Á alla skal hlusta, unga sem aldna. Átta ára stúlka tjáði sig opinberlega á Austurvelli í gær.

Átta ára stúlka fór í ræðustól á mótmælafundi á Austurvelli í gær og flutti ræðu af miklu öryggi sérstaklega ef tekið er mið af ungum aldri hennar.

Auðvitað eiga allir rétt á að tjá sig án tillits til aldurs og gildir þá einu hvert málefni er.  Á börnin eigum við einnig sérstaklega að hlusta.  Dagný Dimmblá sem fór í ræðustól á Austurvelli í gær sagðist hafa fylgst með þessu málum, hún hafi mætt á mótmælafundi, væri reið og vildi halda ræðu um eitthvað annað en rugl eins og hún orðaði það sjálf.

Að sjálfsögðu hljóta börnin okkar að verða fyrir einhverjum áhrifum og dragast inn í allt þetta tal um kreppu. Sum láta sér þetta í léttu rúmi liggja en önnur hlusta, hugsa um þetta og hafa jafnvel af þessu áhyggjur. Þau kunna að velta því fyrir sér hvort fólkið í landinu sé að verða fátækt.

Það er eðlilegt að foreldrar hafi það sjónarmið að vilja halda börnum sínum frá þessu en spurning er hversu raunhæft það er.  Börn eru vissulega misjöfn í eðli sínu og eftir því á hvaða þroskastigi þau eru en flest eru forvitin, athugul og sum þeirra vilja vita um það sem fullorðnir eru að stússast í.

Ekki voru allir á eitt sáttir um að blanda ætti svo ungu barni í kreppumótmælin með þessum hætti.

Mitt mat í þessu ákveðna tilfelli er að hafi stúlkan stigið í ræðustólinn af fúsum og frjálsum vilja án nokkurs ytri þrýstings eða þvingunar er ekkert við það að athuga. Hafi hún hins vegar verið beitt þrýstingi af einhverjum toga eða hvött umfram það sem eðlilegt gæti talist horfir málið öðruvísi við.

Eins er það með öllu óásættanlegt ef einhverjir hafi viljað beita henni sérstaklega vegna ungs aldurs fyrir málstaðinn í því skyni að vekja á honum enn frekari athygli.

Í tilfelli Dagnýjar hefur það komið fram að hún segist sjálf hafa beðið um að fá að halda ræðu á Austurvelli.

Dagný var spurð hvort hún hefði orðið vör við að krakkar á hennar aldri væru uppteknir af ástandinu eins og hún en hún svaraði þeirri spurningu neitandi.  Það er að mestu í samræmi við mína upplifun af líðan þeirra barna sem ég hef umgengist í mínu starfi eftir að efnahagshrunið dundi yfir með öllum sínum fylgifiskum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þér hér Kolbrún mín.  Og þakka þér fyrir skemmtilega þætti á Inn. Gleðilegt ár og takk fyrir góða viðkynningu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2009 kl. 14:12

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Takk fyrir það sömuleiðis Ásthildur mín, megi nýjar árið færa þér og fjölskyldu þinn gleði og gæfu.

Kolbrún Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 14:33

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Nú er ég hissa, finnst þessi skoðun ólík þeirri mynd sem ég hafði gert mér af þér, en svona er þetta bara. Mér finnst þetta fullkominn fáránleiki og illa gert af fullorðnu fólki að setja barnið í þetta leikrit, því að mínu er þetta leikrit og ekkert annað, gagnast engum.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 16:10

4 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Veit ekki þetta með gagnið Ásdís mín, hvað nýtist eða gagnast og hvað ekki í öllu þessu er erfitt að segja til um.

Hlustunin er mikilvæg að mínu viti og þá er það ekki aldurinn sem sem á að skipta máli.

Mótmælin er réttur sem fólk hefur, það er nafnleyndin og ofbeldi, brjótist það út, sem skemmir.

Kíktu á þáttinn um Hinar mörgu myndir mótmæla á ÍNN en þar er hann Gunnar Sigurðsson í viðtali.  Þar tölum við m.a.  um þegar börn eru með í mótmælunum og t.d. myndina sem birtist í einu blaðana af litlum dreng sem huldi andlit sitt eins og sumir aðrir fullorðnir þegar mótmælin voru fyrir utan lögreglustöðina.  

Kolbrún Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 16:31

5 identicon

Ég fékk að sjá tátuna úr næsta nágrenni. Ræðuna hafði hún skrifað með eigin hendi, greinilega æft sig heima og undirbúið vel. Vera hennar þarna bergmálar við spurningar nemenda minna frá 2. bekk og uppúr, sem fylgdust með Borgarafundinum í beinni í sjónvarpi. Ég spurði af hverju þau horfðu á svo "leiðinlegt efni". Þá sögðust þau horfa með fjölskyldum sínum.

Ég sé ekki mörg börn kryfja málin jafn djúpt og þessi litla stúlka, en þau eru nokkur sem gera það, sbr. færsla mín um Kennslustund i mótmælum.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 18:17

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er spurning út af fyrir sig hvort fólki finnist það meiri glæpur að leyfa barninu sínu að standa upp og halda ræðu á friðsamlegum mótmælum, en foreldrar sem hafa marghleypu og skotfæri á glámbekk.  'Eg hef nefnilega ekki séð það fólk sem harðast gengur fram í fordæmingu á stúlkunni og foreldrunum hafa neitt um hina foreldrana að segja.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2009 kl. 11:10

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband