Forsetakosningar í sumar?

Hvað vill þjóðin?
Sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa aftur kost  á sér til næstu fjögurra ára í embætti forseta Íslands kemur í sjálfu sér fæstum á óvart.  Þegar litið er yfir þau ár sem Ólafur hefur gengt embættinu er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðið sig alveg ágætlega. Ólafur er mörgum kostum gæddur og hefur auk þessa komið inn með nýjar áherslur eins og von er vísa þegar nýtt blóð tekur að renna um æðar svo fjölþætts embættis sem forsetaembættið er.

Vigdís Finnbogadóttir sem einnig sat í embætti í 16 ár var einnig mjög ástsæl. Vigdís var ekki pólitískur leiðtogi, hún hafði aldrei verið viðloðandi neinn stjórnmálaflokk né komið beint eða óbeint að pólitísku starfi ef ég man rétt.  Þess vegna fannst mörgum það viðbrigði þegar Ólafur náði kjöri í embættið enda þar á ferðinni gamalgróinn stjórnmálamaður, jafnvel nokkuð umdeildur og sannarlega pólitískur í hugsun og verki.  Enda þótt Ólafi hafi tekist að aðskilja pólitískar skoðanir sínar frá embættisverkum með ágætum þá hafa einstaka embættisfærslur hans í gegnum árin litast dálítið af þeim. Það er í sjálfu sér alls ekkert óeðlilegt enda útilokað að ætlast til þess að fyrri reynsla hans og störf afmáist út með öllu þótt hann setjist á forsetastól.

Vill þjóðin pólitískan eða ópólitískan forseta?
Um þetta væri gaman að fá einhverja umræðu og að vilji fólksins hvað þetta varðar yrði e.t.v. kannaður.

Það er í raun hið besta mál að Ólafur Ragnar ætlar að gefa kost á sér enn á ný.
Þó verð ég að segja að það væri mjög gaman ef fleiri frambærilegir kandídatar, konur og menn myndu einnig gefa kost á sér. Aðdragandi og allt það sem fylgir forsetakosningum er afar skemmtilegur tími sérstaklega ef valið stendur á milli fleiri en tveggja. Þá spáir þjóðin og spekúlerar hver sé nú frambærilegastur og besti kosturinn fyrir þjóðina.  Það að standa frammi fyrir vali er einfaldlega alltaf skemmtilegt.

Nú þegar heyrst hefur að Ástþór Magnússon muni e.t.v. ætla að fara fram gegn Ólafi þá er alveg tilvalið fyrir þá sem ganga með forsetann í maganum að skella sér slaginn.  Þjóðin þarf hvort eð er að greiða háar upphæðir vegna mögulegs mótframboðs Ástþórs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

LEGGJUM ÞETTA FORSETAEMBÆTTI NIÐUR !

Vigdís var þekkt sem sósíalisti áður en hún tók við embætti forseta. Hún hafði almennt meira vit á að halda sér til hlés í pólitískum málum, tókst það nánast alveg. Gryfja sem 'ORG hefur ítrekað fallið í af krafti því miður.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 5.1.2008 kl. 18:18

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef verið þeirrar skoðunar að æskilegt sé að forseti Íslands þekki vel til íslenskrar stjórnmála. Þótt ég hefði ekki kosningarétt 1952 hélt ég með Ásgeiri Ásgeirssyni og 1968 studdi ég Gunnar Thoroddsen opinberlega.

En bæði Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir gegndu embættinu afburða vel.

Ég var fréttamaður 1980 og 1996 og hvorki þá né síðar gef ég upp hvern ég kaus í þeim kosningum.

Ómar Ragnarsson, 6.1.2008 kl. 02:08

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ekki segja að Ólafur Gríms sé ástsæll það hefur hvergi komið fram eins og atkvæðatölur bera vitni um.

Við verðum sífellt að vera á verði svo svona bábiljur vaði ekki uppi.:-)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.1.2008 kl. 11:16

4 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Nei Heimir ég held ég hafi nú ekki alveg notað það hugtak um Ólaf heldur að hann hafi staðið sig með ágætum í starfi. Mér finnst það hins vegar eiga ágætlega við að tala um að Vigdís hafi verið ástsæl. Finnst þér það ekki annars?

Kolbrún Baldursdóttir, 6.1.2008 kl. 11:37

5 identicon

Ég kaus ólaf ekki en hann er betri kostur en Ástþór í mínum huga.Hvort forsetinn kemur úr pólitík eða ekki hlýtur að þurfa að skoða  hversu flekklausa pólitíkin hans eða hennar hefur verið.Að hafa slengt matarskattinum á þjóðina er ekki gott.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 16:43

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband