Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti kynnt frekar í menntamálaráðuneytinu á þriðjudaginn

Á þriðjudaginn verður haldinn fundur með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis að tilstuðlan heilbrigðisráðuneytis þar sem talsmenn Sérsveitarhugmyndarinnar í baráttunni gegn einelti kynna hana enn frekar.

Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti
Með einföldum hætti er hægt að búa til úrræði í formi sérstaks fagteymis. Teymi sem þetta verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málinu enda sérhvert mál einstakt og útheimtir mismundandi útfærslur.  Teymið er fyrst og fremst hugsað sem úrræði í þeim málum sem ekki hefur náðst lausn í með úrræðum sem skólar hafa yfir að búa.  Í þessum tilvikum geta foreldrar leitað til teymisins og óskað eftir því að það taki málið til skoðunar. Hér er mikilvægt að taka fram að með hugmyndinni um sérstakt fagteymi er ekki meiningin að taka ábyrgðina af skólastjórnendum.

Skólastjórnendur eru ávallt þeir sem fá málið fyrst inn á borð til sín og innan skólans er fyrst leitað leiða til lausna. Hugmyndin er frekar sú að fagteymið verði einungis virkjað sé það mat foreldra þolanda að skólinn hafi ekki ráðið við að stöðva eineltið þannig að þolandanum finnst hann öruggur í skólanum.  Sé teymið kallað út að beiðni forráðamanna þolanda mun það setja sig í samband við viðkomandi skóla, óska eftir samvinnu við skólastjórnendur og fagaðila hans með ósk um að málið verði leyst í sameiningu.

Í sumum tilvikum gæti nægt að teymið veitti skólayfirvöldum og fagfólki hans  ráðgjöf og leiðbeiningar um hvernig hugsanlega væri best að bregðast við og hvaða skref gætu þurft að taka til að höggva á hnútinn. Betur sjá augu en auga. Teymið mun þó í engum tilvikum  sleppa  hendi af þolandanum fyrr en staðfest hefur verið af honum og forráðamönnum hans að búið sé að stöðva eineltið, ræða við  alla aðila málsins og að fyrir liggi að öryggi barnsins í skólanum sé tryggt.

Eðli málsins samkvæmt er það fyrirsjáanlegt að hugmynd um sérstakt utanaðkomandi fagteymi getur ekki orðið að veruleika nema með milligöngu stjórnvalda.  Til að teymið geti borið sig að með skilvirkum hætti er nauðsynlegt að það hafi greiðan aðgang að skólanum og þeim sem tengjast málinum með einum eða öðrum hætti.  Teymið þarf að fá aðstöðu til að taka viðtöl í viðkomandi skóla og geta treyst á samvinnu við skólastjórnendur og starfsfólk skólans. Samvinna fagteymis og viðkomandi skóla skiptir öllu máli ef takast á að uppræta einelti með árangursríkum hætti.

Nákvæmari útfærslu á Sérsveitarhugmyndinni má finna hér.

 

 

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kolbrún,

Þakka þér fyrir þetta! Ég tek undir það að mikil þörf er á þessu úrræði. Verra þykir mér ástandið í þjóðfélaginu sem er ekki til þess fallið að draga úr einelti og tengdum vandamálum.

Um síðustu áramót rann út rekstrarsamningur um Olweusaráætlun Menntamálaráðuneytisins og verður ekki frekar veitt fé sérstaklega til rekstur þess.

Mér finnst því einnig mikið atriði til viðbótar við sérsveitarúrræðið að koma á viðvarandi kerfum í öllum skólum, en eins og þú gagnrýnir einnig, þá hefur það ekki verið gert ennþá í mörgum skólum.

Niðurstaðan er í þeim tilfellum að engin viðbragðáætlun er til staðar. Engar raunverulegar forvarnir eða uppbygging.

Mér líst vel á þetta úrræði og átt þú þakkir skilið fyrir þessa vinnu.

bkv.

sandkassi (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 14:01

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband