Ákveðin útfærsla persónukjörs gæti verið fýsilegur kostur.

Það eru miklar líkur á að fyrir dyrum séu einhverjar breytingar er viðkoma vali á fulltrúum til að gegna þingmennsku. Sem dæmi þá hugnast mörgum sú breyting að geta kosið menn en ekki flokka. Þannig geti einstaka þingmenn fylgt frekar sinni samvisku og sannfæringu í stefnumálum.

Persónukjör í formi óraðaðs lista sem flokkarnir leggðu fram gæti verið fýsilegur kostur.
Hitt er hvort kjósa eigi persónur óháð flokkum. Til greina kemur auðvitað að flokkar geti boðið fram lista sem er óraðaður og sé það þá í valdi kjósandans að velja þá aðila á listanum sem hann vill setja efsta. Einnig gæti maður hugsað sér hvort sem listinn er raðaður eða óraðaður að kjósandanum sé það í sjálfsvald sett hvort hann merki við einn eða þrjá ef því er að skipta. Þess vegna gæti hann valið einn frambjóðanda og látið þar við sitja.

Kosningarkerfi er eflaust hægt að breyta með ýmsum hætti, bæði á flókinn máta og einfaldan. Ein útfærslan er að hafa einhvers konar einstaklingsframboð þannig að atkvæði kjósandans þurfi ekki að tilheyra neinum flokki heldur einungis persónu. Þessi aðferð held ég að sé sjaldgæf ef nokkurs staðar viðhöfð enda illa farið með atkvæðið. Þeir sem mæla fyrir því að hægt yrði að merkja við nöfn óháð listum segja að aðeins þannig sé hægt að kjósa menn eftir málefnum og með þessum hætti séu skýrari tengsl milli loforða og ábyrgðar.

Á þessu sem öðru eru margar hliðar, mörg sjónarhorn og vinklar. Því er um að gera að ræða þetta í bak og fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Ég held að það væri klókt að kanna möguleika á einhverri blöndu flokkskosningar og persónukosningar. Vonandi verður einhver tími til þess núna.

Dögg Pálsdóttir, 29.1.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: Tómas Þráinsson

Ég held það væri farsælast af öllu að fella út allar flokkakosningar, því flokksmaskínurnar eru akkúrat aðalástæður þess að landið er í fjárhagslegri gjörgæslu núna.

Tómas Þráinsson, 29.1.2009 kl. 15:25

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þetta er freistandi kostur. Huga þarf að varamönnum. Veikist stjórnarþingmaður í eins þingmanns ríkistjórn væri óheppilegt að næsti maður inn væri úr stjórnarandstöðu. Kokteillinn gæti þá verið að næsti varamaður inn væri næsti maður af lista þess sem forfallast. Gæði þess að flokkar hverfi ekki af sjónarsviðinu er augljóslega enn til staðar.

Áður en að umræðan týnist í lofræðum grassins hinu megin við lækinn, þá væri vert að fá útlistun á kostum og göllum þessa hjá öðrum löndum...jafnvel læra af mistökum þeirra.

Haraldur Baldursson, 29.1.2009 kl. 19:29

4 identicon

Það er engin tilviljun að stjórnmálaflokkar eru við lýði hjá vel flestum lýðræðisþjóðum, ef ekki öllum. Hér á landi eru flokkarnir almennt ákaflega lýðræðislegir. Þeir standa (oftast) fyrir ákveðnum málum og smætta á ákveðinn hátt hið fjölbreytta pólitíska landslag fyrir kjósendur. Þannig er til dæmis auðveldara að refsa eða umbuna hegðum fjögurra eða fimm flokka, heldur en að setja sig inn í málflutning 63 einstaklinga sem eru hver með sína prívat stefnu. Fyrir utan náttúrulega að það væri ekki hlaupið að því að átta sig á 63 ólíkum stefnumálum fyrir kosningar. Hætt er við að valið yrði á stundum tilviljanakennt. Svo er auðvitað unnið heilmikið (ólaunað) starf inn í flokkunum sem sparar skattgreiðendum örugglega einhverjar fjárhæðir. Um þetta eru til margir hillumetrar af fræðum, en ég impra bara á þessum atriðum og svo er hægt að diskútera það eftir þörfum.

Hvað varðar óraða lista þá held ég að það væri höfuðverkur fyrir marga að raða upp þeim lista; af hverju á þessi að vera í sjötta sæti en ekki sjöunda og öfugt. Auk þess þyrfti líklega meira en einn kjördag dag til að fá hvern og einn kjósanda til að stilla upp lista heils stjórnmálaflokks í kjörklefanum. En það er kannski aukaatriði.

Best er að láta flokkana bera ábyrgð á þeim listum sem þeir leggja fram. Þar með er tryggt að þeir bjóði fram sína bestu "vörur", ella finna þeir fyrir því þegar talið er upp úr kössunum.

Leitum ekki langt yfir skammt og hengjum ekki bakaraflokkana fyrir seðlabankasmiðinn ;)

Þór Steinarsson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 23:50

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband