Amma og afi borguðu

Biðlisti í greiningu og viðtöl hjá sálfræðiþjónustu í skólum borgarinnar er langur. Víða er einum sálfræðingi ætlað að sinna þremur til fjórum skólum.

Í stað þess að fjölga sálfræðingum hefur borgarmeirihlutinn ákveðið „að draga úr svokölluðum greiningum enda séu þær oft ofnotaðar“ en þetta voru orð eins borgarfulltrúa á fundi um daginn þegar spurt var út í málefnið.

Vegna þessa hafa foreldrar neyðst til að fara með börn sem tengja vanlíðan sína við námsgetu á einkareknar sálfræðistofur til að fá styrkleika og veikleika kortlagða. Fyrir þetta er greitt að lágmarki 150.000 krónur.

Að sinna börnum er grunnstefið í stefnu Flokks fólksins og sem oddviti og skólasálfræðingur til fjölda ára er það mat mitt að þegar kemur að sálfræðiþjónustu við skólabörn hafi borgarmeirihlutinn stigið allt of fast á bremsurnar.

Tökum sem dæmi barn sem tengir vanlíðan sína við námið. Kennarar reyna eftir bestu getu að mæta þörfum barnsins. Barnið fær að vinna í smærri hópum, fær e.t.v. léttara námsefni eða minna heimanám. Engu að síður líður því illa í skólanum. Sjálfsmatið versnar og smám saman fer barnið að forðast námið. Þegar komið er í efri bekkina er barnið kvíðið og neitar jafnvel að fara í skólann. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að vera á biðlista eftir sálfræðiþjónustu í marga mánuði.

Í tilfellum sem þessum, sem eru æði mörg er brýnt að barnið fái greiningu strax með þar til gerðum greiningartækjum sem aðeins sálfræðingar mega notað. Um gæti verið að ræða sértækan námsvanda; málþroskaröskun, frávik í skynhugsun, slakt vinnsluminni og athyglisbrest. Þegar niðurstöður greiningar liggja fyrir er gerð einstaklingsnámskrá sem sniðin er að þörfum barnsins.

Stefna borgarinnar í þessum málum hefur leitt til þess að fjöldi barna í borginni fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa. Efnaminni foreldrar hafa ekki efni á þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðings. Í mest sláandi tilfellum hafa foreldrar fengið lán eða afi og amma hafa greitt fyrir þjónustuna.

Flokkur fólksins getur ekki liðið að sparað sé þegar börn eru annars vegar. Tekjur borgarsjóðs eru yfir hundrað milljarðar króna. Við höfum vel efni á að sinna börnunum okkar með fullnægjandi hætti.

Flokkur fólksins er með fjölskylduna í forgrunni í sinni stefnu. Það sem snýr að börnum og foreldrum þeirra er sett í forgang. Markmiðið er að biðlistar eftir þjónustu þar sem börn eru annars vegar hverfi með öllu í stofnunum borgarinnar.


Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík

 

 


Bloggfærslur 15. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband