Vanvirki og kjarklausi yfirmaðurinn
21.7.2015 | 22:32
Í síðust grein í þessari þriggja greinaröð var fjallað um hvað einkennir yfirmann sem leggur starfsmann sinn í einelti. Í þessari grein verður skoðað nánar hvað einkennir yfirmann sem er vanvirkur þegar kemur að því að taka á samskiptamálum. Þessi yfirmaður er ekki endilega reiður eða hatursfullur eða uppfullur af minnimáttarkennd. Vel kann einnig að vera að hann láti sér annt um starfsfólk sitt. Það sem háir þessari týpu af yfirmanni er að hann hefur ekki færni eða getu til að taka á samskiptamálum sem upp koma. Stundum skortir hann einfaldlega kjark til að takast á við tilfinningaleg vandamál. Finni þeir sig í aðstæðum þar sem tilfinningar ráða ríkjum, fyllast þeir óöryggi, verða klaufalegir og vita ekki hvað á að segja eða gera. Sumum fallast hendur ef einhver í návist þeirra sýnir tilfinningaleg viðbrögð, t.d. brestur í grát eða brotnar saman. Þá er aðgerðarleysið stundum réttlætt með því að segja að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu. Svona yfirmanni kann jafnvel að finnast starfsmaðurinn sem kvartar vera með tómt vesen.
Yfirmaður sem er lítill mannþekkjari og veikgeðja lætur oft undan þrýstingi. Sé á staðnum starfsmaður sem býr yfir óheilindum, hatri í garð annars (annarra) þá getur hann jafnvel náð að stjórna yfirmanni sem hér er lýst. Yfirmaðurinn verður þá eins konar leppur þessa starfsmanns og finnst þá auðveldara að leyfa honum að taka stjórnina. Sé kvartað yfir framkomu þessa starfsmanns þá hunsar yfirmaðurinn jafnvel kvörtunina. Með því að loka eyrunum er loku fyrir það skotið að málið verði skoðað og leitt til lykta. Þar með er yfirmaðurinn óbeint að styðja gerandann og veita honum leyfi til að halda meintri háttsemi sinni áfram. Þannig getur það gerst að yfirmaðurinn sé óbeinn þátttakandi jafnvel í einelti þar sem hann neitaði að taka málið til athugunar og setja það í viðeigandi ferli. Einelti í sinni víðustu mynd þrífst vel undir stjórn yfirmanns sem er vanvirkur: veikgeðja og atkvæðalítill þegar kemur að samskiptamálum.
Það er afar íþyngjandi þegar stjórnandi sem er slakur í samskiptum vermir yfirmannsstól stofnunar eða fyrirtækis árum saman. Jafnvel þótt stjórnandinn sjálfur hafi ekki gerst sekur um slæma framkomu gagnvart starfsmanni er líklegt að á vinnustaðnum þrífist alls kyns óværa þar sem yfirmanninum skortir burði til að taka á málum með viðeigandi hætti. Nái neikvæð menning að festa sig i sessi (vondur mórall) verður vinnustaðurinn smám sama eitraður. Mannaskipti eru þá oft tíð. Nýir starfsmenn, bjartsýnir og ferskir, eru kannski ráðnir til starfa. Þegar þeir finna að staðurinn er sýktur hverfa einhverjir þeirra á braut. Sumir neyðast e.t.v. til að vera um kyrrt þar sem ekki er endilega hlaupið að því að fá aðra vinnu. Þetta er sérstaklega erfitt ef um er að ræða sérhæft starfsfólk sem sinnir sérhæfðum störfum. Aðrir reyna að þrauka því að þeim hugnast ekki að láta vanhæfan stjórnanda og vondan móral hrekja sig á brott.
Í þessari og síðustu grein um þetta málefni sem birt var í Fréttablaðinu í síðustu viku hefur verið fjallað um yfirmenn sem eru gerendur eineltis og yfirmenn sem eru vanvirkir þegar kemur að því að taka á samskiptamálum. Yfirmaður, hversu vanhæfur og slæmur sem hann er, veit auðvitað að hann þarf að eiga einhverja stuðningsmenn, svona já menn. Yfirmaðurinn velur sér það fólk sem hann finnur og veit að hann getur stjórnað. Hann velur sér fólk sem ber helst óttablandna virðingu fyrir honum og þá sem honum finnst ekki ógna sér eða stöðu sinni á neinn hátt. Fylgismenn yfirmannsins kjósa e.t.v. að sjá hann í öðru og jákvæðara ljósi en hinir sem eru ekki útvaldir. Einhverjir sem eru í innsta hring gætu einnig verið búnir að meta stöðuna þannig að betra sé að vera þarna megin borðs og tryggja þannig að þeir verði ekki sjálfir skotmarkið. Með því að ganga í rétta liðið verður lífið í vinnunni þolanlegra og óöryggið minna?
Í þriðju og síðustu greininni í þessum greinaflokki sem einnig verður birt í Fréttablaðinu innan tíðar verður fjallað um hvað einkennir góðan yfirmann og stjórnanda.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
www.kolbrunbaldurs.is
Greinin er birt í Fréttablaðinu 21. júlí 2015
Þegar yfirmaður er gerandi eineltis
21.7.2015 | 08:29
Ekki er öllum gefið að vera góður stjórnandi eða yfirmaður. Því miður eru dæmi um yfirmenn á alls kyns vinnustöðum sem skortir flest það sem telst prýða góðan yfirmann. Ekki er hægt að fullyrða um hvort einelti sé algengar hjá kvenyfirmönnum eða karlyfirmönnum. Vandamálið er dulið því ekki allir sem upplifa sig lagða í einelti af yfirmanni sínum segja frá því. Ganga má út frá því að langstærsti hópur yfirmanna séu góðir og faglegir yfirmenn. Í þessari grein sem er sú fyrsta af þremur verður fjallað um þá yfirmenn sem eru ekki færir um að eiga jákvæð og góð samskipti við starfsfólk sitt og eru jafnvel gerendur eineltis. Hvernig getur það gerst að vanhæfur stjórnandi fær yfirmannsstöðu? Auðvitað getur verið um að ræða eiganda fyrirtækis sem er þá jafnframt yfirmaður og stjórnandi. Í öðrum tilfellum liggur svarið ekki á lausu og væri í raun ágætis rannsóknarefni.
Það sem m.a. einkennir yfirmann sem leggur starfsmann í einelti er valdafíkn, það að ráða, beita og misbeita valdi þóknist honum svo. Ekki er ósennilegt að yfirmaður sem er valdafíkinn búi einnig yfir öðrum neikvæðum skapgerðareinkennum sem birtast í samskiptum við aðra. Lýsing, kannski nokkuð ýkt, á yfirmanni sem er gerandi eineltis gæti litið einhvern veginn svona út:
Lund hans og skap er óútreiknanlegt, sveiflukennt allt eftir því hvernig liggur á honum hverju sinni. Sé hann pirraður lætur hann það gjarnan bitna á starfsfólkinu og verður fljótt reiður mæti hann mótbyr. Það kitlar hann jafnvel að finna að hann getur með lund sinni, líkamsmáli og samskiptaháttum valdið óöryggi á vinnustaðnum.
Þegar manneskja sem hér er lýst er ráðin sem yfirmaður er varla von á góðu ef litið er til samskipta á vinnustaðnum. Einhverjir gætu séð þessa yfirmanntýpu sem ákveðinn og sjálfstæðan aðila. Hins vegar má mikið frekar ætla að neikvæð framkoma hans sé drifin áfram af vanlíðan, minnimáttarkennd og óöryggi. Orsakir geta verið flóknar og átt rætur að rekja í samspili persónueinkenna, félagslegs bakgrunns og hvernig einstaklingurinn upplifir stöðu sína á staðnum. Þessi tegund af yfirmanni kemur oft vel fyrir út á við. Hann er e.t.v. vinamargur og kannski ágætur maki og foreldri? Tjái hann sig um vinnustaðinn opinberlega gæti hann vel birst sem hæfur stjórnandi sem tekur frumkvæði og hrindir hlutum í framkvæmd.
Á vinnustað sem stjórnað er af yfirmanni eins og hér er lýst getur hæglega þrifist einelti og stundum er yfirmaðurinn sjálfur gerandinn. Valdafíkinn stjórnandi sem er auk þess fullur af minnimáttarkennd er ekki ólíklegur til að níðast með einhverjum hætti á starfsmanni/starfsmönnum. Hann veifar valdasprotanum og undirstrikar með honum hver það er sem hefur heill og hamingju starfsfólksins í hendi sér. Einn af helstu fylgikvillum minnimáttarkenndar er afbrýðisemi og öfund. Þessi tegund af yfirmanni óttast að einhver skyggi á sig. Upplifi hann að einhver ógni sér gæti hann gripið til þess að lítillækka þann, gera hann ótrúverðugan eða nota vald sitt og áhrif til að koma honum illa með einhverjum hætti. Starfsmaðurinn er þá kannski fluttur til í starfi eða aðrar leiðir fundnar með það að markmiði að losna við hann.
Liður í að minna starfsfólkið á hver ræður er að vera gagnrýninn, dómharður og óútreiknanlegur. Að vera óútreiknanlegur er tækni sem er til þess fallin að grafa undan öryggistilfinningu starfsmanna. Skilaboðin eru að enginn skuli halda að hann geti verið öruggur með stöðu sína. Þessi yfirmaður fylgist vel með fólkinu á staðnum og notar til þess ýmsar leiðir, leyndar og ljósar. Sumum kann að finnast að þessi yfirmaður hreinlega bíði færis á að geta tekið einhvern á beinið. Þegar starfsmaður er tekinn á beinið er það oft gert með hörku og óbilgirni. Sá sem einu sinni upplifir yfirmanninn í þessum aðstæðum vill fyrir alla muni ekki lenda í þeim aftur. Í næstu grein verður fjallað um vanvirka yfirmanninn sem verður stundum, vegna aðgerðarleysis, óbeinn þátttakandi eineltis á vinnustaðnum.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
www.kolbrunbaldurs.is
Fyrsta grein af þremur
Birt í Fréttablaðinu 16. júlí 2015