Baráttan endalausa fyrir að frístundastyrkurinn fái að halda sínum upphaflega tilgangi

Málið endalausa í borginni er baráttan um að  frístundakortið eða frístundastyrkurinn fái sinn upphaflega tilgang aftur. Ég hef barist og lamist í þessu máli frá því ég steig í borgarstjórn.
 
Ég get ekki lýst nógu vel langri baráttu Flokks fólksins í borginni að frístundarstyrkurinn fái bara að hafa þann tilgang og markmið sem honum var ætlað upphaflega. Tillagan og greinargerðin skýra þetta vel en hún var lögð fram í borgarráði í gær:
 
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela menningar-, íþrótta- og tómstundaráði að breyta gildandi reglum um frístundakort frá 8. júní sl. á þann hátt að ekki verði hægt að nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili eða tungumálanám. Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín eru aðrar leiðir í boði og hægt að sækja um sérstaka styrki í því sambandi. Barn á ekki að þurfa að líða fyrir fátækt foreldra sína. Það á bæði að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir eða tómstundir.
 
Einnig er lagt til að heimilt verði að færa eftirstöðvar styrksins á milli ára og flytja styrkinn milli systkina. Jafnframt verði því beint til ráðsins að hefja vinnu við að nútímavæða reglurnar m.a. með tilliti til þess að barn getur átt lögheimili hjá báðum forsjárforeldrum.
 
Greinargerð:
 
Upphaflegur tilgangur Frístundakortsins/styrksins er að öll börn og unglingar í Reykjavík á aldrinum 6–18 ára geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Enn þá er hins vegar sá galli á gjöf Njarðar að reglur heimila að nota megi kortið eins og gjaldmiðil til að greiða frístundaheimili og tungumálaskóla fyrir barnið. Sé það nýtt í þeim tilgangi er ekki hægt að nota það líka til að greiða íþróttir eða tómstundir fyrir barnið.
Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín eins og frístundaheimili eru aðrar leiðir í boði. Hægt að sækja um sérstaka styrki í því sambandi. Foreldrar t.d. þeir sem eru efnaminni eru hins vegar ekki alltaf með vitneskju um það og telja sig því þurfa að grípa til frístundastyrks barnsins.
Þetta er fulltrúi Flokks fólksins ekki sáttur við. Barn á að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir eða tómstundir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðað þessa hluti ótal sinnum sl. 5 ár í borgarstjórn en ekki náð að opna augu borgarmeirihlutans. Áfram er því haldið að berjast í þeirri von að meirihlutinn og Menningar- íþrótta og tómstundaráðs sem nú hefur forræði yfir frístundakorti/frístundastyrknum sjái ljósið.
Einnig er lagt til að hægt verði að færa eftirstöðvar styrksins milli ára og að heimilt verði að flytja styrkinn milli systkina. Nútímavæða þarf reglur frístundastyrksins. Í því sambandi þarf að hafa í huga að barn getur átt lögheimili hjá báðum sínum forsjárforeldrum.

Háð og spott úr sal borgarstjórnar

Það var í desember 2021 sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn um skipulagða byggð fyrir eldra fólk sem koma mætti fyrir víðs vegar í Reykjavík. Segja má að sjaldan hafi meirihlutinn gert eins mikið grín að nokkurri tillögu frá minnihlutanum, „að nú vildi Flokkur fólksins fara að búa til gettó fyrir eldra fólk“. Fleira í þessum dúr var varpað fram í sal borgarstjórnar frá meirihlutafulltrúum. En það var aldeilis ekki hugsun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Eftir samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök var tillaga Flokks fólksins á þann veg að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og að íbúasvæðið væri hannað með tilliti til þeirra þarfa.

Meirihlutinn felldi tillöguna en aðrir minnihlutaflokkar utan Flokks fólksins sátu hjá. Rök meirihlutans voru þau að þetta væri ekki það sem þessi hópur þarf né vill. Nú hefur annað komið á daginn. Og skjótt skipast veður í lofti því meirihlutinn leggur nú sjálfur til sambærilega tillögu sem kallast Lífsgæðakjarnar.

Hér má sjá alla greinina en hún er einnig birt í Morgunblaðinu í dag.
https://kolbrunbaldurs.is/skjott-skipast-vedur-i-lofti-i-husnaedismalum-eldri-folks/


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband