Leiðir til að votta samúð.

Að vera viðstaddur jarðarför, erfisdrykkju og hitta syrgjendur í eigin pesónu skapar mörgum kvíða. Ástæðan er m.a. sú að fólk veit ekki alltaf hvað það á að segja og óttast jafnvel að missa eitthvað klaufalegt út úr sér. 

Íslensk tunga er óþjál þegar kemur að því að velja orð og setningar undir þessum kringumstæðum að mínum mati. 
Málið bíður okkur ekki upp á marga möguleika hvað þetta varðar.
Við segjum helst: ég samhryggist þér  eða ég votta þér samúð mína.

Þessar setningar virka stirðbusalegar í munni og fyrir suma jafnvel yfirborðskennd.  
Vegna þess hversu íslensk tunga er í raun snauð að þessu leytinu til velja margir fullorðnir frekar að tjá samkenndina með faðmlagi fremur en orðum. 

Eins er þessu farið með unglinga og ungt fólk sem eðlilega hefur ekki öðlast langa þjálfun í samskiptum á sorgarstundum.  Ég hef orðið vör við að unglingum þykir mjög erfitt að segja: ég samhryggist þér eða ég votta þér samúð mína.

Ef fyrir dyrum er jarðarför finna unglingar þess vegna oft fyrir kvíða og óttast að þeir muni koma klaufalega fyrir. Fyrir ungling að faðma syrgjandann, e.t.v. vin eða skólafélaga sem hefur misst ástvin, finnst honum jafnvel heldur ekki auðvelt.  Mörgum unglingum finnst náin snerting vera óþægileg og myndu gjarnan vilja velja aðrar leiðir til að tjá tilfinningar sínar heldur en t.d. faðmlag eða kossa.   

Það er mín skoðun að enskumælandi heimurinn sé betur settur hvað þetta varðar. Þeir segja einfaldlega I´m so sorry með tilheyrandi raddblæ og svipbrigðum.
Þetta segir allt sem segja þarf á erfiðum stundum og er jafnframt þjált í munni ef svo má að orði komast.

Dæmi sem lýsir þessu mjög vel er að einn félagi minn mismælti sig þannig að hann sagði óvart við syrgjandann til hamingju þegar hann ætlaði að segja  ég samhryggist þér.
Hann var lengi miður sín á eftir og fannst hann hafa verið einstaklega klaufalegur á svo viðkvæmri stundu.  Mismæli sem þessi geta í raun komið fyrir alla. Sumum finnst sem þeir þurfi hreinlega að æfa sig í huganum hvað þeir ætla að segja undir þessum kringumstæðum til að tryggja að segja ekki eitthvað sem þeim líður síðan illa yfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þetta eru orð í tíma töluð. Stundum er alveg þétt handtak og vel meint bros alveg nóg. Það þarf ekki alltaf að tala.

Svo getur farið fyrir manni eins og telpunni dönsku sem vissi ekki hvað fólk var að tauta við syrgjendur. Hún tók hlýlega í hendi syrgjandans og sagði það sem hún hélt að ætti við: „Til lykke með liget!“

Sigurður Hreiðar, 3.9.2007 kl. 13:57

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þarna kom það sem ég hef verið að velta svo mikið fyrir mér og ekki náð að festa fingur á.  Hversu takmarkön tungumálsins er mikil þegar að þessu kemur.  Á góða vinkonu sem er að ganga í gegnum mikinn missi þessa dagana og mig skortir orð.  Finnst ég stöðugt endurtaka mig, og það gerir það að verkum að mér finnst allt svo yfirborðkennt og "hollow" það sem ég segi henni til hughreystingar.  Tek fram að mér er sjaldnast orða vant en núna stend ég beinlínis á gati.

Fróðlegt og kærar þakkir

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.9.2007 kl. 20:47

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

...er með meirapróf í þessu neee sem betur fer ekki...

Góð færsla hjá þér.  

Marta B Helgadóttir, 3.9.2007 kl. 20:47

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er alveg óþarfi að tala í felstum tilvikum ef hjartað fylgir með samúðarvottuninni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.9.2007 kl. 01:27

5 identicon

Það er svo margt sem fólki finnst erfitt að orða, eins og sést t.d. á færslunni þinni. ,,Ég hef orðið vör við að unglingum þykir mjög erfitt að nota þessi orðatiltæki: ég samhryggist þér eða ég votta þér samúð mína." Þetta eru ekkert orðatiltæki.

GK (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 11:37

6 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Líklega er það rétt hjá þér GK.

Kolbrún Baldursdóttir, 4.9.2007 kl. 11:50

7 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Já Kolbrún maður á bara að taka utan um þann sem  sem er búinn að missa. Þetta er góð færsla hjá þér og til umhugsunar.

Kristín Katla Árnadóttir, 4.9.2007 kl. 19:31

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Í okkar tungumáli eða öllu heldur í notkunarvenjum okkar á tungumálinu þá er ekki mikið svigrúm fyrir ýmsu sem unglingar myndu kalla væmni. Við sem reyndari erum myndum kalla það umhyggjusemi. Í ensku segir fólk við hvort annað I love you án þess endilega að meina að það sé ástfangið, fullorðið fólk segir oft love fyrir aftan nafn þess ungmennis sem það vill vera elskulegt við (Kolbrún love, will you bring me a vup of tea?), darling, sweetie, og fleiri hlýleg orð í þessum dúr venst fólk á að nota. Við hinsvegar segjum vinan sem er alltaf nokkuð niðrandi finnst mér eða elskan sem er sætt en mörgum finnst það of væmið, svo segjum við elskan mín bara við þá sem við elskum, okkar nánustu. Þurfum við ekki að læra snemma á ævinni að nota þessi hugtök; samúð, sorg, gleði, hamingja? Erum við ekki nokkuð heft að þessu leyti Íslendingar? Hvað finnst þér?

Marta B Helgadóttir, 4.9.2007 kl. 23:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband