Sigurgleðin yfirskyggir öll vonbrigði
24.8.2008 | 13:28
Enda þótt stolt okkar yfir silfrinu sé gríðarlegt og almenn ánægja óendanleg er því ekki að neita að tilhugsunin um gullið kitlaði. Smá glýja var komin í augun...
Einhverjir voru vonsviknir en kannski ekki mjög lengi og sannarlega ekki þegar okkar lið stóð á verðlaunapallinum og tók við silfrinu.
En skoðum þessa tilfinningu sem við köllum vonbrigði aðeins nánar og hvað það er sem hjálpar til að vinna á henni bug.
Að yfirstíga vonbrigði (svona almennt séð)
Það er mjög misjafnt hvernig fólk finnur sig út úr vonbrigðum en fyrir vonbrigðum verða allir einhvern tímann á lífsleiðinni.
Þættir sem hafa áhrif eru m.a.:
*Persónugerð þess sem verður fyrir vonbrigðum
*Stuðningshópur
*Er einhver umbun eða bara skömm (eða skammir)?
*Hvort hægt sé að endurtaka það sem olli vonbrigðunum og þá hvenær?
*Hvort einhverjar afleiðingar séu og þá eru þær léttvægar eða alvarlegar?
Hvorki má gleyma né vanmeta einn aðal áhrifaþáttinn sem allir njóta góðs af og það er auðvitað tíminn. Tíminn græðir, mildar og stundum læknar alveg sársauka og vonbrigði.
Persónugerð
Of langt mál yrði að útlista hér alla þá fjölmörgu persónuþætti sem hafa áhrif. Þó skal nefna að þeir sem eru með þokkalega heilsteypta sjálfsmynd og ágætlega öryggir með sig varðandi það sem vonbrigðin snúa að eru mun fljótari að vinna úr þeim en þeir sem eru með brotna sjálfsmynd, eru neikvæðir og svartsýnir.
Stuðningshópur
Þetta atriði skiptir miklu máli, þ.e. hver og hverjir standa að baki til að hvetja og hrósa. Að finna fyrir baklandinu sem fagnar með á sigurstundum en sem einnig grípur á fallstundum getur skipt sköpum þegar vinna þarf úr vonbrigðum.
Er einhver umbun, eitthvað jákvætt.... ?
Það sem getur ráðið úrslitum hvort tekst á örskömmum tíma að ýta frá sér vonbrigðunum er hvort einhver umbun eða ljósir punktar eru inn í myndinni. Dæmi um slíkt gæti verið hrós fyrir þann árangur sem þó náðist eða einhverjir sýnilegir, ljósir punktar þrátt fyrir vonbrigðin, svona lán í óláni eins og sagt er sem hefur þá mildandi áhrif á vonbrigðin og flýtir fyrir að þeim léttir.
Er hægt að endurtaka það sem fór úrskeiðis og hvenær?
Það að eiga þess kost að endurtaka og reyna þá að gera betur skiptir gríðarlegu máli. Því fyrr sem það getur orðið því betra. Þá hugsar sá sem er fullur vonbrigða að innan tíðar muni hann fá tækifæri til að ná betri árangri. Sé ekki um neina endurtekningu að ræða blasir við sú staðreynd að þetta er búið spil og viðkomandi á ekki annan kost en að þvinga sjálfan sig til að líta fram á við enda verður fortíðinni ekki breytt.
Léttvægar eða alvarlegar afleiðingar
Það þarf líklega ekki að segja neinum að þessi þáttur getur vegið hvað þyngst. Vonbrigði sem koma í kjölfar atferlis sem hefur haft skaðlegar eða óbætanlegar afleiðingar eru mikil og geta varað árum saman. Sé enginn sérstakur eftirmáli er mikið auðveldara að ýta frá sér vonbrigðunum og horfa fram á veginn
Ef við tengjum þessar litlu vangaveltur við vonbrigðin sem settust að í hjörtum strákanna og landsmanna í morgun þá lítur þetta svona út:
Hver og einn vinnur úr sínum vonbrigðum eins og persónuleiki hans bíður upp á. Strákarnir eru ólíkir og sumir þeirra munu eflaust dvelja lengur en aðrir við tilfinninguna um vonbrigði vegna þess að ekki náðist í gullið.
Stuðningshópurinn var stór, nær og fjær. Strákarnir vissu að þjóðfélagið var á hvolfi vegna þeirra, landinn að rifna af stolti og spenningi og um fátt annað talað. Þeir vissu að hlýhugur var skilyrðislaus og að stolt þjóðarinnar væri tryggt hvort heldur þeir ynnu gull, silfur eða brons ef því var að skipta.
Hvað varðar umbunarþáttinn þá lá fyrir að silfrið var í höfn. Það má álykta sem svo að vegna þess hafi gengið bæði betur og hraðar að ýta frá sér vonbrigðum og finna til sannrar gleði á ný enda enginn smá áfangi að ná.
Enn annar plús í þessu ákveðna tilviki er sá að Ólympíuleikarnir verða haldnir aftur, reyndar ekki fyrr en eftir fjögur ár. Fyrir suma í liðinu er það e.t.v. svolítið langur tími til að hægt sé að nota það sem einhverja sérstaka huggun.
Afleiðingaþátturinn hefur minnsta vægi hér. Sem betur fer eru ekki nein alvarleg meiðsl og enginn hefur skaddast svo vitað sé.
Niðurstaðan er þessi: Sigurgleðin nær að yfirskyggja vonbrigðin og það bæði hratt og vel. Stórkostleg tímamót