Um reiðina í samfélaginu og líðan barnanna

Mig langar að birta hér glefsu úr hugvekju sem ég hélt um síðustu jól í Kópavogskirkju. Hugvekjan fjallaði um reiðina í samfélaginu og líðan barnanna í kjölfar efnahagshrunsins.

Hugvekjuna má sjá í heild sinni bæði á www.profkjor.is og www.kolbrun.ws

...Vissulega langar okkur til að létta lund þeirra sem tapað hafa sparifé sínu og til þess reynum við að benda þeim á að horfa nú raunsætt á málið. Þetta voru jú bara peningar, pappírssneplar. En gleymum ekki mitt í allri umhyggjunni að í hinum tapaða aur voru e.t.v. fólgnir draumar og væntingar.  Draumar um eitthvað gott, eitthvað nýtt  og öðruvísi. Nýjar aðstæður, nýjar upplifanir sem aðeins var hægt að öðlast með því að hafa fjárhagslegt svigrúm. Fyrir þessum væntingum ber okkur að sjálfsögðu að bera virðingu.

Síðustu vikur höfum við orðið vitni af mikilli reiði í samfélaginu. Sjálf finnum við mörg fyrir þessari sammannlegu tilfinningu.  Reiðin er ekki síður mikilvæg en gleðin. Þetta eru meðal grunntilfinninga sem hverjum manni er nauðsynlegt að geta upplifað ef lifa á að fullu.  Reiðin er sérstaklega mikilvæg sem liður í persónulegu varnarkerfi sérhvers einstaklings gagnvart ytri áreitum.  Einstaklingur sem ekki getur fundið til reiði í einhverjum mæli getur síður varist þeim sem geta eða vilja skaða hann.

En eins mikilvæg og reiðin er sem hluti af tilfinningarsviði manneskjunnar líður hinum reiða einstaklingi sjaldnast vel. Flestir vita hvernig það er þegar reiðin kraumar innra með manni, vöðvar herpast, blóðþrýstingur hækkar og taugar eru spenntar.  Fæstir óska sér slíks ástands, alla vega ekki til lengri tíma. Óbeisluð reiði sem tekur völdin getur auk þess valdið miklum usla, gert skaða og skilið eftir sig sviðna jörð. Öll vitum hversu sárt það er að horfa upp á þá sem okkur þykir vænt um líða illa, vera svekktir og reiðir. Þá kemur þessi ríka þörf og löngun að vilja laga, reyna að bæta, hjálpa og benda á leiðir til betri líðan.

En áður en við byrjum að sá hvatningu og uppbyggjandi tali er vert að kanna hvort í jarðveginum séu nauðsynleg skilyrði fyrir hin góðu fræ að spíra. Séu skilyrðin ekki fyrir hendi er eins og hvatning og jákvæðni nái ekki í gegn.  Reiðin bara situr sem fastast.  Fyrir svo öflugar tilfinningar eins og reiði og sorg, dugar lítið að ætla að reka á eftir þeim, að ætla að henda þeim út í einu vettvangi eða strika yfir þær með einu pennastriki. Þessi tilfinning eins og önnur þarf sitt svigrúm, hún þarf að fá að renna sitt skeið....
meira á profkjor.is  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband