Verum amman, afinn, frændinn, frænkan, vinurinn og nágranninn

Með hækkandi aldri leitar hugurinn gjarnan á þessum tíma til jólanna í „gamla daga“ eins og barnabörnin myndu orða það. Þá var öldin sannarlega önnur. Þá eins og nú, ríkti ójöfnuður í samfélaginu, sumir höfðu gnótt, aðrir minna og enn aðrir ekki neitt. Ég og fjölskylda mín, (mamma einstæð móðir með 4 börn) voru ein þeirra fjölskyldna sem hafði ekki mikið á milli handanna. En það var hún amma Sigga (Ólafía Sigríður Þorsteinsdóttir) á Ásvallagötu 1 sem færði okkur ýmislegt nýtt og spennandi sem fátæk fjölskylda hafði  ekki efni á. Amma gaf rausnarlegan pakka og sem barn rölti ég oft til hennar frá Víðmelnum þegar maginn var tómur. Hjá henni smakkaði ég í fyrsta sinn á ævinni kjúkling, sennilega um 10 ára aldur.

En mikið hlakkaði manni nú til jólanna

Þegar hugsað er til jólanna á bernskuárunum þá man ég svo vel hvað tilhlökkunin var mikil. Manni hlakkaði til að fá hátíðarmat og annað, eins og epli og konfekt sem ekki sást almennt á borðum yfir árið. Algengur matur á þá daga var þverskorin ísa og hamsatólg og kjötfarsbollur og kál. Ekki amalegt auðvitað.

Mesta tilhlökkun barns var sannarlega að fá pakka. Gjafir voru oft eitthvað hentugt. Ein minning  um jólagjöf stendur upp úr hjá mér og það voru jólin þegar ég var 9 ára og fékk töflur (inniskó). Ég hafði sagt mömmu að mig langaði í töflur því stelpurnar í bekknum voru í svoleiðis. Ég upplifi enn stundum mínútuna þegar ég opnaði þennan pakka og vissi að í honum voru töflur. Hjartað var að springa og spenningurinn eftir því. Vá hvað ég yrði smart í nýju töflunum þegar ég kæmi í skólann eftir áramótin.

Með aldrinum hefur upplifunin og tilfinning eins og tilhlökkun tekið á sig aðrar myndir. Mesta breytingin er kannski sú að margt það sem einkenndi jólin áður fyrr getur fólk nú fengið allt árið um kring. Það er ekki lengur einhver sérstakur „sparimatur“, matur sem tilheyrir aðeins stórhátíðum. Það er þó sannarlega tilhlökkunarefni að upplifa jólaljósaflóðið og hvíld frá daglegu amstri er kærkomin.

Börnin og jólin

Það er alveg sama á hvaða aldri maður er, það er alltaf jafn gaman að fylgjast með börnunum og upplifa jólin í gegnum þau. Það yljar að sjá spenning og tilhlökkun þeirra. Þess vegna er það líka svo vont að vita að ekki öll börn geta haldið gleðileg jól eða verið áhyggjulaus yfir þessa miklu „hátíð barnanna“.  Í Reykjavík er dágóður hópur barna og foreldra þeirra sem búa við erfiðar aðstæður t.d. v. fátæktar eða veikinda. Börn foreldra sem glíma við langvinn veikindi, líkamleg eða geðræn eiga oft erfiða daga. Veikindi af hvers lags toga spyrja einfaldlega hvorki um félagslega stöðu eða efnahagslega afkomu og sannarlega ekki hvaða tími ársins er. Gæðum er misskipt. Ef maður hefur ekki öruggt húsaskjól eða mat á diskinn þá er erfitt að hlakka til nokkurs. Ég trúi því að allir hafi tækifæri og geti fundið tilefni til að vera þessi „amma eða afi, frændi eða frænka, vinur eða nágranni“  sem getur látið gott að sér leiða til barna sem búa við skort eða vanlíðan hvort heldur þau eru nær eða fjær. Fyrir  fjölskyldur sem búa við góðar aðstæður bíður skemmtilegur tími.  Börn sem geta notið jólanna til fulls safna um hver jól nýrri dásamlegu minningu sem jafnvel lifir með þeim um aldur og ævi.

Gleðileg jól.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

 


Er ég eldri og einmana

Ein af 19 tillögum Flokks fólksins lagðar fram við seinni umræðu Fjárhagsáætlunar á fundi borgarstjórnar 5. desember er að stofnað verði stöðugildi fagaðila til að bjóða eldra fólki sálfélagslega þjónustu. Margir sem komnir eru á þennan aldur eru einmana. Sumir hafa misst maka sína og aðrir eiga jafnvel ekki fjölskyldu. Því fjármagni sem varið er í stöðugildi sem þetta mun margborgar sig fjárhagslega og jafnvel leiða til þess að draga mun úr notkun lyfja hjá þessum hópi.  Fjármagnið skal sækja á svið sem geta hagrætt hjá sér, skipulagt sig betur og dregið úr yfirbyggingu.

 

Velferðartækni kemur ekki í staðinn fyrir nærveru og snertingu

Enda þótt velferðartækni hafi rutt sér til rúms getur ekki allt eldra fólk tileinkað sér þá tækni eins og gefur að skilja. Því má segja að þessi hópur sé sennilega sá sem er minnst tæknivæddur ef borið er saman við aðra hópa. Þetta er einnig sá hópur sem ekki hefur hæstu röddina og er gjarnan hógvær og lítillátur. Fjölmargir leita sér einfaldlega ekki stuðnings. Finna þarf þá sem þarfnast félagsskapar og vilja persónulegt samtal og koma til þeirra með tilboð um hvort tveggja eftir atvikum.

 

Það hafa verið gerðar ýmsar kannanir á einmanaleika eldra fólks. Meðal niðurstaðna er að Ísland sé að koma vel út í alþjóðlegum samanburði þegar um 5% telja sig einmana. Það er skoðun okkar í Flokki fólksins að gera má ráð fyrir að þeir séu margfalt fleiri. Kannanir ná ekki til allra. Þeir sem eru einmana eru þeir sem ekki eiga fjölskyldu, þeir sem búa einir og þeir sem eru á hjúkrunarheimili. Það er ekki síður vöntun á félagsskap fyrir þá sem komnir eru á hjúkrunarheimili. Starfsfólk er undir álagi og oft er undirmannað. Aðstæður eru víða þannig að meirihluti starfsfólks skilur ekki mikla íslensku og tala hana jafnvel takmarkað

Það er áfall fyrir marga að vera komnir á hjúkrunarheimili og verður enn erfiðara ef einmanaleiki sest að. Það er átakanlegt að vita að inni á hjúkrunarheimilum eru allt of margir sem eru einmana. Flokkur fólksins lagði til í febrúar 2023 í annað sinn að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi. Tillagan var felld. Nú er gerð enn ein tilraunin.  Ekkert jafnast á við samtal, nálægð og snertingu. Það er ekki nóg að auka eingöngu velferðartækni heldur þarf einnig að standa vörð um samveru og nálægt. Maður er jú manns gaman.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband