Hvað getur mildað hina sívaxandi reiði fólks?

Reiði og sá ógnarkraftur sem sú tilfinningin ber í sér er nú eins og snjóbolti á hraðri leið niður fjallshlíð. Óbeisluð, stjórnlaus reiði getur valdið miklum skaða. Sá sem er stjórnlaus af reiði, allt að því viti sínu fjær hefur tapað dómgreindinni og getur á ögurstundu verið vís til að gera hluti sem hann annars léti sér ekki detta í hug að gera. Sérlega hættulegar aðstæður eru þegar margir reiðir koma saman. Þá myndast múgæsing sem sagan sýnir að getur enda með skelfingu.

Reiði fólks er nú orðin slík að æ erfiðara er að segja því að stilla sig, sýna ábyrgð, halda andliti og fleira í þeim dúr. Mér er skít sama viðhorfið hefur tekið völdin.

Sú reiði sem hér um ræðir er mikið til vegna þess að fólkið er búið að tapa því sem það átti. Það er fé þeirra í bankanum, atvinnan og þar með launin og það versta er að æran hefur einnig beðið hnekki.  Annar flötur sem einnig liggur til grundvallar reiðinni er að framtíðarsýnin er biksvört. Talað er um 2-3 ár þar til hægt er að sjá fyrir sér að þjóðin rétti úr sér.  Eftir það eru álíka mörg ár ef ekki fleiri í að ná upp einhverjum dampi.

Fólk sem komið er vel yfir miðjan aldur sér fram á að restin af starfsævi þeirra einkennist af þessu dapra þjóðfélagsástandi. Samt eru það fæstir af þeim sem fylla hóp þeirra sem mæta á Arnarhól eða fyrir framan Alþingishúsið og kasta eggjum. Miðaldra hópurinn og eldri borgarar er reiði hópurinn sem situr heima og hugsar sitt.

Framhaldið
Reiði fólks fer vaxandi í sama mæli og atvinna minnkar. Fyrir suma eru þetta mikil viðbrigði frá því sem var þegar þeir höfðu örugga vinnu og jafnvel nóg milli handanna. Fyrir aðra sem hafa haft lítið milli handanna hefur einfaldlega vond staða versnað.

Hvernig er verið að reyna að milda reiði fólksins?
Ef draga á úr reiði fólksins þarf að framkvæma og framkvæmdin þarf að vera sýnileg og áþreifanleg sem allra fyrst. Fátt mun milda reiðina meira en að fólki sjái að persónulegur skaði þeirra verði lágmarkaður. Eitthvað róttækt þarf að gera varðandi atvinnuástandið sem er í uppsiglingu. Lán og greiðslubyrði koma næst  upp í hugann.  Framkvæmd þess að lengja í lánum, greiðslufrestir og annað þar að lútandi er í farvatninu en þyrfti e.t.v.  að vera áþreifanlegri  og sýnilegri. 

Það sem einnig er líklegt til að milda reiði fólks er ef t.d. hin nýju bankaráð myndu gefa út þá yfirlýsingu að spilling af öllu tagi heyri fortíðinni til, að ofurlaun verði ekki liðin, að enginn fari í það minnsta upp fyrir ráðherralaun. Annað sem til bóta væri er ef mjög fljótlega verði störf bankastjóra hinna nýju banka auglýst og í þau ráðnir fagaðilar, aðrir en þeir sem voru að velkjast um í því peningakerfi sem kollsteypti þjóðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að upphaf þess, að við, hin reiðu, getum tekið því sem koma skal af minni reiði og meiri yfirvegun er það sem stjórnvöldum, embættismönnum, bankaforkólfum og öðrum, sem ábyrðarstörf vinna hér á landi er svo erfitt, nefnilega þetta:

"ég gerði mistök, ég ber ábyrgð á a, b og c - ég mun sýna ábyrgð mín í verki á eftirfarandi hátt, d, e og f"

Þegar það er komið, þá getum við rætt um allt hitt og e.t.v. lagt trúnað á það. En meðan iðrun og yfirbót (eða afsökunarbeiðni og sýnilegar aðgerðir sem sýna að alvara var með afsökunarbeiðninni) er ekki á dagskrá, geta stjórnvöld og aðrir ekki ætlast til þess að við, hin reiðu, verðum minna reið.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 13:23

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Eftir því sem fleiri eru málefnalegri því betra. Góð grein hjá þér.

En eitt skiptir gríðarlega miklu máli: Að frjáls markaður verði ekki ofurliði borinn vegna vegna örvæntingu og reiði. Það er augljóst að ýmislegt gekk ekki upp, mörg mistök voru gerð og sumir vanhæfir menn eru alltof valdamiklir. En það er einmitt í andstöðu við ábyrgð og frelsi sem eiga að spila saman.

Frelsið var ekki fundið upp til að kúga eða kæfa almenning, það á að þjóna honum en ekki öfugt. En um leið og maður vogar sér að minnast á frelsi er bent á Hannes Hólmstein og nýfrjálshyggjuna. Ég óttast að blásið verði lífi í gamlar kreddur sem hljóma vel en eru óframkvæmanlegar.

Benedikt Halldórsson, 9.11.2008 kl. 13:51

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

 Mótmæli - Skipanir að ofan neyða lögreglu til að sýna vald?

Megum við búast við þessu næsta laugardag?

Ævar Rafn Kjartansson, 9.11.2008 kl. 15:13

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Við megum ekki missa stjórn á skapsmunum okkar. Hinir seku ráðamenn og viðskiptajöfrar munu þurfa að sæta ábyrgð á endanum.

Eina spurningin er hve miklum skaða þeim tekst að valda áður en það gerist.

Theódór Norðkvist, 9.11.2008 kl. 19:10

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Góð færsla. Það vantar bara viðurkenningu á mistökum, eins og þú nefnir. Þar sem hún hefur ekki komið og mun sennilega ekki koma, mun fólk verða reiðara og hlutirnir fara úr böndunum. Það er óhjákvæmilegt. Um leið og (a) einhver fjöldi fólks verður gjaldþrota eða (b) löggan fer að beita sér af einhverri hörku gegn mótmælendum, mun sjóða upp úr. Á meðan hrunið er "einhverjum öðrum" að kenna og enginn axlar ábyrgð, leysist þetta mál ekki, heldur þokumst við nær stórslysi.

Villi Asgeirsson, 9.11.2008 kl. 19:37

6 identicon

Ég held að það sé eitt að vera reiður => ofbeldis

og að vera reiður => krafna um umbætur.

Nelson Mandela hafði rúma tvo áratugi í fangelsi til að mótast og vitkast þannig að hann gat leitt þjóð sína til jafnvægis og sannleika.

Við erum rétt byrjuð. Ég held að það væri einstaklingum skaðlegt að fá ekki að tjá reiði sína, jafnvel með mótmælum, borgarafundum og með beittum blogggreinum, fyrirspurnum og öðrum þjóðfélagslega samþykktum aðgerðum.

Ég held að það væri samfélaginu okkar beinlínis skaðlegt að setja kíkirinn á blinda augað og treysta þeim, sem sváfu meðan framtíð okkar fuðraði upp. Þeir hafa ekki sýnt mikla tilburði til annars en að reyna að slökkva elda og kæfa réttláta reiði með kröfum um pollýönnuhugafar.

Af því leiðir ekkert nema "same old" jásegð sem kom samfélaginu okkar í þennan farveg. Því segi ég reiðilega, að keisarinn er nakinn og kominn tími til að þeir sem mökuðu krókana fari frá. Þeir geta ekki byggt upp nýtt Ísland sem rústuðu því gamla.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 20:19

8 Smámynd: Agla

Mjög athyglisverð framlög til umræðunnar.Þakka ykkur öllum.

Reiðin er kannski eitt af viðbrögðunum við óvissunni sem fylgdi  efnahagshruninu og áfallinu  sem traust okkar til ráðamanna landsins hefur beðið undanfarið.

Besta vörnin við óvissu eru upplýsingar og ráðamenn okkar hafa algjörlega brugðist á því sviði.Þeir gefa ekki einu sinni skýr svör við þeim fáu spurningum sem fjölmiðlar og alþingi hafa lagt fyrir þá. Fréttamiðlun þeirra sjálfra er fyrir neðan allar hellur eins og við,sem höfum reynt að notað netið til að afla upplýsinga um hvað gerst hefur, er að gerast og er líklegt til til að gerast, vitum.Valdahroki þeirra og lítilsvirðing við dómgreind kjósenda er hreint furðuleg.

Þessir menn eru bara fulltrúar okkar. Þeir starfa á okkar vegum.Við borgum launin þeirra. Kannski eru þeir starfinu ekki vaxnir. Við getum  sett þá frá í næstu kosningum og sett aðra í stöðurnar.

Ég sé hinsvegar engin merki þess að við getum  treyst því  að ráðamenn komi til með að " þurfa að sæta ábyrgð á endanum"eða viðurkenna "mistök" nema það verði grundvallar breyting á viðhorfi þeirra til kjósenda . Þeir þurfa að sýna  okkur virðingu  og ábyrg og það þýðir að það þarf að gjörbylta upplýsingaþjónustu ríkisins og samskiptum ráðamanna við fjölmiðla landsins  og þjóðina almennt.

Agla, 9.11.2008 kl. 22:33

9 identicon

Ég held að það sé mikill stigsmunur á heilbrigðri réttlátri reiði vegna þess að einhver hefur farið illa með mann og sært réttlætiskennd manns og reiði sem fær útrás í skemmdarverkum eða ofbeldi.

Ég er öskureið og á fullan rétt á því, ég ætla samt ekki að gera mér ferð að Alþingishúsinu og kasta í það eggjum. En... ég ætla að gera mér það ómak að blogga um og tala um orsakir þessarar reiði og hvað ég tel að þurfi að gerast til að mér renni reiðin. Ég vil fá afsökunarbeiðni og ég vil að þeir sem gerðu á hluta minn og annarra þurfi að svara til saka, það er mannleg og réttlát krafa, þeir eiga að sjálfsögðu að fara fyrir dóm, rétta og löglega leið. Ef of mikill dráttur verður á þvi að þjóðin verði beðin afsökunar og hinir seku kærir, vex og magnast reiði almennings og það er svo eðlilegt að í það þarf varla að eyða orðum.

 Ég held það hafi verið árið 1949 sem grjót fór í gegnum rúðu í alþingishúsinu og lenti hér um bil í höfði þingmanns. Alþingi og ríkisstjórn þurfa að muna svona hluti og læra af þeim, við kusum og treystum þeim sem buðu sig fram til að vinna af heilindum og samviskusemi í okkar þágu. það hafa þeir ekki gert og því ber þeim að víkja um leið og tóm er til.

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 23:54

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað um að Geir kæmi fram á morgun og segðist ætla að segja pass á IMF og erlendu lánin til að fleyta krónunni og sé að fara ´´i viðræður um einhliða upptöku noskrar krónu?

Það myndi verða valíum fyrir mig. Við höfum svo nógan tíma til að taka á glæpahundum og ná af þeim þýfinu.  But, first things first. Gjaldmiðil.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.11.2008 kl. 06:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband