Þetta finnst mér ósanngjarnt

Ég fékk skeyti frá manni sem býr í Austurbrún en hann fékk bréf frá Félagsbústöðum þar sem segir að í Austurbrún (tiltekin blokk) hafi safnast upp óflokkað sorp í sorpgeymsluna undanfarið og sorphirðan því ekki getað fjarlægt sorpið. Vegna þess hafa Félagsbústaðir ákveðið að grípa til þeirra aðgerða að fjarlægja sorpið og munu innheimta aukalega með leigunni 01.12.2024 kr. 20.000,- á hvern íbúa. 
Þetta finnst okkur í Flokki fólksins með eindæmum ósanngjarnt og minnt er á að þeir sem þarna búa eru efnalítið fólk sem oft á ekki mat á diskinn sinn. Ég hvet til þess að Félagsbústaðir sýni meiri sanngirni í þessu máli og refsi ekki fólki sem ekkert hefur til saka unnið í flokkunarmálum. Þeir sem eru til fyrirmyndar eiga ekki að þurfa að líða fyrir slóðaskap annarra.

Ég hef lagt fram tillögu í borginni að vikið verði frá því að láta aðra borga fyrir slóðaskap annarra.


Hef ekki lent í öðru eins við að koma máli á dagskrá

Loksins fékk ég að flytja Loftkastalamálið í Borgarstjórn. Ég hef sjaldan lent í öðru eins við að koma einu máli á dagskrá í borgarstjórn. Fæstir myndu trúa því þótt ég segði frá því.

Hér er bókunin í málinu:
Á eigendum Loftkastalans hefur Reykjavíkurborg brotið sem fólst í að borgin útfærði ekki í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstaða gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa. Þetta er ákveðið og gert án vitundar lóðarhafa. Eigendur kærðu í þrígang til kærunefndar Umhverfis- og auðlindamála en málinu jafnoft vísað frá með þeim rökum að borginni væri í lófa lagið að leiðrétta mistökin og einnig að málið væri einkaréttarlegs eðlis. Viðurkennt er að borgin gerði mistök, leiðrétti þau ekki nægjanlega til að eignin verði nothæf.
Borgin lagði fram um lausn sem var lækkun á götum sem var þó látin halla að húsum Loftkastalans. Gatan er enn hærri en gólf núverandi húsa. Eigendur hafa ekki getað nýtt byggingarréttinn og er Reykjavíkurborg ábyrg fyrir skerðingu á rekstri 2ja fyrirtækja í 5 ár. Á meðan lóðin er ónothæf hafa eigendur haldið eftir greiðslu þrjú og fjögur sem eru vegna byggingarréttar og gatnagerðargjalda og háðar því að unnt sé að byggja á lóðinni. Borgin hefur nú lýst yfir að vilja rifta samningnum vegna vanefndanna jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi ekki orðið fyrir tjóni þar sem þessar greiðslur vegna byggingarréttargjalda og gatnagerðargjalda eru verðtryggðar samkvæmt kaupsamningnum.

Máttur samtryggingarinnar

Flokkur fólksins stendur fyrir margt en megináhersla er á  að ekkert þjóðfélag getur verið án heimila. Heimilið er í raun grunnforsenda öryggis. Við búum á Íslandi í samfélagi sem þýðir að við sem þjóð erum í raun ein stór fjölskylda. Ef einhver þegn glímir við vanda sem hann ræður af einhverjum orsökum ekki við að leysa úr, komum við hin sem erum á betri stað í lífinu hvort heldur fjárhagslega eða persónulega, til hjálpar.  Þessi hjálp kemur að sama skapi til okkar sé fótum kippt undan okkur og grunnstoðum tilveru okkar. Svoleiðis virkar samtryggingin. Íslenska þjóðin hefur margoft þegar samlandar okkar verða fyrir áfalli opinberað þjóðarsál sína sem er engri lík.

Flokkur fólksins hefur frá upphafi sett hagsmuni eldra fólks í forgang og hefur einn flokka á Alþingi átt frumkvæði að gagngerum umbótum á lífsskilyrðum þeirra og aðstæðum. Íslendingar lifa nú lengur af ástæðum sem er okkur flestum kunnar. Meðal baráttumála fyrir þennan hóp er að tryggja aukið framboð húsnæðis fyrir eldra fólk og tryggja með lögum að öryrkjar og eldri borgarar fái 450.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur skatta- og skerðingarlaust. Listinn er lengri og má sjá hann í stefnuskrá Flokks fólksins.

 

Ævikvöldið

Eldra fólk á Íslandi hefur það alla jafna gott. Það nýtur ævikvöldsins og nýtur afraksturs vinnu sinnar og framlegðar til samfélagsins. Grunnforsenda þess að njóta ævikvöldsins er fyrst og síðast að búa við ágæta heilsu við öruggar aðstæður. Ellikerling lætur eðli málsins samkvæmt á sér kræla þegar komið er á þetta ævistig. Flokkurinn hefur barist fyrir frá upphafi hans að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Meginhlutverk hagsmunafulltrúa er að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann myndi kortleggja stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgjast með framkvæmd heimaþjónustu.

 

Lengi legið á Landspítalanum

Þeir eru ófáir sem hafa þurft að dvelja á Landspítala vikum eða mánuðum saman löngu eftir að meðferð er lokið vegna þess að ekkert annað úrræði er til. Skortur er á hjúkrunarrýmum og sérstaklega er skortur á plássum á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sem þarf fulla þjónustu og mikla umönnun. Einnig er löng bið eftir hvíldarinnlögn. Hluti þeirra sem „hafa dagað“ uppi á sjúkrahúsi kemst ekki heim vegna manneklu í heimaþjónustu. Mannekla er rótgróið mein í umönnunarstörfum.


Flestir vilja búa sem lengst heima hjá sér og ganga hugmyndir nútímans út á að veita þeim sem vilja og geta búið heima þann möguleika. Ýmist vill fólk halda áfram að búa á sínu gamla heimili eða flytjast í sjálfstæða búsetu sem er hannað með þjónustuþarfir þessa aldurshóps að leiðarljósi. Flokkur Fólksins vill róttækar aðgerðir í þessum málum strax. Komist Flokkur fólksins til áhrifa á þingi mun hann ráðast í að gera stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma. Efri árin eiga að vera gæðaár, ár sem ekki eiga að einkennast eða litast af kvíða og óvissu.

 

Andlega hliðin

Það eru ekki einvörðungu aðstæður fólks sem komin eru á þetta aldursskeið sem eru mismunandi eins og gengur heldur einnig andlega hliðin. Sem sálfræðingur með víðtæka reynslu hefur mér verið sérstaklega umhugað um að þessi hópur gleymist ekki, einangrist og líði fyrir einmanaleika. Sumir hafa misst maka sína og ekki eru allir sem eiga fjölskyldu sem getur hlaupið undir bagga eða stytt stundir. Þess vegna hef ég lengi talað fyrir mikilvægi þess að þeir sem búa heima eða á hjúkrunarheimili fái sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika og samhliða virkja fjölþættar heilsueflandi aðgerðir. Þjónustu sem þessa þarf að formgera og virkja með skilvirkum hætti og vera aðgengileg án tafa.

 

Kæri kjósandi

Við frambjóðendur  í Flokki fólksins erum ótrúlegt baráttufólk þótt ég segi sjálf frá. Í flokknum er samsafn einstaklinga sem vílar ekkert fyrir sér að berjast með kjafti og klóm þegar kemur að sanngirnismálum, auknu réttlæti og jöfnuði. Við viljum einnig sjá meiri mennsku í kerfinu, betri hlustun og að tekið sé meira tillit til einstaklingsþarfa. Við viljum ekki sjá fólki varpað fyrir borð án björgunarhrings. Nú stendur Ísland á krossgötum. Breytinga er þörf, skipta þarf um fólk í brúnni. Flokkur fólksins vill endurvekja drauminn um öruggt heimili fyrir alla til að geta lifað öruggu lífi. Heimili er aðalgrunnstoðin og án heimilis þrífst enginn sama á hvaða aldursbili hann er. 

Flokkur fólksins er kominn með reynslu og hefur á að skipa valið fólk í hverju sæti, hokið af lífsins reynslu með raunverulegar lausnir í farteskinu. Við erum málsvarar minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín og við stöndum ótrauð fast í þeirri trú að ríkið beri og eigi að axla ábyrgð á framtíð og öryggi.

Setjum x-ið við bókstafinn F.

Fólkið fyrst – og svo allt hitt

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi skipar 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Flokks fólksins í komandi Alþingiskosningum

Birt á visi.is 18. nóvember 2024


Reynsla sem sálfræðingur rak mig í pólitík

Á Íslandi stunda um tugir þúsunda nemenda nám á framhaldsskólastigi. Sumir í þessum hópi glíma við andlegar áskoranir í sínu lífi á borð við streitu og depurð. Að mati Flokks fólksins hefur þörfin aldrei verið meiri en núna að grípa inn í og veita ráðgjöf, stuðning eða meðferð eftir því sem við á hverju sinni. Ef andleg vanlíðan er ekki meðhöndluð hefur það neikvæð áhrif á námsgengi nemendanna og getur aukið líkur á brotthvarfi eða seinkað námslokum verulega. Það hefur margsýnt sig að því fyrr sem hægt er að fá aðstoð er dregið úr líkum þess að vandinn verði flóknari síðar á lífsleiðinni og hafi í för með sér aukinn samfélagslegan kostnað.

Þess vegna vill Flokkur fólksins að sálfræðingar verði í öllum framhaldsskólum landsins. Sálfræðingar eru í einhverjum framhaldsskólum en Flokkur fólksins vill, komist hann til áhrifa á Alþingi, berjast fyrir að fá sálfræðinga í alla framhaldsskóla landsins. Í framhaldsskólunum eru krakkarnir undir lögaldri fyrstu tvö árin.

Mikill áhugi er meðal framhaldsskólanema að boðið sé upp á ókeypis sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna. Langir biðlistar eru eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Nemendur kjósa persónuleg samtöl við sálfræðinga. Þetta hefur komið fram m.a. í könnunum. Í framhaldsskólum eru námsráðgjafar og þeir vinna sannarlega ómetanlegt starf. En það er ekki nóg nú þegar hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að líðan ungmenna fer versnandi. Í mörgum framhaldsskólum eru sérdeildir, starfsbrautir og annað námsframboð sem er sérstaklega ætlað fötluðum nemendum. Þörfin er því mikil.

Flokkur fólksins vill að aðgengi að sálfræðingum fyrir börn og ungt fólk verði stóraukið og gert verulega gott. Fyrir því munum við berjast komumst við til áhrifa á Alþingi. Samhliða þarf að útrýma biðlistum sem eru alvarlegt mein í íslensku samfélagi. Með því að auðvelda aðgengi að viðeigandi þjónustu er líklegt að nemendur leiti sér aðstoðar og nái fyrr betri tökum á lífi sínu.

Kæri kjósandi. Sem sálfræðingur til rúmlega þrjátíu ára þekki ég þessi mál vel, þörfina og er þetta m.a. ástæðan fyrir að ég taldi mig knúna til að fara í pólitík. Nú er ég auk þess komin með reynslu sem borgarfulltrúi þar sem ég hef barist í á sjöunda ár sem málsvari barna og ungs fólks auk þeirra sem minna mega sín. Ríkisvaldið ber ásamt sveitarfélögum ábyrg á því að tryggja ungu fólki þjónustu. Flokkur fólksins hefur sterka rödd fyrir fólkið á Alþingi og hefur sýnt réttlæti í verki. Við erum málsvarar barna og ungmenna og berjumst fyrir réttlæti. Flokkur fólksins hefur reynslu og raunverulegar lausnir sem eru byggðar á reynslu.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!


Endurskoða hugmyndir um bílastæðahús- fjölnotahús, skoða þarf þessa hugmynd nánar

Er með þessa tillögu í borgarráði að fallið verði frá hugmyndum um bílastæðahús eða fjölnotahús og þessar hugmyndir skoðaðar betur, kannað með samráð sem dæmi.

Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgaryfirvöld og skipulagsyfirvöld endurskoði  hugmyndina um bílastæðahús í borgarlandinu eða fjölnotahús eins og þau eru stundum kölluð. Það kann vel að vera að hús sem þetta virki vel erlendis og hafi eitthvað notagildi en það eru miklar efasemdir um að slík bygging falli i í kramið hér. Þetta kom skýrt fram í máli íbúa í Grafarvogi á íbúafundi vegna byggingaráforma í Grafarvogi á fundi í Rimaskóla 11. nóvember sl. Bílastæðahús er ein af hugmyndum í byggingaráformum í Grafarvogi og ein 6 slík eiga að rísa í Keldnalandinu. Það má telja vel líklegt að hér sé verið að fara offari í hugmynd sem þeim sem eiga að nýta húsið telja ekki góða. Um er að ræða allt að 5 hæða hús og það segir sig sjálft að erfitt gæti verið fyrir fjölskyldu með lítil börn og matvörur að fara frá bílahúsinu og ganga ef til vill nokkurn spöl heim til sín. Í þessum húsum er ekki gert ráð fyrir lyftum eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur

 


Ef byggja á í grónum hverfum gengur ekki að vera með einhvern göslagang

Einn stærsti vandinn í Reykjavík er skortur á húsnæði. Lítið framboð er af lóðum sem aðeins fást í gegnum útboð og verktakar halda að sér höndum. Hagkvæmt húsnæði af öllum gerðum, sárvantar í Reykjavík.
Of mikill áhersla hefur verið á að þétta byggðina og þá helst í kringum borgarlínuverkefnið. Að þétta byggð er dýrt og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar.
Auka þarf framboð á lóðum. Byggja þarf í hverfum þar sem er rými og innviðir sem þola fjölgun íbúa. 

Til stendur að rúmlega tvöfalda íbúafjölda Grafarvogs. Þetta þarf að gera í samráði við íbúa sem fyrir eru en ekki með einhverju göslagangi. Hægt er að byggja mikið meira í Úlfarsárdal og fleiri stöðum þar sem er gott rými og fólk vill byggja á. Flokkur fólksins vill hefja skoðun á að brjóta nýtt land undir byggð. Öðruvísi verður húsnæðisskorturinn aldrei leystur.

Á meðan ástandið er slæmt þarf að gera eitthvað fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Leiguþak er hugmynd sem Flokkur fólksins hefur nefnt. Lágtekjufólk, öryrkjar og einstæðir foreldrar eru að kikna undan hárri leigu.

Of mikið af kærum

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í vikunni voru teknar fyrir fjöldi stjórnsýslukæra á hendur borginni sem nú eru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Alls eru kærurnar 11 talsins og snúa þær allar að meðferð skipulagsyfirvalda í borginni á hinum ýmsu málum.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins furðar sig á fjöldanum og segir að oft hafi heyrst fullyrðingar um að ekki sé unnið að þessum málum hjá borginni af fullum heilindum.

https://www.dv.is/frettir/2024/11/1/fjoldi-stjornsyslukaera-hendur-reykjavikurborg-til-medferdar/

Í sumum málanna á fundinum tók umhverfis- og skipulagssvið eingöngu fyrir erindi úrskurðarnefndarinnar vegna viðkomandi í kæru en í öðrum var lögð fram greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs vegna málsins.

Kærurnar eru af ýmsu tagi. Þær varða umsögn skipulagsfulltrúa vegna niðurrifs á gömlum skjólvegg, synjun á byggingarleyfi fyrir fjóra gististaði, ákvörðun um að samþykkja nýtt hverfisskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi en alls hafa þrjár kærur verið lagðar fram vegna þess máls. Einnig hefur ákvörðun um að falla frá dagsektum vegna girðingar á lóðamörkum verið kærð. Byggingarleyfi vegna framkvæmda við sendiherrabústað Bandaríkjanna hefur verið kærð o breyting á deiliskipulagi nokkurra lóða hefur verið kærð af tveimur mismundandi aðilum. Loks hefur synjun á að samþykkja nýja íbúð í húsi verið kærð sem og synjun á byggingarleyfi vegna breytinga á fjöleignarhúsi.

Furða og pottur brotinn

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í umhverfis- og skipulagsráði furðar sig á þessum mikla fjölda kæra og segir bera á fullyrðingum um að eitthvað sé mikið að í meðferð mála sem tengjast þessu málaflokki hjá borginni. Í bókun hennar á þessum fundi ráðsins segir:

„Fulltrúi Flokks fólksins lýsir furðu sinni á þeim óvenju mikla fjölda kæra sem hér koma fram en þær eru nú 11 og hafa sjaldan verið svo margar. Ítrekað hafa komið upp mál þar sem skipulagsyfirvöld eru sökuð um að segja ekki satt – jafnvel „falsa gögn“ eða breyta þeim eftir því sem skjólstæðingar umhverfis- og skipulagssviðs hafa sagt á opinberum vettvangi. Allt of oft fást ekki svör, gögnum og upplýsingum er haldið leyndum og hefur verið fullyrt að ekki sé alltaf unnið  af heiðarleika og gagnsæi.

Þetta er miður og telur Flokkur fólksins að endurreisa þurfi embætti umboðsmanns borgarbúa eins og það var á árunum 2013-2020. Það voru mistök að leggja af embættið. Verkefni umboðsmannsins voru flutt yfir til innri endurskoðunar og búinn til eins konar „ráðgjafi íbúa“ hjá því embætti. Þetta fyrirkomulag hefur virkað illa og nú hefur fólk sem telur á sér brotið af skipulagsyfirvöldum ekki annað fært en að fara með málið fyrir dómstóla sem er bæði dýrt og tímafrekt.“

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband