Fjölskyldur flýja land

Það lítur út fyrir að það sé alvarlegt tengslaleysi á milli annars vegar, ríkisstjórnarinnar og aðgerða hennar til að bjarga heimilum og hins vegar, bankanna/lánadrottna.

Reglulega berast tíðindi um að einstaklingar og fjölskyldur kvarti yfir að ná ekki eyrum lánadrottna sinna og að ekkert gangi að semja við þá um raunhæfa greiðslubyrði. Hér er í mörgum tilvikum verið að tala um bankana.

Sú eina leið sem virðist fær fyrir sumar fjölskyldur sem ekki ná raunhæfu samkomulagi við lánastofnanir er að yfirgefa land og þjóð og margar segjast ekki ætla að snúa aftur heim næstu árin.

Með hverri fjölskyldu sem yfirgefur landið er mikið tap fyrir alla og ekki síst fyrir lánastofnanirnar. Mörg dæmi eru um að banki/bankar eigi hreinlega fjölskyldur. Þeir tapa því mest flýi viðkomandi fjölskylda land. Það eru þá bankarnir sem eiga eignirnar sem sitja uppi með þær. Engin borgar af eigninni og engin leið er að selja hana nú.

Sú brú sem átti að vera frá ríkisstjórn og aðgerðum hennar yfir til lánastofnanna hefur greinilega ekki verið fullsmíðuð. Jóhanna og Steingrímur þurfa að fara að tukta til þessar stofnanir. Sveigjanleiki og skilningur er það sem þarf nú gagnvart fjölskyldum sem skulda.  Ef ég man rétt voru það skilaboð stjórnvalda til lánastofnanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hví segir þú að enginn borgi af eigninni?

Skuldir þessa fólks elta það til útlanda.  Þær gufa ekkert upp og falla á bankana við það eitt að fólk fari til Noregs.  

Ég er ekki alltaf að skilja þessar flóttasögur.  Það er eins og fólk haldi að það verði eitthvað minna gjaldþrota annarsstaðar.

Annars var góð fréttin af málara og kennara í hafnarfirði í gær.  Það fólk var með tvo bíla á lánum, íbúð á lánum og gerði aldrei ráð fyrir því að tekjur gætu breyst einhverra hluta vegna.  Nú fer nýútskrifaður kennarinn með menntun í boði íslenskra skattgreiðenda til útlanda.  Til hvers er verið að mennta svona fólk á okkar kostnað?

Það væri kannski ráð að bjóða upp á tvær námsleiðir, önnur er greidd í botn af ríkinu en hin af nemanum sjálfum.  Sú kvöð fylgdi með ríkisgreiðslunni að nemandinn væri skuldbundinn til að afla sinna tekna og greiða skatt hér á landi í a.m.k. 10 ár eftir nám?

En mikið átti fólk samt bágt, keyrandi um á tveimur bílum og búandi í glænýrri, rúmgóðri íbúð sem það hafði ekki efni á. Það hefði kannski verið ráð að spara aðeins fyrir hlutunum, láta ekki eftir sér lúxusinn á meðan verið væri að safna, svona eins og við hin gerðum, sem þetta fólk er nú að ætlast til að taki við þeirra skuldum?

Björn I (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 07:57

2 identicon

Tek heilshugar undir með þér Kolbrún en mikið verður maður hryggur að lesa svona athugasemdir eins og eftir Björn.

Fólk flýr ekki land eingöngu vegna þess að það skuldar eða vegna þess að eignastaða er á núlli eða neikvæð.

Meginástæðan er sú að það er engin von í íslensku samfélagi næstu árin.  Hér er dökkt framundan á öllum sviðum og ekki eru margir að blása kjark í þjóðina. 

Ef við erum eignalaus, atvinnulaus og/eða endar ná ekki saman þá er kominn ákveðinn núllpunktar sem fær mjög marga til að hugsa sitt líf upp á nýtt.

Ég skil vel þá sem eru að flytja út og hef hugleitt það sjálfur.  Það er búið að fara með illa með þjóðina og margir sem vilja nýta það sem eftir er af starfsævinni í öruggara umhverfi þar sem þú veist hvað þú kemur til með að borga af íbúðinni og bílnum næstu árin og verðbólgan mælist í örfáum prósentustigum.  þú veist þá hvað hlutirnar kosta og koma til með að kosta.  Semsagt gert alvöru áætlun um framtíðina !  Síðan verður maður að vega og meta aðra þætti eins og vinnu, skóla fyrir börnin og aðra félagslega þætti.

Það sem þú nefnir Björn um sparnað og eyðslu er fyrir neðan allar hellur !

Ætlar þú að meta hvort þetta fólk hafi lifað um efni fram ?  Ég sá nú ekki þessa frétt en get nefnt mörg dæmi um fólk sem sparaði en sá á eftir þeim sparnaði í bankahruninu.  Ég get líka nefnt mörg dæmi um fólk sem hefur lifað tiltölulega sparsömu lífi og verið með ágætis tekjur, borgað af lánum sínum og aldrei tekið lán fyrir neyslu.  Þar horfði ég til dæmis á eftir fjölskyldu til Noregs á dögunum.

Nei við skulum hætta að draga fólk í dilka, nánast hrópandi landráðamenn á þá sem eru að flytja úr landi og viðurkenna að landsflótti kemur til með að verða stórt vandamál ef ekki verður brugðist við. 

Aðstæður fólks er misjafnt en ef við horfum á kynslóðina 30 - 45 þá er þetta kynslóðin sem skuldar mest og er hættast við að hverfa af landi brott auk nýútskrifaðra námsmanna.  Þetta er kynslóðin sem á að standa undir auknum sköttum, hærri greiðslubyrði og síversnandi eignastöðu hér á landi.

Er það furða að maður láti sér detta það í hug að leita að tækifærum erlendis ? 

Neytandi (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 09:33

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Skuldirnar fylgja um alla Evrópu (með innheimtukostnaði ef ekki er samið um eitt eða neitt) og eru degnar af laununum.

Stéttamunurinn er lítill í Noregi. Miðað við gengið á íslensku krónunni er þetta kanski eina leiðin í bili þegar vextir eru svona háir. En það er gríðarlegt átak að rífa sig upp með fjölskyldu og flytja úr landi.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.6.2009 kl. 09:36

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband