður í því skyni. Mest var auglýst að morgni dags þegar barnaefnið var á dagskrá og þá hvað mest um helgar þegar stór hluti barna í Ameríku situr fyrir framan sjónavarpið jafnvel klukkutímum saman. Mér eru þessar auglýsingar minnisstæðar því ungviðið á mínu heimili varð eins og gefur að skilja upptendrað sem leiddi til þess að það var suðað, beðið og grátbeðið um að fá eitt og annað sem stöðugt var verið að auglýsa. Það sem var hvað mest auglýst amk á þessum árum voru leikföng, barbiedúkkur og leikfangabílar sem og önnur leikföng. Einnig sælgæti og morgunkorn svo fátt eitt sé nefnt.

Hér á Íslandi hafa skotið upp fremur vafasamar auglýsingar gagnvart börnum. Sem dæmi má nefna að verið er að auglýsa matvöru sem sögð er vera holl og góð og því tilvalin að hafa í nestispakkanum í skólann. Þegar betur er að gáð er jafnvel um að ræða vöru sem er beinlínis óholl. Hver man ekki eftir jógúrt sem sérstaklega var auglýst holl fyrir börnin en þegar farið var að skoða innihaldið innihélt hún sykurmagn sem samsvaraði 5 sykurmolum. Eflaust má finna fleiri svona dæmi og mörg svæsnari en þetta.

Það er sannarlega tími fyrir okkur hér á Íslandi og staldra nú við og skoða hvar við erum stödd á þessum vettvangi.  Markaðssetning gagnvart börnum hefur aukist og mun halda áfram að gera það stjórnlaust ef ekki verða sett mörk.   Með hvaða hætti hún fer fram og hvað það er sem verið er að auglýsa til að hafa áhrif á börnin þarf að skoða með gagnrýnu auga.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Er ekki einfaldara að minna foreldra á að þeir stjórna launum sínum en ekki börn þeirra? Eða hvað á að ráða marga ríkisstarfsmenn til að fylgjast með auglýsingum og rembast við að túlka þær sem "ólöglegar" til að réttlæta starfsgrundvöll sinn? Hvað þarf marga skrifstofustarfsmenn til að taka við kærum foreldra á auglýsendur af því Siggi litli 5 ára vildi ekki hætta suða í Bónus eftir að hafa séð auglýsingar fyrir Coco pops?

Geir Ágústsson, 17.6.2007 kl. 10:34

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband