Ekki hægt að hækka skatta við þessar aðstæður

Ég var spurð að því í gær á fundi hvort mér fyndist að ríkið ætti að skapa störf nú og þá hvernig?

Sannarlega er það forgangsverkefni að leita leiða til að blása lífi í atvinnulífið. Manneskja sem er atvinnulaus og sér ekki í hendi sér að hann/hún fái vinnu innan tíðar býr ekki einungis við fjárhagslegt óöryggi heldur finnst einnig sjálfstraustið hafa beðið hnekki. Fátt er meira niðurdrepandi en að hafa ekki verkefni til að takast á við daglega. Rútína af einhverju tagi er flestum mikilvæg ef ekki nauðsynleg. 

Til að leiðir hverjar svo sem þær eru leiði til viðunandi lausna hvað þetta varðar þarf að ná verðbólgunni niður og lækka vexti til þess að fyrirtæki hafi aðgang að lánsfjármagni og geti fjármagnað rekstur.  Hversu mikil og á hvaða sviði afskipti ríkisins eiga að vera tengist þessari umræðu. Á ríkið að gangast í það að skapa störf eða ætti sem fyrst að losa það við fyrirtæki eins og t.d. bankana?  

Ef ríkið á að skapa störf nú í einhverjum mæli, hvar á að taka til þess fjármagn?  Ríkið hefur stuðlað að aukningu starfa  t.d. þegar farið er í stóriðjuframkvæmdir. Stóriðjuframkvæmdir geta varla verið ofarlega á forgangslistanum nú enda þótt störfin væru vissulega vel þegin. Eigi ríkið að fara í stórframkvæmdir mitt í björgunaraðgerðum og endurreisn er víst að hækka þurfi skatta. Að auka skattabyrði á fólkið nú er aðgerð sem fylla mun mælinn. Almenningur ræður ekki við hærri álögur.

Störf geta hins vegar orðið til með ýmsum hætti. Sem dæmi má nýta mannauðinn, hugvitið til nýsköpunar og styðja við lífvænleg vel rekin sprotafyrirtæki. Einnig má skapa störf eða hindra að störfum fækki með hagræðingu og skipulagningu innan fyrirtækja.  Eins og nú árar gæti verið nauðsynlegt alla vega tímabundið að skipta störfum upp og deila þeim milli manna. Lítil vinna er betri en engin vinna. Æskilegt væri að um þetta næðist sátt. Sátt um aðgerðir sem þessar eykur samkennd meðal manna og löngun til að róa þennan lífróður saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband